Morgunblaðið - 11.04.2019, Side 41
41
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 11. APRÍL 2019
Vor í lofti Fólk hefur dregið fram hjólfáka sína þótt enn blási nokkuð og kul sé í lofti. En vorið kemur brátt.
Eggert
Komdu sæl, Katrín.
Tilefni þess að ég kýs að
skrifa þér þennan bréfstúf
er aðild ríkisstjórnar þinnar
að framkomnum þingmálum
um innleiðingu á orkupakka
Evrópusambandsins nr. 3 í
íslenskan rétt. Ég vildi helst
ekki trúa því að þú gerðist
formælandi og ábyrg fyrir
þeim þingmálum sem ráð-
herrar Sjálfstæðisflokksins
hafa mælt fyrir á Alþingi. Þegar úrslit síð-
ustu alþingiskosninga lágu fyrir haustið 2017
taldi ég stjórnarmyndun þriggja flokka und-
ir þinni forystu vænlegasta kostinn eftir
upplausnarástand í íslenskum stjórnmálum
árin á undan. Með ánægju hef ég fylgst með
forystu þinni og málstökum á ýmsum sviðum
þar til nú að þér bregst bogalistin með
ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir framtíð
íbúa lands okkar og náttúru þess.
Tilefni þessa bréfs er af minni hálfu að
vara þig og lesendur við þeirri stefnu sem
ríkisstjórn þín nú hefur tekið varðandi
orkuna sem náttúruauðlind og samspil henn-
ar við þjóðarhag og umhverfi okkar.
Lesið í pólitíska landslagið
Þótt 20 ár séu liðin frá því ég sat á Al-
þingi hef ég eftir bestu getu reynt að fylgj-
ast með stjórnmálum hérlendis og á alþjóða-
vettvangi. Ég batt miklar vonir við Vinstri-
hreyfinguna –grænt framboð eftir að hún
var stofnuð, allar götur þar til flokkurinn
gerðist ábekingur að umsókn um inngöngu í
Evrópusambandið, – samhliða varnarbaráttu
vegna efnahagshrunsins 2008. Ástæður
hrunsins má að drjúgum hluta rekja til
EES-samningsins og þess andvaraleysis sem
honum fylgdi. Eftir aldamótin spyrnti VG
við fótum gegn orkupökkum 1 og 2 og voru
þeir þó tiltölulega meinlausir miðað við það
fullveldisafsal sem nú blasir við með alvar-
legum afleiðingum fyrir náttúruvernd og af-
komu almennings, raunar löngu áð-
ur en úrslit ráðast um lagningu
sæstrengs. Hjá samstarfsflokkum
VG í ríkisstjórn hefur verið mikil
andstaða gegn innleiðingu orku-
pakka 3, ekki síst innan Sjálfstæð-
isflokksins, þvert á þau viðhorf
sem ráðherrar flokksins nú endur-
spegla. Í því sambandi vil ég benda
þér á vandaða umfjöllun Tómasar
Inga Olrich í Morgunblaðinu 28.
mars sl. Það sætir furðu að VG
sem flokkur hefur á sama tíma
þagað þunnu hljóði um þessi mál
og þingmenn flokksins virðast loka
augunum fyrir því hættuspili sem hér blasir
við. Á sama tíma er þeim þingmönnum sem
þó andæfa óhæfunni gefið langt nef eins og
gerst hefur á Alþingi og í fjölmiðlum síðustu
daga.
Náttúruvernd og „smávirkjanir“
Einkafyrirtæki í raforkuiðnaði eins og HS
Orka og Arctic Hydro eru þegar byrjuð að
kemba landið í leit að virkjanakostum undir
10 megawatta afli þar sem hægt er að kom-
ast hjá reglum Rammaáætlunar um um-
hverfismat og aðra gagnrýna málsmeðferð.
Ekki hefur staðið á Orkustofnun að veita
þeim rannsóknarleyfi og sum sveitarfélög
eru fljót að eygja hagnaðarvon og laga
skipulag sitt að kröfum þeirra. Dregist hefur
úr hömlu að breyta lögum og færa mörkin
niður í 1 MW eða minna því að umhverfis-
áhrif slíkra framkvæmda geta jafnast á við
margfalt stærri virkjanir.
Nýjasta dæmi um slíkt er áformuð 9,9
MW Geitdalsárvirkjun inn af Skriðdal eystra
sem Náttúruverndarsamtök Austurlands
vöruðu sterklega við á fundi í síðustu viku.
Ásókn þessara fyrirtækja mun magnast í
kjölfarið á innleiðslu orkupakka 3 og þrýst-
ingur á tengingu við útlönd með sæstreng er
þegar í gangi í samvinnu við erlend fyrir-
tæki. Það er óhæfa að leggja slíka steina í
götu náttúruunnenda og dugmikils umhverf-
isráðherra og áhrifanna er fljótt að gæta um
land allt, bæði hjá landeigendum og sveitar-
félögum sem renna á peningalyktina. Öllum
má vera ljóst að áhrifin af orkupakka 3 á
raforkuverð og væntingar ýmissa í orkuiðn-
aði um tengingu yfir hafið munu ýta upp
raforkuverði til almennings og margfalda
það ef af lagningu sæstrengs verður.
„Undanþágur“ sem ekki halda vatni
Langt hefur verið gengið af hálfu ráð-
herra ríkisstjórnarinnar um boðaðar undan-
þágur frá orkupakka 3 Íslandi til handa frá
reglum ESB-réttar. Þannig voru lögmenn-
irnir Stefán Már og Friðrik Hirst bornir fyr-
ir staðhæfingum sem ekki er að finna í álits-
gerð þeirra 19. mars sl. Svo langt hefur
verið gengið að segja „Um er að ræða orku-
pakka á íslenskum forsendum“ (Frétta-
tilkynning ráðuneyta 22. mars sl.). Minna
mátti ekki gagn gera! Ég hef komið á fram-
færi við þig og þingflokk VG áliti norska
sérfræðingsins Arne Byrkjeflot frá 29. mars
sl., en hann er ráðgjafi samtakanna Nei til
EU um ESB-rétt. Norðmenn hafa þegar
reynslu af haldleysi ýmissa meintra undan-
þága frá ESB-rétti úr umræðu síðustu miss-
era um orkupakka 3. Þannig segir Arne m.a.
að hvorki sé hald í þeim ásetningi að ætla að
innleiða lagaákvæði um ACER (Samstarfs-
nefnd eftirlitsaðila á orkumarkaði) með ís-
lenskri sértúlkun, né heldur að lögfesta
orkupakkann með fyrirvörum, sem eigi að
standast eftir að hann hefur verið sam-
þykktur. Samþykki ákvæðanna um ACER
feli í sér að þrýst verði á tengingu Íslands
við útlönd með sæstreng og að fram-
kvæmdastjórn ESB geti brugðist við höfnun
af Íslands hálfu með vísun til dómstóls. Um
það hvort innleiðingin standist stjórnarskrá
Íslands er hann sömu skoðunar og Stefán
Már og Friðrik Hirst að úr slíkum vafa verði
að skera áður en til greina komi að taka af-
stöðu til orkupakkans. Sameiginlega yfirlýs-
ingu Guðlaugs Þórs og Canete orkumála-
stjóra ESB segir hann ekki hafa neitt
réttarfarslegt gildi, og munu flestir um það
sammála.
Orkumálin burt úr EES-samhengi
Ég fæ ekki skilið hvers vegna þú, Katrín,
tekur þátt í þessu leikriti með orkupakka 3.
Pólitískan stuðning gegn innleiðslu hans er
að finna í báðum samstarfsflokkum VG í rík-
isstjórninni og með einarðri afstöðu þinni og
þingflokks VG hefði mátt knýja fram höfnun
á samþykkt orkupakka 3 af Íslands hálfu,
sem er ótvíræður réttur okkar samkvæmt
EES-samningnum. Með því myndi málið
færast yfir á vettvang Sameiginlegu EES-
nefndarinnar þar sem Ísland getur látið
reyna á varanlega undanþágu á orkusviðinu.
Þar væri um að ræða mikilvægustu ákvörð-
un af Íslands hálfu frá því Alþingi sam-
þykkti aðildina að EES, hliðstæða því og að
við höldum yfirráðum yfir sjávarauðlindum
okkar. Enn er ekki um seinan fyrir þig að
snúa við blaðinu, en vísa ætti málinu ella í
þjóðaratkvæði.
Nú þegar ég skrifa þér þessar línur minn-
ist ég opins bréfs til Steingríms Her-
mannssonar sem ég ritaði honum sem for-
sætisráðherra í aðdraganda
EES-samningsins (Tíminn 1. febrúar 1991).
Steingrímur svaraði mér með heilsíðugrein
viku síðar í sama blaði undir fyrirsögninni
„Evrópskt efnahagssvæði: Ótti á misskiln-
ingi byggður.“ Síðan liðu tvö ár uns samn-
ingurinn var endanlega borinn undir Alþingi
12. janúar 1993. Meðal þeirra sem greiddu
atkvæði gegn samningnum voru sjö fram-
sóknarmenn og í þeim hópi var sami Stein-
grímur, þá orðinn óbreyttur þingmaður. Ég
vona að þú þurfir ekki að verða „fyrrver-
andi“ til að átta þig á þeim óheillagjörningi
sem hér um ræðir, þ.e. orkupakka 3.
Með góðum kveðjum
Eftir Hjörleif
Guttormsson »Einkafyrirtæki í raforku-
iðnaði eins og HS Orka
og Arctic Hydro eru þegar
byrjuð að kemba landið í
leit að virkjanakostum.
Hjörleifur Guttormsson
Svo bregðast krosstré ... Opið bréf til
Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra
Höfundur er náttúrufræðingur.
„Mamma, á ég ekki bara
að skella mér í lögfræðina í
haust?“ spurði ég hæstarétt-
ardómarann og heiðurs-
doktorinn hana móður mína
sumarið 1988 þegar ég var
nýútskrifuð úr Mennta-
skólanum í Reykjavík. „Nei
veistu það, Hansa mín, ég
held að það henti þér ekkert
sérlega vel,“ svaraði
mamma um hæl.
Ég leiði alltaf hugann að
þessum orðum mömmu um þetta leyti
árs og verður hugsað til þeirra ung-
menna sem nú standa frammi fyrir því
að velja nám í framhaldsskóla eða há-
skóla. Samkvæmt könnun frá árinu 2016
kemur fram að 33-68% framhalds-
skólanema líkaði betur verkleg fög en
bókleg fög í grunnskóla, eftir námssviði.
Þrátt fyrir það völdu aðeins um 15% ný-
nema starfsnámssérhæfingu í fram-
haldsskóla. Við hljótum því að spyrja:
Eru kannski fjölmargir framhaldsskóla-
nemar á rangri hillu? Af hverju ræður
hjartað ekki för í námsvali?
Ítrekað hefur komið fram að einn
stærsti áhrifaþáttur í námsvali ung-
menna er raddir foreldra. Skoðanir
þeirra eru þó því miður oft byggðar á
ranghugmyndum og upplýsingaskorti
um virði náms og starfa. Starfsnám lok-
ar engum leiðum en það er einfalt að
taka stúdentspróf með blöndu bóklegra
og verklegra faga á sviði iðnaðar, lista
eða annarra starfsnámsgreina í fram-
haldsskóla. Starfsnámið kemur sér einn-
ig vel sem grunnur í tækninámi í há-
skóla, t.d. verkfræði, standi hugur til
þess. Ungmenni með starfsnám geta
farið fyrr út á vinnumarkaðinn og í raun
benda nýleg gögn til þess
að tækifæri starfsmennt-
aðra til tekjuöflunar yfir
starfsævina geti verið
meiri en þeirra sem hafa
hefðbundinn bóknáms-
grunn eingöngu.
Ég vil hins vegar leyfa
mér að nefna aðra ástæðu
sem er jafnvel enn mikil-
vægari. Það sem tvítugi
nýstúdentinn vissi nefni-
lega ekki fyrir 30 árum,
en mamma vissi bless-
unarlega, er mikilvægi
þess að láta hjartað ráða för í námsvali.
Ég hvet alla foreldra nemenda í 10.
bekk grunnskóla til að vera víðsýna og
skoða þá möguleika sem felast í starfs-
námi í framhaldsskóla. Starfsgreinarnar
hafa þróast mikið frá frumstæðu hand-
verki fyrri tíma og spanna breitt litróf,
allt frá tölvustýrðum verkefnum málm-
og véltækni til kökugerðar, tækni-
brellna, tölvuleikjagerðar og teikni-
myndagerðar.
„Finndu starf sem þú elskar og þú
munt aldrei vinna dag í þínu lífi,“ á
Konfúsíus að hafa sagt. Í mínum huga
eru það mikil sannindi.
Hjartað ráði
för í námsvali
Eftir Jóhönn Vigdísi
Arnardóttur
Jóhanna Vigdís
Arnardóttir
» Það sem tvítugi ný-
stúdentinn vissi nefni-
lega ekki fyrir 30 árum, en
mamma vissi blessunar-
lega, er mikilvægi þess að
láta hjartað ráða för í
námsvali.
Höfundur er verkefnastjóri í mennta-
málum hjá Samtökum iðnaðarins.