Morgunblaðið - 31.07.2019, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 31.07.2019, Blaðsíða 6
6 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 31. JÚLÍ 2019FRÉTTIR Ert þú ísambandi? R áð gj öf ve gn a hr að hl eð sl us tö ðv a fy rir fy rir tæ ki og sv ei ta rfé lö g V E R K F RÆÐ I S T O F A Metnaðarfullt íslenskt fagfólk streymir í MBA-nám við bæði inn- lenda og erlenda háskóla. Sitt sýn- ist þó hverjum um hvort námið skapi nemendum öll þau tækifæri sem þeir vonast eftir, og ekki er alltaf víst að útskriftarskírteinið sé peninganna og fyrirhafnarinnar virði. Í Bandaríkjunum er þróunin í þá átt að farið er að draga úr að- sókn í MBA-nám og hafa virtir há- skólar jafnvel ákveðið að hætta að bjóða upp á námið af þeim sökum. Er talað um MBA-verðbólgu vest- anhafs þar sem sá fjöldi fólks sem lokið hefur MBA-gráðu er ekki í neinu samræmi við framboðið af vel launuðum stjórnunarstöðum: nemendur fjárfesti í dýrri mennt- un en verði vonsviknir þegar þeir uppgötvi að útskrift lokinni að þeirra bíði ekki rauður dregill sem liggi beint upp í næsta forstjóra- stól. Þurfa að hafa sýnt hvað í þeim býr Hilmar Garðar Hjaltason, ráð- gjafi hjá Capacent, segir ekki hlaupið að því að svara því hvort MBA-nám borgi sig. Á íslenskum vinnumarkaði vegi þyngst að fólk geti sýnt fram á góðan árangur í stjórnendahlutverki og séu MBA- skírteini sjaldnast notuð til að gera upp á milli fólks þegar margir hæfir umsækjendur sækist eftir sömu stjórnendastöðunni. Hann segir alla menntun af hinu góða, og að MBA-nám geti vissulega eflt fólk sem stjórnendur, en margir komist í toppstöður með allt aðrar gráður upp á vasann. „Ég hugsa að námið gagnist þeim best sem eru með háskólamenntun af allt öðru sviði, því með MBA-náminu fæst ágætisyfirferð yfir allar helstu hliðar fyrirtækjarekstrar. Fyrir fólk sem þegar hefur lokið t.d. viðskiptafræðigráðu gæti MBA-nám frekar virkað eins og upprifjun.“ Segir Hilmar hvern og einn þurfa að meta hvernig MBA-nám gæti nýst, og hugsanlegt sé að fara mætti styttri leið að sama marki, s.s. með markvissri endur- menntun. „Margir stjórnendur gera n.k. „árangursáætlun“ fyrir sjálfa sig til að efla sig í starfi og gæti áætlunin t.d. tiltekið að sækja ákveðin námskeið í reikningshaldi eða samningatækni og þannig styrkja þá í sínum daglegu störf- um, án þess að þurfa takast á við fullt háskólanám.“ Nýti tengslanetið vel Í hugum margra snýst MBA- nám ekki bara um þá hagnýtu þekkingu sem miðlað er í tímum, heldur líka það dýrmæta tengsla- net sem verður til á milli nemenda. Getur námið þá virkað eins og nokkurs konar aðgöngumiði að efri lögum vinnumarkaðarins. Ingvar Jónsson, stjórnendamarkþjálfi hjá Profectus, segir að á Íslandi megi eflaust fara margar aðrar leiðir til að byggja upp stórt og sterkt tengslanet en úti í heimi gildi önn- ur lögmál. „Í Bandaríkjunum skiptir t.d. öllu máli að þekkja rétta fólkið, til þess eins að fá að komast á blað. Fyrir þá sem starfa hjá íslensku fyrirtæki með miklar alþjóðlegar tengingar, eða fólk sem vill reyna fyrir sér í nýju landi, gæti MBA-gráða frá erlend- um háskóla verið mjög dýrmætt verkfæri að þessu leyti,“ segir hann. „En þá skiptir líka máli að nýta tækifærið rétt og vera virkur þátttakandi í hópi núverandi og fyrrverandi nemenda. Ef vel er haldið á spilunum er MBA-námið ekki bara að nýtast til að tengjast nemendunum í sama árgangi, held- ur opnar það dyr að öllum þeim sem nokkru sinni hafa stundað þetta sama nám við sama háskóla.“ Eins segir Ingvar að innan stórrar skipulagsheildar ætti MBA-nám að veita fólki forskot í slagnum um að fikra sig upp skipuritið. „Þegar kemur að því að ákveða hver fær stöðuhækkun hlýtur að vera erfitt að líta fram hjá starfsmanni með MBA-gráðu, auk þess að menntunin sendir viss skilaboð um metnað og áhuga á að takast á við meira krefjandi hlut- verk.“ Ingvar lauk sjálfur MBA-gráðu frá Viðskiptaháskólanum í Kaup- mannahöfn og er í dag mjög ánægður með að hafa sótt sér þessa menntun. Spurður hvort hann myndi ráðleggja skjólstæð- ingi í markþjálfun að fara í MBA- nám segir Ingvar að hver og einn verði að svara þessari stóru spurn- ingu fyrir sjálfan sig. „Það sem fólk ætti að gera er að skoða hvar það er statt í dag og hvaða nýju tækifæri gætu mögulega verið í boði þegar námið er á enda. Þó að tilhugsunin um að hafa MBA á fer- ilskránni geti verið skemmtileg er það ekki alltaf svo – þegar allt hef- ur verið vegið og metið – að námið reynist alveg ómissandi.“ Borgar MBA-gráðan sig? Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Fyrir suma gæti MBA-nám stytt leiðina upp metorða- stigann en þetta vinsæla stjórnendanám gerir ekki endilega útslagið. AFP Glaðbeittir nemendur á útskrifarathöfn bandarísks háskóla. Vestanhafs hefur dregið úr vinsældum MBA-náms og skýrist það að hluta til af auknu framboði á sams konar námi við háskóla í öðrum heimshlutum. Hilmar Garðar Hjaltason Ingvar Jónsson Ef stefnan er sett á MBA-nám er- lendis þarf fólk að gefa sér góð- an tíma fyrir umsóknar- og und- irbúningsferlið. Oftast verða umsækjendur að þreyta al- þjóðleg hæfnispróf, s.s. GMAT eða GRE, sem reyna meðal ann- ars á rökhugsun og ritfærni. Á Ís- landi er ekki boðið upp á nám- skeið sem þjálfa fólk fyrir þessi próf en í staðinn hægt að nota æfingabækur við undirbúninginn. Einnig má reikna með að þurfa að standast tungumálapróf, t.d. TOEFL, ef námið fer fram á ensku. Þá verður að framvísa einkunnum úr grunn- og fram- haldsnámi í háskóla, skaffa með- mælabréf, starfsferilskrá, og margir háskólar fara að auki fram á að umsækjandi skrifi stutta rit- gerð. Ef háskóli biður ekki um niðurstöður úr GMAT- eða GRE- prófi kann hann að halda sín eig- in inntökupróf. Bæði HÍ og HR bjóða upp á MBA-nám og hjá háskólunum báðum þurfa umsækjendur að hafa a.m.k. 3 ára starfsreynslu. Kostnaðurinn við námið getur verið mjög breytilegur á milli há- skóla og á milli landa og oftast hægt að velja að ljúka gráðunni á hálfum hraða meðfram vinnu. Hjá HÍ kostar allt MBA-námið 4,5 milljónir króna en 4,2 milljónir hjá HR. Flestir ættu að geta fjár- magnað MBA-gráðuna að hluta eða í heild með lánum frá LÍN. Ætti þó að athuga hvort lánarétt- indi eru þegar fullnýtt, eða hvort hætta sé á að námsmaður reki sig upp undir lánaþak í miðju námi. LÍN veitir að hámarki 3,5 milljóna króna lán, samanlagt, fyrir skólagjöldum á Íslandi, 44.100 dala lán vegna náms í Bandaríkjunum og lánar 40.000 evrur til að standa straum af skólagjöldum á evrusvæðin en algengt er að námið við virtustu háskóla heims kosti allt að fjór- falt meira en það. Þá gjalda þeir sem koma af vinnumarkaði fyrir það að tekjur á því almanaksári sem námið hefst skerða framfærslulán skólaársins. Þannig á lánþegi í New York, með tekjur undir við- miðunarmörkum rétt á samtals 10.620 dölum á önn fyrir uppi- haldi og leigu, en ef marka má reiknivél LÍN, lækkar upphæðin niður í tæpa 7.000 dali á önn ef lánþegi er t.d. með sex milljónir króna í árstekjur það ár sem hann hefur námið. Misflókið og misdýrt

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.