Fréttablaðið - 21.08.2020, Page 16
Tónlistar- og athafna-maðurinn Logi Pedro er á fullu í tónlist, dagskrárgerð,
útvarpsmennsku, útgáfu og rekstri
símafélags og í dag gefur hann út
nýja plötu, sem heitir Undir bláu
tungli. Á plötunni eru öðruvísi
áherslur en í fyrri útgáfum Loga,
en hún er undir miklum áhrifum
frá afrískri popptónlist. Hann
segist ánægður með verkið og er
forvitinn að sjá hvernig viðtök-
urnar verða.
Logi býr í miðbænum ásamt
kærustu sinni, Hallveigu, og syni
þeirra, Bjarti, sem verður þriggja
ára í október. „Þessa dagana er
ég bara að sinna verkefnum hjá
Útvarpi 101,“ segir hann. „Skrif-
stofan okkar er líka skrifstofa
útgáfunnar Les Frères Stefson,
símafélagsins Sambandið 101 og
stúdíóið okkar er þar líka. Þannig
að þetta er rými þar sem við gerum
allt mögulegt.“
Logi segir að Útvarp 101 gangi
frábærlega. „Við erum búnir að
vera að vinna mikið af sjónvarps-
efni síðustu mánuði, við erum
núna með tvær seríur á Stöð 2, Að
tala saman og Bibba flýgur, við
erum líka að taka upp tvær aðrar
og við erum búnir að sýna tvær
eða þrjár. Þetta er mjög skemmti-
legt,“ segir Logi. „Svo tekur 101
Sambandið, símafélagið okkar,
líka mikinn tíma, en við erum ein-
mitt að fagna eins árs afmæli núna
um helgina.“
Koma tónlistarmönnum af stað
Útgáfufyrirtækið Les Frères
Stefson er líka á mikilli siglingu.
„Við höfum unnið með frábæru
tónlistarfólki síðustu ár og gefið út
mjög mikið af vinsælum plötum.
Við gáfum út báðar plöturnar
hans Flóna, síðustu GDRN-plötu,
plötuna hans Birnis, allar Sturlu
Atlas-plöturnar, allar Joey Christ-
plöturnar og stefnum á útgáfu með
Unu Schram.
Útgáfan var stofnuð í kringum
stúdíóið til að hjálpa fólki að
springa út og fá góðan grunn sem
tónlistarmenn. Flóni er til dæmis
orðinn einn stærsti popptónlistar-
maður á landinu og hann sér núna
um sín eigin útgáfumál. Það er
draumur að koma fólki á þann stað
að það sé búið að festa sig nógu
vel í sessi til að geta sinnt eigin
rekstri,“ segir Logi. „Þetta hefur
alltaf verið launalaus starfsemi
hjá okkur, við vildum bara hjálpa
öðru fólki í bransanum fyrst við
áttum frábært stúdíó og veita
þeim umgjörð í kringum verkefni
sín. Svo þegar fólk er komið með
eigin umgjörð tekur það bara við
keflinu og heldur áfram.“
Tími fyrir endurskoðun
á leikbókinni
Heimsfaraldurinn hefur bitnað
mikið á starfi Loga. „Þetta er búið
að vera alveg hellað, ég missti
miklar tekjur í mars og apríl, en
þá var ég að fara að spila á fullt af
tónleikum,“ segir hann. „Ég missti
tekjur sem áttu að halda mér
gangandi í einhverja mánuði. En
svo fékk ég listamenn til að hjálpa
mér að klára plötuna og ganga frá
henni og það bjargaði eiginlega
sumrinu fyrir mig.
Þessi faraldur er ein stór barátta
og það er mikilvægt að muna að
skapa grundvöll fyrir fólk sem er
að missa tekjur, hvort sem það eru
listamenn, fólk í ferðaþjónustu
eða aðrir. Ég held að núna sé gott
að einbeita sér að því að viðhalda
einhvers konar kaupmætti en líka
lífsgæðum hjá fólki, þrátt fyrir
áfallið,“ segir Logi.
Þegar Logi er spurður um það
sem honum finnst helst þurfa að
bæta í íslenskum stjórnmálum
nefnir hann strax ákallið um nýja
stjórnarskrá. „Ég tek undir það.
En það þarf samt ekki endilega
að vera stjórnarskráin sem var
samin á stjórnlagaþinginu,“ segir
hann. „Ég held að það sé gott að
nota hana sem grunn, en ég held
að það sé kominn tími fyrir algjöra
endurskoðun á leikbókinni okkar,
gildum og hefðum. Ég held að
það sé mjög mikilvægt og maður
hefur líka verið minntur vel á það
síðustu daga hvað það er mikil-
vægt að setja kvótann á markað og
bæta réttindi fólks almennt.“
Áhrifamikil ferð til Afríku
Logi fór til Síerra Leóne árin 2018
og 2019 til að vinna í tónlist. „Ég fór
út á vegum íslensks velgjörðasjóðs,
Aurora Fund, sem starfar mikið
þar. Þau er með alls konar verkefni
sem ganga út á að virkja samfélagið
og ákváðu að prófa að gera eitthvað
með tónlistarbransann. Þau fengu
nokkra tónlistarmenn frá Íslandi,
Bretlandi og Írlandi til að fara og
vinna með tónlistarmönnum sem
eru þaðan,“ segir hann. „Við vorum
öll sett á eldgamalt hótel inni í
frumskóginum og vorum þar í viku
að taka upp tónlist. Útkoman var
platan Osusu, sem er á Spotify og
fleiri streymisveitum. Við fórum
svo aftur út árið 2019 til að vinna
í upptökum og ég spilaði með
þarlendri hljómsveit á Freetown
Music Festival, sem er eina alþjóð-
lega tónlistarhátíðin í landinu.
Það var ótrúlega skemmtilegt
að koma í fyrsta sinn til Afríku,
en ég er ættaður frá Angóla. Síerra
Leóne er ótrúlegt land. Það er
mikil fátækt þar og lítil ferða-
þjónusta en það er ótrúlega gaman
að vera þarna og labba um götur
Freetown og ég upplifði mig mjög
öruggan,“ segir Logi. „Þetta var
líka öðruvísi upplifun fyrir mig en
suma af krökkunum sem eru ekki
ættuð frá Afríku, því þau voru svo
greinilega túristar. Ég gat falið mig
meira í fjöldanum.
Þessi ferð mótaði nýju plötuna
mjög mikið. Ég kynntist alls
konar nýrri tónlist sem kynnti
mig fyrir nýjum möguleikum og
ég var mjög spenntur fyrir, sem
gerist ekki oft. Ég hef hlustað mjög
mikið á afríska popptónlist síðan
og hún hefur haft áhrif á laga-
smíðar, útsetningar og hljóðheim
plötunnar,“ segir Logi.
Plata sem
endurspeglar sjálfið
Logi segir að fyrir vikið sé mjög
afrískur hljómur á nýju plötunni.
„Hún hefur í rauninni verið í
vinnslu síðan ég kláraði síðustu
plötu og ég tók hluta af henni upp
í Síerra Leóne. Textarnir fjalla um
næturlíf og alls konar litlar smá-
sögur eru settar saman. Mér finnst
líka gaman að gefa hana út svona
seint í sumar, því hún er dansvæn
og taktmikil. Ég vil reyna að teygja
sumarið aðeins áfram,“ segir hann.
„Ég myndi segja að á henni mæti
afrísk dægurtónlist íslenskri. Ég
er að nota afrósentrískar tón-
listarstefnur sem miðil fyrir
íslenskar lagasmíðar. Það helst
bæði í hendur við hvernig tónlist
er almennt, þar sem er mikið af
afrískum áhrifum og það kjarn-
ast líka í sjálfum mér, verandi frá
Íslandi og Angóla. Ég ákvað að
gefa ekki út neinar smáskífur af
plötunni vegna þess að þetta er
verk sem stendur saman sem ein
heild og mig langaði að gefa hana
út þannig.
Myndin sem er framan á plöt-
unni var tekin á Suðurlandi og við
létum sauma fánann á saumastofu
á Hofsósi, en þetta er norrænn
krossfáni í pan-afrískum litum.
Þessir litir koma frá mannrétt-
indafrömuðinum Marcus Garvey,
sem var uppi á fyrri helmingi 20.
aldar og setti saman fána fyrir fólk
um allan heim sem er af afrískum
uppruna og tengist mjög rétt-
indabaráttu þeirra,“ segir Logi.
„Litirnir eru svartur, rauður og
grænn og þeir hafa mikið verið
notaðir í þjóðfána afrískra þjóða
sem hafa fengið sjálfsstjórn og
sjálfstæði.“
Platan er komin á allar helstu
streymisveitur en það kemur í ljós
síðar hvort hún verður gefin út í
föstu formi.
Rólegur gagnvart stressinu
„Það er alltaf mjög stressandi að
gefa út plötu, en á sama tíma hef
ég ákveðna ró gagnvart stressinu,“
segir Logi. „Ég er forvitinn að vita
hvernig henni verður tekið og
hvort það verði hlustað á hana, en
ég er líka bara ánægður með hana
og langaði að gera hana. Ég held að
þetta sé sterkt verk.
Það er svo stór spurning hvernig
henni verður fylgt eftir þar sem
það er ekki hægt að spila á tón-
leikum. Það átti að vera fullt af
tónleikum og ég hélt að það myndi
ganga eftir á seinni hluta sumars-
ins,“ segir Logi. „En svo kom önnur
bylgja af faraldrinum og það er
bara eins og það er. Það verður
áhugavert að sjá hvort maður fái
að spila í vetur.“
Þrátt fyrir tónleikaleysi er samt
nóg fram undan hjá Loga. „Ég verð
áfram með Sambandið og ætla að
halda upp á eins árs afmælið og
svo er ég líka að fara í ný og spenn-
andi verkefni,“ segir hann. „Ég
ætla að setjast á skólabekk og læra
vöruhönnun og svo bara halda
áfram að lifa lífinu og gera tónlist.“
Logi segir að það
sé alltaf mjög
stressandi að gefa
út plötu, en hann
sé samt frekar
rólegur og aðal-
lega forvitinn að
vita hvernig henni
verður tekið.
Hann segist vera
ánægður með
plötuna og telja
hana sterkt verk.
FRÉTTABLAÐIÐ/
SIGTRYGGUR ARI
Framan á plötunni er mynd af Loga með norrænan krossfána í pan-afrískum
litum. Litirnir koma frá Marcus Garvey, sem var uppi á fyrri helmingi 20. aldar
og setti saman fána fyrir fólk um allan heim sem er af afrískum uppruna.
Oddur Freyr
Þorsteinsson
oddurfreyr@frettabladid.is
Ég hef hlustað
mjög mikið á
afríska popptónlist og
hún hefur haft áhrif á
lagasmíðar, útsetningar
og hljóðheim plötunnar.
2 KYNNINGARBLAÐ FÓLK 2 1 . ÁG Ú S T 2 0 2 0 F Ö S T U DAG U R