Fréttablaðið - 04.07.2019, Síða 16
Tómas
Guðbjartsson
hjartaskurð-
læknir og
náttúruunnandi
og Ólafur Már
Björnsson
augnlæknir og
ljósmyndari
Syðra-Fjallabak er sérlega áhugavert svæði, ekki síst fyrir þá staðreynd að þangað koma langtum færri ferðamenn en á Nyrðra-Fjalla-bak sem liggur um hinar vinsælu Land-mannalaugar. Á Syðra-Fjallabaki er þó eng-inn skortur á náttúruperlum, frekar en á því
nyrðra, en stórar ár eins og Syðri-Ófæra og Hólmsá
sjá til þess að þær eru ekki eins aðgengilegar ferða-
fólki. Á Syðra-Fjallabaki er svæði sem vert er að skoða
og kallast Álftavatnskrókar; krókar sem eru sann-
kallað augnakonfekt sem hægt er að mæla með. Þeir
liggja í dalverpi milli Svarthnjúksfjalla og Bláfjalls,
ekki langt frá Eldgjá og Hólaskjóli. Ef ekið er að þeim
þaðan verður fyrst að fara yfir Syðri-Ófæru en það er
einungis hægt á vel búnum jeppa eða rútu því vaðið
er bæði stórgrýtt og straumhart. Náttúran í Álfta-
vatnskrókum er engu lík, ekki síst fyrir allan gróður-
inn og fuglalífið, en þarna eru vötn með iðgrænum
bökkum og smálækjum sem státa af skemmtilegum
og öðruvísi fossum. Gaman er að ganga upp á nálægar
hæðir eða hraun og fá þannig yfirsýn yfir landslagið
sem minnir á abstrakt listaverk. Þarna rekur Útivist
skemmtilegan skála en einnig er boðið upp á ágætt
tjaldstæði. Flestir ferðast í Álftavatnskróka akandi
en margir koma þangað ríðandi eða á tveimur jafn-
fljótum frá Hólaskjóli. Álftavatnskrókar eru þá fyrsti
náttstaðurinn á frábærri gönguleið, Strútsstíg, sem
liggur frá Hólaskjóli og vestur í Hvanngil, rétt austan
við Álftavatn. Úr Hvanngili má síðan halda áfram
syðri hluta Laugavegarins í Þórsmörk og jafnvel alla
leið yfir Fimmvörðuháls að Skógum. Þeir hörðustu
byrja gönguna við Sveinstind hjá Langasjó, halda
síðan suður í Skælinga, þaðan í Hólaskjól og áfram
í Álftavatnskróka, eftir Strútsstíg og inn á Lauga-
veginn. Þegar ekið er í vestur frá Álftavatnskrókum í
áttina að Reykjavík er tilvalið að staldra við á
leiðinni og skoða Rauðubotna og Hólmsár-
vöð. Einnig er ógleymanlegt að ganga
á Mælifell á Mælifellssandi en eftir
gönguna má skella sér í notalega heita
Strútslaug. Enginn verður svikinn af
Syðra-Fjallabaki sem sífellt býður til
veislu þar sem ekki er of mörgum
boðið.
Álftavatnskrókar
– náttúruperla
sem bragð er að
Úr lofti líkist svæðið helst abstrakt málverki. MYND/ÓMB
Álftavatnskrókar eru algjört konfekt fyrir augað. MYND/ÓMB
Í Álftavatnskrókum er auðvelt að finna hugarró í kyrrlátri náttúru. MYND/TG
TILVERAN
4 . J Ú L Í 2 0 1 9 F I M M T U D A G U R14 F R É T T I R ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð