Bændablaðið - 23.02.2017, Blaðsíða 40
40 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. febrúar 2017
„Hér með vottast að þótt yngis-
maður Jón Halldór Mósesson,
nú til heimilis að Mýrum, hafi
aðallega stundað sjómennsku á
sumrum síðan hann náði fullum
vinnuþroska hefur hann stundað
heyskap bæði heimkominn síð-
sumars og allan heyannatímann
sumarið 1909.
Veturinn næstan á undan hafði
hann fjármennsku á hendi. Auk
þess hefur hann stundað við og við
vor- og hauststörf í landi bæði hjá
mér og hjá öðrum og sýnt ötulleik
og trú mennsku og verklagni svo
framast var við að búa.“ Svo segir
í vinnuvottorði sem ofangreindur
yngismaður hafði orðið sér úti um
til að greiða fyrir inngöngu í búnað-
arskólann á Hvanneyri, en með námi
þar hugðist hann hasla sér völl sem
búfræðingur og brjótast þar með úr
fátæktarbasli forfeðranna.
Frá síðari hluta 19. aldar hafa
búnaðarskólarnir gegnt mikilvægu
hlutverki við að kenna mönnum
góða búskaparhætti og ryðja nýj-
ungum braut. Sá fyrsti var stofnaður
í Ólafsdal við Gilsfjörð árið 1880 en
nokkrir bættust við á næstu árum og
var það í takt við nútímalegri sam-
félagshætti sem kröfðust aukinnar
menntunar. Ísland var að taka fyrstu
skrefin í átt til nútímans þar sem
sjálfsþurft gamla bændasamfélags-
ins vék fyrir markaðshagkerfi hins
verkskipta þéttbýlissamfélags. Upp
úr aldamótunum 1900 ríkti töluverð
bjartsýni meðal landsmanna um að
betri tímar færu í hönd og er saga
Jóns til marks um þá vongleði sem
gagntók margan æskumanninn.
Jón Mósesson fæddist á Arnarnesi
við Dýrafjörð árið 1888. Hann þurfti
snemma að leggja sitt til heimilisins
eins og þá tíðkaðist og var vart af
barnsaldri þegar hann fylgdi í fótspor
föður síns sem var sjómaður, fyrst á
árabátum en síðar á þilskipum. Lífið
til sjós var harðneskjulegt og háska-
legt enda slitnuðu menn snemma á
stritinu og skipskaðar voru tíðir. Jón
átti sér þann draum að finna lífi sínu
annan farveg enda var tekið að greið-
ast um aðrar leiðir. Er óhætt að segja
að hann hafi verið af fyrstu kynslóð
Íslendinga sem átti einhverja val-
kosti en í gegnum aldirnar hafði þorri
landsmanna þurft að semja sig að
lífsháttum bændasamfélagsins sem
einkenndist af frumstæðum búskap-
arháttum.
Jón gekk í Núpsskóla við
Dýrafjörð, sem þá var nýstofnaður,
en vinnuvottorðið sem vitnað er til
hér að ofan var ritað af skólastjór-
anum. Jón hafði einnig orðið sér úti
um skólavottorð en þar segir meðal
annars: „Sýndi hann við námið alúð
og vandvirkni sem annars staðar.
Sömuleiðis votta ég með ánægju að
siðferði hans og samfélagsframkoma
hefir bæði í skólanum og annars
staðar verið hin vandaðasta.“ Er
óhætt að slá því föstu að Jón hafi
komið ár sinni nokkuð vel fyrir borð
áður en hann hleypti heimdraganum
og lagði leið sína suður í Borgarfjörð
haustið 1910. Hann hafði bestu með-
mæli upp á vasann og ekki annað
sýnt en framtíðin brosti við honum.
Hvanneyri þótti góð bújörð
og var þar rekið myndarlegt stór-
býli samhliða skólanum sem var
stofnaður árið 1889 undir heitinu
Búnaðarskóli Suðuramts en þrír aðrir
búnaðarskólar voru þá starfandi.
Upphaflega var kennslan einkum
verkleg og var nemendum ætlað að
tileinka sér góðar vinnuaðferðir auk
þess sem áhersla var lögð á umbæt-
ur í ræktun og nýjungar í vinnu-
tækjum. Árið 1907 fékk skólinn
heitið Bændaskólinn á Hvanneyri
en nokkrar breytingar urðu þá á
kennslunni sem varð fræðilegri og
fjölþættari.
Fróðlegt er að lesa lýsingar Jóns
á skólalífinu þau tvö ár sem hann var
við nám en svo vel vill til að stíla-
bækur hans og allnokkur bréf hafa
varðveist og eru það merkar heim-
ildir um skólahaldið á Hvanneyri
og félagslíf nemenda þar. Einnig
er áhugaverðar frásagnir að finna í
eftirmælum um Jón sem æskuvinur
hans, Ingimar Jóhannesson, ritaði
en þeir voru samskóla á Hvanneyri
um tíma. Jón var þar við nám frá
1910-1912 en Ingimar á árunum
1911-1913.
Það var stórbrotið fyrir ungan
sveitamann, sem var vanur að hafa
kotbúskap fyrir augum sér, að koma
til Hvanneyrar þar sem við blöstu
reisuleg hús og ræktað land. Til við-
bótar við veglegt skólahús var 450
kinda fjárhús, 40 kúa fjós, 40 hrossa
hesthús, hlöður og votheysgryfjur
auk smærri bygginga. Þá höfðu
tún verið sléttuð, framræsluskurðir
grafnir og túngarðar hlaðnir.
Jón skrifaði Ingimar vini sínum
langt bréf í ársbyrjun 1911 þar sem
hann gerir m.a. grein fyrir búskapn-
um á Hvanneyri og er greinilegt að
honum finnst mikið til hans koma:
„Það virðist mér að eigi sé fé mjög
mikið haldið úti þó að jörð sé og er
það töluverður hópur að gefa því inni
þar sem komið er yfir hálft fimmta
hundrað fjár. En þó að þessi hópur sé
fallegur þá er þó ekki minna vert að
koma í fjósið og sjá nautgripina. Þeir
eru eins og meðal fjárhópur. Núna
mun vera í fjósinu um 40 kýr auk
uxa og kálfa sem eru aldir annars
staðar (í öðru húsi) í allt mun það
vera í kring um 60 stórgripir sem eru
aldir hérna. Það er dáfallegur hópur.
Fjósinu er svo vel fyrirkomið að eigi
þarf nema einn mann til að sinna því
og hefir verið gerð teikning af því
til að byggja eftir annars staðar. Þú
getur hugsað þér að mikið hey þurfi
fyrir allan þennan pening enda má
ég segja að það hafi heyjast hér í
sumar um 3000 hestar. Auk þess er
kúnum gefnar rófur og fóðurkökur
til heydrýginda. Við heyskap er bæði
notuð sláttuvél og rakstrarvél þar
sem hægt er að koma þeim við og
er talið að sláttuvélin slái á við sjö
menn þegar hún er í gangi. Eins og
þú sérð er þetta afar stórt bú eftir því
sem við höfum að venjast.“
Nemendur voru 26 þegar Jón hóf
nám og voru 14 í yngri deild en 12
í þeirri eldri. Kennt var sex tíma á
dag og var ávallt endað á leikfimi.
Meðal annarra námsgreina voru
líffærafræði, grasafræði, efnafræði,
dýrafræði, jarðfræði, landshallamæl-
ingar, reikningur og íslenska. Námið
var því á nokkuð víðum grundvelli.
Kennsla fór einkum fram í fyrirlestr-
um og voru nemendur yfirheyrðir
úr þeim öðru hvoru. Bækurnar voru
svo til allar á dönsku og mjög var
misjafnt hvernig nemendum gekk að
stauta sig fram úr þeim. Félagarnir
Ingimar og Jón stóðu nokkuð vel
að vígi eftir námið í Núpsskóla en
ekki höfðu allir fengið slíkan undir-
búning.
Nemendur lögðu mikla áherslu á
að glósa sem mest úr fyrirlestrunum
til að bæta sér upp slælega dönsku-
kunnáttu auk þess sem ýmislegt kom
fram hjá kennurunum sem ekki var
getið í bókunum. Ingimar hefur eftir-
farandi um það að segja: „En málum
var bjargað á þann hátt að nemendur
sem voru fljótir að skrifa voru valdir
til þess að skrifa aðalatriðin úr fyrir-
lestrum kennarans jafnóðum og þau
voru flutt. Jón var einn þeirra sem
skrifaði upp í tímum fyrir sína deild.
Svo var þetta allt „hektograferað“
og hver nemandi fékk eitt eintak til
lesturs.“ Jón hafði orð á því, í fyrr-
greindu bréfi til Ingimars, að það
hafi reynst flestum þrautin þyngri að
rita upp eftir kennurunum. Greinilegt
er á skrifum þeirra beggja að námið
hafi verið nokkuð stíft og er ekki
annað að sjá en þeir hafi legið yfir
námsefninu flestum stundum.
Af skrifum þeirra félaga að
dæma mun félagslíf skólasveina á
Hvanneyri hafa verið nokkuð öflugt
auk þess sem töluverður samgangur
var við nemendur Mjólkurskólans
á Hvítarvöllum og Lýðháskólans á
Hvítárbakka. Skemmtikvöld voru
haldin á sunnudögum og var þá
stíginn dans og aflraunir þreyttar.
Þar sem nemendur voru einungis
karlkyns var stelpunum við mjólk-
urskólann boðið á kvöldskemmt-
anirnar. Ingimar getur þess að hann
muni ekki eftir „neinni óreglu eða
umtalsverðu kvennafari“ en bætir
því við að menn hafi auðvitað
verið „viljugir að fylgja fraukun-
um heim á kvöldin“. Hann minnist
einnig á gagnkvæm boð á árlegar
skemmtanir sem nemendur höfðu
við lýðháskólann með þeim orðum
að þar hafi jafnan verið „mikið fjör
á ferðinni, ræðuhöld, söngur, dans,
upplestur að ógleymdum þjóðdöns-
unum sem þóttu ómissandi á hverri
skemmtun.“
Jón var með sterkustu mönn-
um og hafði hann sérstakt dálæti
á glímu en sú íþrótt átti töluverðu
fylgi að fagna og tengdist það ekki
hvað síst ungmennafélögunum sem
spruttu upp um land allt á þessum
árum. Þau lögðu mikla áherslu
á heilbrigt líf og þjóðlegar hefð-
ir en glíman taldist þjóðaríþrótt
landsmanna. Jón stóð fyrir stofnun
glímufélags við skólann og mun
það hafa starfað um árabil auk þess
sem hann kom því oft til leiðar að
glímt væri á skemmtikvöldunum. Þá
var Ungmennafélagið Íslendingur
stofnað á Hvanneyri undir árslok
árið 1911 og er óhætt að segja að
námssveinar hafi ekki farið varhluta
af þeirri miklu vakningu sem átti
sér stað í félags- og menningarlífi
landsmanna.
Nemendur höfðu einnig með sér
málfundarfélag sem gaf vikulega
út handskrifað blað og var lesið úr
því á fundum hvern laugardag. Af
lýsingum Jóns að dæma var starf
félagsins metnaðarfullt og miðaðist
við að virkja sem flesta. Til marks
um það kemur fram í bréfi Jóns
að umræðuefni fundanna réðist af
spurningum sem nemendur lögðu
fram skriflega og þurftu þeir sem þær
fengu að halda ræðu um viðkomandi
efni og vissi enginn hver spyrjand-
ann var. Þá var sérstök mállýtanefnd
stofnuð ársfjórðungslega sem skyldi
„safna öllum þeim mállýtum sem
koma fyrir í ræðum fundarmanna
og láta þau síðan koma út í blaðinu
með leiðréttingum.“ Hann bætir því
reyndar við að ritun blaðsins hafi
að mestu leyti lent á þriggja manna
ritnefnd þar sem nemendur séu
óduglegir við að senda inn efni, en
það mun alþekkt vandamál í öllu
félagsstarfi.
Að útskrift lokinni réði Jón sig í
kaupavinnu á Hvanneyri fyrir hæsta
kaup en laun fóru eftir afköstum.
Jón var kraftmikill og dugandi til
starfa en þar sem hann var ekki
með vanari sláttumönnum stóðst
hann þeim öflugustu ekki snúning.
Skólastjórinn hugðist því lækka laun
hans sem varð til þess að Jón sagði
upp vistinni.
Ég gríp nú aftur niður í eftir-
mæli Ingimars þar sem hann segir
frá síðasta degi Jóns á Hvanneyri:
„Við Nonni unnum saman síðasta
daginn sem hann var á Hvanneyri.
Við vorum sendir á skektunni út
fyrir Kistuhöfða og inn í Andakílsá
eftir einhverjum flutningi. Veður var
ágætt en okkur var báðum þungt í
skapi, bæði yfir nefndum atburði
og eins því að skilja samvistum. En
við glöddumst við þá von að koma
seinna heim í sveitina okkar og verða
þar að einhverju liði. Það var okkar
æskuhugsjón.“
Þar sem aðra vinnu var ekki að
hafa í héraðinu afréð Jón að leita fyrir
sér í Reykjavík. Hann hafði vonast
til að vera laus við sjómennskuna
en þó fór svo að hann réði sig um
borð í flutningaskip sem sigldi fyrir
seglum til Norðurlanda um haustið.
Eftir að hafa skilað sínum varningi
var timburfarmur tekinn í Svíþjóð
og var meira sett um borð en gott
taldist og þótti sumum sem skipið
væri ofhlaðið. Skipsverjar hrepptu
óveður á heimleiðinni og urðu
heimamenn áhyggjufullir þegar þeir
skiluðu sér ekki á eðlilegum tíma.
Leið og beið þar til skipsflakið rak
upp að Knarrarnesi á Mýrum undir
árslok 1912. Fórust allir sem um
borð voru.
Ingimar var enn við nám í bún-
aðarskólanum þegar þessi atburður
varð og vísa ég nú aftur til orða hans:
„Þegar þessi harmafregn barst til
Hvanneyrar varð fólk harmi lostið,
ekki síst skólastjórinn sem gat kennt
sér um burtför Jóns. Var ekki mikið
um þetta talað en ég heyrði að vin-
kona okkar, Kristjana mjólkurbú-
stýra, hefði ávítað skólastjóra á mjög
eftirminnilegan hátt og ég veit að
þessi atburður var skólastjóra þung
raun því að hann var tilfinninganæm-
ur mjög enda þótt hann væri örlyndur
og skapstór.“
Þannig endaði saga Jóns sem svo
miklar vonir voru bundnar við. Varð
mönnum mikið um heima í héraði
en mestur var vitaskuld missir for-
eldra hans og systkina sem sáu ekki
einungis á eftir ástvini heldur einnig
þeirri vongleði sem fylgdi Jóni um
bjartari tíma. Fátækri fjölskyldu
hafði auðnast að koma frumburðin-
um til mennta en það gaf fyrirheit
um bætta afkomu og aukna mann-
virðingu. Lífið var áfram basl næstu
árin eftir fráfall Jóns og sú tilfinning
var sterk innan fjölskyldunnar að
ættarsagan hefði orðið önnur hefði
Jón ekki farið í sína örlagaríku sjó-
ferð.
Leifur Reynisson
Örlög ráðast á Hvanneyri
Hvanneyri 1912.
LESENDABÁS
Skólasveinar Hvanneyrarskóla 1911-1912. Jón er fjórði frá hægri í fremstu röð. Jón Mósesson.
Leifur Reynisson