Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 09.04.2014, Blaðsíða 10

Fréttir - Eyjafréttir - 09.04.2014, Blaðsíða 10
° ° 10 Eyjafréttir / Miðvikudagur 9. apríl 2014 Sólarhringsvakt á ný alla daga vikunnar hjá lögreglunni: Þýðir aukið öryggi fyrir íbúa Vestmannaeyja :: Kona á ný í lögregluliðið :: Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn, ánægður með nýju lögreglumennina þrjá sem hófu störf á föstudag Þrír nýir lögreglumenn tóku til starfa hjá Lögreglunni í Vest- mannaeyjum á föstudag. Þetta eru þau Huginn Egilsson, Elínborg Ingvarsdóttir og Friðjón Ingi Sigurjónsson. Öll hafa þau einhverja tengingu við Vest- mannaeyjar, enginn þó meiri en Huginn sem er borinn og barnfæddur í Eyjum, sonur Egils Egilssonar og Ernu Jóhannes- dóttur. Þá lék Elínborg með knattspyrnuliði ÍBV fyrir ekki svo löngu og Friðjón vann hér í Vinnslustöðinni eitt sumar. Jóhannes Ólafsson, yfirlögreglu- þjónn segir að þremenningarnir séu hrein viðbót við lögregluliðið enda hafi verið veitt auknu fjármagni til lögregluembætta, m.a. í Eyjum, með það í huga að fjölga lögreglu- mönnum. „Þetta þýðir það að nú verður vakt allan sólarhringinn alla daga ársins. Það verða tveir lögreglumenn á vakt alla daga, auk þess sem við Tryggvi erum hér á virkum dögum. Þá bætum við við þriðja manninum yfir helgarnar ef eitthvað er um að vera í bænum. Þá verða allir þrír á ferðinni samkvæmt nýjum verklagsreglum því hægt er að hafa lögreglustöðina lokaða en lögreglumenn fá öll boð í gegnum síma. Þessi viðbót við lögregluliðið breytir miklu fyrir okkur bæjarbúa, mun meira öryggi enda hægt að hafa þrjá lögreglumenn á vettvangi, auk þess á þetta sveitarfélag að vera með lögregluvakt allan sólar-hring- inn. Núna erum við með tíu fastráðna lögreglumenn og auk þess einn í afleysingum, sem er nánast fullt starf. En þegar mest var, voru hér 13 lögreglumenn í það heila, þannig að það hafa verið fleiri lögreglumenn en engu að síður er algjört lykilatriði að hér sé sólarhringsvakt. Dæmin sanna það að það hefur jafnvel bjargað mannslífum.“ Gott að yngja liðið aðeins upp Hvernig gekk að manna þessa stöður? Það gekk mjög vel. Þau þrjú sóttu um en við máttum eingöngu ráða yfir vetrartímann þau sem eru búin með Lögregluskólann. Það má yfir sumartímann en það stefnir allt í að í sumar verði eingöngu lögreglu- menn sem hafa lokið námi og því fullmenntaðir. Þau Elínborg og Friðjón eru bæði nýútskrifuð og gaman að þau séu tilbúin að koma hingað til Eyja. Það hefur oft vantað að ungir lögreglumenn vilji koma út á land, hafa sótt mikið í að vera á höfuðborgarsvæðinu. Elín- borg hefur auðvitað búið hér áður, lék með ÍBV í fótboltanum og Friðjón var hér að vinna í Vinnslu- stöðinni eitt sumar. Þannig að þau þekkja ágætlega til samfélagsins hér og svo veitir ekkert af því að yngja aðeins upp í liðinu, þó svo að við séum reyndar allir við góða heilsu. Svo vorum við einstaklega heppin að fá reynsluboltann Hugin Egils- son til starfa. Hann hefur mikla reynslu úr lögreglustarfinu, starfaði í langan tíma með sérsveitinni og hann er hokinn af reynslu. Jafnvel tvær lögreglukonur í sumar Elínborg er fyrsta konan sem starfar í lögregluliðinu síðan 2009 en alls hafa fimm starfað frá upphafi í lögreglunni í Vestmannaeyjum. Jóhannes telur það styrkja lög- regluliðið að fá konu til starfa. „Það er ekki spurning, þetta er mjög jákvætt og svo gæti jafnvel farið að þær verði tvær í sumar, því við erum að skoða það að fá konu í afleysingar í sumar. Það hefur ekki gerst áður að tvær lögreglukonur séu starfandi í Vestmannaeyjum á sama tíma.“ Þremenningarnir sem tóku til starfa hjá lögreglunni. Frá vinstri: Huginn Egilsson, Elínborg Ingvarsdóttir og Friðjón Ingi Sigurjónsson. Gústi læknir og Jóhanna Ýr frumsýna myndband um þunglyndi á Eyjafréttum: Þunglyndi eitt algengasta mein sem fólk upplifir á lífsleiðinni :: Stefna á að stofna samtökin Geð-fatlann til að opna umræðuna, brjóta niður fordóma og benda á úrræði Ágúst Óskar Gústafsson, Gústi læknir, og Jóhanna Ýr Jónsdóttir munu á fimmtudag frumsýna nýtt myndband við lag Gústa en frumsýningin verður klukkan 10:04 á Eyjafréttir.is. Þau Gústi og Jóhanna Ýr hafa unnið saman undanfarið, m.a. við myndina Útlendingur heima og svo samdi Jóhanna Ýr texta við lög Gústa sem flutt voru á tónleikum fyrr á þessu ári. Þar frumsýndi Jóhanna Ýr einmitt myndband um einhverfu sem vakti mikla athygli. Auk þess að frumsýna myndbandið, stefna þau á að stofna samtök, Geð-fatlann sem hefði það gagngert að markmiði að opna umræðuna um þunglyndi, brjóta niður fordóma gegn því og benda á úrræði. „Eitt algengasta mein sem fólk upplifir á lífsleiðinni er þunglyndi. Vissulega eigum við öll misgóða daga, upplifum depurð eða kvíða sem varla telst sem þunglyndi, en þunglyndi er samt algengara en við áttum okkur á,“ sagði Gústi í samtali við Eyjafréttir. „Einhverra hluta vegna virðist það enn vera feimnismál að ræða þetta opinskátt þrátt fyrir að við höfum jafnvel upp- lifað það á eigin skinni eða þekkjum einhvern sem glímir við sjúkdóminn. Sérstaklega virðast karlmenn eiga erfitt með að játa slíka slæma vanlíðan. Vegna þessarar feimni draga margir hverjir það á langinn að leita sér hjálpar og ómeðhöndlað getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.“ Varðandi myndbandið, þá fékk Jóhanna Ýr Eyjastelpuna Sif Hjaltdal Pálsdóttur aftur í lið með sér en Sif sér um teikningar í myndbandinu, líkt og hún gerði í fyrra myndbandi Jóhönnu. Gústi sér um tónlist og upptökur fyrir myndbandið með aðstoð Gísla Stefánssonar, sem sá um útsetn- ingar. Titill myndbandsins er að sjálfsögðu Geð-fatlinn. Þunglyndi er leyndarmálið sem við þekkjum öll „Samtökin Geð-fatlinn yrðu starfrækt með það að markmiði að styðja eftir fremsta megni við alla þá starfsemi sem vill opna um- ræðuna um þunglyndi. Það kæmi alveg til greina að safna fyrir ákveðnum hlutum og færa t.d. geðdeild Landspítalans, Geðhjálp eða úrræðaleiðum eins og Hugarafl hefur upp á að bjóða. Þó langar okkur mest að standa fyrir ýmsum uppákomum hér á eyjunni, hvort sem það er með tónlistarlegu ívafi, málþingum eða öðru; í raun tengja þunglyndi við skemmtilega og skapandi hluti því þannig teljum við að við getum náð til fleira fólks og fá það til að tala um þetta mein og það þurfi enginn að skammast sín fyrir að þjást af þessum sjúkdómi. Þunglyndissjúklingar eru oftast ferlega skemmtilegt fólk!“ sagði Gústi og brosti. Eins og áður sagði verður mynd- bandið frumsýnt á vef Eyjafrétta á morgun, fimmtudaginn 10. apríl klukkan 10:04. „Í lok apríl verða síðan tónleikar sem marka tímamót stofnunar Geð-fatlans og hvetjum við Eyjafólk til að mæta og sýna átakinu stuðning. Nánar um það síðar. Að lokum viljum við þakka Oddfellow í Vestmannaeyjum fyrir stuðninginn,“ bætti Gústi við í lokin. Merki fyrirhugaðra samtaka, Geð-fatlinn. JúlÍuS G. InGaSon julius@eyjafrettir.is JúlÍuS G. InGaSon julius@eyjafrettir.is

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.