Bændablaðið - 23.02.2017, Blaðsíða 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. febrúar 2017
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi
alþingismaður og ráðherra, heldur
opinn fund í Iðnó á laugardaginn
undir yfirskriftinni „Hver er hætt-
an á innflutningi á ferskum mat-
vælum?“
Fundurinn hefst klukkan 12 og
segist Ögmundur fá tvo af helstu
sérfræðingum landsins á þessu
sviði til liðs við sig til að svara
þessari spurningu. Þetta eru þeir
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á
sýklafræðideild Landspítala Íslands,
og Vilhjálmur Svansson, dýralæknir
og sérfræðingur á Tilraunastöð HÍ
á Keldum.
Hluti af fundaröð
„Þetta er hugsað sem hádegisfundur
og er liður í fundaröð sem ég hef
verið að skipuleggja. Fyrsti fund-
urinn fjallaði um alþjóða viðskipta-
samninga sem nú eru í smíðum. Það
verður framhald á þeirri umræðu á
opnum morgunverðarfundi BSRB
og BHM nú í morgunsárið (fimmtu-
daginn 23. febrúar) á milli klukk-
an 8 og 9 í húsakynnum BSRB að
Grettisgötu 9. Þar hef ég spurt um
togstreituna á milli fjármagns og
lýðræðis.
Ég er því að taka efni sem mér
finnst mjög mikilvægt að örva
umræðu um og þá þannig að fólk
hafi allar staðreyndir mála á hreinu.
Ég kappkosta að framkalla þessar
staðreyndir og til þess kalla ég alla
þessa sérfræðinga til liðs við mig.
Ég vonast til að fá sem flesta til
að mæta á laugardaginn og síðan
þarf að flytja umræðuna áfram.
Bændasamtökin hafa verið mjög
dugleg í þessu efni og ég er að reyna
að slást í það lið til að örva umræðu
um mál sem ég tel afar brýnt að
við ræðum á eins upplýstan hátt og
hægt er. Það er verið að taka stórar
ákvarðanir í þessum efnum og því
þarf þjóðfélagið að vera vakandi,“
segir Ögmundur. /HKr.
Fréttir
Stjórnsýsluúttekt á Matvælaststofnun:
Von á skýrslu í marsbyrjun
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávar-
útvegs- og landbúnaðarráðherra
síðustu ríkisstjórnar, tilkynnti
í byrjun desembermánaðar
á síðasta ári að hann myndi
láta gera úttekt á starfsemi
Matvælastofnunar í kjölfar svo-
kallaðs Brúneggjamáls. Von er á
skýrslu um úttektina nú í byrjun
marsmánaðar.
Var þeim doktor Ólafi Odd-
geirssyni, dýralækni og fram-
kvæmdastjóra ráðgjafarfyrirtækis-
ins Food Control Consultants Ltd.
í Skotlandi, og Bjarna Snæbirni
Jónssyni stjórnunarráðgjafa falið að
gera úttektina og staðfestir Ólafur að
von sé á skýrslunni.
Verkferlar eftirlits með
dýravelferð og matvælaeftirlits
Var þeim gert að fara yfir verkferla
Matvælastofnunar hvað varðar eft-
irlit með lögum um dýravelferð og
matvælaeftirlit, greina starfsaðferðir
og bera saman við það sem almennt
gerist hjá sambærilegum stofnunum
í Evrópu.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu í
desember kom fram að sérfræðingar
ráðuneytisins myndu fara yfir þau
lög sem gilda um starfsemi stofn-
unarinnar, beitingu þeirra og greina
hvort skortur á lagaúrræðum hamli
því að stofnunin geti veitt almenn-
ingi og opinberum stofnunum upp-
lýsingar úr eftirlitsskýrslum. Kristín
Benediktsdóttir, dósent við Háskóla
Íslands, yrði ráðuneytinu til aðstoð-
ar hvað varðar lagafyrirmæli er lúta
að birtingum upplýsinga.
Ráðuneytið og eftirlitsskyldur
gagnvart Matvælastofnun
Þar kom einnig fram að athugun yrði
gerð á rekstri, skipulagi og stjórn-
un og hvernig ráðuneytið sinnir
almennum eftirlitsskyldum sínum
með starfsemi Matvælastofnunar.
Loks er óskað eftir ábendingum
um það sem betur má fara varð-
andi framangreinda þætti, tillögum
um breytingar á lögum og öðru því
sem telja má að geti eflt framkvæmd
með lögum um dýravelferð og mat-
vælaeftirlit.
Mikilvægt að traust ríki um
starfsem Matvælastofnunar
Gunnar Bragi sagði að mikilvægt
væri að traust ríkti um starfsemi
Matvælastofnunar, þegar tilkynnt
var um úttektina. „Við höfum fengið
mjög hæfa einstaklinga til að yfir-
fara verkferla, lagalegt umhverfi og
stjórnsýslu á sviði dýravelferðar og
matvælaeftirlits. Með þessu vil ég
stuðla að því að við lærum af þeim
mistökum sem kunna að hafa verið
gerð í einstökum málum og tryggj-
um að lagaleg umgjörð sé í samræmi
við almenna hagsmuni,“ sagði hann.
/smh
Mikil sala á afskornum blómum fyrir
Valentínusar- og konudaginn
Mikið hefur verið að gera hjá
framleiðendum afskorinna blóma
undanfarið. Valentíusar- og konu-
dagurinn nýafstaðnir og ræktun
á gulum túlípönum fyrir páska
hafin.
Framleiðendur garðplantna eru
einnig komnir á fullt við undir-
búning vorsins með sáningu sum-
arblóma.
Gunnar Þorgeirsson hjá
Gróðrarstöðinni Ártanga segir að
síðustu vikur hafi verið mikið að
gera hjá blómabændum og jafn-
framt gósentíð.
„Salan á afskornum blómum er
mikil fyrir Valentínusar- og konu-
daginn og því mikið að gera fyrir þá
daga. Á þessum árstíma eru blóma-
bændur að framleiða mest af túlíp-
önum, rósum og liljum.“
Gunnar segist ekki hafa tölur um
heildarframleiðsluna á afskornum
blómum á landsvísu en hjá Ártanga
segist hann framleiða, frá miðjum
desember og fram að páskum, um
500 þúsund túlípana. „Um jólin eru
það aðallega rauðir túlípanar en
fyrir Valentínusar- og konudaginn
sé selt mest af rauðum og bleikum
en gulum fyrir páskana.
Ártangi, Gróðrarstöðin
Dalsgarður og Ræktunarmiðstöðin
í Hveragerði eru stærstu framleið-
endur afskorinna blóma á landinu.
Sáning sumarblóma hafin
Framleiðendur sumarblóma eru um
þessar mundir á fullu að undirbúa
vorið með sáningu sumarblóma og
fjölgun af græðlingum. Tíðin hefur
verið góð það sem af er árinu og
haldi hún áfram að vera góð má
búast við að það vori snemma í ár.
Gunnar segir að fyrir nokkrum
árum hafi tíðin verið svipuð og að
þá hafi garðplöntuframleiðendur
verið farnir að selja sumarblóm
um páska.
Í ár eru páskar um miðjan apríl
og ekki ólíklegt að sala á sumar-
blómum verði hafin svo lengi sem
ekki geri slæmt páskahret.
„Hjá Ártanga framleiðum við
talsvert af sumarblómum sem við
sendum í Grænan markað og þaðan
eru blómin send í verslanir eins og
Blómaval, Garðheima, Byko og
Bauhaus svo dæmi séu nefnd. Auk
þess sem við seljum lítið eitt af sum-
arblómum til sumarbústaðaeigenda
hér í nágrenninu.
Stærsta einstaka tegundin af
sumarblómum sem við erum að
selja er hortensía, sem við flytjum
inn á veturna úr kæligeymslum í
Evrópu. Við geymum síðan hort-
ensíurnar fram á vor og drífum þær
í blóm. Auk þess sem við ræktum
talsvart af stærri sumarblómum,
eins og tóbakshorni, pelagóníum
og sólboða.
Kryddjurtir allt árið
Undirstaðan í ræktum Ártanga eru
kryddjurtir sem stöðin ræktar árið um
kring. Gunnar segir að ræktunarpláss
undir gleri eða plasti hjá Ártanga séu
um 1.000 fermetrar. /VH
Opinn fundur í Iðnó klukkan 12 á laugardag:
Innflutningur á ferskum
matvælum – hver er hættan?
Gunnar Þorgeirsson hjá Gróðrarstöðinni Ártanga.
Hjá Ártanga eru framleiddir, frá miðjum desember og fram að páskum, um
500 þúsund túlípanar.
Basilíka. Undirstaðan í ræktun Ártanga eru kryddjurtir sem stöðin ræktar
árið um kring.
Ögmundur Jónasson.
Úttekin er gerð í kjölfar Brúneggjamálsins svokallaða, eftir að Ríkisútvarpið
upplýsti að aðbúnaður varphæna hjá Brúneggjum hefði verið óviðunandi
um langan tíma.