Hugur og hönd - 01.06.1974, Qupperneq 28
Feitiselurinn var svo soðinn og ýmist borðaður þannig
eða bræddur í lýsi. Ef hann var notaður óbræddur, þá
var hann einkum hafður með selkjötinu, svo og fiski eða
brauði. Einn mann sá ég borða feitasel með kaffi. Þótti
honum fitan mjög góð, en gerði þetta þó að ég held, til
þess að ganga frain af öðrum. Annars fannst mörgum,
sem vöndust því að borða sel, að fitan væri þá fyrst
orðin góð, þegar hún var græn í gegn af saltinu. Sérstak-
lega þótti hún góð, ef hún var soðin í baunum. Yar hún
þá látin koma í stað saltkjötsins, sem venjulega er notað.
Lýsið var haft með fiski, einkum saltfiski. Svo var
steikt úr því brauð, bæði úr rúgmjöli og hveiti. Þegar
rúgmjöl var haft í brauðið, voru búnar til hringlaga kökur,
líkar flatbrauði að gerð. Voru kökur þessar nefndar
„lýsisbrauð“.
En þegar hveitið var notað, þá var brauðið úr því
kallað „lýsispartar“. Voru þeir af líkri gerð og kleinur,
nema ekki mátti „snúa upp á“ þá.
Einnig varð að gæta þess að efnið í deiginu væri lakara
að gæðum en kleinudeig, til þess að partarnir yrðu eins
góðir og til var ætlast.
Til gamans um það, hversu sumum þótti partarnir
góðir, er það, að pósturinn, sem fór um mína sveit viku-
lega, fyrir nokkrum árum, var vanur að segja við konu
mína, þegar hann kom til okkar, eftir að selveiðin var
byrjuð að vorinu, en ekki partar á borðum: „Áttu nú
ekki parta, Ingibjörg?“
Væru hinsvegar partar með á borðinu, sagði hann venju-
lega: „Þeir eru góðir hjá þér partarnir, Ingibjörg.“
Hér að framan hefi ég reynt að greina frá því helzta í
sambandi við nýtingu selaafurða. Farið er fljótt yfir sögu
og aðeins drepið á þau vinnubrögð og þær venjur, sem í
gildi voru í upphpafi og endi þess 100 ára tímabils, sem
hér um ræðir. Eða frá 1870—1970.
Einnig er þetta aðeins tengt einum ákveðnum stað, þ.e.
Húsey á Fljótsdalshéraði. Fyrstu heimildir eru frá föður
mínum heitnum og eldri hálfsystkinum, en allt hið síðara
það sem við hjónin og börn okkar höfum staðið að.
Gegnum árin hefur sama stefnan verið ríkjandi, þ. e.
að hagnýta alla þessa hluti eftir beztu getu. En til þess
að svo mætti verða hefur bæði „hugur“ og „hönd“ þurft
að koma til. Sig. Halldórsson, Húsey.
28
HUGUR OG HÖND