Bændablaðið - 20.10.2016, Side 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 20. október 2016
Von frá Ártúnum er folald
sumarsins 2016
HROSS&HESTAMENNSKA Guðrún Hulda Pálsdóttir
gudrun.hulda.palsdottir@gmail.com
Þegar Bændablaðið efndi til þessa
leiks, að útnefna folald sumarsins,
var það gert til þess að vekja menn
til umhugsunar um sérstöðu fol-
aldanna og reyna að vekja áhuga á
folöldum almennt, ekki síst áhuga
ungmenna. Folöld eru fallegar
skepnur og oft svo miklu meira
en það. Sum folöld fá þó litla sem
enga athygli fyrr en eftir dúk og
disk, einkum ef þau fæðast og alast
upp í stórum stóðum sem eru tak-
markað undir eftirliti manna.
Von okkar var sú að börn og ung-
lingar til sjávar og sveita sem eiga
hross eða þar sem hross eru hluti til-
verunnar tækju þátt í þessum leik, en
það varð ekki. Allar tilnefningarnar
komu frá fullorðnum. En þær eru
ekki verri fyrir það. Vissulega var
það vonin að þátttaka yrði töluverð í
tilnefningum svo úr margbreytileika
væri að moða þegar kæmi að tilnefn-
ingu. Jafnvel að hægt væri að segja
fleiri en eina folaldssögu í afrakstrin-
um.
Núna bárust hins vegar aðeins
4 tilnefningar en allar eru þær á
einhvern hátt áhugaverðar. Hér
verður birt frásagan sem fylgdi til-
nefningu þess folalds sem nú hefur
verið útnefnt, Vonar frá Ártúnum á
Rangárvöllum. Sú frásögn er afar
sérstök og í raun er þetta mögnuð
saga, sem vissulega á erindi á prent.
Auk þess fylgja þessari merkilegu
ævisögu, þó enn sé hún aðeins
nokkir mánuðir, fágæt litareinkenni,
sem ein og sér eru stórlega áhuga-
verð. Útnefningin að þessu sinni er
rökstudd með þrennu, merkilegri
ævisögu Vonar, vitsmunum hennar
og litareinkennum, sem eru sjaldgæf
í íslenska hrossastofninum. Vonandi
stendur Von undir vonum í fram-
tíðinni.
Áætlað er að birta myndir af
hinum folöldunum sem voru tilnefnd
í einhverju af næstu tölublöðum, ef
pláss leyfir. Þau eru falleg og eiga
vonandi fyrir sér frægð og frama
þótt það felist ekki í útnefningunni
í þessu tilviki.
Páll Imsland
Ég tilnefni hér folald sumarsins,
hana Von, sagði Halla Bjarnadóttir
í greinargerð um tilnefninguna.
„Von okkar fæddist hér í Ártúnum
á Rangárvöllum seinnipartinn í maí.
Hún á sér skemmtilega sögu, og er
mjög óvenjuleg á lit.
Í vor fannst Von nýlega komin
í heiminn, slöpp, móðurlaus og
ringluð. Henni var komið heim á
bæ og komum við henni á spena hjá
einni af mjólkurkúnum á meðan leit
hófst að móðurinni. En engin hryssa
fannst folaldslaus, og engrar hrys-
su var saknað, og því varð Von að
heimalningi hjá okkur. Hún hefur
verið heima við bæ, valsað um með
mjólkurkúnum og gengið í fóðurbæti
hjá kálfum. Hún hefur líka unnið
hug okkar og hjörtu með gæsku og
dugnaði.“
Hjálmskjótt og ljósmóálótt
„Von er hjálmskjótt og ljósmóálótt
vindótt, glaseyg með alhvítt höfuð,
sokka á öllum fjórum og hvítan blett
undir kvið. Búkurinn er ljósmóál-
óttur, og faxið hvítt. En hún er svo
ljós að það ekki auðvelt að greina
hjálmótta mynstrið, eins og sjá má
á myndum.
Von var fljót að átta sig á takti
tímans hér á bæ, og því að við förum
alltaf í fjósið klukkan sjö á morgn-
ana. Hún var ekki sein að taka upp
á því að stilla sér fyrir neðan glugga
á húsinu og láta í sér heyra svona
korter í sjö, og sá þar með til þess
að heimilismeðlimir svæfu nú ekki
yfir sig.
Þegar Von var enn lítil og ekki
enn orðin mjög hraðskreið fór
heimasæta á bænum út með hana
að skokka. Fyrst um sinn fylgdi Von í
fótspor stöllu sinnar, en með auknum
krafti og þroska fóru þær að skoppa
um hlið við hlið. Svo er hún ákaflega
mannelsk og félagslynd, fylgir okkur
í hvaða verk sem er. Vinnukonurnar
höfðu góðan félagsskap af henni í
heyskapnum við að binda enda, og
endaði uppi á margri sjálfunni í þeim
ferðum.“
Mikill og uppátækjasamur
grallari
„Það kom svo í ljós að Von er mikill
og uppátækjasamur grallari. Fyrir
nokkru kom mjólkurbílstjórinn að
máli við okkur og sagði farir sínar
ekki sléttar. Hann var hér einn í
mjólkurhúsinu að tengja dæluna í
tankinn, en svo fara um hann ónot,
og hann hefur á tilfinningunni að
einhver hafi auga með honum. Hann
snýr sér við og sér í dyragættinni
alhvítt hestshöfuð með föl og star-
andi augu, eins og svífandi í lausu
lofti. Var þar ekki komin Von að rétt
aðeins gægjast og sjá hver væri að
eiga við mjólkina, sjón sem enginn
býst við í mjólkurhúsi.
Hún hefur líka eignast góða vini
og prakkarabræður í hundinum
okkar Káti og lambi sem var líka
heimalningur. Þau hafa tekið upp
á ýmsu saman, en sérstaklega var
það skondið að fylgjast með þegar
klukkan var að nálgast fimm á virk-
um dögum, að þau héldu saman fram
eftir heimreiðinni og stilltu sér upp
við hliðið og mændu eftir veginum.
Þar biðu þau þess að sjá bíl ung-
dómsins á bænum koma heim að
vinnudegi loknum. Svo sprautuðust
þau með bílnum á harðakani, eins og
um þrjá hunda væri að ræða, en ekki
folald, lamb og hund. Þegar komið
var heim á hlað beið Von svo eftir því
að fá klapp, kjass og knús hjá upp-
áhalds fólkinu sínu nýkomnu heim,
sem leiddist ekki að láta vel að henni.
En aldrei sýndi hún nokkrum öðrum
bíl minnsta áhuga.
Prakkaragengið tók oft upp á því
að þvælast fyrir, en sýnu verst var
það þegar ein kýrin átti í erfiðleikum
við burð. Þá vorum við fimm manns
úti í fjósi að hjálpa kýrgreyinu, einn
að reyna að ná í kálfinn, tvær að
sinna kúnni, og tvær að halda aftur
af forvitninni í Von og lambinu,
sem ætluðu helst bara að ná sjálf í
kálfinn.“
Engin fannst móðirin, kannski er
Von undan hulduhryssu
„Svo líður á sumarið og enn finnst
engin skýring á því hver móðir Vonar
gæti verið. Því var slengt fram að
kannski væri Von undan hulduhryssu
sem hafi farist í köstun, og huldu-
fólkið hafi talið okkur geta gefið Von
betri von til lífs og þroska.
Fannst slöpp móðurlaus og ringluð
Von frá Ártúnum ásamt fóstru sinni og eiganda, Höllu Bjarnadóttur, og tveim austurrískum vinnukonum. Mynd / HB
„Ég er ánægður með hvernig
hestamenn eru að taka okkar
störfum og hvað virðist ríkja
almenn sátt. Það verður gaman
að halda áfram að vinna með
hestamönnum að aðkallandi verk-
efnum á næstu tveimur árum,“
segir Lárus Ástmar Hannesson,
sem var endurkjörinn formaður
Landssambands hestamannafé-
laga á 60. landsþingi sambandsins
um liðna helgi.
Tæp fjörutíu þingskjöl með álykt-
unum og tillögum lágu fyrir þinginu
sem haldið var í Stykkis hólmi.
Sex félagar hlutu gullmerki
LH. Þau Bjarni Alexandersson,
Guðrún Fjelsteð, Bragi Ásgeirsson,
Sigurborg Ágústa Jónsdóttir, Haukur
Sveinbjörnsson og Tryggvi
Gunnarsson hafa unnið
ötullega að framgangi
hesta mennskunnar í sínum
félögum sem og landssam-
bandinu. Hesta manna-
félagið Sörli hlaut Æsku-
lýðs bikar LH, en bikarinn
er veittur árlega því félagi
sem skarað hefur fram úr í
æskul ýðsmálum.
Auk þess að breyta
reglum um tilhögun
Íslands móta valdi
Landsþing staðsetningu
mótanna næstu tvö árin.
Hestamannafélagið Geysir
mun halda Íslandsmót fullorðinna
á Hellu árið 2017 á meðan hesta-
mannafélag Skagafjarðar heldur mót
yngri flokka á Hólum í Hjaltadal.
Árið 2018 munu mótin hins vegar,
samkvæmt nýrri reglu, vera haldin
sameiginlega á félagssvæði Spretts
í Kópavogi.
Nú þegar rekstur sambandsins
virðist hafa rétt úr sér og málefni
Landsmóta næstu ára eru komin
í farveg skapast rými til að sinna
öðrum brýnum verkefnum hesta-
mennskunnar að sögn Lárusar.
Þannig ætlar stjórnin að beita sér
í nýliðunar- og menntamálum á
næstunni. Þá verða reiðvega- og
umferðarréttamál hestamanna sett
á oddinn. Lárus segir að þar þurfi
að ná hagsmunaaðilum saman til
að skoða umferðarrétt hestamanna
og gera auknar kröfur um fjár-
magn í aðstöðu fyrir ríðandi fólk.
Reiðvegir voru enn fremur umræðu-
efni nokkurra tillagna þingsins. Með
gríðarlegri aukningu í hestatengdri
ferðaþjónustu fylgir enn meiri þörf á
viðhaldi reiðvega en framlög til reið-
vegagerðar hafi aftur á móti dregist
saman. Má gera ráð fyrir að LH
standi fyrir málþingi um reiðvegi
á næstunni, samkvæmt samþykktri
ályktun frá ferða- og umhverfis-
nefnd þingsins.
Þessu tengt þá hefur
Landssambandið, samkvæmt
annarri samþykktri tillögu, ákveðið
að taka upp umhverfisstefnu. Þar
kemur fram að sambandið muni
leitast við að vera til fyrirmyndar í
umhverfismálum, hvetja hestamenn
til að lágmarka umhverfisáhrif sín
og stuðla að opinni og málefna-
legri umræðu. Til að undirstrika
umhverfisstefnuna var Landsþingið
í fyrsta sinn pappírslaust.
Fjármagn fyrir markaðsátak
tryggt
Samþykkt var aukaskattlagning á
hestamannafélögin, upp á 300 kr. á
hvern greiðandi félagsmann, fyrir
árin 2017 og 2018, vegna mark-
aðsátaksins Horses of Iceland. Í
greinargerð með tillögunni kemur
fram að ríkið ætli að mæta hverri
krónu með krónu fyrir markaðsátak-
ið. Með skattlagningunni er LH að
tryggja 3 milljónir á ári í verkefnið
án þess að þrengja að almenn-
um rekstri sambandsins, að sögn
Lárusar.
Meðal annarra samþykkta þings-
ins var ákveðið að LH hafi forgöngu
á framleiðslu á sérstökum öryggis-
merkingum fyrir fólk sem það getur
auðkennt sig með í þeim tilvikum
þegar um óvana er að ræða eða riðið
er á lítt tömdum eða viðkvæmum
hrossum á reiðgötum í þéttbýli.
Merki það sem hér um ræðir gæti
verið borði sem lagður er yfir aðra
öxlina og undir hinn handarkrikann.
Hann yrði í áberandi lit og fram-
leiddur í mismunandi lengdum. Beri
ríðandi maður slíkan borða er öðrum
þeim sem um reiðvegina fara skylt
að slá af ferð niður á fet þegar mæst
er og ríða venju fremur varlega fram
úr.
Þá verða settar reglur um fram-
kvæmd fótaskoðunar á mótum auk
þess sem Járningamannafélagi
Íslands er falið að vinna að gerð
samræmdra starfsreglna fyrir fóta-
skoðunarmenn.
Lárus nefndi einnig að gott sam-
starf hefur verið við Bændasamtök
Íslands, ber þar að nefna samstarfið
við rekstur Landsmóts, Sportfengs
og varðveislu myndefnis frá
Landsmótum inn á Worldfeng.
Lárus bendir meðal annars á að
nýr Sportfengur, sem kynntur var
á þinginu, muni auðvelda utanum-
hald móta og gera keppendum og
áhorfendum auðveldara um vik að
fylgjast með.
Kosning til stjórnar sambands-
ins fór fram og er hún skipuð til
næstu tveggja ára. Auk Lárusar,
voru þau Jóna Dís Bragadóttir,
Eyþór Gíslason, Ólafur Þórarinsson,
Andrea Þorvaldsdóttir og Haukur
Baldvinsson endurkjörin í stjórn
og Helga B. Helgadóttir kemur
auk þess ný inn. Í varastjórn voru
kjörin Stefán Ármannsson, Ingimar
Ingimarsson, Sóley Margeirsdóttir,
Magnús Benediktsson og Rúnar
Bragason.
Gullmerkishafar LH 2016: F.v. Lárus Ástmar Hannesson, formaður LH,
Bragi Ásgeirsson, Haukur Sveinbjörnsson, Sigurborg Ágústa Jónsdóttir,
Tryggvi Gunnarsson, Guðrún Fjeldsted, Bjarni Alexandersson og Jóna Dís
Bragadóttir, varaformaður LH. Myndir / LH
Áhersla á nýliðun, menntun, reiðvegi og umferðarrétt:
Sáttir hestamenn á Landsþingi
Velheppnað Landsþing hestamanna fór fram á
Stykkishólmi um liðna helgi.