Morgunblaðið - 04.10.2019, Qupperneq 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. OKTÓBER 2019
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Sögur um ástina eiga alltaf erindi.
Þetta er sammannleg saga um ást í
meinum sem fær ekki að blómstra.
Þetta er líka óður til leikhússins og
skáldskaparins,“ segir Selma
Björnsdóttir, sem leikstýrir einu
umfangsmesta verkefni Þjóðleik-
hússins á leikárinu, hinum róman-
tíska gamanleik Shakespeare verð-
ur ástfanginn. Frumsýning verður í
kvöld föstudag á Stóra sviðinu og
spennan var þó
nokkur þegar
blaðamann bar
að garði örfáum
dögum fyrr og
spjallaði við
Selmu og Aron
Má Ólafsson (Ar-
on Mola), en
hann leikur hið
unga skáld Will
Shakespeare.
„Ég fæ mar-
traðir á nóttunni. Mig hefur verið
að dreyma undanfarið að ég komi
inn á röngum stað á sviðið og
gleymi texta,“ segir Aron og Selma
bætir við að það sé hluti af starfinu.
„Þetta er alltaf sama ferlið, maður
fer alveg í hnút síðustu dagana fyrir
frumsýningu. Ég held að við séum
öll hætt að sofa,“ segir hún og hlær.
„Það er alltaf kúnst að láta allt
virka í stórum flóknum uppsetn-
ingum, öll þessi tækni, finna taktinn
og flæðið,“ segir Selma sem sá fyrir
mörgum árum kvikmyndina Shake-
speare in Love, sem leikritið er
byggt á. Selma sá verkið einnig á
sviði í Svíþjóð rétt áður en æfingar
hófust hér heima.
„Verkið gerist árið 1593 í London
og við höfum verið að grúska í því
tímabili með dramatúrgum þjóðleik-
hússins, til að skapa ákveðinn tíðar-
anda í umgjörð og búningum. Ég
hef lesið þó nokkuð af verkum
Shakespeare og séð mörg leikrit
eftir hann í ólíkum löndum. Ég hef
því séð misjafnar nálganir á hin
ýmsu verk hans á sviði. Ég féll fyrir
Shakespeare þegar ég var 25 ára og
fór á Shakespeare-námskeið hjá
Martin Regal í Háskólanum. Þegar
ég fór svo í nám til Bretlands þar
sem Shakespeare er á hverju horni
sá ég margar uppsetningar á verk-
um hans. Ég reyni alltaf að nýta
tækifærið og sjá einn Shakespeare
þegar ég er að leikstýra erlendis.“
Aron segist ekki hafa verið neitt
sérstaklega hrifinn af Shakespeare
fyrr en hann kynntist honum í leik-
listarskólanum í sérstökum áfanga
um þennan forna meistara.
„Við fengum enskumælandi kenn-
ara sem kenndi okkur allt um
Shakespeare og þá féll ég fyrir hon-
um. Þegar við þurftum að læra text-
ana hans á ensku áttaði ég mig á
því hversu vel textinn er skrifaður.“
Gömlu kempurnar styðjandi
Þegar Selma er spurð hvað hafi
ráðið vali hennar á Aron í aðal-
hlutverkið til að túlka ástfanginn
Shakespeare segir hún að Aron hafi
smellpassað í hlutverkið, hann sé
ungur og upprennandi, rétt eins og
Shakespeare, sem er 29 ára í leik-
ritinu og upprennandi skáld.
„Aron er nýútskrifaður en leiðir
okkar lágu saman í sjónvarpsþátt-
unum Ófærð þar sem ég sá um leik-
araval. Ég tók hann í prufur fyrir
þættina og leist vel á hann og hann
stóð sig vel. Mér finnst líka spenn-
andi að gefa ungi fólki tækifæri í
leikhúsinu, hleypa því að. Aron er
með mikla reynslubolta í kringum
sig í þessari uppfærslu, sem er mik-
ill stuðningur og lærdómur. Í leik-
hópnum er mikil breidd, bæði í aldri
og reynslu. Yngst er tónlistarkonan
GDNR, eða Guðrún Ýr Eyfjörð,
sem er um tvítugt, en elstar eru
Edda Björgvins og Ragnheiður
Steindórsdóttir, leikkonur sem eru
að nálgast sjötugt. Það er ofsalega
gaman að hafa svona mikla breidd,
þá myndast skemmtileg dýnamík.
Reyndari leikararnir eru örlátir og
koma með hugmyndir og tillögur,
sem gefur verkinu enn meiri kraft
og dýpt. Allir eru í sama liði og við
hjálpum hvert öðru að blómstra.“
Aron segir það hafa verið frábært
að fá að vinna með reynslubolt-
unum, eldri leikurunum.
„Þau eru öll mjög styðjandi og
halda alveg við bakið á okkur ný-
græðingunum. Þessar gömlu kemp-
ur koma með góða punkta og nálg-
ast þetta með opið hjarta og af
mikilli þolinmæði. Ég er þakklátur
fyrir að fá að njóta þess.“
Athygli vekur að meðal leikara í
sýningunni er Jóhanna Vigdís
Arnardóttir, en hún hefur ekki leik-
ið mikið á sviði undanfarið enda
komin til annarra starfa.
„Ég bauð henni hlutverk Elísa-
betar drottningar af því að mér
finnst Jóhanna mikil drottning og
tilvalin í þessa rullu. Hún sló til og
er að stíga í sitt allra fyrsta sinn á
svið í Þjóðleikhúsinu, sem er alveg
magnað. Borgarleikhúsið hefur not-
ið leiklistarkrafta hennar allan
hennar feril. Hún er því að debú-
tera 51 árs á sviði Þjóðleikhússins.“
Núna þarf ég að stækka mig
Aron segir að honum hafi gengið
vel að tengja sig við persónuna sem
hann leikur, hinn unga og ástfangna
Shakespeare.
„Við eigum margt sameiginlegt,
erum báðir ástríðufullir listamenn
og stórir karakterar, blóðheitir og
miklar tilfinningaverur. Við erum
líka báðir örvhentir,“ segir Aron og
bætir við að það sé dýrmætt fyrir
hann að fá þetta stóra tækifæri.
„Ég var mjög stressaður yfir
þessu eftir að Selma hringdi í mig
og bauð mér hlutverkið. Þetta er
mjög nýtt fyrir mig, að fara af litlu
sviði og úr því að leika í kvikmynd-
um yfir í að stíga á stóra sviðið í
Þjóðleikhúsinu. Þegar maður er í
leiklistarskólanum er maður alltaf
inni í litlu svörtu boxi og maður
þarf ekkert að hafa mikið fyrir
röddinni, svo núna er það nýjast
fyrir mér að stækka mig. Þetta er
risastórt skref en rosalega gaman.
Það er líka mikil áskorun fyrir mig
að takast á við textann, því hluti
verksins er í bundnu máli.“ Selma
bætir við að það sé mikil kúnst að
fara með slíkan texta.
„Við fórum alla leið í því að fá að-
stoð við það. Ragnheiður Steindórs-
dóttir hefur mikla reynslu í slíku og
hún lærði í Bretlandi, en hún leið-
beindi og ráðlagði með hljómfall,
áherslur og annað. Kristján Þórður
Hrafnsson, sem þýddi verkið, var
líka með okkur í þeirri vinnu.“
Ég legg mikið á hann Aron
Selma segir að til sé ákveðin tón-
list sem fylgi leikverkinu, en hana
hafi langað til að gera eitthvað ann-
að.
„Mig langaði að tónlistin fengi að
standa ein og sér, eiga þannig sam-
tal við fortíðina. Ég fékk því Frikka
Dór og Jón Jónsson til liðs við okk-
ur, af því mig langaði í alþýðlega
stemningu fyrir leikhúsheiminn.
Mig langaði líka í fallegar ástar-
ballöður, en þeir bræður eru miklir
melódíusmiðir. Guðrún, eða GDRN,
sér um að syngja með sinni íðil-
fögru rödd. Hún og Matthías Stef-
ánsson, fiðlu-, gítar- og mandólín-
leikari, standa á sviðinu en eru í
eigin heimi og tímalaus. Við erum
svolítið að leika okkur með því að
tímaflakka og það er talað um það í
þessu leikverki að ástargyðjan
Afródíta sé skáldgyðjan hans
Shakespeare, hún var hans inn-
blástur. Ég hugsa GDRN sem
ástargyðjuna sem fagnar ástinni en
huggar einnig brostin hjörtu. Eng-
inn sér hana en hún sér allt og veit
allt.“
Þegar Aron er spurður hvernig
hafi verið að vinna undir stjórn
Selmu svarar hann í glettni að hann
sé skíthræddur við hana. „Selma
veit nákvæmlega hvað hún vill, sem
mér finnst gott. Hún lætur mig al-
veg vita ef ég fer aðeins út af spor-
inu, en hún kann líka að hrósa þeg-
ar maður gerir vel. Hún gerir
miklar kröfur en þetta hefur verið
gott samstarf og mjög gaman.“
Selma segist vita að hún leggi
mikið á hann. „Þetta er búið að vera
strangt ferli og ég geri mér grein
fyrir að ég hendi honum út í djúpu
laugina. En ég sagði honum strax í
byrjun að við gerðum allt til að
hjálpast að við að láta það ganga
upp.“
Ljósmynd/Saga Sig.
Ástfangin Aron í hlutverki Shakespeare og Lára Jóhanna Jónsdóttir á svölunum í hlutverki Víólu de Lesseps.
Báðir blóðheitar tilfinningaverur
Rómantíski gamanleikurinn Shakespeare verður ástfanginn frumsýndur í kvöld í Þjóðleikhúsinu
Aron Már leikur Shakespeare og segir þá eiga margt sameiginlegt, þeir séu ástríðufullir listamenn
Selma
Björnsdóttir
BORÐPLÖTUR
OG SÓLBEKKIR
• Gæðavörur úr harðplasti, akrílstein, Fenix og límtré
• Mikið úrval efna, áferða og lita
• Framleiðum eftir óskum hvers og eins
• Hentar jafnt fyrir heimili, vinnustaði og almenningssvæði
Fanntófell hefur sérhæft sig í framleiðslu á borðplötum og sólbekkjum síðan 1987.
Fanntófell ehf. | Gylfaflöt 6-8 | 112 Reykjavík | Sími 587 6688 | fanntofell.is