Spássían - 2010, Qupperneq 24

Spássían - 2010, Qupperneq 24
 24 b i ð s t afsökunar á að hafa ekki auðnast að fylgja hugboði mínu þegar ég þó kom auga á hættuna. Ég bið ykkur afsökunar.“ Lokaorð greinarinnar eru jafnframt: „Ég bið Íslendinga afsökunar á að hafa ekki staðið mig betur.“ Björgólfur Thor skilgreinir „sinn þátt“ í því hvernig fór á svipaðan hátt og Bjarni Ármannsson. Hann segir sögu af samviskusömum og hæfum varðmanni efna- hagslífsins sem viðurkennir á heiðarlegan hátt að hann lét truflast á verðinum og leyfði ekki almenningi að njóta nægjanlega þeirrar innsýnar hans inn í veikleika íslensks efnahagslífs sem sérþekking hans þó veitti: „Ég hefði átt að hafa skarpari dómgreind og ég hefði átt að hafa einbeittari vilja til að axla ríkari ábyrgð á hvert stefndi í íslensku viðskiptalífi.“ Hann gerir, líkt og Bjarni, ráð fyrir að sátt ríki um að hann hafi átt að standa þennan vörð. Fleira er líkt með orðum Bjarna Ármanns- sonar rúmu ári fyrr. Björgólfur færir sig líka úr 1. persónu eintölu yfir í fleirtölu og leggur áherslu á sameiginlega ábyrgð: Allir lögðust á eitt að reyna að halda kerfinu gangandi í von um að ytri aðstæður breyttust til batnaðar, einhverjar lausnir fyndust eða ástandið á lánsfjármörkuðum skánaði skyndilega. Auðvitað var ástandið verra en svo að nokkur einn aðili réði við það. En því miður auðnaðist engum þeirra sem stóðu og horfðu á að draga fram augljósa sameiginlega hagsmuni og vinna að því að ná samstöðu allra í baráttunni gegn þessum vanda. [...] Við í viðskiptalífinu biðum eftir lausnum og forystu frá stjórnvöldum. Án efa hafa stjórnmálamennirnir beðið eftir að við kæmum með lausnir. [...] En við slíkar aðstæður verður fólk að stíga fram, hætta að líta eingöngu til eigin hagsmuna og vinna saman. Okkur auðnaðist það ekki. Enginn steig fram og tók af skarið. Allir biðu eftir hinum. Björgólfur Thor virðist ætla að marka sér sérstöðu hvað varðar síðasta atriðið, að axla ábyrgð, þegar hann beinir aftur athyglinni að sjálfum sér og sínum þætti í hruninu. Hann kemst nálægt hinum persónulega tón játningaformsins er hann víkur að eigin fjármálum og lofar yfirbót: Ég er nú að vinna að uppgjöri skulda minna og mun gera betri grein fyrir því síðar. Ljóst er að þótt miklar eignir mínar renni til lánardrottna mun ég jafnframt starfa í þeirra þágu um ókomin ár, þar til ég hef að fullu gert upp við þá. Ég er staðráðinn í að ljúka því verki með sóma. Hins vegar eru játningar hans hvað varðar þátt hans í efnahagshruninu ekki nógu nákvæmar til að geta talist sú algjöra afhjúpun sem slíkt bókmenntaform krefst. Reyndar virðast þær á stundum alls ekki játningar á yfirsjónum heldur játningar á lofsamlegum aðgerðum til bjargar, til dæmis þegar Björgólfur Thor segir að það sem hann „þó reyndi að gera“ hafi ekki alltaf verið „hið rétta“ eða verið „of lítið“ og komið „of seint“. Á sama hátt hafði Bjarni Ármannsson þegar „tekið ábyrgð“ á því að hafa „unnið að uppbyggingu fjármálakerfisins á Íslandi sem forstjóri fjármálafyrirtækis í meira en tíu ár“, á tíma sem einkenndist af áræðni og þori, við að byggja upp þekkingu sem „á eftir að skila sér í framtíðinni“. Rúmri viku síðar birti Jón Ásgeir Jóhannesson bréf í Fréttablaðinu8 þar sem hann rekur hvernig „umhverfi og aðstæður í viðskiptalífinu, sem mótuðu mína kynslóð“ fólu í sér „mikil tækifæri með vaxandi frjálsræði og opnun heima fyrir og samtímis með nýjar og jákvæðar forsendur fyrir þátttöku í viðskiptum á alþjóðavettvangi“ en ekki hafi allt verið sem sýndist. Við að „byggja upp fyrirtæki sem ég gæti verið stoltur af og sem gæti látið gott af sér leiða fyrir samfélag okkar“ hafi hann farið „of geyst og færðist of mikið í fang á of skömmum tíma“. Hann játar sem sagt á sig dyggðir sem fáir myndu fyrirverða sig fyrir í sömu andrá og hann játar á sig fremur almenna mannlega breyskleika. Réttlæting ekki marktæk „Þetta er ekki afsökun heldur afneitun,“ sagði Vilhjálmur Bjarnason, lektor við Háskóla Íslands, í viðtali við fréttavefinn Vísi.is. „Þetta bréf Björgólfs Thors, sem ég er viss um að hann hefur ekki skrifað sjálfur heldur Ásgeir Friðgeirsson, aðstoðarmaður hans, er ekkert annað en aum réttlæting.“9 Hann grefur undan bréfi Björgólfs með því að sýna að það styðst ekki við tvær meginundirstöður játningaformsins: það byggir ekki á persónulegri reynslu og er ekki einlæg frásögn sem dregur ekkert undan. „Eigi vil ég réttlæta mig fyrir þér, sem ert sannleikurinn. Og ekki vil ég blekkja sjálfan mig og láta synd mína ljúga að sjálfri sér.“10 Sjálfsréttlæting er ekki marktæk syndajátning samkvæmt þessari yfirlýsingu Ágústínusar og þetta viðhorf er enn áberandi. Þegar á hólminn er komið er hins vegar algengast að játningar á yfirsjónum haldist í hendur við útskýringar og réttlætingar af einhverju tagi. Þegar kreppan skall á og leitin að hinum seku hófst var það almenningur, en ekki höfuðpaurarnir úr föllnu bönkunum, sem lagði línurnar í þeim efnum. Ein fyrstu viðbrögðin við kreppunni í íslenskum netheimum var bylgja játninga undir yfirskriftinni „Öxlum ábyrgð, játum syndirnar“. Dæmigerð játning hljómaði hins vegar eitthvað á þessa leið: „Ég játa að ég keypti mér flatskjá, sem ég staðgreiddi að vísu, og ég keypti mér bíl þótt hann hafi reyndar verið notaður og ódýr.“ Netverjar kepptust sem sagt um að játa á sig dyggðir á borð við sparsemi og réttlæta mögulegar misgjörðir sínar þótt einhverjir hafi eflaust fundið fyrir raunverulegri iðrun.Útrásarvíkingarnir taka þátt í „játningunum“ á sömu forsendum. Viðbrögðin, fálæti, reiði og háð, sýna hins vegar að þeir teljast ekki lengur hafa rétt til að taka þátt í samfélagsumræðunni á sömu forsendum og aðrir. Enda „yfirsjónir“ þeirra af annarri stærðargráðu.

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.