Slökkviliðsmaðurinn - 01.06.2007, Blaðsíða 15
15
Guðmundur Vignir Óskarsson, fyrrverandi formaður LSS
Sé ekki eftir einum degi í baráttunni
fyrir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn
Þegar Guðmundur Vignir Óskarsson gerð-
ist afleysingamaður hjá Slökkviliði Reykja-
víkur fyrir ríflega þremur áratugum óraði
hann ekki fyrir því að hann myndi setjast
niður með blaðamanni árið 2007 til að
rifja upp farsælan feril sem slökkviliðs- og
sjúkraflutningamaður og þó enn fremur
sem helsti forvígismaður stéttarinnar um
langt skeið. Hann hafði engin áform um að
fara út á þá braut sem hann síðan fetaði í
rúman aldarfjórðung. En félagar hans sýndu
honum snemma traust sem talsmanni í
baráttu fyrir bættum kjörum og framför-
um í faglegum efnum. Hann fór síðan í
fararbroddi þeirra sem stóðu að stofnun
Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutn-
ingamanna fyrir fimmtán árum og veitti
sambandinu forystu fyrstu tíu árin.
Gefandi starf
- Ég sé ekki eftir einum degi, ekki einni
mínútu í störfum mínum sem slökkviliðs-
og sjúkraflutningamaður og forystumaður
um framfarir í réttindabaráttu og faglegum
málum stéttarinnar. Þessi tími var vissulega
annasamur og oft reyndi á andlegt og lík-
amlegt þrek. Ég hef hitt fyrir marga drag-
bíta á lífsleiðinni og hef þurft að takast á
við margan manninn. En þessi störf voru
jafnframt mjög gefandi og ég á margar
góðar minningar frá þeim. Ég bý einnig að
ævilöngum vinskap við margt af því góða
fólki sem ég starfaði með, segir Guðmund-
ur Vignir við Slökkviliðsmanninn í tilefni
af því að 2. maí síðastliðinn voru liðin
fimmtán ár frá stofnfundi LSS sem haldinn
var í Munaðarnesi við mikla stemningu og
samstöðu.
Guðmundur Vignir lét af störfum hjá
LSS 2002 eftir farsælan feril sem formaður
og framkvæmdastjóri frá stofnun árið 1992.
Hann sinnti sérverkefnum fyrir landssam-
bandið um tíma eftir það en skipti síðan
algerlega um starfsvettvang; varð fram-
kvæmdastjóri Knattspyrnufélagsins Þrótt-
ar 2003 og hefur síðan 2006 verið fram-
kvæmdastjóri sameiginlegs rekstrarfélags
Reykjavíkurborgar, Armanns og Þróttar.
Ungur lærði hann hins vegar pípulagn-
ingar og fékk meistararéttindi sín 1975,
þá 24 ára gamall. Örlögin höguðu því þó
þannig að 1976 var hann orðinn bruna-
vörður hjá Slökkviliði Reykjavíkur og við
tók 25 ára tímabil þar sem störf og réttindi
slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna áttu
hug hans allan.
Ný kynslóð í slökkviliðið
- Ég kannaðist við Rúnar Bjarnason,
þáverandi slökkviliðsstjóra, og hann færði
það í tal við mig 1976 hvort ég væri ekki
tilbúinn að koma í afleysingar hjá honum.
Hann hafði þá skoðun, sem ég tel að hafi
verið rétt, að það væri æskilegt að fá menn
með iðnmenntun og verkþekkingu í
slökkviliðið. Ég lét til leiðast en ætlaði ekki
að hafa langa viðdvöl, vissi ekki annað en
að ég myndi hasla mér völl í mínu fagi.
„Þegar ég gekk til liðs við
slökkviliðið voru hafin kyn-
slóðaskipti á stöðinni. Ég varð
þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að
vinna með nokkrum mönnum
sem höfðu starfað lengi hjá lið-
inu en voru á útleið á þessum
tíma vegna aldurs og veikinda.
Um svipað leyti komu margir
yngri menn í liðið og sumir þeirra
starfa þar enn.“
En það fór á aðra lund, segir Guðmundur
Vignir og verður hugsað til fyrstu kynna af
stöðinni og nýju starfsfélögunum þar.
— Þegar ég gekk til liðs við slökkviliðið
voru hafin kynslóðaskipti á stöðinni. Ég
varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vinna
með nokkrum mönnum sem höfðu starfað
lengi hjá liðinu en voru á útleið á þessum
tíma vegna aldurs og veikinda. Um svipað
leyti komu margir yngri menn í liðið og
sumir þeirra starfa þar enn. Með þessum
ungu mönnum kom að mörgu leyti önnur
sýn og önnur nálgun á starfið en var hjá
þeim eldri.
Barn síns tíma
- Það varð meira áberandi í umræðunni
að kjarabarátta og faglegar framfarir hlytu
að fara saman og vissulega veitti ekki af að
gera breytingar á faglega umhverfinu. Liðið
eins og ég kynntist því fyrst var barn síns
tíma. Skoðun okkar yngri mannanna, og
reyndar sumra úr hópi þeirra eldri, var að
með því að bæta starfsumhverfið og faglega
þáttinn myndum við sýna fram á að rétt
væri að bæta kjörin. Þessi skoðun okkar fór
saman við álit stjórnenda, ekki síst eftir að
Hrólfur Jónsson, síðar slökkviliðsstjóri, réð-
ist til liðsins, segir Guðmundur.
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar
og fagleg staða slökkviliðs- og sjúkraflutn-
ingamanna er allt önnur nú en þegar Guð-
mundur gekk til liðs við stéttina. Það á
ekki síst við menntunarmálin. Guðmundi
var kastað út í djúpu laugina án mikils
undirbúnings og lenti til dæmis í sjúkra-
flutningi með mann í hjartastoppi áður en
hann fór á sitt fyrsta námskeið. Námskeið
fyrir sjúkraflutningamenn voru þá haldin
á vegum Rauða kross Islands, auk fræðslu
sem menn fengu á stöðinni.
- Ég sat þarna nýliðinn einn afturí með
manni í dauðadái á flötu gólfinu. Þetta eru
aðstæður sem myndu ekki þekkjast í dag.
Þetta lið var barn síns tíma og menn voru
auðvitað að gera sitt besta en okkur var
mörgum ljóst að margt mátti betur fara
og með fullri virðingu fyrir þeim nám-
skeiðum sem þá voru í boði var ljóst að
þau uppfylltu ekki kröfur tímans. Síðan
hafa auðvitað orðið gríðarlegar framfarir
í menntunarmálum og ég tel að íslenskir
sjúkraflutningamenn séu nú í fremstu röð á
sínu sviði, segir Guðmundur.
Slökkviliðsmaðurinn