Spássían - 2010, Blaðsíða 23

Spássían - 2010, Blaðsíða 23
23 Hingað til hefur frásögnin af íslenskri þjóð verið hetjusaga og hún er okkur kær, enda hefur hún gegnt mikilvægu, pólitísku hlutverki í gegnum tíðina. Hetjusagan um Ísland hefst á Íslendingasögum og nýjasti kaflinn var sagan um sigursælu útrásarvíkingana.2 Inn á milli koma kaflar um tímabundna ósigra. Sagan af efnahagshruninu hefur að mörgu leyti verið sögð sem slíkur kafli. Formið er glæparáðgáta sem snýst um að finna þann sem framdi glæpinn gegn íslensku þjóðinni. Við fundum fljótlega fjölda sökudólga til að beina spjótum að, fyrst og fremst fyrrverandi eigendur og stjórnendur bankanna, og allt lítur út fyrir að næsti kafli verði um sigur íslensku alþýðunnar á tímabundinni úrkynjun þessara aurapúka. Undanfarið hafa þó nokkrir af þeim sem hvað harðast hafa verið ásakaðir stigið fram og gert tilraun til að hafa áhrif á það hvernig saga þeirra skyldi sögð. Bréfin sem þeir skrifuðu þjóðinni sækja sterklega í hefð játninga af því tagi sem kirkjufaðirinn Ágústínus lagði línurnar fyrir. Litið í eigin barm Játningar Ágústínusar eru merkilegt rit og á sínum tíma „nýjung í bókmenntasögu heimsins“, segir Sigurbjörn Einarsson í formála að þýðingu sinni á bókinni.3 Bókin hefur oft verið kölluð fyrsta sjálfsævisagan og hefur hún haft ómæld áhrif á þá bókmenntagrein. Ágústínus lítur til baka yfir ævi sína og telur upp allt það sem kallast getur synd. Hann hefur hins vegar ekki einungis látið af syndugu líferni sínu heldur iðrast einnig allra syndanna og er nú verðugur elsku Guðs. Sigurbjörn bendir á að Játningarnar séu þó ekki bara ævisaga heldur „viðtal við Guð, bæn. Játning, confessio, felur í sér það tvennt í senn að játa fyrir Guði og játast honum í lofgjörð og og tilbeiðslu.“4 Í slíkum samskiptum þýðir ekkert að draga undan eða reyna að réttlæta gjörðir sínar. Þótt ekki hafi allar sjálfsævisögur þennan trúarlega undirtón draga þær margar dám af áherslu Ágústínusar á hið persónulega og viðtökur þeirra sýna að lesendur ætlast að einhverju leyti til þess að höfundurinn fletti ofan af sjálfum sér á einlægan hátt. Slíkar bækur hefjast enda oft á yfirlýsingum um að nú verði ekkert dregið undan. Játningar útrásarvíkinganna sverja sig í þá hefð. Bjarni Ármannsson, steig fram með bréfi sem birtist í Fréttablaðinu5 þann 5. janúar 2009 og sagði að það „skipbrot sem orðið hefur á fjármálamörkuðum heimsins“ kallaði á „endurskoðun og greiningu þess sem úrskeiðis fór“. Ekki aðeins þyrfti að skoða það „umhverfi sem skapaði slíkt hrun“ heldur þyrftu einnig þeir sem störfuðu í þessu umhverfi og stuðluðu að framgangi þess að líta „í eigin barm“ og takast á við eigið gildismat í ljósi þess sem gerst hefði. Hér er tónninn strax sleginn: hér mun iðrandi maður fletta ofan af eigin ágöllum eða mistökum með það að markmiði að hægt verði að draga lærdóm af sögu hans. Sigurbjörn segir að Ágústínus vilji „reyna að skilja sjálfan sig“ og geri það með því að skoða sig með augum Guðs. Hann viti „að þær rúnir sem fólgnar eru í veru og lífi hans, eru þær sömu og aðrir menn búa yfir. Þeir geyma allir sama leyndarmál, cor inquietum, órótt hjarta, fangið, fjötrað og vegavillt. Þeir eiga allir eina von, sama máttuga miskunnsama Guð.“6 Á sama hátt reynir Bjarni að varpa ljósi á eigin bresti og þar með annarra. Syndir á heilögum fjármálamarkaði Í gegnum orð Bjarna Ármannssonar skín að von okkar um uppreisn felst í máttugum (en kannski ekki miskunnsömum) markaði. Máttarvaldið sem hann hefur brotið gegn er nefnilega ekki Guð, heldur heilagt fjár- málakerfi: Ég get verið sjálfum mér reiður fyrir að hafa tekið ákvarðanir í uppbyggingu kerfis sem ekki stóðst, en með þeim ákvörðunum verð ég að lifa. Ég tel að allir þeir sem stýrðu fjármálakerfi okkar Íslendinga beri sína ábyrgð og að þeim beri að meta með ábyrgum hætti hvernig þeir axli hana. Þar undanskil ég ekki sjálfan mig og á jafnt við trú mína á krónuna, uppbyggingu launakerfis sem fór úr böndunum og hjarðhegðun sem leiddi til útlánaþenslu. Í fjölmörgum atriðum hefur okkur því miður farist óhönduglega: Í raun hlúðum við ekki að því hvernig við vildum að fjármálakerfið liti út í upphafi einkavæðingar þegar dreifðu eignarhaldi var kastað fyrir róða vorum við að búa til of sókndjarft kerfi. Samhliða þessu héldum við ekki úti nógu ströngu eftirlitskerfi. Okkur tókst heldur ekki að skapa nauðsynlegar hefðir í fjármálageiranum, þrátt fyrir við- leitni þar að lútandi. Trú mín og margra annarra á að markaðurinn gæti smíðað sitt eigið regluverk og framfylgt því reyndist ekki byggð á nægjanlega traustum grunni. Hins vegar er ljóst af samfélagsumræðu undanfarið að almenningur telur útrásar- víkingana ekki aðeins hafa brotið gegn fjár- málakerfinu heldur persónulega gegn öllum í landinu. Í slíku andrúmslofti er skiljanlegt að yfirlýsing Bjarna um að hörmulegt sé að horfa á „það hrun sem hefur orðið á bönkunum og afleiðingar þess fyrir fólkið í landinu“ hafi ekki þótt ganga nógu langt. Ég, um mig, frá mér, til okkar Mælandinn í tilvitnuninni hér að ofan færist smám saman frá því að tala um sig í 1. persónu eintölu yfir í 1. persónu fleirtölu. Textinn heldur áfram í 1. persónu fleirtölu þegar hann rekur það hvernig umgjörðin um fjármálageirann hafi ekki verið nógu sterk. Þessi tilfærsla stuðlar að því að færa sökina af Bjarna persónulega og yfir á andlitslausan hóp, kerfið sjálft, sem virðist þannig helst hafa brugðist sjálfu sér. Hún verður hins vegar einnig til þess að hið persónulega samband við lesandann rofnar, að játningarnar missa sterkasta aðdráttarafl sitt. Synd Bjarna virðist, samkvæmt texta hans, hafa verið að trúa á haldlausa hluti eins og krónuna. Hann talar, líkt og Ágústínus, eins og sá sem séð hefur villu síns vegar og lært af reynslunni. Þrátt fyrir tímabundið andvaraleysi sitt telur hann sig enn færan um að ráðleggja og leiða umræðuna: „Hluti af því að tryggja stöðugleika íslensks efnahagslífs til framtíðar litið hlýtur því að vera að kanna hug íslensku þjóðarinnar til fullrar aðildar að Evrópusambandinu með þeim kostum og göllum sem því fylgja.“ Sama viðhorf má einnig sjá í játningum annarra útrásarvíkinga sem fylgja í kjölfarið, enda eru þessar játningar öðrum þræði tilraun til þess að öðlast aftur gilda rödd í samfélagsumræðunni. Sú staðreynd að Bjarni tók ákveðið frumkvæði með bréfi sínu, og beið til dæmis ekki eftir niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis, hefði mögulega getað gefið þessu innleggi hans nokkuð vægi en undan því grefur hikið við að taka á sig persónulega ábyrgð. Slíkt hik gæti reyndar átt sér lagalegar ástæður en líklegt er að yfirstandandi rannsóknir á bankahruninu hafi áhrif á orðalag allra opinberra játninga sem það varðar. Björgólfur Thor Björgólfsson tekur til dæmis fram í bréfi til þjóðarinnar að hann telji víst að hann hafi „engin lög brotið“ og að í þröngum skilningi hafi hann allt sitt á þurru. Afsakið, afsakið, afsakið Þann 12. apríl 2010 skilaði Rannsóknarnefnd Alþingis af sér skýrslunni um hrun bankanna og varð strax tvennt ljóst: að í henni fólust miklir áfellisdómar, ekki síst yfir þeim sem neituðu að taka persónulega ábyrgð, og að fólk tók niðurstöðunum fagnandi. Strax tveimur dögum síðar birtist bréf Björgólfs Thors Björgólfssonar í Fréttablaðinu og virðist svara kröfunni um að stærstu leikendur á fjármálamarkaði viðurkenni sinn þátt í hruninu og iðrist. Bréfið ber hina auðmjúku yfirskrift „Ég bið ykkur afsökunar“.7 Fyrsta setningin lofar algjörri iðrun, bréfritari biður „alla Íslendinga afsökunar“ á sínum „þætti í eigna- og skuldabólunni sem leiddi til hruns íslenska bankakerfisins“. Áfram klifar Björgólfur Thor svo á því að hann biðjist afsökunar: „Ég bið ykkur afsökunar á andvaraleysi gagnvart þeim hættumerkjum sem hrönnuðust upp. Ég

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.