Bændablaðið - 11.05.2017, Page 38

Bændablaðið - 11.05.2017, Page 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. maí 2017 Skipulögð skjólbeltarækt hefur verið stunduð á Íslandi í rúmlega hálfa öld og er gagnsemi skjólbelta vel þekkt. Vel skipulögð skjólbelti sem skýla plöntum, dýrum og mönnum geta þannig t.d. lengt þann tíma sem kýr og annað búfé getur verið úti, bætt uppskeru svo um muni, eða aukið umferðaröryggi við vegi. Auk þess er það mikill kostur ef skjólbeltin geta fegrað umhverfið. Hingað til hefur víðir verið algeng skjólbeltaplanta. Hann skilar skjótum árangri enda vex hann hatt og er auðveldur í ræktun. Hann vex hins vegar einnig fljótt úr sér og veður lélegur og til lítils gagns og prýði í skjólbeltum. Beltin verða með tímanum ber að neðan og þá trekkir undir þau. Það er því nauðsynlegt að skoða möguleika þess að nota aðrar tegundir sem þjóna hlutverki sínu vel og endast betur; langlífar tegundir trjáa og runna í bland við fljótvaxnar tegundir sem veita skjól í upphafi og víkja svo fyrir þeim langlífari. Skjólbelti framtíðar Verkefnið Skjólbelti framtíðar gengur út á að finna bestu hentugu skjólbeltaplöntur sem völ er á fyrir íslenskar aðstæður og þróa heppilega samsetningu í uppbyggingu á gagnlegum og endingargóðum skjólbeltum. Verkefnið byggir á rannsóknum Yndisgróðurs um garð- og landslagsplöntur fyrir íslenskar aðstæður sem hefur verið starfrækt á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands undanfarin 10 ár. Markmiðið er að auka skjólbeltarækt með markvissara skipulagi og bættu plöntuvali og miðla þekkingunni til bænda og annarra hagsmunaaðila. Skógræktin er mikilvægur samstarfsaðili og tengiliður við bændur víðsvegar um landið. Á Hvanneyri eru nú tvö tilrauna- og sýningarskjólbelti og á Kjalarnesi er verið að koma upp einu skjólbelti í samstarfi við kúabændur á bænum Bakka. Skjólbeltin eru öll þriggja raða með allt að 30 tegundum af trjám og runnum. Hávaxnar og langlífar trjátegundir mynda hæð beltisins. Þær eru aðallega staðsettar í miðjuröðinni ásamt skuggþolnum runnum. Tegundirnar eru m.a. alaskaösp, reyniviður og gráelri. Fljótvaxnir runnar, eins og grásteinavíðir og loðvíðir þjóna þeim tilgangi að mynda skjól fyrir viðkvæmari tegundir sem eru lengur að komast á legg. Þeir eru gjarnan sólelskir og hopa með tímanum fyrir skuggþolnari tegundum. Skuggþolnir og þekjandi runnar mynda neðsta lag beltisins og þjóna mikilvægum tilgangi við að loka beltinu alveg niður við jörð. Í norðurröðina er mikilvægt að velja vindþolna, harðgera og skuggþolna runna eins og rifstegundir og toppa en í suðurröðina er hægt að velja sólelskari runna sem blómstra meira og gefa beltinu þannig þannig lit og fjölbreytni. Þarna er hægt að velja t.d. rósategundir eins og fjallarósir eða ígulrósir, bersarunna eða garðakvistil. Á heimasíðu Yndisgróðurs (h t tp : / /ynd i sgrodur. lbh i . i s / pages/2778) hafa verið teknar saman nokkrar tegundir sem gætu verið góðar skjólbeltaplöntur. Meðal þeirra tegunda sem hafa nú þegar sýnt góðan árangur eru alaskaösp, glótoppur, garðakvistill og hélurifs. Verður hér reifað stuttlega ágæti þeirra. Alaskaösp Reynsla af notkun alaskaaspar í skjólbelti hefur sýnt góðan árang- ur. Hún er harðger og fljótvaxin og er mikilvæg til að mynda tiltölulega fljótt góða hæð á skjólbeltinu. Hún er hins vegar nokkuð ber að neðan og því mikilvægt að nota lægri runna með henni til að loka beltinu. Yrkin ´Pinni´ og ́ Brekkann´ hafa almennt reynst vel og fyrir vindasamari staði við ströndina hefur ´Keisari´ staðið sig hvað best. Glótoppur Glótoppur er nokkuð hár, kröft- ugur og hraðvaxta runni. Hann er skuggþolinn og hentar því mjög vel undir trjám og í skugga af stærri tegundum í skjólbeltum. Kostir hans fyrir skjólbelti eru auk þess breitt og þétt vaxtarlag sem helst alveg niður að jörð. Hann er svo þéttur og skuggþolinn að hann og skyggir út svo til allt illgresi undir sér. Áratuga reynsla yrkinu ́ Kera´ hefur sýnt að hann er gróskumikill, harðger og hefur reynst vel í sæmilega góðum jarðvegi víðasta hvar á láglendi. Finnska yrkið ́ Satu´ hefur verið í prófun hjá Yndisgróðri síðan 2007 og gefur ´Kera´ekkert eftir, ef eitt- hvað er virðist hann vera með enn þéttara vaxtarlag. ´Satu´ var valið úrvalsyrki Yndisgróðurs 2014 og er að komast í almenna framleiðslu. Garðakvistill „Kjarri” Garðakvistill er kröftugur og fljót- vaxinn runni sem hentar vel fyrir skjólbelti vegna vaxtarlagsins enda er hann gróskumikill, breiður og þéttur. Hann þolir hálfskugga og hentar því undir trjám í suðurröð skjólbelta þar sem hann fær smá sól og nær að blómstra hvítum, fíngerð- um blómum. Garðakvistill hefur lengi verið í ræktun hér á landi en nokkur yrki hafa verið í gangi sem eru mis- harðger. Yrkið ´Kjarri´ hefur borið af í tilraunum Yndisgróðurs og er eitt af úrvalsyrkjum Yndisgróðurs enda hefur ´Kjarri´ reynst bæði harðger, þéttvaxinn og einstaklega blómsæll og fallegur. Unnið er að því að koma honum á almennan markað en honum var fyrst fjölgað af Ræktunarstöð Reykjavíkurborar og síðan komið á markað af Gróðrarstöðinni Kjarra eins og nafnið gefur til kynna. Hélurifs Hélurifs er lágvaxinn, jarðlægur og skuggþolinn runni sem lokar vel yfirborðinu og skríður fram og liðast jafnvel upp með trjástofnum. Í tilraunum okkar er verið að kanna hvort hann geri gagn við að þekja jarðveginn til að vega upp á móti illgresisvexti. Gras er ein helsta samkeppnis- plantan í skjólbeltum og erfitt að eiga við það ef grasvöxtur veður yfir og kæfir ungar plöntur. Ekki er ljóst hvort hélurifs getur komið í veg fyrir þennan vanda en í tilraunabeltum okkar á Hvanneyri er áhugavert að sjá hvað hélurifsið er duglegt að dreifa úr sér og gefur beltinu ákveðna fyllingu í neðsta laginu. Ekki spillir fyrir að hélurifs fær einstaklega fallega rauða haustliti og ber sem hægt er að sjóða í sultu. Yndisgróður stefnir nú að því, í samvinnu við Skógræktina, að koma upp tveimur skjólbeltum í hverjum landshluta við ólíkar aðstæður. Þannig ætti að fást enn betri reynsla á þær tegundir sem verið er að reyna og koma í ljós hvaða tegundir henta vel fyrir skjólbelti við mismunandi aðstæður. Til dæmis er ekki komin reynsla á hvaða tegundir eru heppilegastar í rýrum jarðvegi eða við sjávarsíðuna, en það eru ýmsar tegundir sem gæti verið spennandi að prófa þar eins og elritegundir á rýru landi og glótopp, hafþyrnir og ígulrósir við sjávarsíðuna svo eitthvað sé nefnt. Steinunn Garðarsdóttir og Samson Bjarnar Harðarson, Landbúnaðarháskóla Íslands. Skjólbelti framtíðar: Runnar sem neðsta lag í skjólbeltum SKÓGRÆKT&LANDGRÆÐSLA Glótoppur í skjólbelti á Rauðkollsstöðum á Snæfellsnesi árið 2013, gróðursett 2009. Hér sést vel hvað hann er gróskumikill. Tilrauna- og sýningarskjólbelti á Bakka á Kjalarnesi, gróðursett sumarið 2016. Garðakvistill ´Kjarri´ lokar alveg niður við jörð. Sýningarskjólbelti á Hvanneyri 3 árum eftir gróðursetningu. Garðakvistill ´Kjarri´ er fyrir miðju í fremri röð, gráelri vinstra megin við hann og loðvíðir til hægri. Í aftari röð sést m.a. í selju (til vinstri) og gráelri (til hægri). Hélurifs myndar jarðlægar breiður og gæti því komið vel út í neðsta lag skjólbelta. Haustlitir hélurifs eru einstaklega fallegir.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.