Dagblaðið Vísir - DV - 03.01.2020, Blaðsíða 14
14 3. janúar 2020FRÉTTIR
Copyright © 2019 Dale Carnegie & Associates, Inc. All rights reserved. Gen next 120519 30x15
Það sem þátttakendur uppskera:
• Aukið sjálfstraust, sterkari sjálfsmynd og trú á eigin getu
• Hugrekki til að rétta upp hönd og taka þátt í umræðum
• Leiðir til að kynnast nýjum krökkum, bæta samskipti og styrkja sambönd
• Þor til að koma hugmyndum sínum á framfæri og hafa áhrif
• Betra skipulag og skýrari markmið
• Jákvætt viðhorf og kvíða/streitu stjórnun
Loksins get ég tjáð mig af öryggi!
Skráning er hafin á vornámskeiðin
Námskeið hefjast:
10 til 12 ára 25. jan. 10.00 til 13.00 8 skipti með viku millibili
13 til 15 ára 21. jan. 17.00 til 20.30 8 skipti með viku millibili
13 til 15 ára 17. feb. 17.00 til 20.30 8 skipti með viku millibili
16 til 19 ára 23. jan. 18.00 til 22.00 8 skipti með viku millibili
16 til 19 ára 19. feb. 18.00 til 22.00 8 skipti með viku millibili
Kynntu þér málið betur á dale.is
eða í síma 555 7080
„Ég myndi ekki skipta neinu út fyrir föðurlaust líf“
n Upplifun íslenskra karlmanna af pabbahlutverkinu n „Við pabbarnir erum
basically óþarfir fyrstu þrjá mánuðina“
„Ég held það
komi ekkert í
staðinn fyrir þetta“
Þ
að er ekkert sem að
undirbýr þig undir
þetta hlutverk og þessa
tilfinningu. Dóttir mín
sagði: „Ég elska pabba“, hún er
tveggja ára, hún er rétt farin að
tala. Það er ekkert sem að undirbýr
þig undir þegar barnið þitt segir
þetta eða heldur í höndina á þér
eða kemur og knúsar þig. Það er
alveg stjarnfræðilega bjánalegt að
reyna að lýsa því eitthvað,“ segir
íslenskur karlmaður um upplifun
sína af föðurhlutverkinu.
Þetta kemur fram í rannsókn
Pálu Margrétar Gunnarsdóttur en
í tengslum við MA-verkefni sitt við
menntavísindasvið HÍ kannaði
hún upplifun íslenskra feðra af
auknum þroska, hamingju og
lífstilgangi.
„Súrrealísk tilfinning“
Hvernig upplifa íslenskir
karlmenn það að verða feður
í fyrsta skipti og ala upp börn?
Hafa barneignir áhrif á þroska,
hamingju og tilgang í lífinu?
Í tengslum við rannsóknina
voru tekin viðtöl við níu íslenska
feður á aldrinum 36–55 ára,
en börn þeirra eru á aldrinum
0–13 ára. Feðurnir eiga það allir
sameiginlegt að vinna utan
heimilis og vera í sambúð eða
hjónabandi með barnsmóður
sinni auk þess að búa við
fjárhagslegt öryggi. Feðurnir
sem rætt var við lýsa því sem
ólýsanlegri tilfinningu að fá fyrsta
barnið í hendurnar.
„Mjög súrrealísk tilfinning,
alsælutilfinning … tingling
tilfinning í öllum líkamanum
… með náladofa alls staðar,“
segir einn úr hópnum. Annar
segir: „Maður fékk svona annað
hlutverk og aðra tilfinningu. Þetta
er eiginlega svona ólýsanlegt.
Þetta voru tilfinningar sem að
maður hafði aldrei fundið áður,
þessi sterka ást.“
Feðurnir hafa mismunandi
upplifun af fyrstu mánuðunum
eftir fæðingu barnsins og
upplifðu þeir sig ýmist hæfa til
að sinna ungbörnum sínum eða
„hjálparlausa“ og „tilgangslausa“.
„Við pabbarnir erum basically
óþarfir fyrstu þrjá mánuðina,
algjörlega tilgangslausir, nema
bara að aðstoða mömmuna,“
segir einn faðir.
Feðurnir tala um fyrsta árið
í lífi barnsins sem einstakt, en á
sama tíma krefjandi tímabil.
„Maður var ekkert alveg búinn
að hugsa það fyrirfram hversu
mikil ábyrgð það er að eiga barn,
að þetta myndi taka yfir allan
sólarhringinn en maður var bara
glaður, þannig að annað skipti
eiginlega ekkert máli,“ segir einn
faðirinn. Annar faðir lýsir því
hvernig þessi tími einkenndist af
gleði og hamingju.
„Þetta var yndislegur tími,
með fyrsta barnið lítið, ég held
það komi ekkert í staðinn fyrir
þetta.“
Fjárhagslegt álag og aukið
svefnleysi
Þá kemur fram hversu krefjandi
föðurhlutverkið er, eins og einn
faðirinn lýsir.
„Þú getur lesið allt sem þú
finnur og tekið öll námskeið,
eða bara sleppt því öllu, og það
skiptir engu máli, þú munt vita
ekkert, þú getur verið ógeðslega
undirbúinn, haft alla bóklegu
færnina og allt, en það skiptir
bara engu máli.“
Fram kemur að feðurnir
telji lífið með börnunum ríkt
af gleði og ánægju, en á sama
tíma krefjandi og einkennast af
tímaskorti. Þá leikur hlutverk
aukið fjárhagslegt álag, aukið
svefnleysi og þreyta og aukið álag
á parasambandið. Oftast nær tala
feðurnir um að fjárhagurinn og
atvinnan væru viss hindrun í því
að þeir gætu sinnt börnum sínum
eins vel og þeir vildu.
„Maður lifir fyrir það að
komast heim úr vinnunni og
vera með fjölskyldunni. Ég væri
alveg til í að vera heima með
þeim allan daginn og gæti þá
sinnt þeim miklu betur en það
þarf líka að vinna og það þarf að
kenna þeim líka að það þurfi að
hafa fyrir lífinu,“ segir einn úr
hópnum.
„Yndislegt að horfa á þau vaxa
og dafna“
Feðurnir tala þó um að lífið með
börnunum sé mun skemmtilegra
og áhugaverðara en líf þeirra var
áður, þar sem börnin „krydda
tilveruna“ og „gefa lífinu lit“.
„Það er allt gott við þetta, það
er litið upp til manns og það er
leitað til manns. Bara yndislegt að
fá að horfa á þau vaxa og dafna,“
segir einn faðirinn.
„Öll knúsin og brosin, og að
það séu mannverur, sem að
treysta á mann í einu og öllu,
öll þessi litlu svona bjánalegu
moment, það er búið að rífast
og orga og grenja og svo kemur
eitt bros og þá eru síðustu sjö
mánuðir af veseni bara, gufa
upp,“ segir annar.
Annar lýsir hamingjunni sem
felst í samverustundum með
börnunum.
„Það að ég sitji og lesi í blaði,
heyri þau bara vera að leika og
dúllast og horfa á sjónvarpið, það
er bara ákveðin sælutilfinning.“
Þó kemur fram að auk þess sem
feðurnir áliti lífið með börnunum
skemmtilegra telji þeir það einnig
mun erfiðara en áður.
„Það þarf að þrífa þvottinn, og
halda heimilinu í standi og það
eru ákveðnar skuldbindingar,
þetta daglega amstur getur verið
krefjandi, það er ókosturinn með
þrjá, fjóra krakka. Heimilið er
bara vinnustaður,“ segir einn.
Fram kemur feðurnir líta
á börnin sem hluta af tilgangi
lífsins.
„Það eru miklu, miklu meiri
plúsar við að eiga fjölskyldu, en
ekki að eiga fjölskyldu,“ segir einn
og annar segir „allt betra“ eftir
að börnin komu. Sá þriðji segist
ekki vilja „skipta neinu út fyrir
föðurlaust líf.“
Nokkrir úr hópnum lýsa
föðurhlutverkinu sem besta
hlutverki í lífinu og því besta
sem þeir hafi upplifað. Einn segir
föðurhlutverkið vera:
„Geggjað, magnað, frábært,
maður er rígmontinn með þetta
og elskar börnin sín alveg út í
hið óendanlega, þau veita manni
svo mikla hamingju, svona að
meðaltali, meiri heldur en hitt, þó
þau séu stundum erfið, maður er
mjög hamingjusamur.“
Stuðningur er mikilvægur
Fram kemur í niðurstöðum
rannsóknarinnar að ljóst sé að
feðurnir telji það að eignast börn
bæti við líf þeirra, þar sem þeir
upplifa aukinn þroska, aukinn
lífstilgang og aukna hamingju.
Vissulega segja þeir lífið með
börnunum krefjandi, en það
virðist engu skipta í samanburði
við þá gleði og hamingju sem
börnin veita þeim.
Þá kemur fram að á heildina
litið sé mikilvægt að styðja
foreldra í að lifa farsælu lífi og
fá sálrænum grunnþörfum
sínum fyrir sjálfræði, hæfni og
félagstengsl fullnægt. Meðal
annars með því að auka svigrúm
foreldra til að haga lífinu með
börnunum eins og þeir vilja, til að
mynda með lengra fæðingarorlofi
og styttri vinnutíma, sem gæti
verið hluti af því að auka sjálfræði
þeirra. Aukið svigrúm gæti
einnig aukið upplifun foreldra
af félagstengslum, þar sem þeir
hefðu meiri tíma til samveru
með börnum sínum, konu sinni,
stórfjölskyldu og vinum.
„Að styðja foreldra í auknum
mæli með foreldrafræðslu gæti
verið hluti af því að auka hæfni
þeirra. Foreldrafræðslan gæti
einnig verið skref í að stuðla
að auknu samfélagi foreldra
á Íslandi, með jákvæðum og
styðjandi samskiptum. Feður í
dag virðast upplifa hamingju, en
þó væri hægt að breyta ýmsu til
að stuðla enn frekar að hamingju
feðra á Íslandi.“ n
Auður Ösp Guðmundsdóttir
audur@dv.is