Morgunblaðið - 31.12.2019, Side 21

Morgunblaðið - 31.12.2019, Side 21
STJÓRNMÁL 21 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 31. DESEMBER 2019 Traustir skulu hornsteinar hárra sala; í kili skal kjörviður; bóndi er bústólpi, bú er landstólpi, því skal hann virður vel. Þ annig hljómar annað erindi kvæðis Jónasar Hall- grímssonar, Alþing hið nýja, frá árinu 1840. Jónas var gjarnan kallaður listaskáldið góða og á mikil- vægan sess í menningu okkar Íslendinga. Dagur tungunnar okkar er enda á afmælisdegi skáldsins. Jónas á nú eins og fyrr mikið erindi til okkar núlifandi Íslend- inga enda var hann náttúrufræðingur og náttúruunnandi. Sveitastrákurinn úr Öxnadalnum fylgdi honum alla tíð, alla leið til Kaupmannahafnar. Það er líka einkennandi fyrir Íslendinga að vera umhugað um landið sitt og uppruna hvar sem þeir ala manninn. Jónas á líka sérstakan sess í hjarta framsóknar- manna því orðið framsókn er nýyrði skáldsins sem kom fyrst fram í þýðingu Jónasar á kennslubók í stjörnufræði. Nokkrum áratugum síðar var orðið tekið upp við stofnun nýs flokks, Framsóknarflokksins, sem er elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins. Saga flokksins er samofin sögu þjóðarinnar og hefur Framsókn komið að mörgum helstu framfara- og umbóta- málum þjóðarinnar á þeirri rúmu öld sem liðin er frá stofnun flokksins. Nú er liðinn rúmur áratugur frá því að bankakerfi Íslands hrundi. Margir eru enn brenndir af því enda fólst í þessu hruni ekki síður áfellisdómur yfir framferði íslenskra viðskiptajöfra og að mörgu leyti máttleysi kerfisins til að vernda hagsmuni al- mennings gagnvart háttsemi þeirra. Þessi áratugur hefur ein- kennst af sársaukafullu uppgjöri við þennan tíma og öllu því vantrausti og tortryggni sem hruninu fylgdi. Það tekur langan tíma að græða þau sár og lægja öldur tortryggninnar. Sú ríkis- stjórn sem nú er við völd var mynduð til að ná sátt í samfélag- inu, skapa jafnvægi og vinna að mikilvægum uppbyggingar- málum á innviðum samfélagsins. Og nú þegar kjörtímabilið er ríflega hálfnað hefur okkur miðað ágætlega. Fyrir sléttu ári höfðu margir miklar áhyggjur af þeirri hörðu kjarabaráttu sem við stóðum frammi fyrir. Undirritun Lífs- kjarasamningsins var því stórt skref í að skapa jafnvægi í sam- félaginu. Niðurstaða samningsins var mikið framfaraskref og öllum sem þar komu að til mikils sóma. Samningsaðilar sýndu að þeir gerðu sér grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem hvíldi á þeirra herðum. Niðurstaða samninganna var hófsöm og hlúði fyrst og fremst að kjörum þeirra lægst launuðu og þá ekki síst með útspili ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Því öll viljum við að fólk njóti almennilegra lífskjara á landinu okkar. Það verður einnig að taka inn í reikninginn að á Íslandi er félags- legur hreyfanleiki mikill, jafnvel einn sá mesti í heiminum. Þar skiptir góður stuðningur við námsmenn miklu máli og eitt mikilvægasta mál þingsins næstu mánuðina er frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um nýjan menntasjóð námsmanna þar sem mikilvægi menntunar fyrir þjóðfélagið allt er undirstrikað. Ég vil einnig sérstaklega nefna að skömmu fyrir jól var samþykkt frumvarp félags- og barnamálaráðherra um lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf. Stjórnmál eru mikilvægur þáttur í samfélagsgerð okkar. Það er í stjórnmálunum sem leikreglur samfélagsins eru settar. Það er í stjórnmálunum sem tónninn er sleginn og drög lögð að betra samfélagi. Það er því mikilvægt að fólk taki þátt í stjórn- málum og starfi stjórnmálaflokkanna. Þar er grundvöllurinn lagður að stefnu og sérstökum áherslumálum sem eru mismun- andi eftir flokkum. Stjórnmálin eru litrík eins og lífið sjálft þótt margir leitist við að gera þau svarthvít. Eitt er að hafa hug- sjónir og stefnu, annað hvernig unnið er að framgangi þeirra. Stjórnmál Framsóknar eru stjórnmál umbóta og sátta, ekki byltinga. Fyrir mér eiga stjórnmál að gefa fólki von, þau eiga að sameina fólk frekar en sundra. Það er líka augljóst í mínum huga að sundrungin er af hinu illa og drepur niður þær fram- farir sem samtakamátturinn kallar fram. Stærsta verkefni samtímans snýr að loftslagsmálunum. Skiptir þá engu hvort fólk talar um hamfarahlýnun, hlýnun jarðar, súrnun sjávar eða neyðarástand í loftslagsmálum: verk- efni okkar allra, ekki síst stjórnmálanna, er að taka með ábyrg- um hætti á loftslagsvandanum. Þá er verkefni stjórnmála- manna ekki hvort taka skuli á vandanum heldur hvernig það er gert. Þar er að mörgu að hyggja, ekki síst þarf að huga að því að það bitni ekki á þeim sem minna mega sín. Hagsmunir þjóð- félagsins felast í því að gæta að hagsmunum komandi kynslóða. Við sigrumst ekki á þessari ógn með því að láta hnútasvip- una dynja á bakinu eða með skattlagningu eina að vopni. Við þurfum að nýta almenna viðhorfsbreytingu til að leysa verk- efnið með hjálp vísinda og tækni. Það er verkefni einstaklinga og atvinnulífs en stjórnmálin þurfa að varða leiðina að mark- miðinu. Það er ljóst að markmiðinu verður ekki náð nema með samvinnu og sátt. Ungt fólk, í sumum tilfellum á barnsaldri, hefur leitt um- ræðuna um loftslagsmálin. Það er mikilvægt að þetta unga fólk komi með sína sterku rödd inn í stjórnmálaflokkana og láti til sín taka á þeim vettvangi. Íslensk stjórnvöld hafa lagt sig eftir því að hlusta á áhyggjuraddir unga fólksins og því er jarð- vegurinn innan flestra íslenskra stjórnmálaflokka góður fyrir þetta öfluga hugsjónafólk. Loftslagsváin er ekki eini vandinn sem við stöndum frammi fyrir. Ríkisstjórnin steig mikilvægt skref síðastliðið vor þegar því var lýst yfir að Ísland ætlaði fyrst þjóða að banna sölu og dreifingu matvæla sem innihalda tilgreindar sýklalyfjaónæmar bakteríur. Vísindamenn hafa bent á að ef ekki verði brugðist við muni fleiri deyja af völdum sýklalyfjaónæmis árið 2050 en deyja af völdum krabbameins. Aðra aðsteðjandi hættu benti Þorgrímur Þráinsson, lýð- heilsufrömuður og rithöfundur, á í pistli fyrr í vetur og það er að samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar fái fjögur af hverjum fimm börnum ekki næga daglega hreyfingu. Það er því ekki síður mikilvægt að við, hin fullorðnu, hvetjum börnin okkar til að hreyfa sig til að byggja sterkari grunn fyrir heilsu fullorðinsáranna. Fyrir skemmstu urðum við mörg fyrir áfalli þegar fárviðri gekk yfir norðanvert landið með skelfilegum afleiðingum. Of- viðrið leiddi í ljós brotalamir í kerfum okkar og þá sérstaklega hvað viðkemur raforkuöryggi. Það er verkefni næstu vikna að rannsaka hvað fór úrskeiðis og koma með tillögur að úrbótum. Framsókn hefur alla tíð lagt mikla áherslu á að tækifæri séu jöfn hvar sem fólk kýs að búa á okkar stóra landi. Þar er grundvallaratriði að samgöngu-, fjarskipta- og raforkukerfi séu öflug um allt land. Við höfum náð undraverðum og ein- stökum árangri á heimsvísu þegar kemur að útbreiðslu há- hraðanets og stórsókn í samgöngumálum er hafin. Greinilegt er að við þurfum að horfa til eflingar raforkukerfisins á sama hátt og samhliða vinna að jöfnum raforkukostnaðar – sami dreifikostnaður um allt land enda auðlindin í eigu þjóðarinnar allrar. Framsókn hefur sýnt það í störfum sínum í ríkisstjórninni að flokkurinn hugsar um hag almennings og hefur hugrekki og kraft til að leysa erfið verkefni. Íbúar höfuðborgarsvæðisins munu finna fyrir því þegar ráðist verður í framkvæmd sam- göngusáttmálans en með gerð hans var áratuga frost í sam- skiptum ríkisins og sveitarfélaganna úr sögunni. Því eins og saga Íslands á lýðveldistímanum kennir okkur þá er sam- vinnan lykillinn að því að bæta samfélagið. Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs árs. Ég hlakka til að vinna áfram að umbótamálum með sterkri og framsýnni ríkis- stjórn. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins Morgunblaðið/Árni Sæberg Samvinnan er lykill að framförum Stjórnmál Framsóknar eru stjórnmál umbóta og sátta, ekki byltinga. Fyrir mér eiga stjórnmál að gefa fólki von, þau eiga að sameina fólk frekar en sundra.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.