Bændablaðið - 22.06.2017, Side 50

Bændablaðið - 22.06.2017, Side 50
Bændablaðið | Fimmtudagur 22. júní 201750 Það hefur greinilega brugðist markaðssetning á lambakjöti undanfarin ár. Ef skoðað er aftur í tímann hefur fátt verið gert til að auka sölu, mest kveður að því að Íslendingar uppgötvuðu grillið. Þegar hamborgarinn kom til íslenskra neytenda var það 1. flokks nautahakk og ekkert annað, aldrei varð til hinn íslenski lambaborgari þó aðeins hafi borið á honum síðustu ár. Þegar pitsan kom til sögunnar var ekki annað til umræðu en 1. flokks nautahakk, aldrei varð til hin íslenska pitsa með lambahakki, og einnig hefði verið hægt að búa til pepperóni úr lambakjöti á pitsur. Hvers vegna er ekki efnt í svo sem eina „sviðamessu“, einn dag að hausti líkt og sprengidagur svo ekki þurfi að grafa hausa eins og ein afurðastöð þurfti að gera? Svo spyr maður einnig: Hvar er „lambabacon“, eru ekki til nokkur tonn af síðum í frystigeymslum? Hvað eru framleiddar margar áleggstegundir úr lambakjöti eftir öll þessi ár sem sauðkindin hefur fylgt Íslendingum, eru þær fjórar? Hangiálegg, rúllupylsa, kæfa og stundum steik. Lítið sem ekkert af hráu og þurrkuðu lambakjöti, helst að hægt sé að fá tvíreykt hangikjöt um jól og áramót og þá oftast svo stór kjötstykki að myndi duga fyrir 20 manna áramótaboð. Sem starfsmaður í ferða- þjónustunni og borðandi og búandi á hótelum sumar eftir sumar má telja á fingrum annarrar handar þau skipti sem lambakjöt er á borðum. Pakkningastærðir og fjölskyldustærðir Pakkningastærðir eru í engu samræmi við fjölskyldustærð. Samkvæmt vef Hagstofunnar eru einn íbúi á um 30% heimila á Íslandi, já aðeins einn í heimili! Það vita allir nema sumir að pakkningastærðir úti í búð eru of stórar og því er varan sniðgengin, auk þess sem það er matarsóun að bjóða upp á svo stórar pakkningar að henda þarf mat. Það heyrir til undantekninga t.d. að hægt sé að fá bita af hrygg, svo sem hálfan eða einn þriðja sem myndi henta ofangreindri fjölskyldustærð og þaðan af síður er boðið upp á hluta úr læri, t.d. sagað í tvennt eða þrennt. Sagaður súpukjötsframpartur er ekki á óskalista unga fólksins enda þarf að henda þar mikilli fitu. Eldra fólk, sem hefur verið dyggasti kaupandi að lambakjöti gegnum áratugina, en er svo orðið eitt í heimili ellegar kannski tvennt, er hætt að kaupa læri eða hrygg í helgarmatinn af því að það hefur ekki þörf fyrir svona stór stykki. Eitt haustið datt einu afurðasölufyrirtæki í hug að „stækka“ hrygginn um eina tvírifju í hvorn enda til að fá hærra verð fyrir þennan hluta skrokksins. En málið var ekki hugsað alla leið, hryggurinn var svo stór að hann komst hvorki í steikarpott né á steikarfat. Auðvitað eru undantekningar á þessum stærðum og sumar verslanir bjóða minni bita, sérstaklega þær sem eru með kjötborð, en þær eru bara svo fáar og þá helst á höfuðborgarsvæðinu. Sem sagt, þessa niðursöguðu vöru vantar í frystiborðin um allt land. Ferðamenn, vöruval og merkingar Það er kunn staðreynd að árið 2016 komu um 1,8 milljónir ferðamanna til Íslands og maður skyldi ætla að þess sæjust merki í sölu á lambakjöti, en þá þarf það að vera í boði. Hér er eitthvað mikið að í markaðssetningu. Það þarf að markaðssetja lambakjöt alveg frá fyrstu snertingu ferðamannsins á internetinu og svo alla leið, líka í flugvélinni til landsins. Merkingar á vörunni þurfa einnig að hjálpa til við söluna, hafa t.d undirtexta á ensku eða útbúa sérstaka miða fyrir vöru sem hentar ferðafólki. Og það má ekki gleyma því að á Íslandi árið 2016 voru 22 þúsund bílaleigubílar og eru allir á ferðinni a.m.k fjóra mánuði yfir sumarið, það eru að jafnaði tveir í bíl sem þýðir að það eru 44 þúsund manns að kaupa sér í matinn daglega þessa mánuði. Og það getur verið erfitt fyrir útlendinga að vita hvað er í pakkningunni, lamb, svín eða, naut, auk þess er kannski búið að grillkrydda vöruna og þá heldur fólkið jafnvel að varan sé elduð, – og nei, svo er pakkningin of stór og það bara sleppir þessu. Nokkrir réttir eru til með lambakjöti, fulleldaðir til upphitunar í örbylgjuofni. Íslendingar kunna vel að meta þá vöru en hún hentar ekki bílaleigufólkinu því það er ekki örbylgjuofn í bílunum. Væri ekki ráð að þróa tilbúna rétti fyrir bílaleigufarþegana? Ég veit um ferðamenn sem keyptu fallegt rautt kjöt á grillið, en þegar til kom var það „valið saltkjöt“ og ekki hjálpuðu merkingarnar þar. Ég ætla aðeins að minnast á framleiðendur á mjólkurvörum því þar er merkingum víða ábótavant fyrir erlenda ferðamenn. Þannig er oft erfitt að giska á hvað er í eins lítrafernu; er það mjólk, léttmjólk, undanrenna, súrmjólk eða mysa? Fyrir 10 til 15 árum gaf MS út spjald í stærðinni A4 til að hengja upp í matvörubúðum við mjólkurkælinn, á spjaldinu var mynd af þeirra framleiðsluvöru með útskýringum á a.m.k. 5 tungumálum. Þetta var vel gert hjá MS, en hefur ekki verið endurnýjað eða uppfært. Það má geta þess að nokkrir íslenskir matvælaframleiðendur hafa áttað sig á öllum þessum fjölda ferðamanna og merkt sína vöru með enskum undirtexta eða farið alla leið og hannað pakkninguna alveg að þessum markhópi. Ég veit fyrir víst að sala á þessum vörum hefur stóraukist, þessir aðilar eru samlokuframleiðendur og sælgætisframleiðendur. Dæmi um vöru sem margir ferðamenn kynnast en vita ekki alveg hvernig best væri að borða, þ.e. harðfiskur, enginn harðfiskframleiðandi bendir á pakkningunni á að gott væri að hafa smjör með. Grafinn lax er líka áhugaverður, en hvergi kemur fram að hann er betri með graflaxsósunni. Og svo mætti lengi telja. Tækifæri Með öllum þessum fjölda ferðamanna er besta tækifæri sögunnar til útflutnings á íslenskri matvöru – án þess að til útflutnings komi, tækifæri sem ekki má missa af. Hörður Jónasson Höfundur er áhugamaður um íslenska matvöruframleiðslu. Hvers vegna selst ekki meira af lambakjöti? Við Íslendingar eigum að byggja landið allt og tryggja búsetu með margvíslegum leiðum, oft var þörf en nú er nauðsyn. Síðasti sauðfjársamningur kemur ekki til með að verða það haldreipi sem tryggir sauðfjárbúskap og líf í einhæfum sauðfjárbyggðum sem nú eiga reyndar marga v i ð b ó t a r m ö g u l e i k a , v e r ð i byggðastefna sett á dagskrá. Tvær mikilvægar ráðstefnur fóru fram á dögunum um byggðamál, önnur í Varmahlíð að frumkvæði Kaupfélags Skagfirðinga. Hin var íbúaþing sem Árneshreppur, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Byggðastofnun stóðu fyrir í félagsheimilinu Árnesi: „Þar sem vegurinn endar“. Á íbúaþinginu kom fram að ef ekki verði gripið til róttækra aðgerða er hætta á því að heilsársbyggð í Árneshreppi á Ströndum leggist af. Við skulum átta okkur á því að það er víða í þessu efni „Árneshreppur“, sem hnígur að þessu sólarlagi verði ekki mörkuð róttæk byggðastefna gagnvart heilu héruðunum víða um land. Flest eiga þessi héruð það sammerkt að sauðfjárbúskapur er þar aðalsmerki, að auki auðlindir í ám og vötnum og nú ný tækifæri í ferðamannaþjónustunni. Galið væri það af okkur sem þjóð að leggja landið nú í eyði eða selja það erlendum auðjöfrum sem greina framtíðarauðæfin einstök og milljarða virði, en kaupa á hrakvirði. Á sama tíma koma milljónir ferðamanna hingað til að upplifa ósnortna náttúru og sjá bændabýlin smáu, dást að fágætum auðæfum, einstökum matvælum sem við Íslendingar eigum í deyjandi veröld spilliefnanna. En á sama tíma er fólki ekki kleift að búa á þessum stöðum, þar ræður miklu fleira en afkoma sauðfjárbúanna, því er endurreisn byggðanna fjölþætt verkefni. Sorglegt ef eyðibýlin með tóma glugga taki nú við af gamalgróinni byggð sem fóstraði duglegt fólk í aldanna rás. Bretar eru nú að fara í öfluga byggðastefnu, ætla að reisa 17 þorp á landsbyggðinni hjá sér. Þorp með allri mannlegri þjónustu, atvinnu og ódýrum íbúðum til að styrkja byggð og bjóða upp á aðra leið gegn hinu himinháa íbúðaverði í London. Kannast einhver við svipaðar aðstæður t.d. í höfuðborginni okkar? Getum við lært eitthvað af Bretum, jafnvel ljósritað þeirra hugmynd og yfirfært hana á Ísland? Þetta er hraðskák, Bjarni Benediktsson Við skulum gera okkur grein fyrir því að ef ekkert verður gert í sumar í málefnum sauðfjárbænda og yfir þá skellur enn hrina lækkaðs verðs á lambakjöti í haust verður fólksflótti út úr atvinnugreininni og það verður yngra fólkið sem fer. Þegar talað er um sauðfjárbændabyggðir þá eru stór landsvæði þar undir, það má segja að auk Strandasýslu sverfi að Húnavatnssýslunum báðum, Vestfjörðum og Dalasýslu, jafnvel Vesturlandi öllu. Skagafjörðurinn er sterkari, það gerir skagfirska efnahagssvæðið, og Eyjafjörðurinn er öflugasta svæðið á landsbyggðinni. Svo er það Norðausturlandið, bæði í Þingeyjarsýslum og Austurlandi, svo Öræfin og Vestur- Skaftafellssýsla, en þar kreppir að. Er það verjandi að ríkisstjórn og Alþingi horfi á þessi fallegu og mikilvægu landsvæði tapa frá sér unga fólkinu og verða auðninni að bráð, á sama tíma og við þurfum þarna ungt og öflugt fólk sem sinnir skapandi störfum og tekur m.a. á móti ferðamönnunum en ferðaþjónustan er nú orðinn stærsti atvinnuvegur landsins? Norðmenn kunna að byggja sitt land og eru nú að njóta þess að hafa haldið uppi byggð í landinu öllu. Við eigum að gera þá kröfu að ríkisstjórnin og Alþingi Íslendinga hlusti nú á kall nýs tíma og fari að úrræðum Norðmanna og Breta og spýti hressilega fjármagni og nýjum úrræðum inn í byggðamál. Eina byggðaaðgerðin sem ég hef séð í vor er samkomulag þriggja ráðherra við Dag B. Eggertsson borgarstjóra um að færa honum og Reykjavík, ríkisins land á silfurfati, þar á meðal Keldnalandið. Bretarnir fara öðruvísi að, þeir horfa til sinnar landsbyggðar við sams konar aðstæður. Nú verður að grípa til aðgerða og efla sauðfjárbændur þessara svæða, efla þjónustu í þorpum þessara landsvæða, leggja fé í vegi og samgöngubætur. Meta hvort leiðir í skattamálum eða VSK-kerfinu gagnist hér eins og í Noregi, og fleira og fleira. Best gæti ég trúað að um slíka stefnu ríkti þjóðarsamstaða, því fólkið í höfuðborginni vill sjá líf og kraft í landsbyggðunum. Þar eigum við öll rætur okkar og þar liggja tækifæri og verðmætasköpun sem skiptir okkur öll sem þjóð máli. Ríkisstjórnin á fyrsta leik og hefur hvítt í skákinni, þetta er hraðskák, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Nú verður að bretta upp ermar Nú verða bæði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávar- útvegs-, landbúnaðar- og byggðamála ráðherra og Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að bretta upp ermarnar, ég treysti þeim til þess. Enn fremur verða þeir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar og fyrrum foringi Bændasamtakanna, að koma af fullum krafti að mótun nýrrar byggðastefnu. Ég efast ekki um góðan vilja bæði framsóknar- manna og Vinstri grænna í þessu efni eða annarra flokka á Alþingi. Þessi stefnumótun er brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála um þessar mundir. Guðni Ágústsson Sauðfjárbyggðirnar hrópa á hjálp LESENDABÁS Hörður Jónasson. Guðni Ágústsson.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.