Spássían - 2010, Blaðsíða 39

Spássían - 2010, Blaðsíða 39
39 hljómsveitum sem þær höfðu verið að spila með hafði þótt það hálfgerður brandari að þær fengju yfirhöfuð að taka þátt. Hljómsveitin In Memoriam spilaði meira að segja grínútgáfu af Vögguvísu sem dauðarokk með breyttum texta á porthátíð á Tryggvagötu þá um sumarið en náði þó ekki að ljúka laginu þar sem Birgitta trommari kippti mögnurunum úr sambandi. Ýmislegt breyttist hjá þeim eftir sigurinn í Músíktilraunum. Tilboðum um spilamennsku rigndi inn og þar sem hljómsveitin hafði aðeins 5 lög tilbúin á þeim tíma var henni ekki til setunnar boðið og tók við að semja fleiri lög. Segjast þær hafa fundið fyrir því að nú þyrftu þær að fara að standa sig þar sem pressan var miklu meiri. Næstu mánuði tók svo við spilamennska næstum hverja helgi. „Við ferðuðumst bara á puttanum með hljóðfærin” segja þær og hlæja. Stelpurnar segja að draumar um að hasla sér völl erlendis hafi fyrir alvöru byrjað eftir að hljómsveitin kom fram á Eldborgarhátíðinni árið 1992 ásamt flestum lykilhljómsveitum landsins á þeim tíma. Í kjölfar hátíðarinnar birtist mikil lofgrein um Kolrössu Krókríðandi í hinu virta tónlistartímariti Melody Maker og var þeim hampað sem afli sem gæti brætt jökla. „Í rauninni var þetta aldrei spurning um einhverja heimsfrægð”, segir Bíbí, „heldur miklu frekar um lífsstíl. Framtíðarplönin voru ekkert það fastmótuð, það átti bara að vera gaman í dag og svo gaman aftur á morgun.” Eftir að hafa farið á Reading hátíðina í Englandi sama ár, þar sem þær voru kynntar fyrir fólki úr bransanum, fundu þær að þetta var það sem þær vildu gera. Næstu átta árin gaf hljómsveitin út fjölda geisladiska, bæði hér heima og erlendis. Jafnframt urðu nokkur mannaskipti. Karl Ágúst Guðmundsson tók við trommunum af Birgittu árið 1993, Anna Margrét Hraundal bættist við á gítar og Kidda Rokk tók við bassanum af Bíbí árið 1999. Erlendis spilaði hljómsveitin undir nafninu Bellatrix. „Við fórum út um allt. Við spiluðum allsstaðar á Norðurlöndunum, í Bandaríkjunum og rosalega mikið í Englandi”, segir Sigrún, „en stefnan var mest tekin á England. Þetta var rosalega skemmtilegur en erfiður tími. Við upplifðum ótrúlega hluti og lærðum mjög margt en það var líka rosalega erfitt að vera í svona nánu samstarfi við vini sína. Það lá við að það þyrfti að bera skeiningar undir hvert annað”. Bellatrix lagði upp laupana í desember árið 2000. Plata þeirra, Its all true, stóð ekki undir þeirra eigin væntingum og voru móttökurnar ekki þær sem búist hafði verið við, þrátt fyrir næga umfjöllun breskra fjölmiðla. Sigrún segir að það hafi í raun verið röð rangra ákvarðana sem varð til þess að hljómsveitarmeðlimum fannst þeir komnir aftur á byrjunarreit og voru frekar tilbúnir að gera eitthvað nýtt en að endurtaka sig. Kolrassa Krókríðandi hefur fengið fjölmargar fyrirspurnir um endurkomu- tónleika en alltaf hafnað því. „Höfum bara aldrei fengið réttu tilfinninguna fyrr en nú og svo er líka einhvern veginn nógu langt liðið”, segir Sigrún. Ástæður þess að þær ákváðu að taka tilboði um að spila á Eistnaflugi segja þær að tilhugsunin hafi verið fyndin og skemmtileg, sérstaklega þar sem hljómsveitir á borð við In Memoriam og Sororicide sem þær spiluðu mikið með hér áður fyrr verði einnig að spila. Ekki spillir heldur að hafa Napalm Death sem spilafélaga. Þetta verða einu tónleikarnir í endur- komu Kolrössu Krókríðandi og er áhugasömum bent á að rokkbrjálæðið á Eistnaflugi fer fram á Neskaupsstað helgina 8.-10. júlí. Katrín Guðmundsdóttir Sigrún og Bíbí fyrir utan æfingahúsnæði Kolrassanna

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.