Feykir


Feykir - 25.04.2018, Blaðsíða 4

Feykir - 25.04.2018, Blaðsíða 4
AÐSENT : Álfhildur Leifsdóttir skrifar Litlar breytingar geta breytt miklu fyrir marga Eftir tíu ára fjarveru og tvær háskólagráður flutti ég aftur á heimaslóðir í Skagafirði árið 2007. Ég var efins í fyrstu, hélt að hér væri lítið að gerast og ætlaði að stoppa stutt. Annað kom á daginn, hér er ég enn, horfi á börnin mín blómstra í námi, íþróttum og tómstundum og er sjálf í frábæru starfi á góðum og framsæknum vinnustað, Árskóla. En sem einstæð þriggja barna móðir veit ég hvað kostar að reka fjölskyldu í sveitarfélaginu Skagafirði. Hækkanir á leikskólagjöldum og skólamáltíðum skipta sveitafélagið kannski ekki miklu máli í stóra samhenginu, en þessar hækkanir koma sannarlega við fjöl- skyldufólk. Almennt gjald fyrir átta tíma vistun er 11.415 krónum dýrara á mánuði hér en í Reykjavík. Einstæðir, öryrkjar og námsmenn greiða 12.741 krónu meira á mánuði fyrir sömu vistun í okkar sveitarfélagi en í Reykjavík. Ég veit ekki með aðra, en mig munar um þessar tæpu 153.000 krónur á ári. Framsókn lofaði fjöl- skylduvænu samfélagi fyrir síðustu kosningar en meirihlutinn hækkaði leikskólagjöld tvisvar á kjörtímabilinu. Nú eru hér einna dýrustu leik- skólagjöld landsins og fá einstæðir foreldrar, ör- yrkjar og nemar hlutfalls- lega lægri afslátt af vist- unargjöldum en víða annarsstaðar. Aðkeyptar skólamáltíðir hafa einnig hækkað og væri ákjósanlegt að nýta eldhús í Árskóla og Ársölum til þess að elda hollar máltíðir fyrir börnin okkar á staðnum, eins og gert er í hinum grunnskólum og leikskólum Skagafjarðar. Hvatapeningar til niðurgreiðslu tónlistar, íþrótta og annarra tómstunda eru frábært framtak en þeir hafa ekki hækkað frá því þeir voru settir á árið 2007. Sambærilegir tómstundastyrkir eru allt upp í 60.000 krónur í öðrum sveitarfélögum en 8.000 krónur hér. Á tímum leikjatölva og snjalltækja hefur aldrei verið meiri ástæða til að hvetja börn til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Það er mikilvægt að öll börn hafi jöfn tækifæri til þeirrar iðkunar óháð fjárhagsstöðu heimila, því þarf að hækka hvatapeninga verulega og tryggja fjölbreytt val afþreyingar. Ekki einungis er íþróttaiðkun ein besta forvörnin, heldur er fátt sem þjappar samfélaginu saman líkt og íþróttirnar gera. Það geta allir sameinast um að halda með sínu liði og er stemmingin í Síkinu að undanförnu sönnun þess. Talsvert vantar upp á að skólahúsnæði allra grunnskólanna í héraðinu sé viðunandi. Fáir vinnustaðir myndu sætta sig við þá vinnuaðstöðu sem börnunum okkar er boðið í Grunnskólanum austan Vatna, í Varmahlíðarskóla og í A-álmu Árskóla. Um leið þarf að bæta starfsumhverfi kennara t.d. með meiri sérfræði- þjónustu. Enginn náms- og starfsráð- gjafi er starfandi í héraðinu og bið er eftir tímum hjá sálmeðferðaraðila. Skortur á slíkri þjónustu bæði eykur álag á kennara og bitnar á þeim börnum sem þurfa sannarlega á þessari þjónustu að halda. Síðast en ekki síst þá þarf að leysa leikskóla- og dagvistunarúrræði sem fyrst í héraðinu öllu og er mikilvægt að vinna að lausnum á slíkum málum í samvinnu við íbúa. Ég býð fram krafta mína til að vinna af raunsæi að því að gera sveitarfélagið okkar eftirsóknarverðara með góðri grunnþjónustu og traustu samfélagi. Það er hægt með því að breyta mörgum litlum hlutum sem breyta miklu fyrir marga. Álfhildur Leifsdóttir Höfundur skipar 2. sæti VG og óháðra I N M E M O R I A M Erla Hafsteinsdóttir, húsfreyja á Gili í Svartárdal, lést á Landspítalanum 8. apríl. Erla var af húnvetnsku bergi brotin, fædd og uppalin á Gunnarsstöðum í Langadal, dóttir hjónanna Hafsteins Péturssonar og Guðrúnar Ingibjargar Björnsdóttur, sem þar gerðu garðinn frægan um langt árabil. Hafsteinn á Gunnarsstöðum, faðir Erlu, var gildur bóndi og kunnur félagsmálamaður í sinni sveit og lét sig framfaramál sveitar og héraðs jafnan miklu skipta. Erla var fjórða í röð sex systkina, en nú er aðeins eitt á lífi, Stefán, búsettur á Blönduósi. Erla giftist Friðriki Björnssyni frá Valabjörgum í Skörðum árið 1958. Settu þau saman bú á Gili, eignarjörð Friðriks, og bjuggu þar allan sinn búskap mjög farsælu búi, lengst af með sauðfé og hross. Friðrik var bóndi af lífi og sál, farsæll og gætinn, og söngmaður góður og lagði því starfi ómælt lið í Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps. Þau eignuðust fimm börn, sem haslað hafa sér völl á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Erla var búkona mikil og félags- málamanneskja og tók virkan þátt í málefnum sinnar sveitar, átti lengi sæti í sveitarstjórn Bólstaðarhlíðar- hrepps og fyrsta konan til að gegna embætti oddvita þar, einnig fjall- skilastjóri og í stjórn Upprekstrarfélags Eyvindarstaðarheiðar. Ætíð mikilvirk í kvenfélagi sveitarinnar. Naut hvar- vetna trausts í starfi, glögg og tillögu- góð. Kynni mín af fjölskyldunni á Gili hófust sumarið 1981, er ég kom prestur í Bólstað og gerðist nágranni þeirra næstu tvö árin. Gott var að eiga þau sem nágranna og greiðvikni og hjálpsemi ætíð til reiðu, ef eftir því var leitað. Þess nutum við, t.d. þegar þurfti að slá og binda heyið af stórri lóðinni á Bólstað, eða með hvað annað. Gestkvæmt var á Gili og öllum, sem að garði bar, tekið af einstakri hlýju og rausn, hvernig sem á stóð. Þar var alltaf nægur tími til að spjalla. Þar áttu þau hjó bæði ómældan hlut að máli. Góðs er að minnast frá árunum liðnu og mörgu góðu og glaðværu spjalli við eldhúsborðið á Gili, þar sem margt bar á góma og málin rædd. Haustið 1983 fluttum við fjöl- skyldan frá Bólstað og yfir Vatns- skarðið að Mælifelli. Eftir það urðu samskiptin nokkuð strjálli. Alltaf var þó gott að koma við á Gili og eiga þar uppbyggilegar stundir og gott spjall. Friðrik lést í ársbyrjun 2007 og eftir það bjó Erla ein með dyggilegri aðstoð Sigþrúðar, dóttur sinnar, húsfreyju á Bergsstöðum, og fjöl- skyldu hennar. Börnin öll voru hennar stoð og styrkur, enda sam- heldnin mikil í fjölskyldunni, að ógleymdum bróðurnum, Stefáni, sem þar var nánast daglegur gestur. Þótt heilsa Erlu væri nokkuð lakari síðustu árin, var áhuginn ætíð hinn sami, hvenær sem fundum bar saman, áhugi á málefnum lands og lýðs og framtíð sveitanna, sem hún bar alla tíð mjög fyrir brjósti. Hún var landsbyggðamanneskja í orði og verki. Sem að líkum lætur, var hún misjafnlega sátt við það, sem þar var að gerast, var manneskja nægjusemi, heiðarleika og samhjálpar. En glað- værri lund í sinni og áhuga á mál- efnum samfélagsins hélt hún til hinstu stundar. Þess er gott að minnast nú við leiðarlok. Útför Erlu fór fram frá Blöndu- ósskirkju 14. apríl að viðstöddu fjölmenni, en jarðsett í heimagrafreit á Gunnarsstöðum við hlið manns hennar og annarra skyldmenna. Þar hvíla þau nú hlið við hlið hjónin frá Gili. En björt minning lifir í hugum okkar, sem þeim kynntust. Ég þakka Erlu Hafsteinsdóttur lærdómsríka samfylgd og bið börnum hennar, fjölskyldu þeirra og öðrum ástvinum blessunar Guðs. Hvíl hún í friði. Ólafur Hallgrímsson. Rúnar Kristjánsson Hugsað til Leirulækjar- Fúsa Fúsi bjó á Leirulæk, lék sér þar að bögum. Hans var sálin hrekkjaspræk, hermt er það í sögum. Hann var ekki maður meyr, mörgum ægði sálum. Beitti hvössum bragar geir, bauð ei frið í málum. Naumur hvergi á níð var hann, nýtti hugsun fleyga. Almælt var að við þann mann væri slæmt að eiga. Markviss löngum máls á leið magnað fékk hann drætti. Gat því allt sitt æviskeið ort með sínum hætti. Ekki gleymist gaurinn enn, glöggt við til hans þekkjum. Það hafa frekar fáir menn farið lengra í hrekkjum! Erla Hafsteinsdóttir Gili 4 16/2018

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.