Fréttablaðið - 30.07.2020, Side 10
Tómas
Guðbjartsson
hjartaskurð-
læknir og
náttúruunnandi
og Ólafur Már
Björnsson
augnlæknir og
ljósmyndari
Súlutindar eru með tignarlegustu tindum landsins en þeir draga nafn sitt af súlulaga klettadrangi sem gnæfir upp af vestan-verðum Skeiðarárjökli, stærsta skriðjökli sunnan úr Vatnajökli. Sjálf Súlan er ekki hæst Súlu tinda, heldur syðsti tindurinn sem
úr fjarlægð sýnist illkleifur en er tiltölulega auðveldur
uppgöngu úr suðvestri. Af honum er gríðarlegt útsýni
yfir Skeiðarárjökul og litrík Skaftafellsfjöllin sem
afmarka Skeiðarárjökul austan megin. Enn austar er
Öræfajökull með Hvannadalshnjúk, Hrútsfjallstindar
og skógi vaxin Austurheiði norðan Skaftafells. Óvíða
sést betur hvílíkt f læmi Skeiðarársandur er, en hann
þekur næstum 2% af yfirborði landsins og á honum
er þétt æðakerfi jökuláa, sem voru miklir farartálmar
áður en þær voru brúaðar 1974 og hringvegurinn
opnaður. Best er að ganga á Súlutinda úr Núpsstaðar-
skógi sem er með fallegustu stöðum á landinu. Eftir
að jökuláin Súla breytti farvegi sínum í Gígjukvísl í
stað Núpsár, er mun auðveldara en áður að komast
í Núpsstaðarskóg því ekki þarf lengur að aka yfir
straumhörð og vatnsmikil Núpsvötn, en svo hétu
sameinuð Núpsá og Súla. Í staðinn má þræða sein-
farinn jeppaslóða austan megin Núpsár, þar sem ekki
er yfir neinar ár að fara.
Óvíða er fallegra að slá upp tjaldi en á kjarri vöxn-
um aurum Núpsstaðarskóga, undir Sniðabrekku inn
af Valabjörgum. Þarna er ekkert skipulegt tjaldsvæði,
sem eykur á upplifunina. Í vestur blasir Björninn
við, sundurskorið fjall og gróið líkt og Lómagnúpur
sunnar. Frá tjaldstæðinu er þrætt milli brattra gilja í
austur upp Sniðabrekkur, sunnan við fjallið Bunka.
Síðan er stefnan tekin á syðsta Súlutindinn sem er
696 m hár. Á leiðinni upp sést í sunnanverðan Vatna-
jökul og fjöll í honum eins og Geirvörtur og Þórðar-
hyrnu. Áður en haldið er heim er gaman að kíkja í
bæði skörðin, sérstaklega það nyrðra. Þar má í návígi
virða fyrir sér fagurlega skapaða 60 m háa Súluna og
þverhnípta veggi Súlutinda. Súla var fyrst klifin 1990
og þótti mikil frægðarför, enda bergið afar laust í sér.
Þetta er með fallegra útsýni á Íslandi, sann-
kallaður súlnasalur þar sem rákóttur Skeið-
arárjökull er dansgólfið. Skynsamlegt er að
halda sömu leið niður Sniðabrekkur, en
eftir því sem farið er sunnar eru minni
líkur á því að lenda í völundarhúsi
snarbrattra gilja.
Súlnasalur
Skeiðarárjökuls
Súla er einhver fallegasti tindur landsins og rís upp af vestanverðum Skeiðarárjökli. MYNDIR/TG
Súlutindar séðir úr vestri neðan Bunka, baðaðir kvöldsól með hvönn og eyrarrós í forgrunni.
Horft í norður
af hæsta
Súlutindinum
en skuggar af
þeim bregða
á leik á fallega
rákóttum
Skeiðarárjökli.
3 0 . J Ú L Í 2 0 2 0 F I M M T U D A G U R10 F R É T T I R ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð