Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.05.2019, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.05.2019, Blaðsíða 10
VIÐTAL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 26.5. 2019 E inu sinni til tvisvar á ári heimsækir Sven hjartalækninn sinn á Íslandi, frænda sinn Ásgeir Jónsson, og það vill svo skemmtilega til að sá er faðir minn. Bera þeir báðir nafn afa síns, Ásgeirs Péturssonar, synir systkina. Sven er því gamall frændi blaðamanns, sem hann hefur aldrei hitt fyrr en nú. Frændinn reyndist svo áhugaverður maður að hann var drifinn í viðtal í stuttu stoppi sínu hér á landi um daginn, eftir að hjartalæknirinn hafði gefið grænt ljós á heilsuna. Í blíðunni í maí fórum við í bíltúr um Reykjavík og sagði Sven frá sinni áhugaverðu ævi og sambandi sínu við Ís- land. Á Hótel Borg eins og afi Sven er fæddur 1941 og er alinn upp í Gauta- borg, sonur Per-Olof Hansons og Margrétar Ásgeirsdóttur, ávallt kölluð Gréta. Hún er dóttir Ásgeirs Péturssonar stórútgerðar- manns og Guðrúnar Halldórsdóttur húsfreyju. „Mamma mín Gréta hitti pabba í Hamborg í kringum 1930 þegar þau voru bæði tvítug. Þau kynntust á tungumálanámskeiði þar en móðir mín hafði dvalið langdvölum í Kaupmannahöfn vegna þess að hún fékk berkla og var þar í meðferð. Amma mín og mamma bjuggu því um tíma þar og þaðan fór mamma til Hamborgar en afi minn Ásgeir stundaði þar viðskipti. Þannig æxlaðist það að mamma kynntist pabba, sem er Svíi, og þau fluttu til Svíþjóðar og giftu sig 1932,“ segir Sven. Afi hans í móðurætt, Ásgeir Pétursson, var mikill viðskiptajöfur á Íslandi og þótti mjög vandaður maður. Hann var búfræðingur, út- gerðarmaður og kaupmaður á Akureyri og Siglufirði, og bjó um tíma í Kaupmannahöfn en að lokum í Reykjavík. „Ég hef heyrt mikið um afa minn þótt í gamla daga hafi ekki mikið verið rætt um hann. En ég komst að ýmsu síðar og það er til bók um frumkvöðla Íslands og var Ásgeir afi minn einn af tíu sem þar eru nefndir. Ásgeir var frá Akureyri, einn af sex börnum. For- eldrar þeirra létust frá ungum börnum,“ segir Sven en þess má geta að afi hans var aðeins fjögurra ára þegar móðir hans lést og átta ára þegar faðir hans fórst á sjó. „Hann varð efnaður maður en var það svo sannarlega ekki frá upphafi. Hann lenti hjá góðum fósturforeldrum og fékk að stunda nám og fór til Kaupmannahafnar í viðskiptanám. Þegar hann kom heim fór hann í fiskibransann og seldi mikið fisk til Danmerkur. Ástæðan fyrir því að ég dvel alltaf á Hótel Borg þegar ég er hér á landi er sú að sagan segir að afi hafi alltaf gist á Hótel Borg þegar hann var í Reykjavík að stunda viðskipti sín,“ segir Sven. „Ég hitti hann reyndar aldrei því hann dó í desember 1942 þegar ég var aðeins eins árs.“ Fyrsta flugið frá Svíþjóð Faðir Svens, Per-Olof, kallaður Pelle, rak alla tíð stórt saltfyrirtæki í Svíþjóð og móðir hans var heimavinnandi húsmóðir. Sven á eina syst- ur, Guðrúnu, sem bjó hér á landi um hríð á full- orðinsárum. „Pabbi tók snemma við saltfyrirtækinu af föður sínum. Föðurafi minn fékk hjartaáfall og tók því faðir minn við og þurfti að axla mikla ábyrgð snemma, þó svo að afi hafi lifað til hás aldurs. Í þá daga var salt sett á tunnur og þær sendar með skipi til Íslands,“ segir hann. „Ég fór í fyrsta skipti til Íslands í júní árið 1946 í gamalli uppgerðri herflugvél og ég man bara að vélin lét illa á leiðinni. Ég held reyndar að þetta hafi verið fyrsta flugið milli Svíþjóðar og Íslands, því það var getið um það í sænsk- um dagblöðum. Því miður hræddi flugferðin mömmu svo mikið að hún fór aldrei aftur til Ís- lands, sem var sorglegt,“ segir Sven. „Í gamla daga talaði ég dálitla íslensku því það voru margir íslenskir nemar í Gautaborg og þeir komu gjarnan til okkar í sunnudags- mat. Þannig náði ég að æfa íslenskuna, en eftir það missti ég hana niður þar sem við fórum aldrei heim til Íslands. Mamma talaði mjög lítið við mig íslensku en söng þó íslensk lög þegar hún sat við píanóið og spilaði,“ segir Sven. „Guðmóðir mín var íslensk og foreldrar mín- ir áttu íslenska vini sem komu oft í heimsókn. Pabbi var líka í viðskiptum við Ísland og ég veit að hann var að hjálpa Eimskip eftir stríð. Hann var mjög hrifinn af Íslandi. Hann vildi í raun flytja þangað eftir að mamma dó en það varð aldrei úr. Þau voru mjög alla tíð mjög samrýnd hjón og ég var mjög heppinn og átti góða æsku.“ Salt í 190 ár Eins og faðir hans á undan honum, tók Sven snemma við fjölskyldufyrirtækinu. „Það var engin pressa á að taka við fyrirtækinu og hug- leiddi ég að verða bóndi. En ég held að innst inni hafi ég viljað það. Ég fór ungur með pabba í vinnuna og ég tel að hann hafi verið snjall að sýna mér allt frá unga aldri, án þess að ýta á mig,“ segir Sven sem unnið hefur við fjöl- skyldufyrirtækið allar götur síðan. Saltfyrirtækið Salinity, áður Hanson & Möhring, framleiðir 750 þúsund til milljón tonn af salti árlega. „Á næsta ári erum við búin að vinna í salti í 190 ár samfleytt. Þetta hófst allt árið 1830 þegar síldin var í Svíþjóð. Afi minn vann þá í fyrirtækinu fyrir menn sem áttu enga afkomendur. Afi, ásamt tveimur öðr- um, tók svo við fyrirtækinu árið 1905. Síðan ár- ið 1970 hefur það verið að fullu í okkar fjöl- skyldu,“ segir Sven og stiklar á stóru í langri og merkri sögu saltfyrirtækisins. „Salt er mjög ódýrt og það finnst næstum alls staðar, þó ekki í Svíþjóð. Salt er unnið úr jörðu en vandamálið er að flytja það milli staða. Samgöngur og flutningar skipta því miklu í þessum bransa, það er aðalmálið. Mað- ur þarf að finna salt á réttum stöðum og flytja það á rétta staði,“ útskýrir Sven. „Þegar ég byrjaði í bransanum á sjöunda áratugnum vorum við bara að dreifa salti til Vestur- og Suður-Svíþjóðar. Nú seljum við salt út um öll Norðurlönd og til tíu, tólf landa í Evrópu, þó mest til Þýskalands. Við fram- leiðum salt á Kýpur og erum einnig með skrifstofu í Kína, en við erum ekki bara í salti. Salt er aðalafurðin okkar en við fram- leiðum ýmsar aukaafurðir úr salti, eins og saltblokkir sem dýrafóður og salttöflur til að mýkja vatn, svo eitthvað sé nefnt. Við erum minna í hráu salti og meira í unnu,“ segir hann. Erum engum háðir Árið 1982 flutti Sven frá heimalandinu til Sviss og segir hann nokkrar ástæður fyrir því. Ein er sú að hann vildi ekki skrá félagið á markað, heldur halda því alfarið innan fjölskyldunnar og voru skattalögin í Svíþjóð á þeim tíma erfið slíkum fyrirtækjum. „Afi minn var með strangar reglur varðandi hver mátti eiga í fyrirtækinu. Eina fólkið sem mátti eiga hlut í fyrirtækinu væru blóðskyldir ættingjar sem unnu í fyrirtækinu. Það áttu ekki að vera neinar deilur innan fjölskyld- unnar um eignarhald fyrirtækisins. En á sjö- unda áratug var ekki hægt að hafa þetta svona. Skattakerfið var þannig að það hefði reynst erfitt fyrir mig að láta börn mín hafa hlut því þá myndi ég þurfa að borga mikinn skatt. Þannig að ég stóð frammi fyrir ákvörð- un, annaðhvort að skrá fyrirtækið á markað eða flytja úr landi og halda áfram að reka það erlendis,“ segir Sven. „Það fyndna er að skattakerfið í Svíþjóð er gjörbreytt og ég hefði ekki þurft að flytja. En mig langaði að feta í fótspor afa míns og fylgja hans óskum. Ég átti 100% í fyrirtækinu, því á þeim tíma var enginn annar ættingi að vinna í fyrirtækinu. Ég sagði við börnin mín að ef þau myndu vinna í fyrirtækinu fengju þau hlut og í dag eru dóttir mín og tengdasonur að vinna í fyrirtækinu,“ segir hann. „Við sjáum hvað ger- ist, kannski tekur næsta kynslóð við fyrir- tækinu,“ segir hann en þess má geta að í dag veltir fyrirtækið rúmlega tíu milljörðum ís- lenskra króna árlega. Sven segir aðra ástæðu fyrir flutningnum til Sviss hafa verið þá að hann langaði að fram- leiða eitthvað fleira en salt. „Ég flutti til Laus- anne og fór að framleiða dýrafóður líka en við erum samt stærst í saltinu,“ segir hann. „Ég er alltaf að leita að nýjum salt- uppsprettum og við byrjuðum árið 1999 að flytja inn salt frá Chile til Evrópu sem var ansi merkilegt í þá daga. Það var mjög arðbært og ekki síst fyrir framleiðendur í Chile,“ segir hann og nefnir að samstarfið hafi gengið vel. „Okkar stefna hefur alltaf verið að vera engum háður en að sama skapi að vera trygg okkar viðskiptavinum. Það þarf að vera gagnkvæm virðing.“ Sven er enn að vinna og ferðast um víða veröld í sínu starfi þrátt fyrir að vera orðinn 77 ára. „Dóttir mín og tengdasonur sjá um daglegan rekstur og ég er meira í að leita að nýjum viðskiptatækifærum. Pabbi sagði við mig þegar ég var mjög ungur: þú mátt gera hvað sem þú vilt en ef þér mistekst verður þú sjálfur að þrífa upp eftir þig,“ segir hann og er greinilegt að hann lifir enn eftir þessari reglu. „Eitt af því sem ég gerði um þrítugt var að kaupa Falksalt, sem var stærra en við. Eftir það urðum við stærstir í salti í Svíþjóð og erum enn. Síðan höfum við auðvitað þróast mikið og erum í mörgu öðru. Við höfum t.d. verið stórir í kanadísku timbri, sojabaunum og höfum verið í kolum líka.“ Í sjötta sæti í siglingum Sven á fjöldann allan af veðhlaupahestum víða um heim. „Það byrjaði þannig að árið 1968 var ég í Akapúlkó að keppa á Ólympíu- leikunum í siglingum. Siglingar voru mitt helsta áhugamál á þeim tíma. Í tvö ár í röð þurfti ég að taka mér þriggja mánaða frí til að æfa og ég áttaði mig á því að ég gæti ekki haldið því áfram. Þannig að ég ákvað að venda kvæði mínu í kross og finna mér eitt- hvert allt annað áhugamál. Þannig að ég hætti að sigla, því miður, í 21 ár. Á þessum tíma átti ég bóndabæ í Svíþjóð og þáverandi kona mín var hestakona. Ég byrjaði líka í hestamennsku en eftir nokkur ár gerði ég mér grein fyrir því að ég gæti ekki bara keppt um helgar án þess að æfa mig í miðri viku. Þannig að ég byrjaði að kaupa veð- hlaupahesta,“ segir hann. „Ég byrjaði að kaupa hesta í Englandi og Ír- landi og ein merin reyndist svo verða meistari síðar meir. Hún er amma okkar besta gæðings í dag. En þessi kaup voru ekki tengd saltfyrir- tækinu á neinn hátt. Við höfum átt mikilli vel- gengni að fagna með hestana.“ Segðu mér aðeins frá Ólympíuleikunum. „Það var mikið ævintýri. Alveg stórkostlegt; mikil reynsla. Ég var þá 27 ára og þetta var klárlega ævintýri lífs manns. Við vorum þrír þarna á seglbátnum og lentum í sjötta sæti. En ég hafði ekki tíma til að halda þessu hobbíi áfram. Ég hætti svo að sigla eins og fyrr segir en tók svo aftur upp siglingar og varð Svíþjóð- armeistari árið 1995. Það sama ár lenti ég í 4. sæti í heimsmeistarakeppninni í Fremantle í Ástralíu. Ég var ágætis siglingamaður en þetta var meira til gamans,“ segir hann. „Mér finnst gaman að keppa og líklega er ég svolítið eirðarlaus og þess vegna er ég ekki hættur að vinna. Tengdasonur minn segir að ég sé búinn að minnka við mig niður í fulla vinnu,“ segir Sven Ásgeir Hanson. Með salt í blóðinu Hann er hálfur Íslendingur og hálfur Svíi, hann Sven Ásgeir Hanson. Sven á stærsta salt- fyrirtæki Svíþjóðar sem selur salt víða um Evrópu. Þessi kappsfulli öldungur hefur haft í ýmsu að snúast á langri ævi. Viðskipti hafa verið hans ær og kýr þótt hann hygðist um skeið gerast bóndi. Hann keppti á Ólympíuleikum árið 1968 í siglingum en siglir í dag sér til gamans. Önnur áhugamál hans eru útreiðar og kaup og sala veðhlaupahesta. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.