Spássían - 2010, Qupperneq 32

Spássían - 2010, Qupperneq 32
 32 Bókum Hermanns Stefánssonar er erfitt að lýsa með hefðbundnum skilgreiningum. Þær kljást við mörk skáldskapar og veruleika, orsaka og afleiðinga, þannig að hvergi virðist hægt að drepa niður öruggum fæti. Hann hikar heldur ekki við að sækja í bókmenntagreinar sem hafa átt undir högg að sækja á Íslandi, eins og glæpasagna- og vísindaskáldsagnahefðina. „Það eru engir veggir til nema þeir sem maður byggir sér í huganum“, segir Hermann um skilin sem stundum eru gerð milli alvöru bókmennta og annarra skrifa. „Um daginn var ég staddur í bílakirkjugarði, sem er fyrirbæri sem margir líta hornauga. En þessi bílakirkjugarður er í raun allt það sem virðuleg minjasöfn vilja vera. Þau eru alltaf að reyna að ná til samfélagsins, teygja sig út fyrir veggina. En bílakirkjugarðurinn er ekki lokað safn heldur ídeal safnsins, og þangað eiga bókmenntirnar að fara. Þær eiga að losa sig við menningaríhald sem byggir á ritúalskri endurtekningu á því sem eru „bókmenntir“.“ Bílakirkjugarðar og söfn eru Hermanni ofarlega í huga þessa dagana, en hann er nýkominn úr ferðalagi um landið með ljósmyndara. Afraksturinn verður hluti af sýningu þar sem íslenskir rithöfundar skrifa texta við verk pólskra ljósmyndara. Meðal staða sem Hermann heimsótti er bær sem tveir bræður á Seyðisfirði eiga: „Þar rétt fyrir utan er gríðarlegt flæmi af gömlum bílhræjum. Þetta er eins og draumastaður; ekki safn en lítið horn þar sem safnað hefur verið saman alls konar hröktum og lélegum bílum af öllum stærðum og gerðum. Þetta þykir ekki fínt á Íslandi. Á Egilsstöðum er sams konar kirkjugarður en þar er búið að breyta honum í safn, setja upp skilti með upplýsingum um hvern bíl, hvað hann sé gamall og allt það. En söfn eru alltaf að reyna að brjótast út fyrir veggi sína, teygja sig út til fólksins, og bílakirkjugarðurinn á Seyðisfirði er eins og ídeal safnsins. Þangað er safnið alltaf að reyna að komast. Við eigum að hætta að líta bílakirkjugarðinn hornauga og viðurkenna að hann er stórmerkilegt fyrirbæri.“ Í bókum Hermanns er líka algengt að skáldskapurinn teygi sig út fyrir bækurnar og mörk veruleika og skáldskapar nánast þurrkist út. Falsanir og þjófnaður eru einnig áberandi í verkum hans, enda segist Hermann alltaf hafa haft mikinn áhuga á sannleika og lygi: „Fals og lygar geta verið svo uppljóstrandi. Þær varpa ljósi á heiminn.“ Samkvæmt því ættu síðustu þrjár skáldsögur Hermanns, sem fjalla um rithöfundinn Guðjón Ólafsson og konu hans Helenu, að vera afar upplýsandi því þar virðist allt mora í þjófnaði, falsi og lygum. Algleymi og brjálaði vísindamaðurinn Algleymi mætti kalla fantasískan vísinda- skáldskap í ráðgátustíl en, eins og aðrar bækur Hermanns, á þetta verk ekki heima innan hefðbundinna skilgreininga. Bókin sækir í upphafi í sterka hefð bókmennta og kvikmynda sem fjalla um minnisleysi. Guðjón Ólafsson vaknar upp á sjúkrahúsi, minnislaus eftir höfuðhögg, og reynir að púsla því saman hver hann er, hvað kom fyrir hann og hvað sé að gerast í kringum hann. Sagan verður því öðrum þræði ráðgáta. Ekki minnka flækjurnar við það að skammtímaminni Guðjóns er áfram gloppótt og órar sækja á hann. Hann er því einstaklega óáreiðanleg vitundarmiðja og þarf lesandinn sjálfur að reyna að raða sögunni saman. Þótt við fáum sjónarhorn Helenu, konu Guðjóns, inn á milli, og hún hafi engan heilaskaða hlotið, bætir það ekkert úr skák því hún veit síst meira um hvað er á seyði og á einstaklega erfitt með að ráða í táknin í kringum sig. „Við erum öll minnislaus“, segir Hermann og tekur fram að hann sé reyndar óvenju gleyminn sjálfur. „Ég byrjaði bókina út frá hugmyndum um gleymsku og óra, ekki síst menningarlegri gleymsku í góðærinu og fyrr. Ég las læknisfræði, taugas júkdómafræði , eðlisfræði – þarna var margt spennandi en ég er mjög krítískur á sögu læknavísinda og þá einna helst afstöðu til sjúklinga. Mér finnst margt endurspeglast í því hvernig við Best geymdur í bílakirkjugarði

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.