Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.08.2019, Side 6
HEIMURINN
6 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18.8. 2019
Jón Vilhjálmur Stefánsson er ís-lenskættaður listamaður fráBerkeley í Kaliforníu. Um
helgina verður sýning á verkum
hans opnuð í Hannesarholti, en
sýningin, sem spannar langan feril
listamannsins, mun standa yfir til
31. ágúst.
Sýningin er ekki sú fyrsta sem
Jón Vilhjálmur heldur hér á landi,
umsjónarkona sýningarinnar er
Ásta Kristrún Ragnarsdóttir rit-
höfundur, námsráðgjafi og ná-
frænka Jóns.
Jón hefur lifað lífi sínu í návist
við mikilvæga atburði í sögu
Bandaríkjanna, hann hefur upp-
lifað stúdentauppreisnir og mót-
mæli, lifað í gegnum kalda stríðið
og umgengist suma áhrifamestu
vísindamenn nútímasögunnar.
Saga Jóns hefst þó á Íslandi.
Leitaði eiginmannsins
Á meðan amma Jóns, Kristrún
Tómasdóttir, hafði móður hans enn
á brjósti yfirgaf eiginmaður henn-
ar, Árni Benediktsson, landið og
flutti ásamt hjákonu sinni til
Bandaríkjanna.
„Hún fann á sér að eitthvað
slæmt hefði komið fyrir afa og leið
eins og hún yrði að elta hann,“ seg-
ir Jón Vilhjálmur.
Kristrún ákvað að pakka í tösk-
ur og halda, ásamt börnum sínum,
til Bandaríkjanna og leita að eigin-
manni sínum.
Eftir langa ferð, stutta dvöl á
Ellis-eyju og dauðaleit að eig-
inmanninum ákvað Kristrún að
halda aftur heim til Íslands, en
varð viðskila við yngstu dóttur
sína, Katrínu, sem var numin á
brott af vinafólki fjölskyldunnar.
Fjölskyldusaga Jóns er rakin í
bók Ástu Kristrúnar, Það sem
dvelur í þögninni.
Katrín, sem er móðir Jóns Vil-
hjálms, starfaði í þrjátíu ár sem
framkvæmdastjóri rektorsskrif-
stofu í UC Berkeley-háskólanum í
Kaliforníu, þar sem Jón Vilhjálmur
ólst upp.
Í vendipunkti byltinga
Jón lagði stund á myndlist í UC
Berkeley-listaakademíunni á tím-
um mikilla óeirða, nemendaupp-
reisna og mótmæla. „Ég var í
miðju óeirðanna. Ég skapaði list í
vöruskemmu í Oakland, rétt hjá
höfuðstöðvum Svörtu pardusanna,
ég fór á Grateful Dead-tónleika, ég
var hippi með sítt hár en tók aldrei
virkan þátt í mótmælunum. Ég
svaraði óeirðunum með list-
sköpun,“ rifjar Jón upp.
„Ég kunni aldrei sérstaklega að
meta mótmælin. Ég vildi læra, ég
vildi skapa list og ég var hræddur
um að valda móður minni vand-
ræðum. Hefði ég tekið þátt í mót-
mælunum hefði ég misst vinnu
mína hjá háskólanum, ég hefði
heldur ekki getað verið nemandi
þar lengur.“
Margir í kringum hann voru
virkir þátttakendur í mótmæl-
unum. „Sum þeirra eru jafnvel
ennþá í stjórnmálum. En það voru
líka margir á jaðrinum, eins og ég,
sem flutu í gegnum þetta tímabil.
Við vorum áhorfendur frekar en
þátttakendur.
Það var yfirleitt mjög gaman að
alast upp í Berkeley. Fyrir utan
óeirðirnar,“ bætir Jón látlaust
við.
Bílstjóri Dr. Strangelove
Samhliða listinni hefur Jón starfað
víða, en hvert sem hann hefur farið
hafa listin og vísindin elt hann.
„Ég var heppinn og var boðið
starf við að teikna og leggja flísar í
sundlaugum. Á meðan ég lagði flís-
ar í sundlaugar við glæsihýsi klár-
aði ég listnámið og fékk gráðu eftir
tíu ára háskólanám.“
Á sjöunda áratugnum starfaði
Jón sem bílstjóri í Berkeley, en
meðal farþega hans var ungverski
eðlisfræðingurinn Edward Teller,
sem er að mörgum talinn faðir
vetnissprengjunnar. Teller er fyr-
irmynd kvikmyndapersónunnar
Dr. Strangelove í samnefndri
mynd Stanleys Kubricks.
„Ég keyrði Teller til og frá
vinnu og í rauninni út um allt, seg-
ir Jón. „Hann var mjög líkur Dr.
Strangelove í hegðun. Hann var
mjög ákafur og skipti um umræðu-
efni tvisvar eða þrisvar í hverri
setningu. En hann var ótrúlega
áhrifamikill.“
Edward Teller var einn helsti
málsvari kjarnorkuvopna á tímum
kalda stríðsins og hafði mikil áhrif
á stigmögnun framleiðslu
kjarnorkuvopna Bandaríkja-
manna.
„Hann var mjög ræðinn á
morgnana, næstum því kátur, en
þegar ég keyrði hann heim var
hann útbrunninn. Þá var hann oft
önugur og þreyttur,“ rifjar Jón
upp. „Hann var úr öðrum heimi,
handan þess sem ég gat nokkurn
tíma skilið.“
Nálgast list eins
og vísindi
List Jóns hefur alltaf verið ná-
tengd vísindum.
Þegar hann var sex ára sat hann
löngum stundum og fylgdist með
atferli snigla sem varð innblástur
fyrstu listaverka hans.
„Ég var alltaf athugull og forvit-
inn,“ segir Jón, „en það var ekki
fyrr en í menntaskóla sem ég átt-
aði mig á því að það gæti verið
starfsferill. Ég var með ensku-
kennara sem sagði mér að það
væri ekki nóg að standa úti í horni
og fylgjast með heiminum, maður
þyrfti að taka þátt í honum. Þannig
að ég ákvað að verða listamaður.“
Jón Vilhjálmur segir að ómögu-
legt hafi verið að fá ekki áhuga á
vísindum í Berkeley. Hann eyddi
miklum tíma á vinnustað móður
sinnar í háskólanum í kringum vís-
indamenn og kennara.
„Ég er enginn vísindamaður
sjálfur. Ég mun aldrei skilja svo
mikið sem helming útreikninga eða
formúlur eðlisfræðinnar. En vís-
indi eru mér afar hugleikin. Ég hef
tekið kúrsa og námskeið í eðl-
isfræði og líffræði og þótt megnið
af upplýsingunum fari beint út um
gluggann finnst mér það alltaf
skemmtilegt,“ segir Jón.
„Ég nálgast listina á sama hátt
og ég nálgast vísindin. Það er
alltaf hægt að kanna meira og
spyrja fleiri spurninga, bæta við
fleiri lögum af málningu. Allir
vísindamenn vita að það er enginn
sjáanlegur endir. Maður veit ekki
hver niðurstaðan verður fyrr en
maður hefur hana í höndunum.“
Óeirðir veittu innblástur
Sem nemandi í UC
Berkeley-listaakademí-
unni upplifði Jón Vil-
hjálmur Stefánsson
stúdentauppreisnir,
mótmæli og óeirðir sem
veittu honum inn-
blástur í listsköpun
sinni. Listsýning Jóns
verður opnuð í Hann-
esarholti um helgina.
Pétur Magnússon petur@mbl.is
„Ég nálgast listina á sama hátt og ég nálgast vísindin,“ segir Jón Vilhjálmur Stefánsson, en eðlisfræði og líffræði eru hon-
um sérlega hugleikin. Hann sækir einnig innblástur í óeirðir og mótmæli sem hann upplifði á æskuárunum í Berkeley.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Systkinabörnin Jón Vilhjálmur og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir hafa haldið nánu
sambandi þrátt fyrir að foreldrar þeirra hafi verið aðskilin í æsku.
TAKTU ÍSINNMEÐ TRUKKI