Morgunblaðið - 13.07.2019, Síða 14
14 DAGLEGT LÍF
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 13. JÚLÍ 2019
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Þegar ég var ungur að árumvann fólkið að heyskapmeð svipuðum hætti og þaðhafði gert í þúsund ár.
Margir slógu með orfi og ljá, en það
voru líka komnar sláttuvélar. Óseng-
ið á Holtsmýri var rennislétt og með
miklu og góðu grasi ár hvert, en allt
hey var flutt heim á klyfjahestum.
Mikil kaflaskipti urðu rétt fyrir
miðja síðustu öld með tilkomu trakt-
ora, þannig að fólkið fór umsvifalaust
úr þessari fortíð beint inn í nú-
tímann. Gervöll menning þjóðar-
innar breyttist á þeim tíma, þessi
gamla sveitamenning sem ég ólst
upp við, hún er algerlega horfin og
ný menning hefur tekið við og nýir
atvinnuhættir á öllum sviðum,“ segir
Þórður Tómasson, sem ævinlega er
kenndur við Byggðasafnið í Skógum,
en hann er alinn upp við aldarhátt
frá 19. öld, enda á maðurinn aðeins
tvö ár í að verða 100 ára.
„Ég byggði þessa bók um hey-
annir bæði á mínum eigin minning-
um og frásögnum annarra. Þegar ég
byrjaði að safna gömlum hlutum fyr-
ir Byggðasafnið í Skógum var mjög
auðvelt að nálgast þá, því fólk hafði
lagt öllum gömlum tækjum til hliðar
og þeirra beið ekkert annað en eyð-
ing. Það var því tiltölulega auðvelt að
byggja upp safn með þessum gömlu
minjum og atvinnutækjum,“ segir
Þórður og bætir við að allt annar
blær hafi verið yfir mannlífi í þá tíð
þegar hann var ungur maður.
„Mörg býli voru í hverju hverfi
og öllu landi var skipt niður í skákir.
Mikið var að gera hjá fólkinu við
heyskaparstörfin og heylestirnar
gengu upp og fram sléttuna. Um
heyskapartímann var mikið fjör og
þetta voru góðir tímar, margt fólk
kom saman og rómantíkin blómstr-
aði. Fólk kom syngjandi heim af
engjunum á kvöldin þótt það væri
uppgefið, því það átti líka sína gleði
og hamingju í heyskaparstritinu,
sérstaklega þegar allt gekk vel. Ég á
margar mjög góðar minningar frá
heyskaparstundum yngri áranna.
Ég nærist á þeim núna í hárri elli.“
Niðrandi að vera sláttuskussi
„Mér er minnisstætt úr heyskap
úti á Holtsmýri þegar komu flengj-
andi austan óveður og fólk var nauð-
beygt til þess að taka sig upp og fara
heim. Það gat rignt í tvo til þrjá
sólarhringa samfellt. Það var
sérkennilegt að oft og einatt barst út
á engið það sem kallað var
jöklafýla, eða megn brenni-
steinslykt, austan frá Jök-
ulsá á Sólheimasandi. En
þrátt fyrir vætu sem gat
komið ofan í heyið er mikil
birta yfir öllu sviðinu þegar
ég horfi til baka. Ég sé
bændurna ennþá fyrir mér
þar sem þeir stóðu saman í
teignum og röbbuðu saman um lífið
og líðandi stund og tóbaksbaukurinn
gekk á milli þeirra. Þetta var
skemmtilegt mannlíf og fallegur
blær yfir því öllu og mikil friðsæld.“
Góðir sláttumenn voru vinsælir
á þessum tíma og Þórður segir að
auðvitað hafi verið mikils vert að það
lægi góður og stór teigur eftir menn
að kvöldi dags.
„Þess voru dæmi á góðu ósengi
að menn gátu slegið næstum heilt
kýrfóður á einum degi, um fjörutíu
hesta, því ósinn frjóvgaði landið þeg-
ar hann var í uppistöðu. Þar var
mjög auðvelt að afla heyja og þessi
stóru byggðarhverfi byggðust á því
líka. Harðduglegir sláttumenn sem
voru fljótir að slá voru mjög eftir-
sóttir, til dæmis kaupamenn sem
voru góðir sláttumenn, það voru
mikil meðmæli með mönnum á þeim
dögum. Að vera sláttuskussi var aft-
ur á móti mjög niðrandi orð.
Stúlkurnar hafa sjálfsagt verið
skotnar í flinkum sláttumönnum, því
auðvitað dafnaði ástin á milli fólks.
Unga fólkið sem vann saman við
heyskapinn dróst hvert að öðru.
Margar kaupakonur sem komu í
byggðina til að vinna við heyskapinn
fóru ekki aftur, heldur tóku saman
við einhvern manninn.“
Gamalt fólk sagði mér sögur
Þórður er einn af örfáum núlif-
andi mönnum sem muna af eigin
reynslu hvernig heyskapur var á
fyrri hluta tuttugustu aldar. Hann
segir það vera mikils vert að fólk hafi
skilning á lífinu eins og það var á
þessum fyrri dögum, og því hafi
hann alla tíð lagt sig eftir að safna
heimildum, bæði hlutum og frásögn-
um.
„Þegar ég var ungur að árum
var nánast á hverju einasta heimili í
minni sveit gamalt fólk sem gat frætt
mig um gamla tímann, sagt mér sög-
ur, líka dularsögur af huldufólki og
hulduverum, sem og daglegu hvers-
dagslífi. Víðs vegar um sveitina leit-
aði ég til gamals fólks og allir tóku
mér vel og fræddu mig. Í dag fer
enginn um sveitir til að safna fróð-
leik með þeim hætti. Þetta gamla
fólk kunni sagnir sem náðu langt aft-
ur í tímann, jafnvel aftur til átjándu
aldar. Ég ólst upp með konu sem var
fædd 1860, Arnlaugu Tómasdóttur,
og hún var að vissu leyti skóli minn í
æsku. Hún gaf mér efni í heila bók,
ættarsögur hennar sem hún sagði
mér og þær náðu til átjándu aldar.
Þessar sögur bregða björtu ljósi á
fólkið frá þeim tíma, fólk sem var öll-
um gleymt. Það var dýrmætt fyrir
mig að fá að kynnast Arnlaugu.“
Ljósmynd/Vigfús Sigurgeirsson
Glaðar rakstrarkonur Mynd tekin í Húnavatnssýslu um 1937.
Ljósmynd/Úr safni Daniels Bruun
Ung að árum Hún er ekki há í loftinu stúlkan með heybandslestina.
Ljósmynd/Magnús Ólafsson
Heyband Karlinn batt en konan hélt á móti.
Fólk kom syngjandi heim af engjum
„Ég sé bændurna ennþá fyrir mér þar sem þeir stóðu saman í teignum og röbbuðu saman um lífið og líðandi stund og tóbaksbaukurinn
gekk á milli þeirra,“ segir Þórður í Skógum þegar hann rifjar upp heyskapartíð fyrri ára. Nú þegar heyskapur stendur sem hæst er ekki úr
vegi að glugga í bók Þórðar sem kom út á síðasta ári og heitir Heyannir. Þar fjallar hann um heyskap fyrri alda, en undirtitill bókarinnar,
Um baráttu þjóðar fyrir lífi sínu, vísar til þess að hvert sumar var hinn frumstæði heyskapur barátta upp á líf og dauða.
Ljósmynd/Úr ljósmyndasafni búnaðarblaðsins Freys.
Tekið til hendinni Þessar eru heldur betur röskar með hrífurnar. Myndin er tekin um 1950.
Morgunblaðið/RAX
Þórður Á góðum degi við
Byggðasafnið í Skógum. Bók hans
um heyannir er falleg og fróðleg.
Ljósmynd/Margrét Árnadóttir
Sláttumaður Magnús Jóhannesson, bóndi á Alviðru í
Ölfusi, gengur léttklæddur að slætti um 1930.
T ÍBRÁ
Ef keyptir eru miðar á alla
10tónleika raðarinnar fæst
50%afsláttur af miðaverði.
Salurinn.is
2019–20
ÁSKRIFTARSALA
HAFIN