Morgunblaðið - 03.02.2020, Síða 29
MENNING 29
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 3. FEBRÚAR 2020
ICQC 2020-2022
Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambio.is
LOKAKAFLINN
Í SKYWALKER SÖGUNNI
SÝND MEÐ ÍSLENSKU OG ENSKU TALI
6 ÓSKARSTILNEFNINGAR ÓSKARSTILNEFNINGAR11
Rás 2
FBL
LEIKSTÝRÐ AF CLINT EASTWOOD
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Fréttin um yfirvofandi endalok kvik-
myndahússins Bíó Paradísar, náist
ekki að útvega aukið rekstrarfé
vegna fyrirhugaðrar hækkunar á
húsaleigu, hefur lagst illa í marga
kvikmyndaunnendur og hefur Björn
Þór Vilhjálmsson, lektor í almennri
bókmenntafræði og kvikmyndafræði
við Háskóla Íslands, ekki farið var-
hluta af því. Hann segir nemendur í
kvikmyndafræði
miður sín yfir
þeim fréttum og
hann harmar
sjálfur möguleg
og líkleg endalok
þessa fyrsta og
eina listræna
kvikmyndahúss
landsins.
„Að mínu mati
er sjálf stofnun
Bíós Paradísar
það mikilvægasta sem gerst hefur í
íslenskri kvikmyndamenningu í háa
herrans tíð og ef við aðskiljum að-
eins kvikmyndagerð og -menningu,
þó að þetta fari saman og hægt sé
að ræða líka tengingarnar, er þetta
algjörlega lykilatriði fyrir íslenska
kvikmyndamenningu. Bíóið ætti
ekki að þurfa að berjast í bökkum
eins og verið hefur ár eftir ár, þetta
ætti bara að vera eins og listasöfn-
in, sinfónían og leikhúsið. Þetta
þarf að vera stofnun,“ segir Björn
Þór.
„Það sem almennt er sýnt í ís-
lensku bíóunum er efni frá Holly-
wood. Það hafa auðvitað alltaf
ákveðin lögmál stýrt vali á kvik-
myndum til sýninga en einsleitnin
hefur verið að aukast, m.a. út af þró-
un í kvikmyndaframleiðslu í heim-
inum og þá sérstaklega í Bandaríkj-
unum, þar sem færri en miklu dýrari
myndir eru gerðar. Þetta þýðir að
sama myndin er sýnd kannski í fjór-
um bíóum, og á venjulegum degi
gætu hátt í fimmtíu sýningar verið á
henni, einkum ef um „stórmynd“ á
borð við nýja Marvel-mynd er að
ræða,“ segir Björn Þór, sem líst
greinilega illa á þá þróun að tölvu-
gerðar Hollywood-myndir tröllríði
kvikmyndahúsum heimsins. „Þetta
er ekki það eina sem er að eiga sér
stað í kvikmyndamenningunni í dag,
það er svo fjarskalega margt annað
að gerast, en dreifikerfi Bandaríkj-
anna og Hollywood er svo öflugt að
bandarískar kvikmyndir eru einfald-
lega einu bíómyndirnar sem eru
sýndar alls staðar í heiminum.
Ekkert annað þjóðarbíó er þannig
að myndirnar þaðan fari í kvik-
myndahús alls staðar á plánetunni.“
Frjálsari og fjörugri
Björn Þór bendir á öll hin þjóðar-
bíóin, t.d. kvikmyndir frá löndum
Evrópu, Asíu og Suður-Ameríku.
„Þarna er um afskaplega blómlega
og mikilvæga kvikmyndagerð að
ræða, og ákvarðanir um gerð mynd-
arinnar eru ekki teknar af fjár-
málaverkfræðingum sem sitja á
skrifstofum í skýjakljúfum og stýra
alþjóðlegum fyrirtækjasam-
steypum,“ segir Björn Þór. Þessar
myndir séu ekki bundnar lögmálum
hagnaðar og arðbærni, ólíkt Holly-
wood-myndum. „Kvikmyndin er í
þeirri skrítnu stöðu að tvinna saman
viðskiptaleg og listræn markmið á
máta sem ekki er raunin í öðrum
listformum. Nú, ef kvikmynd kostar
70 milljarða í framleiðslu þarf hún
að fara víða og falla mörgum í geð til
að tapa ekki stórfé, það er markaðs-
bíóið og um það er allt gott að segja.
En hér á landi er þeirri hlið sinnt
mjög vel. Ef Bíó Paradís verður lok-
að þurrkast hins vegar hin hliðin –
sú sem er aðeins frjálsari og fjörugri
– svo gott sem út þegar kemur að
sýningarhaldi hér á landi,“ segir
Björn Þór og bendir á að það sama
eigi við um fleiri listgreinar hér á
landi sem þurfi á stuðningi hins op-
inbera að halda til að þrífast. Nefnir
hann sem dæmi starfslaun lista-
manna og Kvikmyndamiðstöð Ís-
lands.
„Bíó Paradís þjónar því hlutverki
að sýna okkur að Marvel og Harry
Potter eru það ekki það eina sem til
er í heiminum. Þangað fer rjóminn
úr heimsbíóinu, alþjóðlega lista-
myndin og bara góðar og skemmti-
legar bíómyndir úr öllum heims-
hornum. Listamynd er að sumu leyti
rangt hugtak í þessu samhengi en
þarna eru myndirnar sem ber hæst í
kvikmyndamenningu ólíkra þjóð-
landa, þær rata til Bíó Paradísar.
Þetta eru myndir sem við sáum aldr-
ei á Íslandi nema á lista- og kvik-
myndahátíðum eða í seinni tíð þegar
sendiráð eru farin að styrkja sér-
staka bíódaga.
Að við höfum kvikmyndahús sem
starfar allt árið um kring og sýnir
svona myndir er ástæðan fyrir því
að ég sagði í byrjun að þetta væri
það mikilvægasta sem hefði gerst í
íslenskri kvikmyndamenningu í háa
herrans tíð, að við fengum loksins
það sem er til mjög víða, „cinemate-
que“, bíó sem er að sinna öðru en
allra markaðsvænstu kvikmynda-
afurðunum. Ef þér finnst menning
mikilvæg, kvikmyndalistin og ís-
lensk kvikmyndagerð mikilvæg, þá
helst þetta algjörlega í hendur við
það. Það er ekki hægt að búa til
þjóðarbíó ef fólkið sem kemur inn í
það er alið upp á algjörlega einsleitri
kvikmyndamenningu sem á rætur
að rekja til tveggja eða þriggja
fyrirtækja á vesturströnd Banda-
ríkjanna,“ segir Björn Þór.
Þarf fjárstuðning og aðstoð
–Hvernig er hægt að sjá til þess
að til sé svona kvikmyndahús? Þessi
rekstur stendur ekki undir sér.
„Hann stendur ekki undir sér
frekar en allt hitt sem ég taldi upp
áðan; bókmenntir eða kvikmyndir,
ekkert stendur undir sér á Íslandi.
Við erum of fá. Það eina sem stend-
ur undir sér er Marvel-myndir. Bíó
Paradís væri ekki og hefði aldrei
verið rekið án stuðnings opinberra
aðila og það sem þarf að gera er að
borg og ríki sameinist um að kvik-
myndir séu listgrein, mikilvægur
hluti af menningu okkar og það beri
að rækta greinina eins og aðrar list-
greinar og skapa henni tryggt og
öruggt rekstrarumhverfi, sem þýðir
bara fjárstuðningur og aðstoð við
húsnæði. Þess vegna að byggja und-
ir „cinemateque“. Ég sé ekki að
neitt standi í vegi fyrir því, við erum
að byggja alls konar byggingar fyrir
alls konar menningarstofnanir og
listgreinar. Allt íslenskt kvikmynda-
gerðarfólk sem ég þekki hefur lifað
og hrærst í kvikmyndum og það er
ástæðan fyrir því að fólk ákveður að
gerast kvikmyndagerðarmenn. Ég
veit ekki hvort Spider-Man: Far
from Home sé að fara að verða þess
valdandi að hæfileikaríkur ein-
staklingur ákveði að þetta sé það
sem hann vilji gera, að búa til kvik-
mynd í tölvu um mann í skrítnum
fötum. Allir sem ég þekki voru að
kafa í klassísku myndirnar,“ segir
Björn Þór.
Hann bendir að lokum á að Bíó
Paradís sé ekki alltaf troðfullt en
bíóið sé hins vegar athvarf og
áfangastaður allra kvikmynda-
áhugamanna í Reykjavík. Vídeóleig-
urnar séu nær allar horfnar og því
sé aðgengi að kvikmyndum minna
en áður, treysta þurfi á streymis-
veitur og stafrænar leigur með tak-
mörkuðu úrvali. „Úrvalið er af-
spyrnuvont,“ segir Björn Þór og
skorar á blaðamann að horfa á Citi-
zen Kane eftir löglegum leiðum.
Blaðamaður bendir á að mögulega
megi finna hana á bókasafni eða einu
vídeóleigunni sem starfrækt er í 101.
„Þarf að vera stofnun“
Morgunblaðið/Golli
Sígild Átta og níu ára börn að horfa á The Kid, kvikmynd Charlie Chaplin frá árinu 1921, í Bíó Paradís árið 2010.
Tilkoma Bíós Paradísar það mikilvægasta sem gerst hefur í íslenskri
kvikmyndamenningu í háa herrans tíð, að mati lektors í kvikmyndafræði
Björn Þór
Vilhjálmsson