Spássían - 2010, Page 25
25
Að eiga sér rödd
Í anda Ágústínusar fullyrðir Jón Ásgeir
Jóhannesson að grein sín sé ekki skrifuð með
það fyrir augum „að tíunda í smáatriðum
neinar útskýringar, rök eða afsakanir“ sér
„til málsbóta, né varpa sök og ábyrgð á aðra“.
Markmið hennar sé af öðrum toga eins og
hann voni að sér „auðnist að gera lesendum
ljóst“. Jón Ásgeir segir reyndar hvergi
„afsakið“ fullum fetum eins og Björgólfur
Thor en iðrun og von um yfirbót má lesa úr
lokaorðum hans:
Fyrstur manna skal ég sjálfur viðurkenna,
hversu margt mátti betur fara í þessu ferli.
Í von um að geta bjargað fyrirtækjunum
lagði ég allt undir í tilraunum sem þó
reyndust alls ófullnægjandi, og ég sé glöggt
að ég missti iðulega sjónar á góðum gildum
og mörgu því sem mestu skiptir í lífinu. Því
verður ekki með orðum lýst, hvernig mér
líður vegna mistaka minna og afleiðinga
þeirra. Þær yfirsjónir verða ekki aftur
teknar. Við það verð ég að lifa. Fjármuni í
felum á aflandseyjum á ég enga. En ég heiti
íslensku þjóðinni því að gera allt sem í mínu
valdi stendur til að bæta fyrir mistök mín og
leggja mitt af mörkum til að byggja Ísland
upp að nýju.
Enn gerir útrásarvíkingur ráð fyrir því að
hann hafi ekki einungis rödd í umræðunni
heldur sé honum ætlað áframhaldandi
hlutverk við uppbyggingu íslensks samfélags,
eftir að hafa viðurkennt óvarfærni sína og
andvaraleysi. Það virðist hins vegar enginn
vera að hlusta. Tilraunin til að endursegja
söguna í viðurkenndu játningaformi hefur
mistekist.
Í Ufsagrýlum eftir Sjón, í leikstjórn Rúnars
Guðbrandssonar, voru útrásarvíkingarnir
formlaus, andlitslaus og mállaus skrímsli
í búrum sem örguðu eitthvað óskiljanlegt.
Þótt skrímslin hafi gert tilraun til að
smokra sér inn í mannlegt samfélag
aftur var það dæmt til að mistakast. Í
hetjusögum fá skrímsli ekki annan séns.
1 Ágústínus, Játningar, þýð. Sigurbjörn Einarsson, Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1962, 46.
2 Kristín Loftsdóttir hefur fjallað um það hvernig markvisst var sótt í þjóðernislegt myndmál
víkingahefðarinnar á tímum uppsveiflunnar í samfélaginu. Sjá t.d. „Kjarnmesta fólkið í heimi.
Þrástef íslenskrar þjóðernishyggju í gegnum lýðveldisbaráttu, útrás og kreppu“, Ritið. Tímarit
Hugvísindastofnunar, 9 (2-3), 2009.
3 Sigurbjörn Einarsson, „Inngangur“, Játningar, 7.
4 Sama rit, 18.
5 Bjarni Ármannsson, „Horfst í augu við bankahrunið“, Fréttablaðið, 5. janúar 2009.
6 Sigurbjörn Einarsson, 18-19.
7 Björgólfur Thor Björgólfsson, „Ég bið ykkur afsökunar”, Fréttablaðið, 14. apríl 2010.
8 Jón Ásgeir Jóhannesson, „Missti sjónar á góðum gildum”, Fréttablaðið, 22. apríl 2010.
9 „Ekki afsökun heldur afneitun”, Vísir.is, 14. apríl 2010.
10 Ágústínus, 24-25.
Auður Aðalsteinsdóttir