Spássían - 2010, Blaðsíða 15
15
Hver kom fyrstur?
Íslenskur hrepparígur kynntur fyrir útlendingum
Á hverjum degi tínast útlendingar niður í
kjallara Restaurants Reykjavíkur og hlæja dátt
í tæpa klukkustund. Leikhópurinn Kraðak
stiklar þar á stóru í sögu landsins á kómískan
hátt, í leikverkinu Let‘s Talk Local. Fæstir
landsmenn vita af þessari uppfræðslu útlend-
inganna, sem gefur þeim nýja og stundum
spaugilega sýn á heimamenn. Nú hefur Kraðak
lagst í víking og komist alla leið til Húsavíkur
þar sem sögufræðslan hefur verið löguð að nýju
umhverfi. Húsvíkingar njóta góðs af, þeir fengu
allir boðsmiða og þar með tækifæri til að líta á
sig og nánasta umhverfi sitt í nýju ljósi.
„Þetta er gamanleikrit sem hægt er að
læra af,“ segir leikstjórinn, Anna Bergljót
Thorarensen, en leiksýningin er flutt á ensku
og fyrst og fremst ætluð túristum. „Ferðamenn
verða að hafa fleira að gera en að skoða hvali.“
Íslendingar hafa þó líka gaman af. Það er
framandlegt og stundum fyndið að heyra
þessar kunnuglegu sögur á ensku og Anna
Bergljót segir að Íslendingar verði stundum
vandræðalegir yfir því sem ljóstrað er upp.
Á Restauranti Reykjavík leiða tveir sögumenn
söguna um Ísland frá fyrstu tíð og bregða
sér í hlutverk ýmissa persóna. Fjallað er um
landnám fyrstu þriggja landnámsmannanna
og nöfnin sem Garðar Svavarsson og Hrafna-
Flóki gáfu landinu. Til leiks mæta líka Ingólfur
Arnarson, Hallveig Fróðadóttir kona hans og
fóstbróðir hans, Leifur Hróðmarsson. Næst er
farið til ársins 1750, talað um fyrsta fyrirtækið,
Innréttingar Skúla Magnússonar, samskiptin
við Danakonung og einokunina sem hélst í
hundruð ára. Þá er staldrað við þegar Jón
Sigurðsson lýsir því yfir að „vér mótmælum
allir“ en einnig er fjallað um hernámið.
Sýningar hófust í fyrrasumar og hafa staðið
yfir sleitulaust síðan. Og nú er ætlunin að vekja
áhuga Íslendinga á verkinu.
Á Húsavík eru daglegar sýningar á Gamla
Bauk en þar er eins og við er að búast farið yfir
sögu Húsavíkur og nágrennis. Enn eru það tveir
sögumenn sem bregða sér í hin ýmsu hlutverk.
Nú eru Garðar Svavarsson og Náttfari aðal-
persónur og lýsir leikritið landnámi þeirra á
Húsavík árið 870. „Húsvíkingar stæra sig af því
að Garðar hafi komið til Íslands á undan Ingólfi
og við notum það sem útgangspunkt“, segir
Anna Bergljót. „Við ferðumst með Garðari frá
Svíþjóð, komum að Austurlandi en siglum síðan
kringum eyjuna og förum inn í Grímsey, Flatey
og Lundey áður en við komum til Húsavíkur.
Síðan skoðum við nánasta nágrenni, til dæmis
Náttfaravík þar sem Náttfari er talinn hafa
dáið. Við segjum sögur á leiðinni, þjóðsögur af
Kölska og viðskiptum hans við mennina, en á
Húsavík kemur inn meiri áhersla á trölla-, álfa-
og draugasögur þótt við rekjum líka tölulegar
staðreyndir um eyjarnar og fleira.“
Snæbjörn Ragnarsson semur handritin að
leikritunum. Hann hefur undanfarið legið yfir
bókum um sögu Íslands og Húsavíkur og er
fyrir vikið orðinn nokkurs konar áhugasagn-
fræðingur. „Það þarf alltaf að kynna sér mun
meira en það sem fjallað er um á sýningunni.
Þetta er sýnt í litlum sölum og nálægðin við
áhorfendur er mikil. Það má kalla til okkar
hvenær sem er á sýningunni og við fáum alltaf
einhverjar spurningar. Svo er bara að vona að
við getum svarað þeim.“
leiklist