Morgunblaðið - 08.01.2020, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 8. JANÚAR 2020FRÉTTIR
Suðurlandsbraut 6, Rvk | S. 419 9000 info@handafl.is | handafl.is
Við útvegum hæfa
starfskrafta í flestar
greinar atvinnulífsins
VANTAR ÞIG STARFSFÓLK?
Traust og fagleg
starfsmannaveita
sem þjónað hefur íslenskum
fyrirtækjum í áraraðir
Mitt í öllum loftslagslátunum á síð-
asta ári hugsaði ég með mér, eins og
svo oft áður, að ef ég ætti bara ögn af
peningum aukreitis þá mætti örugg-
lega græða eitthvað á því að synda á
móti straumnum og fjárfesta í fyrir-
tækjum sem framleiða jarðefnaelds-
neyti. Umræðan var þannig að allt
sem heitir kol, gas og olía var
skyndilega orðið baneitrað og geisla-
virkt, og réttsýnir fjárfesting-
arsjóðir meira að segja farnir að
hóta stórfyrirtækjum öllu illu ef þau
löguðu ekki hjá sér koltvísýrings-
bókhaldið í hvelli. Þegar sérfræð-
ingar voru fengnir til að reikna út
sanngjarnt verð fyrir Saudi Aramco
mátu þeir það arðbærasta félagi
heims til lækkunar að sjóðir um allan
heim væru vísir til að vilja halda
hvers kyns fjárfestingum í olíu-
geiranum í lágmarki. Að hagnast á
jarðefnaeldsneyti er jú að vera einn
af þeim sem vilja fórna framtíð jarð-
arinnar fyrir stundargróða. „How
dare you!“ eins og maður ársins hjá
Time orðaði það.
En olía er verðmæt, sama hvernig
vindar almenningsálitsins blása. Al-
þjóðahagkerfið mun áfram þurfa á
jarðefnaeldsneyti að halda og langt í
það að almenningi bjóðist betri val-
kostir en bílvélin og þotuhreyfillinn.
Til skemmri tíma litið getur verið
skynsamlegt að fjárfesta í takt við al-
menningsálitið en til lengri tíma litið
verður veruleikinn almennings-
álitinu yfirsterkari.
Að þessu sögðu er forvitnilegt að
skoða hvaða stefnu Norðmenn ætla
að taka í olíuvinnslu. Er leitun að
þjóð þar sem meira er lagt upp úr
umhverfismálum, og er það t.d. um-
hverfisstefnu stjórnvalda að þakka
að hvergi í heiminum hafa rafmagns-
bílar náð meiri útbreiðslu en í Nor-
egi. Noregur selur Evrópu tandur-
hreina raforku úr vatnsafls-
virkjunum og norsk stjórnvöld láta
sig varða umhverfismál bæði innan-
lands og utan. Bara síðasta sumar
ákvað norska ríkisstjórnin að auka
til muna framlög Noregs til Um-
hverfisstofnunar SÞ, og á öllum svið-
um norsks atvinnulífs er búið að gera
metnaðarfullar grænar áætlanir
langt inn í framtíðina. Meira að segja
Olíusjóðurinn reynir að sneiða hjá
fjárfestingum í félögum sem fram-
leiða jarðefnaeldsneyti.
Samt á ekki að hætta að bora eftir
olíu.
Hafa þeir efni á að
skrúfa fyrir kranann?
„Við munum halda áfram að selja
olíu og gas svo lengi sem eftirspurn
er fyrir hendi,“ sagði Kjell-Børge
Freiberg, fráfarandi olíumálaráð-
herra Noregs. „Það mun áfram
verða eftirspurn eftir olíu, og ekki
síst gasi, um langt, langt, langt
skeið,“ sagði hann í desember,
skömmu áður en hann rétti arftaka
sínum lyklana að ráðuneytinu. „Rétt
eins og Bandaríkjamenn lentu á
tunglinu árið 1969 þá fann Noregur
olíulindir. Sú uppgötvun gerði okkur
að þeirri þjóð sem við erum í dag.
[Olían] er það sem við höfum byggt
á.“
Umhverfisverndarsinnar hafa
samt nokkuð til síns máls þegar þeir
segja að af öllum olíuframleiðslu-
ríkjum heims þá er Noregur það
land sem helst hefði efni á því að
skrúfa fyrir olíukranann. „Hver ætti
að taka af skarið og leyfa olíunni að
vera þar sem hún er, ofan í jörðinni?
Ekkert land er betur til þess fallið en
Noregur,“ hefur FT eftir Silje Lund-
berg, stjórnanda Náttúruverndar-
samtaka Noregs, Norges Natur-
vernforbund. Hún bætti því við að
þar sem tekjum ríkissjóðs af olíu-
vinnslunni hefði verið safnað sam-
viskusamlega í hlutabréfasjóð sem í
dag er 1.000 milljarða dala virði, þá
hefði landið í ágætis varasjóð að
sækja ef borpöllunum væri lokað.
Lundberg bendir á að olíuvinnsla
Noregs stangist á við loftslags-
skuldbindingar landsins, s.s. þær
sem kveðið er á um í Parísarsáttmál-
anum. „[Stjórnvöld] skilja ekki þá
hættu sem Noregur stendur frammi
fyrir ef við höldum áfram að láta eins
og morgundagurinn verði eins og
gærdagurinn, og hundsum þá efna-
hagslegu áhættu sem því fylgir,“
segir hún. „Ef við önum áfram á
sömu braut í blindri trú þá erum við
að veðja gegn bæði stefnu Noregs og
alþjóðasamfélagsins í loftslags-
málum.“
Dælt með sáralitlum útblæstri
Merkilegt nokk þá virðist Norð-
mönnunum ætla að takast að finna
sæmilega málamiðlun: að dæla olíu-
nni upp á eins umhverfisvænan máta
og kostur er.
Í gær var töluverð þyrluumferð í
kringum splunkunýjan borpall í
Norðursjó. Erna Solberg forsætis-
ráðherra var þar mætt á staðinn til
að ræsa starfsemina með formlegum
hætti og dæla fyrstu olíutunnunum
upp úr Johan Sverdrup-olíusvæðinu.
Þar er áætlað að megi finna um
100.000 tonn af olíu sem ætti að vera
um 100 milljarða dala virði. Það gerir
jafnvirði um 2,3 milljóna íslenskra
króna á hvern Norðmann en reiknað
er með að það muni taka um 50 ár að
tæma olíulindina. Þeir sem eru
hlynntir nýtingu svæðisins tala um
að Johan Sverdrup hafi blásið nýju
lífi í norska olíugeirann. Gagnrýn-
endur tala aftur á móti um umhverf-
isslys sem sýni vel hversu erfitt það
er að stemma stigu við loftslags-
breytingum af mannavöldum.
Olíuráðherrann Freiberg benti
blaðamönnum á að engin þjóð væri
Norðmönnum fremri í að ná olíu úr
jörðu á umhverfisvænan hátt. Á Jo-
han Sverdrup-svæðinu mun aðeins
þurfa að losa 700 g af koltvísýringi á
hvert fat af olíu á meðan meðaltalið á
heimsvísu er 18 kg. Kemur þetta
m.a. til af því að borpallurinn fær
raforku í gegnum streng frá landi.
Ekki nóg með það heldur er fram-
leiðslan tiltölulega ódýr og kemur út
á sléttu svo lengi sem olíuverð er yfir
20 dölum á fatið (í dag er heims-
markaðsverðið um 70 dalir). Ekki lít-
ið afrek hjá ríkisolíufélaginu Equi-
nor, áður Statoil, og það á borpalli
úti á rúmsjó. Til samanburðar kostar
það Sádi-Arabíu um 9 dali að gera
sína hráolíu tilbúna fyrir markað og
liggur samt við að hún dæli sér sjálf
upp úr eyðimerkursandinum.
Equinor vill þó gera enn betur og
stefnan er sett á að gera alla olíu- og
gasvinnslu fyrirtækisins sama sem
útblásturslausa ekki seinna en árið
2050. Eldar Saetre, forstjóri Equi-
nor, segir þetta ekki gert til þess að
eltast við stefnur og strauma í póli-
tík, heldur til að styrkja reksturinn:
að minni koltvísýringslosun við olíu-
framleiðslu geri félagið samkeppn-
ishæfara. Skemmir heldur ekki fyrir
að Equinor ber ábyrgð á u.þ.b. fjórð-
ungi allrar koltvísýringslosunar
Norðmanna, svo að ef þeim tekst að
dæla upp grænni olíu þá kæmi það
vel út fyrir kolefnisbókhald þjóð-
arinnar allrar. Strax árið 2030 á að
hafa tekist að minnka kolefnisspor
fyrirtækisins um 40% með því að
tengja fleiri borpalla á sjó við norska
rafmagnskerfið.
Græn olía kemur úr norskum lindum
Ásgeir Ingvarsson
skrifar frá Istanbúl
ai@mbl.is
Nýopnaður olíuborpallur á
Johan Sverdrup-svæðinu
fær hreint rafmagn frá landi
og losar því mun minni
koltvísýring en aðrir borpall-
ar. Norðmönnum liggur ekk-
ert á að hætta olíufram-
leiðslu þrátt fyrir umræðuna
um loftslagshamfarir.
Ljósmynd / Equinor - Arne Reidar Mortensen
Erna Solberg forsætisráðherra og Sylvi Listhaug, nýr olíumálaráðherra, voru kampakátar við vígslu nýja olíuborpallsins sem er bæði hagkvæmur og grænn.