Hugur og hönd - 01.06.1984, Side 27
aldar hið elsta og fram að því ári. Að reflinum og andlits-
myndinni frátöldum, eru refilsaumsklæðin með helgimynd-
um, og eru á þremur raunar raktir atburðir úr ævum helgra
manna.
Á sýningu Heimilisiðnaðarfélags íslands í Tromsö í Nor-
egi sumarið 1980, þar sem áhersla var lögð á að kynna ref-
ilsaum og augnsaum, var ljósmynd í eðlilegri stærð og litum
af refilsaumuðu altarisklæði frá Draflastöðum í Fnjóskadal
(1. mynd), en klæðið er varðveitt í Þjóðminjasafni íslands.
Klæðið ma tímasetja til 2. fjórðungs 16. aldar, meðal
annars vegna þess að trérista prentuð í París 1519 í
bænabók sem notuð var hér á landi, mun hafa verið höfð
sem fyrirmynd, beint eða óbeint, að miðmynd klæðisins:
Maríu mey með Jesúbarnið í hásæti milli tveggja engla.
Vera kann að klæðið hafi verið unnið af eða undir hand-
leiðslu Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns biskups Ara-
sonar, og að tilefnið hafi verið vígsla Jóns biskups á nýrri
kirkjubyggingu á Draflastöðum 1538. Á klæðinu eru að
öðru leyti myndir ýmissa dýrlinga. Það er úr hvítleitu hör-
lérefti, allt þakið útsaumi. Fletir, stórir og smáir, eru saum-
aðir með refilsaumi, en útlínur að mestu með steypilykkju.
Útsaumsgarnið er að langmestu leyti íslenskt ullarband, og
má greina af því níu liti, en auk þess hefur língarn, hvítt og
á stöku stað blátt, verið notað.
í refilsaumsverkum eru aðalútlínur ávallt saumaðar
fyrst, ýmist með varplegg, lögðum þræði, blómstursaums-
spori eða steypilykkju (8. mynd 1-4). Refilsaumurinn
sjálfur, sem fyllir út fleti munstursins eða grunnsins, eða,
sem oftast er, bæði munsturs og grunns, er þannig unninn
að saumuð eru undirspor, oft úr grófgerðu garni (8. mynd
5). Síðan eru löng yfirspor, venjulega úr fíngerðara garni,
saumuð þvert yfir undirsporin með nokkru millibili og þau
saumuð niður, oftast eftir hvert spor, með litlum, mis-
þéttum þversporum (8. mynd 6). í lokin eru saumaðar
aukaútlínur eða útlínur til frekari áherslu, þar sem um þær
er að ræða.
Stærsta refilsaumaða altarisklæðið sem varðveist hefur
var fyrir altari dómkirkjunnar á Hólum í Hjaltadal þar til
það var sent Þjóðminjasafni íslands árið 1897 (2. mynd).
Eins og fram kemur í latneskri áletrun efst á klæðinu eru á
því myndir af íslensku dýrlingunum þremur úr kaþólskum
sið, Hólabiskupunum Guðmundi góða Arasyni og Jóni
helga Ögmundssyni, og Skálholtsbiskupi Þorláki helga Þór-
hallssyni, og enn fremur af tveimur englum er sveifla reyk-
elsiskerum. Klæðið er úr hvítleitu hörlérefti og saumað í
það með svipuðu ullarbandi og língarni í líkum litum og í
klæðið frá Draflastöðum. Auk þess hefur gyllt málmgarn
verið notað í áhersluútlínur. Eru þær lagðar, en aðrar út-
línur eru saumaðar með varplegg. Altarisklæðið frá Hólum
mun, eins og Draflastaðaklæðið, vera frá öðrum fjórðungi
16. aldar og trúlega frá sama stað, jafnvel frá sömu hendi.
Andlitsmyndin sem fyrr var nefnd og vera mun frá um
1650, er af Þorláki Skúlasyni Hólabiskupi, og eiga Elín
dóttir hans og ensk kennslukona hennar að hafa saumað
hana (sjá mynd á bls. 7 í Hugur og hönd 1972). Hún er
unnin með ullarbandi og svolitlu af silkigarni og málmgarni
í hvítt hörléreft með refilsaumi að verulegu leyti, þótt aðrar
saumgerðir hafi verið hafðar með. Má heita að andlitsmynd
þessi sé einsdæmi í gömlum íslenskum útsaumi, en ytra,
einkum á Bretlandseyjum, tíðkaðist þó nokkuð að sauma
mannamyndir á 17. öld.
Eins og fyrr er getið er yngsta hefðbundna refilsaums-
verkið, sem varðveist hefur, hökulkross merktur ártalinu
1677. Eftir það og fram á fyrri hluta 20. aldarinnar er ekki
að sjá að saumgerð þessi hafi verið notuð hér á landi. Á ár-
unum 1920 til 1930 eða þar um bil var saumgerðin tekin upp
að nýju, en þó í nokkuð breyttri mynd. Munstrin sem þá
voru notuð voru með böndum og brugðningum og undir-
þræðir refilsaumsins látnir fylgja brugðningunum eftir. Þá
hafði einnig gamla heiti saumgerðarinnar glatast, eða öllu
heldur færst yfir á aðra saumgerð, en saumnum verið gefið
nýtt nafn, forníslenskur saumur. Síðan kom upprunalega
merking orðsins refilsaumur í ljós og birtist á prenti 1941.
Útsaumsverk með forníslenskum saumi af ofannefndri
gerð munu flest vera frá árunum 1930 til 1940 að því er næst
verður komist.
Glitsaumur
Rúmtjöld, eða rekkjureflar eins og þeir eru nú oftast
nefndir, unnir með þræddum saumi í hvítt hörléreft. ein-
kenna mjög íslenskar hannyrðir eftir siðaskiptin, nánar til
tekið frá 17. og 18. öld (3. mynd). í Þjóðminjasafni íslands
eru varðveittir þrettán slíkir reflar og hlutar af tveimur, en
vitað er um sex í söfnum erlendis. Sautján reflanna, ásamt
einu altarisklæði frá líkum tíma, eru aðallega með þeirri
gerð saumsins sem nú er nefnd glitsaumur, en henni
bregður einnig fyrir sem aukaspori á tveimur altarisklæðum
frá síðmiðöldum. Þess má geta að til er önnur-og sennilega
eldri - gerð af þræddum saumi, sem einnig var nefndur glit-
saumur, en þó stundum skakkaglit til aðgreiningar. Verða
henni ekki gerð skil hér.
Glitsaumur- er unninn eftir reitamunstrum meðal annars
þannig að fyrir hvern munsturreit eru þrædd fjögur sam-
hliða spor fram og aftur yfir fjóra þræði í grunnefninu (8.
mynd 7). Hann er þó einnig saumaður með þrennu móti
öðru, þannig að þrædd eru fjögur spor yfir þrjá þræði, þrjú
spor yfir fjóra þræði og þrjú spor yfir þrjá þræði fyrir hvern
munsturreit. Getur lögun munsturreitanna því orðið
talsvert mismunandi, en hún fer að sjálfsögðu einnig eftir
því hvort grunnefnið er jafnþráða eða misþráða. Ávallt er
einn þráður efnisins hafður milli sporaraða og einn þráður
milli spora í hverjum reit.
Glitsaumuðu rekkjureflarnir eru um 50 til 85 cm á breidd
og 3,5 til 4 m að lengd. Eru munstrin á þeim oftast nær raðir
HUGUR OG HÖND
27