Spássían - 2010, Side 10

Spássían - 2010, Side 10
 10 Ástin er sæt og súr Sítrónur og saffran eftir Kajsu Ingermars- son kom út nú í vor í þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Í stuttu máli fjallar hún um sænska yfirþjóninn Agnesi sem hrökklast úr starfi á fínum veitingastað eftir að eigandinn reynir að nauðga henni. Sama dag segir kærastinn henni upp því hann hafði fundið nýja og brjóstastærri. Til að bæta gráu ofan á svart eignast hún nágranna sem pirrar hana. Við tekur tími sjálfsvorkunnar og leiða sem endar á botninum þar sem hinn fíni yfirþjónn neyðist til að taka að sér afgreiðslustarf á skítamatsölustað. En af botninum er hægt að spyrna sér og tækifærin leynast handan við hornið. Gamall vinur ætlar að opna nýjan veitingastað og Agnes er fljótt komin aftur í stöðu yfirþjóns. Saman reyna vinirnir að byggja upp farsælan rekstur og komast að því hver matargagnrýnandinn Lóla er í raun og veru. Inn í þessa veröld flækjast síðan erfiðir vinir, fjölskylduharmleikur og gamlir og nýir kærastar með vandamál í farteskinu. Sítrónur og saffran kom fyrst út í Svíþjóð árið 2004 og heitir á frummálinu Små citroner gula eða Litlar gular sítrónur, sem er einmitt nafnið á veitingastaðnum sem Agnes og vinir hennar fara af stað með. Sagan er létt og skemmtileg en nokkuð fyrirsjáanleg og formúlukennd. Það er fátt sem kemur á óvart við framvinduna og þótt aðalsöguhetjan sé ánægjulega laus við kaupsýki og skóblæti er hún líkt og klassíska ástarsöguhetjur búin óteljandi aðlaðandi eiginleikum sem hafa hingað til verið vanmetnir en fá nú loks að blómstra. Bókin sver sig þannig í skvísubókmenntahefðina þar sem sjálfsefi og mislukkaðar uppákomur eru aðaldrifkraftarnir í lífi aðalpersónunnar. Kápan, sem hönnuð er af Önnu Cynthiu Leplar, er sérstaklega falleg og nær vel að fanga þann ferska keim sem bæði veitingastaðurinn í sögunni og höfundurinn sækjast eftir. Haltu mér, bíttu mig Vampírur eru ekki svo ólíkar okkur og vilja aðeins vera metnar að verðleikum. Þær óska þess síst að drepa menn og segjast geta lifað í sátt og samlyndi ásamt mennskum bræðrum sínum og systrum svo lengi sem þeim er tekið opnum örmum og gerviblóðið Tru blood er í stöðugri framleiðslu. Ja, svona flestar þeirra. Vampírubálkurinn hennar Charlaine Harris hefur farið sigurför um heiminn. Bækurnar eru orðnar 10 talsins og sjónvarpsþáttaröðin True blood, sem sýnd er á Stöð 2, er byggð á þessum bálki. Fyrsta bókin, Dauð þar til dimmir (Dead until Dark), kom nýverið út í þýðingu Höllu Sverrisdóttur. Aðalsöguhetjan er Sookie Stackhouse, ung og ákveðin gengilbeina sem fellur fyrir hinni heillandi en hættulegu vampíru Bill Compton. Sögurnar gerast flestar í Suðurríkjunum nánar tiltekið í Louisiana, þar sem fornir menningarstraumar mætast og náttúruöflin eru ríkjandi í lífi fólks. Margvíslegar náttúruvættir skjóta upp kolli og valda usla í annars rólegu lífi venjulegs fólks. Útkoman er því oft skopleg og farsakennd. Bækurnar um Sookie Stackhouse sverja sig í þá vampíruhefð sem hefur skapast undanfarinn áratug. Vampírur eru ekki lengur aðeins hættulegar vættir næturinnar sem leita á gjafvaxta stúlkur eins og hver önnur rándýr. Þær eru flóknar tilfinningaverur sem láta stjórnast af margvíslegum hvötum. Við höfum samúð með þeim, erum jafnvel með þeim í liði, og þekkjum í þeim okkar eigin hvatir, óbeislaðar. Bókarkápa íslensku útgáfunnar ber þess vitni, þar sem blóði drifnar varir sleikja munúðarfullt útum. Er þar um beina tengingu við sjónvarpsþættina að ræða, en þessi ljósmynd var hluti af kynningarefni fyrir þættina þegar þeir hófu fyrst göngu sína árið 2007. Höfundur þáttanna er Alan Bell en hann er betur þekktur sem handritshöfundur Óskars- verðlaunamyndarinnar American Beauty og sjónvarpsþáttanna Six feet under. Líkt og True Blood voru þeir þættir framleiddir fyrir kapalstöðina HBO. Sú stöð er þekkt fyrir framleiðslu á hispurslausu efni á borð við The Sopranos og Oz og voru framleiðendum True blood því litlar sem engar skorður settar. Blóðið flæðir og kynlífið er kröftugt. Þótt bækur Charlaine Harris bjóði vissulega upp á sama matseðil er ekki hægt að segja að skammtarnir séu jafn stórir. Alan Bell gerir sér gómsæta máltíð úr krassandi aðstæðum sem bækurnar rétt smakka á.

x

Spássían

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.