Spássían - 2010, Blaðsíða 29

Spássían - 2010, Blaðsíða 29
29 Spáð í framtíð karlmennsku Auður Aðalsteinsdóttir 1 Connell, R. W. og Messerschmidt, J. W., „Hegemonic masculinity: Rethinking the concept“, Gender & Society, 19 (6), 2005, 846. 2 Gyða Margrét Pétursdóttir, Within the Aura of Gender Equality: Icelandic work cultures, gender relations and family responsibility. A holistic approach, óbirt doktorsritgerð, Reykjavík, Háskóli Íslands, 2009. 3 Sama rit. 4 Connell og Messerschmidt, 853. 5 Connell, R.W., Gender and Power. Society, the person and sexual politics, Stanford, Stanford University Press, 1987, 378. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að langur vinnudagur, sókn í hærra kaup og samkeppni við starfsfélaga hafi mótað karl- mennskuhugmyndir sem byggðu á samtryggingarkarlmennsku og samkeppniskarlmennsku sem síðan mótaði íslenska viðskiptakarlmennsku, þá sem var ríkjandi fyrir kreppu. Þetta hafi kristallast í útrás íslenskra fyrirtækja og blandast hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem einkennist fyrst og fremst af einstaklings- hyggju. Að auki byggir hin samkeppnismiðaða karlmennska á og viðheldur ójafnræði kynjanna. Hin menningarlega ráðandi karlmennska er þó ekki föst stærð heldur breytileg. Sú tegund karlmennsku sem gerir ráð fyrir jafnræði milli kvenna og karla er því hugsanleg þótt Connell og Messerschmidt bendi á að ráðandi karlmennska hafi hingað til falist í því að leysa úr togstreitu kynjanna með því að treysta stoðir karlveldisins eða endurnýja það við nýjar aðstæður.4 Það muni aðeins breytast þegar ákveðin endurmótun hefur farið fram á samskiptanetum sem tengja karla fjölskyldum sínum, vinnu og atvinnulífi.5 Sama karlmennskan í nýjum búningi? Hvaða mynd tekur ráðandi karlmennska á sig á krepputímum þegar atvinnuleysi fer vaxandi og mörg fyrirtækjanna sem höfðu á sér mestan dýrðarljóma eru gjaldþrota? Og hvað felur framtíðin í skauti sér hvað varðar ráðandi karlmennsku? Gyða Margrét notaði fjórar fréttaljósmyndir til að spá fyrir um það. Á fyrstu tveimur myndunum eru fyrrum bankastarfsmenn, Ingólfur Helgason og Steingrímur Kárason, leiddir til yfirheyrslu. Á þriðju myndinni er Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings og fyrrum holdgerving hinnar menningarlega ráðandi karlmennsku, leiddur í gæsluvarðhald af starfsmanni sérstaks saksóknara. Sá síðarnefndi er alvarlegur á svip en Hreiðar Már áhyggjufullur. Á síðustu myndinni sést Hreiðar Már aftur, en nú laus úr haldi. Sami starfsmaður sérstaks saksóknara stendur á bak við hann og annar laganna vörður heldur undir handlegg hans. Þegar hér var komið við sögu var orðið augljóst hvað karlarnir á þessum ljósmyndum eiga sameiginlegt. Allir eru þeir í svörtum jakkafötum og ljósbláum skyrtum. Þessar myndir notaði Gyða Margrét til að rökstyðja þá spá sína að karlveldið muni haldast stöðugt, þrátt fyrir nokkrar tilfærslur á karlmennskuímyndinni eftir efnahagshrunið, og konur verði áfram óæðri karlmönnum á vinnumarkaðnum og í samfélaginu almennt. Stuttu eftir bankahrunið voru margir bjartsýnir, sagði Gyða Margrét og viðurkenndi að hafa verið ein þeirra: „Við héldum að nú væri kominn tími fyrir grundvallarbreytingar á kynjatengslum. Konur myndu jafnvel komast að við ákvarðanatökur og öðlast raunveruleg völd í samfélaginu. Þess vegna hefur þessi síðasta mynd ásótt mig undanfarnar vikur. Hinn grunaði og starfsmaður sérstaks saksóknara líta nákvæmlega eins út. Hinn grunaði var reyndar áður yfirskipaður verði laganna í stigveldi karlmennskunnar en nú hafa orðið tímabundin hlutverkaskipti. Þessi hlutverkaskipti eru þó ekki augljós ef maður þekkir ekki til aðstæðna því bæði hlutverkin krefjast sama búnings: Svartra jakkafata og ljósblárrar skyrtu. Stuttu eftir efnahagshrunið fór nýr brandari að ganga milli manna: „Hver er besta pikköpplínan á Íslandi þessa dagana? Ég er ríkisstarfsmaður.“ Starfsmenn sérstaks saksóknara eða lögreglunnar, í svörtum fötum, á bílum stofnunarinnar, eru ímynd hinnar nýju ráðandi karlmennsku sem einkennist af stöðugri innkomu, löngum vinnudegi og - ósvertu mannorði.“ Eftir fyrirlestur Gyðu Margrétar sköpuðust nokkrar umræður um þá staðreynd að allir karlarnir á myndunum sem hún sýndi voru bindislausir, í fölbláum skyrtum, með efstu töluna fráhneppta. Hneigðist ráðstefnufólk að því að túlka bindisleysið og opna hálsmálið sem vilja til að aðgreina sig skýrt frá fyrri ímynd ráðandi karlmennsku, þeirri sem nú er tengd við gjaldþrot, og gefa til kynna að nú væri komið hreinna fram. Kristín Loftsdóttir mannfræðingur fjallaði um ljósbláa litinn í öðrum fyrirlestri á ráðstefnunni þar sem hún bar saman táknmyndir Íslands í Eurovision fyrir og eftir kreppu. Kristín benti á að ljósblái liturinn á kjólnum sem Jóhanna Guðrún Jónsdóttir klæddist í Eurovision fyrra hafi á sér yfirbragð barnslegs sakleysis og að öfugt við þau skilaboð sem búningur Sylvíu Nætur sendi umheiminum á hátindi góðærisins hafi búningur Jóhönnu Guðrúnar borið með sér hógværð og einlægni. Rímar það vel við klæðaburð karlanna hér á myndunum. Því lítur út fyrir að hér sé ráðandi karlmennska að laga ímynd sína að breyttum aðstæðum án þess þó að breyta grundvallaratriðum - því jakkafötin eru jú enn til staðar. Mynd: Ingó

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.