Morgunblaðið - 24.10.2019, Qupperneq 24
24 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 23. OKTÓBER 2019 VIÐSKIPTAMOGGINN FRAMÚRSKARANDI FYRIRTÆKI
Ú
lfar Steindórsson, forstjóri Toyota
á Íslandi, hefur heldur betur
ástæðu til að vera ánægður með ár-
angur fyrirtækisins. Eins og les-
endur muna urðu miklar sviptingar í rekstri
bílaumboðanna eftir bankahrun og árið 2011
keypti Úlfar, í félagi við Kristján Þorbergsson,
60% hlut í fyrirtækinu og tók þá strax við mik-
ið endurskipulagningar- og uppbyggingarstarf
sem borið hefur ávöxt á undanförnum árum.
Skuldastaðan hefur batnað jafnt og þétt,
reksturinn gengið vel, og Toyota núna í fyrsta
skipti komið á lista Creditinfo yfir framúrskar-
andi fyrirtæki.
Fljótlega eftir kaupin ákváðu eigendur fé-
lagsins að flytja rekstur Toyota í nýtt húsnæði,
í Kauptúni í Garðabæ. „Við eignumst meiri-
hluta í félaginu í júní 2011 og flytjum í júlí
2012, og var það svo sannarlega stór ákvörðun.
En við höfðum mikla trú á þessu frábæra vöru-
merki sem Toyota er, og væntum þess að
markaðurinn myndi færast til betra horfs,“
segir Úlfar.
Færri fermetrar og fleira starfsólk
Húsnæði Toyota í Kauptúni virðist eins og
sniðið fyrir reksturinn, en var þó upphaflega
smíðað fyrir byggingavöruverslun Byko. Þar,
eins og víða annars staðar, var ráðist í upp-
stokkun í kjölfar bankahruns og reyndist húsið
laust á hárréttum tíma. Var starfsemi Toyota
og Lexus, sem áður hafði dreifst á ellefu bygg-
ingar, loksins komin undir eitt þak. Ekki þurfti
að fækka starfsfólki og raunar var ákveðið að
bæta við starfsmannahópinn: „Með flutning-
unum eignuðumst við stórt og hagkvæmt
verkstæði með 42 lyftum, og sáum vaxtar-
tækifæri í þjónustu við þá 55.000 bíla sem frá
okkur sem eru á götunum,“ upplýsir Úlfar en
þrátt fyrir að ekki skorti plássið í Kauptúni
minnkaði húsakostur Toyota um 3.000 fer-
metra með flutningunum. „Vitaskuld þurfti að
aðlagast nýju húsi, passa vandlega upp á allan
kostnað, og saxa á skuldirnar. Við náðum hag-
stæðum samningum við eiganda byggingar-
innar sem fól í sér afslátt fyrstu árin, en félag í
okkar eigu kaupir síðan húsið árið 2017.“
Hægt og rólega rétti hagkerfið úr kútnum,
hagur almennings vænkaðist og um leið jókst
sala á bílum. Þá varð sprenging í komum
ferðamanna með tilheyrandi aukningu í eftir-
spurn eftir bílaleigubílum. „Það má segja að
nánast allt hafi gengið upp eins og við gerðum
ráð fyrir, nema að 2013 hægði ögn á taktinum.
Á vormánuðum 2015 fór salan að glæðast á ný
og hefur gengið mjög vel síðan þá. Árið 2017
stendur upp úr og hjálpaði það okkur mikið
hve vel gekk það ár – það var eitt af þessum
árum sem koma varla nema á tíu ára fresti þar
sem allt vinnur með okkur. Umsvifin minnk-
uðu árið 2018 en var samt ágætis rekstrarár.“
„Ekki fleiri leiðinlega bíla“
Hjálpaði líka til að japanski bílaframleiðand-
inn hefur verið á mikilli siglingu og bara síð-
ustu fimm árin að gerðar hafa verið vel heppn-
aðar áherslubreytingar. Toyota var löngu búið
að skapa sér það orðspor að smíða vandaða og
áreiðanlega bíla, en þegar nýr forstjóri tók við
árið 2009 vildi hann ganga skrefinu lengra.
„Akio Toyoda, barnabarnabarn stofnanda
fyrirtækisins gaf það út að án þess að slá nokk-
uð af gæðunum þá myndi Toyota líka gera bíla
sem væri gaman að horfa á og skemmtilegt að
aka. „Ekki fleiri leiðinlega bíla,“ sagði hann,“
útskýrir Úlfar og skýtur því inn að það sé
ágætis vitnisburður um ágæti þessarar stefnu
að Bandalag íslenskra bílablaðamanna skyldi
fyrr í mánuðinum velja Corollu og RAV4 sem
bestu bílana í sínum flokkum.
En hvað um orkuskiptin? Sölutölur benda til
að íslenskir neytendur séu mjög áhugasamir
um rafmagnsbíla og hafa ýmsir framleiðendur
teflt fram spennandi valkostum fyrir þann
kima markaðarins. Virðist eins og Toyota hafi
ekki sinnt rafvæðingunni af sama kappi, en
þess í stað lagt þeim mun meiri áherslu á orku-
gjafa eins og vetni.
Úlfar minnir blaðamann á að Toyota hafi
verið leiðandi í þróun bíla með tvinn-drifkerfi
(e. hybrid), og næsta víst að spennandi Toyota
rafmagnsbíll komi á markað áður en langt um
líður. „Toyota er á fleygiferð í þróun raf-
magnsbíla, en það er ekki hefð fyrir því hjá
þessum framleiðanda að vera mikið að segja
frá því sem er í undirbúningi. Toyota kemur
ekki á bílasýningar með bíla sem vonir standa
til að komi á markað eftir þrjú ár, heldur
svipta hulunni af nýjungum þegar þær eru til-
búnar og væntanlegar á markað hvað úr
hverju.“
Þá segir Úlfar að Toyota vilji standa vel að
vígi á öllum vígstöðvum, og veðji ekki á einn
orkugjafa umfram aðra. „Má heldur ekki
gleyma að markaðurinn í löndum eins og Ís-
landi, Noregi og Hollandi, þar sem sala á raf-
magnsbílum er mest, er ólíkur mörkuðum ann-
arra landa. Víða um heim er áhugi á
rafmagnsbílum mjög takmarkaður og inn-
viðum ábótavant. Fyrir svo utan að fjöldi landa
framleiðir mest eða allt sitt rafmagn með því
að brenna gas eða kol. Þá eru rafmagnsbílar,
enn sem komið er, dýrari í framleiðslu en hefð-
bundnir bensín- og dísilbílar og seljast ekki af
ráði nema á þeim stöðum þar sem bíla-
framleiðendur eða hið opinbera ýmist borga
með þeim eða veita afslætti af gjöldum.“
Neytendur aðeins of varkárir
Þó að salan gangi ágætlega þá myndu bíla-
umboðin flest vilja sjá líflegri markað fyrir
nýja bíla. Markaðurinn kólnaði töluvert í lok
sumars 2018 og hefur verið nokkuð rólegur
síðan þá. Var kólnunin, eftir mjög góða sölu
2017, rakin til óvissu á vinnumarkaði og marg-
ir sem óttuðust að kjarasamningaviðræður
myndu renna út í sandinn og verkföll lama
hagkerfið. Þá var líka óvissa um stöðu WOW
air, og talin hætta á samdrætti í ferðaþjónustu.
Þegar allt kom til alls tókst að komast hjá
meiriháttar röskunum á vinnumarkaði, og
gjaldþrot lággjaldaflugfélagsins olli ekki svo
miklum samdrætti í komum ferðamanna. Samt
tók bílasalan ekki við sér.
„Þar spilar inn í að bílaleigurnar höfðu bætt
mjög vel í flotann hjá sér 2017 og 2018 og
blasti það við að þær myndu draga úr kaupum
á bílum árið 2019. En hvað hinn almenna neyt-
anda snertir þá virðist fólk einfaldlega vera
mjög varkárt og reyna að lágmarka alla
áhættu í fjárhag heimilisins,“ segir Úlfar og
bætir við að það þurfi ekki að koma á óvart
þótt landinn sé enn töluvert hvekktur. „Ég
held að það hafi verið í kringum 70% allra
heimila sem lentu í verulegum hremmingum
vegna bankahrunsins, og stór hópur fólks sem
hefur það sem algjört forgangsatriði að lenda
aldrei aftur í þess háttar veseni.“
Úlfar segir það jákvætt að bankahrunið
virðist hafa gert landsmenn skynsamari og
varkárari, og sjáist t.d. á því að sparnaður
heimilanna fer vaxandi. Margt bendi samt til
að hjá mörgum sé varkárnin meiri en tilefni sé
til. „Ríkissjóður hefur sjaldan staðið betur,
eigna- og skuldastaða heimilanna sjaldan verið
betri, vextir sjaldan lægri, og Íslendingar með
mesta kaupmátt af öllum OECD-löndunum.
Samt er eins og neikvæðu fréttirnar verði ofan
á, og eðlilega litar það væntingar fólks sem svo
aftur hefur áhrif á markaðinn.“
Úlfar kvartar ekki og segir að til lengri tíma
litið sé gott að losna við miklar öfgar og sveifl-
ur í sölu og þó að hægt hafi á sölu nýrra bíla þá
séu umsvifin þeim mun meiri í sölu notaðra
bíla. Þá má greina merki um að farið sé að
gæta ögn meiri bjartsýni í þjóðarsálinni. „Nýj-
asta vísbendingin kemur frá formanni félags
Fasteignasala þar sem mælist aukning á milli
mánaða, og smám saman að allur almenningur
mun átta sig betur á því að landið er í nokkuð
góðum málum.“
ai@mbl.is
„Landið er í nokkuð góðum málum“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
82. sæti
TOYOTA Á
ÍSLANDI
Stórt 81. sæti
Úlfar Steindórsson
„Ég held að það hafi verið í kringum 70% allra heimila
sem lentu í verulegum hremmingum vegna banka-
hrunsins, og stór hópur fólks sem hefur það sem algjört
forgangsatriði að lenda aldrei aftur í þess háttar ves-
eni,“segir Úlfar Steindórsson um það hve hægt salan á
nýjum bílum hefur gengið undanfarin misseri.