Tímarit Máls og menningar - 01.11.2004, Qupperneq 58
Silja Aðalsteinsdöttir
En hverfðrar moldar eimur angansterkur
frá ökrum landnámsmanns
og starfsins lúi í herðum, höndum, fótum,
þau hefja mikinn seið að vitund hans ...
Það er hin sterka angan frá hverfðri mold sem þarna er nýstárleg og
verður í fjórða erindi „næturþungur eimur plægðra akra“. 1 „Þokuridd-
aranum“ í sömu bók kembir háslétt heiðin svo hvíta, mjúka ull að hver
laut fyllist „af léttri galdra lyppu“ - líking þokunnar við ullina er full-
komin og þarfnast engrar skýringar. í „Lyngheiðin rauð“, enn í sömu
bók, vefst „lifandi feldur“ lyngsins um fætur skáldsins, við heyrum „hol-
bakkans dapra gjálp“ í „Dauðsmannskvísl“, enn í Álfum kvöldsins, sem
sígur, „úrig og dulrömm yfir seigan leirinn, andandi fúlum dauni“,
„Straumlaus og litljót, silaleg og seyrin“ - og er ástæða til að minna á
hvað íslensk náttúra er ótrúlega fjölbreytt í ljóðum Guðmundar, svo
gróin og góð, svo hrikaleg og fögur - og svo lágkúruleg, ljót og ill. Ljót-
ust er hún auðvitað í „Krosslág“ í Minn guð og þinn, á „stað hinna kyn-
legu slysa“ þar sem fótgatan hlykkjar sig eftir skriðunum og „Hver berg-
vætla er svört eins og blasi við opin gröf / og blautur hinn skríðandi
sandur.“ Hvergi er myrkrið svartara en þar, vei þeim sem þá er á ferli:
Og stormsvipir æða um einstigin grýtt og tæp
og æpa að hrundum vörðum
og öskra sig hása af hlátri að myrkursins glæp
í hamranna geilum og skörðum,
og biksvartar íjallsgnípur bergmála á ýmsa lund
þá bölvun sem fer yfir staðinn,
svo þagnar og kyrrist, - og þá er hættunnar stund,
og þögnin er skelfingu hlaðin.
„Tvídægruvísur“ í Kristalnum í hylnum eru auðvitað samfellt dæmi um
glöggt auga Guðmundar fyrir landinu og makalausan hæftleika hans til að
láta okkur sjá það nákvæmlega fyrir okkur með því að velja hárrétt orð og
skapandi: Vatnið þeytir gruggugu löðrinu upp á bakkann, vindbáran
grefur þverskorinn jarðveginn, í rofinu hanga hvítar rætur og „ryðgaður
hnígur dreyrinn úr svartri und“ landsins. Samt er þetta „Ættlandsins
góða, máttuga brjóst“ og vekur ómunadjúpa úð með skáldinu. Sömuleiðis
lýsir hann af ástúð og hryggð afleiðingum skriðufalla í „Bréfi til bróður
míns“ í Minn guð og þinn: „þar sem skriðan féll úr fjalli, / fletti burt af urð
og stalli / rótum lífgra lauka og breytti / landsins gleði í örvænting, /
lambaskjóli í leðjubing.“ Við getum heyrt fýrir okkur hvernig hann myndi
yrkja núna um raskið við Kárahnjúka ef hans nyti enn við.
56
TMM 2004 • 4