Morgunblaðið - 31.12.2019, Síða 25
STJÓRNMÁL 25
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 31. DESEMBER 2019
Ö
ðrum áratug 21. aldar er að ljúka (samkvæmt al-
mennu skilgreiningunni, ekki þeirri stærðfræði-
legu). Á heimsvísu var áratugurinn líklega sá besti
í mannkynssögunni. Velferð hefur aldrei verið
eins almenn. Sárafátækt hefur aldrei verið eins lít-
il á heimsvísu. Hlutfallið er nú komið undir 10% en var milli 70
og 80% um miðja 20. öld. Heilbrigðisþjónusta hefur batnað víð-
ast hvar, sjúkdómum sem áður leiddu milljónir manna til dauða
hefur verið útrýmt og hungursneyð er fátíð. Dregið hefur úr
stríðsátökum, aldrei hafa jafnmargir getað nýtt sér fjarskipti
og samgöngur, mengun hefur minnkað til muna í þróuðum ríkj-
um, það þarf minna af auðlindum fyrir fleira fólk og hlutfall
skóglendis eykst á heimsvísu. Þannig mætti lengi telja.
Annað mætti þó ætla af umræðu undanfarinna missera.
Halda mætti að eftir margar góðar aldir væri heimurinn nú á
heljarþröm. Sumu „nútímafólki“ þykir jafnvel óviðeigandi að
benda á það jákvæða. Þá er spurt „hvað með Amasonfrum-
skóginn, alþjóða fjármálakerfið, stöðu mannréttinda og stríðin í
Jemen og Sýrlandi“. Allt eru þetta mikil áhyggjuefni. Vegna
borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi er mannfall í stríði nú meira
en það var á fyrsta áratug aldarinnar (þegar það náði lág-
marki). Það breytir þó ekki því að þegar litið er á heimsmynd-
ina í heild hefur staðan sjaldan eða aldrei verið eins góð.
Er stefnt að lausnum eða vandamálum?
Of margir líta hins vegar iðulega fram hjá heildarmyndinni
og langtímaáhrifum. Þeir virðast telja að ef einhver bendi á
eitthvað gott sé viðkomandi þar með að halda því fram að allt
sé gott. Þeir hinir sömu leita gjarnan að hinu neikvæða og telja
það svo til marks um að allt sé slæmt. Það að líta hvorki á
heildarmynd né langtímaáhrif er meðal helstu pólitísku vanda-
mála samtímans. Svo kölluð ímyndar- eða sýndarstjórnmál
byggjast enda á vandamálum en ekki lausnum. Þeim mun meiri
sem vandinn er, þeim mun meiri er upphefðin af því að sýnast
takast á við hann. Vandamálið verður þannig styrkleiki en
lausnir og árangur draga úr þeim styrkleika.
Eftir einstaka framfarasögu vestrænnar menningar í 2-3.000
ár höfum við betri tækifæri en nokkru sinni áður til að gera enn
betur. Helsta ógnin sem við stöndum frammi fyrir er sú að vik-
ið verði frá því sem best hefur reynst, því sem þróaðist á
löngum tíma og lagði grunninn að árangrinum.
Ef til vill eru vestræn samfélög orðin fórnarlömb eigin ár-
angurs. Of margir eru farnir að líta á allt hið góða sem sjálf-
gefna hluti. Hin nýja ímyndarpólitík gerir ekki bara lítið úr
grunngildum samfélagsins heldur lítur jafnvel á það sem mark-
mið að brjóta þau niður. Í fyrsta skipti um margra alda skeið
standa Vesturlönd nú frammi fyrir því að áhrifaöfl berjist með-
vitað fyrir því að undið verði ofan af árangri og framþróun fyrri
kynslóða. Samfélagslegum, efnahagslegum og jafnvel vísinda-
legum árangri.
Dómsdagsspár og öfgar
Grunnstoðir vestrænna samfélaga eiga í vök að verjast.
Óvíða sjást þó áhrif hinna nýju stjórnmála eins glögglega og í
umhverfismálunum. Þar birtist bókstafstrúarsöfnuðurinn í
sinni skýrustu mynd. Ein ófrávíkjanleg (en um leið þversagna-
kennd) stefna, efasemdir og spurningar bannaðar að viðlagðri
útskúfun, sýndaraðgerðir, óskeikulir æðstuprestar og yfirvof-
andi heimsendir vegna hegðunar hinna syndugu.
Áhrifamiklir hópar tala raunverulega um að það séu 11 ár í
dómsdag. Kröfur um aðgerðir miðast við að mannkynið þurfi
að hætta nettó losun kolefnis fyrir árið 2025 eða farast ella.
Hvorki er þó útskýrt hvernig það sé framkvæmanlegt né hverj-
ar afleiðingarnar yrðu.
Aftur til fortíðar
Frá aldamótum hefur losun Evrópulanda og Bandaríkjanna
minnkað. Á 15 árum hefur þó eitt ríki, Kína, farið úr því að losa
minna kolefni en Evrópusambandslöndin í að losa meira en
Bandaríkin og Evrópa til samans.
Það að koma nettólosun niður í 0 fyrir 2025 er algjörlega
óraunhæft en bara það að reyna það myndi leiða til langmestu
manngerðu kreppu sögunnar. Hún yrði margfalt verri en
heimskreppa fjórða áratugarins og myndi leiða til gríðar-
mikillar og langvarandi fátæktar um allan heim.
Jafnvel fólk sem gerir sér grein fyrir því að markmiðið um
2025 sé óraunhæft talar fyrir aðgerðum sem fela í sér aftur-
hvarf til fortíðar. Aðgerðum sem myndu leiða til lífskjaraskerð-
ingar allra en einkum þeirra tekjulægri. Það talar í raun fyrir
heimi þar sem aðeins þeir best settu hefðu efni á að reka eigin
bíl eða ferðast til útlanda. Aðgerðirnar byggjast annars vegar á
bönnum og refsingum í formi nýrra og síhækkandi gjalda og
hins vegar á sýndarmennsku.
Skaðleg boð og bönn
Með hjálp tækni og vísinda hefur náðst ótrúlegur árangur
við að draga úr mengun og öðrum hættum. En í stað rökræðu
sem skapað gæti raunverulegar lausnir fara æðstuklerkar
loftslagsumræðunnar fram á á skilyrðislausra fylgispekt við
bókstafstrúna, sem þó er oft þversagnakennd.
Nú er talað fyrir ýmiss konar refsingum, boðum og bönnum í
nafni umhverfisverndar. Undir lok árs hækkaði ríkisstjórnin
ýmsa refsiskatta og fann upp nýja. En þau eru rétt að byrja.
Þótt plastmengun í hafi komi nánast öll úr tíu fljótum í Asíu og
Afríku ætlar ríkisstjórn Íslands að grípa til sinna ráða. Um-
hverfisráðherrann hyggst banna hinar ýmsu plastvörur, poka,
sogrör, hnífapör, diska, eyrnapinna o.fl. Aðrar plastvörur verða
leyfðar um sinn en sett á þær refsigjöld.
Það er auðvitað ekki gott ef einhverjir stunda það að halda
grillveislur við strendur landsins, kveikja í kolum og losa þann-
ig koltvísýring, borða með plasthnífapörum af plastdiskum,
sjúga gos (sem inniheldur koltvísýring) með plaströri, bursta
svo tennurnar með plasttannbursta, þrífa á sér eyrun og henda
loks öllu draslinu í sjóinn. En ef þetta er raunin, væri þá ekki
best að byrja á því að hvetja fólk til að láta af þessari iðju og
ganga vel um náttúruna?
Þversagnir
Eins og jafnan í ímyndarpólitíkinni er öllu snúið á haus. Þeir
hinir sömu og lengst ganga í sýndarmennskunni virðast t.d. líta
á íslenskan landbúnað sem vandamál frekar en lausn og telja
rétt að þrengja enn að greininni og flytja matvælin langt að frá
erlendum verksmiðjubúum.
Þeir sem tala fyrir hinum nýju boðum og bönnum eru líka oft
(en ekki alltaf) þeir sömu og þykjast frjálslyndir með því að
tala fyrir lögleiðingu þeirra hluta sem gild ástæða hefur verið
til að banna, t.d. fíkniefna.
Ætli gæti komið að því að einhver verði tekinn fyrir innflutn-
ing fíkniefna og sektaður, ekki fyrir fíkniefnin heldur fyrir að
flytja þau inn í plastpokum?
Ég sé fyrir mér sjónvarpsfréttina: „Pokarnir voru úr plast-
efninu polyethylene terephthalate en það tekur 500 ár fyrir
slíkt plast að brotna niður í náttúrunni. Pokarnir voru faldir í
kassa utan af Legokubbum. Nú er unnið að því í samstarfi við
hollensku lögregluna að rannsaka hvað varð um kubbana.“
Að komast hjá rökræðu
Markmið ímyndarstjórnmálanna er yfirleitt ekki að efna til
umræðu um bestu lausnirnar heldur að boða óraunhæf áform
gagnrýnislaust. Í því efni svífast menn einskis og beita jafnvel
fyrir sig börnum. Þannig má komast hjá gagnrýni.
Öllum sem fylgdust með ræðu Grétu Thunberg á allsherjar-
þingi Sameinuðu þjóðanna mátti vera ljóst að þar talaði barn
sem leið hræðilega illa. En þegar hún var búin að segja að hún
hefði verið rænd æsku sinni og draumum og spurði hvernig
fólkið í salnum dirfðist að koma til unga fólksins í leit að von
klappaði salurinn.
Þegar hún hafði útskýrt að fólk og heilu vistkerfin væru að
deyja vegna sinnuleysis fundargesta og að við stæðum á barmi
fjöldaútrýmingar lífs var klappað enn meira.
Loks sagði hún að það væri „vinsæl hugmynd“ að ef losun
minnkaði um helming á 10 árum ættum við helmingslíkur á að
lifa af. Að hennar mati væru það ekki ásættanlegar líkur auk
þess sem þetta væru í raun bara 8½ ár og þá ætti samt eftir að
taka tillit til ýmissa atriða. Eftir nokkur orð í viðbót um að svik
fundarmanna yrðu ekki fyrirgefin náðu fagnaðarlætin há-
marki.
Hvernig má það vera að það þyki nú eðlilegt að fara svona
með börn? Sannfæra þau um að heimurinn sé við það að farast
og telja þeim um leið trú um að það sé hlutverk þeirra að koma
í veg fyrir útrýmingu mannkyns? Fram að þessu hefur fólk
gert sér grein fyrir því að það er hlutverk fullorðinna að fræða
börn og vernda en ekki öfugt.
Um leið og slíkum aðferðum er beitt til að stuðla að óhemju-
dýrum og algjörlega óraunhæfum aðgerðum (og jafnvel skað-
legum) í umhverfismálum eru tækifærin sem nú gefast til að
leysa önnur alvarleg vandamál vanrækt.
Byggjum á árangri fyrri kynslóða
Við höfum nú tækifæri til að halda áfram að draga úr fátækt
í heiminum, takast á við sjúkdóma af meiri krafti en nokkru
sinni fyrr, tryggja öllum börnum bólusetningu og menntun,
veita öllum heimsbúum aðgang að nauðsynlegri grunnþjónustu
eins og hreinu vatni og um leið að vinna á fátækt og öðrum
samfélagsvanda á Vesturlöndum.
Nýtum tækifærin sem fyrri kynslóðir hafa veitt okkur,
byggjum á árangrinum sem hefur náðst og höldum framfara-
sókninni áfram. Köstum ekki árangrinum á glæ á altari órök-
réttrar og skaðlegrar hugmyndafræði. Takist okkur það verður
nýi áratugurinn enn betri en sá sem er að ljúka.
Á heildina litið.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Áramót eru í nánd
en heimsendir ekki
Helsta ógnin sem við stöndum frammi fyrir er
sú að vikið verði frá því sem best hefur reynst,
því sem þróaðist á löngum tíma og lagði
grunninn að árangrinum.