Bændablaðið - 15.11.2018, Blaðsíða 13
Bændablaðið | Fimmtudagur 15. nóvember 2018 13
Stjórn Landssamtaka landeigenda
á Íslandi telur að framkomið
frumvarp um þjóðgarðastofnun sé
ekki til þess fallið að skapa sátt um
verndun náttúru og eignarréttindi
að landi.
Stjórnin ályktaði um málið á
fundi sínum 7. nóvember sl., en þar
segir einnig:
„Í frumvarpsdrögunum virðist
hvergi gert ráð fyrir aðkomu
landeigenda og einungis er gert ráð
fyrir samráði við sveitarfélög sem
hlut eiga að máli en ekki samþykki
þeirra.
Landssamtök landeigenda telja
óþarft og til þess fallið að auka
flækjustig í stjórnkerfinu að setja
á fót nýja stofnun til að hafa með
höndum umsýslu allra þjóðgarða
og annarra friðlýstra svæða. Nær
væri að sameina þær stofnanir sem
þegar eru fyrir hendi og fela einni
framkvæmdastofnun verkefni þeirra,
ásamt verkefnum þjóðgarðanna.
Í frumvarpinu er gert ráð
fyrir beinni eignarnámsheimild
Þjóðgarðastofnunar, að fengnu leyfi
ráðherra. Nær heimildin til þess að
að taka eignarnámi lönd, mannvirki
og réttindi til þess að framkvæma
friðun.
Hér er verið að veita
Þjóðgarðastofnun heimild, t.d.
að kaupa stjórnarskrárvarin
eignarréttindi m.a innan þjóðlenda,
sem að gildandi lögum verður ekki
hnikað, nema með eignarnámi.
Þessi hugmyndafræði er andstæð
hagsmunum landeigenda og þá
sérstaklega tilvísun til þess að
um framkvæmd eignarnáms og
ákvörðun bóta fari eftir almennum
reglum enda við því að búast að
verðmat þessara eignarréttinda yrði
á einstökum tímabilum, langt undir
raunverulegu verðmæti þeirra þegar
til lengri tíma er litið.
Umfjöllun um umdæmisráð
virðist sett fram frekar til
málamynda og til þess að
reyna að ná samráðssáttum við
hagsmunaaðila frekar en að þessi
ráð eigi að hafa einhver raunveruleg
völd. Hugmyndin virðist tiltölulega
lítt á veg komin í þróunarferli og
lögð í dóm ráðherra að fengnum
tillögum Þjóðgarðastofnunar. Ekki
er að sjá að landeigendur hafi
neina aðkomu að þessum ráðum
þrátt fyrir að eiga almennt ríkustu
hagsmini allra sem að koma, af
verndun lands í sinni eigu. Þannig
er gert ráð fyrir að fulltrúar félags-
og hagsmunasamtaka á svæðinu
eigi sæti í umdæmisráðum en ekki
landeigendur sem þó má ætla að hafi
mun ríkari hagsmuna að gæta. Að
mati Landssamtaka landeigenda er
þetta með engu móti ásættanlegt eins
það er sett fram en ekki útilokað að
bæta úr þessu með þeim hætti að
aðkoma landeigenda væri tryggð.
Landssamtök landeigenda
leggjast gegn þeim hugmyndum
sem koma fram í 34. grein
frumvarpsins um leyfisveitingar
Þjóðgarðastofnunar og lokun svæða
vegna viðburða að svo miklu leyti
sem þessi starfsemi gengur gegn
ákvæðum laganna um þjóðlendur
og kann að ganga gegn hagsmunum
landeigenda og trufla starfsemi
þeirra á landinu
Þessi frumvarpsdrög eru að mati
Landssamtaka landeigenda ekki til
þess fallin að efla trúnað og traust
milli ríkisins og landeigenda. Það
sem veldur mestum áhyggjum
er að hvarvetna er sneitt framhjá
landeigendum og yfirleitt ekki
gert ráð fyrir aðkomu þeirra með
nokkrum hætti. Á hinn bóginn
eru tilgreindar einhliða heimildir
þjóðgarðastofnunar til að taka
eignir og réttindi þeirra eignarnámi.
Ekkert er litið til þeirrar alkunnu og
raunsönnu reglu að landeigendur eru
bestu vörslumenn landsins og hafa
verið frá alda öðli.
Landssamtök landeigenda
á Íslandi eru fylgjandi vernd
náttúrunnar og sjálfbærri nýtingu
hennar. Þeim markmiðum sem að
virðist stefnt með frumvarpi þessu
verður hins vegar ekki náð fram
nema með þátttöku landeigenda,
samstarfi og samþykki þeirra en ekki
valdboði og flókinni stjórnsýslu sem
landeigendur eiga enga aðild að.“
Undir þetta rita stjórnarmennirnir
Óskar Magnússon, Sámsstaðabakka,
formaður, Sigurður Jónsson,
Eyvindartungu, varaformaður,
Örn Bergsson, Hofi, Guðrún María
Valgeirsdóttir, Reykjahlíð og Björn
Magnússon, Hólabaki.
Starfssvið:
TÆKNIMAÐUR
Menntunar- og hæfniskröfur:
Bústólpi ehf - fóður og áburður • Oddeyrartanga • 600 Akureyri • bustolpi@bustolpi.is • Sími 460 3350 • www.bustolpi.is
Vegna mikilla umsvifa leitum við að framúrskarandi starfsmanni í DeLaval
þjónustudeild Bústólpa. Starfsmaðurinn mun hljóta þjálfun hjá Bústólpa og DeLaval
• Þjónusta á DeLaval mjaltaþjónum og
öðrum tæknibúnaði
• Viðgerðir og uppsetningar á DeLaval búnaði
• Iðnmenntun skilyrði
• Góð enskukunnátta
• Góð tölvukunnátta
• Hæfni til að vinna sjálfstætt
• Lipurð í mannlegum samskiptum
• Þekking á landbúnaði er kostur
• Bílpróf er skilyrði
Umsóknarfrestur er til og með 29. nóvember 2018. Umsókn um starfið ásamt ferilskrá skal senda til
skrifstofustjóra á netfangið sigurbjorg@bustolpi.is. Stefán Hlynur Björgvinsson þjónustustjóri DeLaval veitir
frekari upplýsingar um starfið í síma 849-9873 eða í gegnum netfangið stefan@bustolpi.is
Bústólpi starfrækir fóðurverksmiðju á Oddeyrartanga á Akureyri ásamt því
að reka verslun með vörur sem tengjast landbúnaði. Bústólpi er þjónustuaðili
DeLaval á Íslandi. Hjá Bústólpa starfa 23 manns. Bústólpi hefur verið valið
framúrskarandi fyrirtæki átta ár í röð af Creditinfo.
Stjórn Landssamtaka landeigenda á Íslandi ályktar um þjóðgarðsfrumvarp:
Mun ekki skapa sátt um verndun náttúru og eignarréttindi
Níu sveitabæir víðs vegar um
landið hafa tekið rafhleðslustöðvar
fyrir rafbíla í notkun. Bændurnir
á bæjunum bjóða gestum upp á
rafhleðslu undir merkjum „Hleðslu
í hlaði“ sem er samvinnuverkefni
bænda, Hey Iceland, Orkuseturs og
Bændasamtaka Íslands. Bæirnir eru
eftirfarandi:
- Bjarteyjarsandur í Hvalfirði
- Bragðavellir í Hamarsfirði
- Dæli í Fnjóskadal
- Geitfjársetrið Háafelli í Borgarf.
- Heydalur á Vestfjörðum
- Hraunsnef í Norðurárdal
- Litli Geysir í Haukadal
- Silva í Eyjafjarðarsveit
- Sölvanes í Skagafirði
Fleiri bæir eru í startholunum að
setja upp hleðslustöðvar. Þá verður
ný stöð opnuð á næstu vikum við
Bændahöllina í Reykjavík þar sem
gestum á Hótel Sögu og öðrum sem
eiga erindi í húsið býðst að hlaða
sinn rafbíl. /TB
Níu hleðslustöðvar
komnar upp