Morgunblaðið - 21.03.2020, Side 43
AF LEIKLIST
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
Sæhjarta nefnist brúðulistasýning
fyrir fullorðna sem Handbendi
brúðuleikhús frumsýndi í Tjarnar-
bíói í seinasta mánuði. Höfundur og
flytjandi verksins er Greta Clough,
sem fæddist í Bandaríkjunum og
bjó í London um árabil við nám og
störf áður en hún fluttist til
Hvammstanga fyrir um fimm árum
þar sem hún starfrækir Handbendi
brúðuleikhús í samvinnu við Sigurð
Líndal Þórisson, eiginmann sinn,
sem leikstýrði Sæhjarta.
Í einleiknum, sem fluttur var á
ensku, vinnur Greta að stórum
hluta með tvær ólíkar sögur sem
tengjast hafinu. Annars vegar er
um að ræða þjóðsöguna um sels-
haminn og hins vegar ævintýrið um
Undine sem Þjóðverjinn Friedrich
De La Motte Fouqué ritaði í kring-
um 1811 og mun hafa veitt danska
sagnaskáldinu Hans Christian
Andersen innblástur að sögu hans
um litlu hafmeyjuna.
Sagan um selshaminn fjallar um
mann sem morgun einn gengur nið-
ur að sjó og heyrir glaum og dans-
læti inni í helli og sér marga sels-
hami fyrir utan. Hann tekur einn
þeirra með sér heim og læsir ofan í
kistu. Þegar hann snýr aftur niður
að sjó síðar sama dag finnur hann
fagra unga konu sem nakin grætur
sáran þar sem hún finnur ekki
haminn sinn og getur því ekki snúið
aftur til heimkynna sinna. Maður-
inn tekur konuna með sér heim,
kvænist henni og eignast með henni
börn. Mörgum árum seinna kemst
konan yfir lykilinn, meðan maður-
inn er að heiman. Þegar hann snýr
aftur er kistan opin og konan og
hamurinn horfin. Kveðjuorð kon-
unnar til barna sinna áður en hún
steypti sér í sjóinn var: „Mér er um
og ó, ég á sjö börn á landi og sjö
börn í sjó.“ Konan snýr aldrei aftur
á land, en sagan segir að selur hafi
oft verið á sveimi í kringum bát
mannsins og hann aflasæll. Einnig
sáu menn sel skammt undan landi,
þegar börn þeirra hjóna gengu með
sjávarströndinni, sem kastaði til
barnanna marglitum fiskum og fal-
legum skeljum.
Ævintýri Fouqué um Undine er
nokkurs konar umskiptingasaga.
Sjómannshjón, sem búa á mörkum
raun- og yfirnáttúrulegra heima,
glata ungri dóttur sinni en í staðinn
kemur til þeirra stúlkan Undine sem
þau taka að sér og ala upp sem sína
eigin – þrátt fyrir að hún sé mun
viljasterkari og óþekkari en þeirra
eigin dóttir var. Í ljós kemur að
Undine er vatnadís og af þeim sök-
um getur hún haft áhrif á bæði
vatna- og veðurfar í kringum sig. Í
æðum hennar rennur vatn og því
getur hún tekið á sig ýmsar
birtingarmyndir. Undine dreymir
um að vita hvernig sé að hafa mann-
legt hjarta. Hún giftist riddara sem
heillast af fegurð hennar, en hann
veit ekki að Undine getur aðeins
verið í mannslíki á meðan ást hans
til hennar helst sönn. Forlögin haga
því svo að hann svíkur Undine með
þeim afleiðingum að hún umbreytist
aftur í vatnadís, en ævintýrinu lýkur
ekki fyrr en hún hefur snúið aftur í
formi vatns og orðið valdur að dauða
riddarans.
Unga konan sem Greta túlkar í
Sæhjarta er býsna óáreiðanlegur
sögumaður. Á stundum virðist hún
eiga ýmislegt sameiginlegt með
Undine hvað varðar upprunann, því
ókunnug hjón taka hana að sér þeg-
ar hún er á unga aldri, og sterk
tengsl við náttúruöflin. Á sama tíma
virðist hún þess fullviss að móðir
hennar hljóti að hafa verið selur og
eyðir töluverðum tíma í að segja
okkur sögur af samskiptum hennar
við seli niðri við sjó eða þegar hún
er á veiðum ásamt fósturföður sín-
um. Hún ýmist man eða man ekki
eftir móður sinni og samskiptum við
hana, sem verður á köflum ansi
ruglingslegt. Bæði í textanum og
hljóðmyndinni heyrum við reglulega
að unga konan sé óvelkomin,
strandaglópur, úrhrak og óþekkt.
Þegar henni fæðist barn bætist
skömmin við ávirðingar samfélags-
ins.
Sýningin tekur snarpa en furðu-
lega beygju þegar unga konan fer að
deila kynlífsórum sínum og nauðg-
unarfantasíum um fósturföður sinn,
sem allt bendir til að sé faðir barns-
ins sem hún síðar fæðir. Úrvinnslan
úr þessu vandmeðfarna efni hefði
þurft að vera bæði mun markvissari
og ígrundaðri til að virka í sýning-
unni. Þó að verkið dansi á mörkum
hins raunsæja og yfirnáttúrulega
bendir ýmislegt til þess að unga
konan gangi ekki heil til skógar, sem
dregur allverulega úr dramatísku
vægi frásagnarinnar. Þannig er erf-
itt að skynja lokasenu verksins með
þeim rómantíska blæ sem lagt er
upp með í textanum þegar ljóst má
vera að með því að skila barni sínu
til hafsins er hún í raun að bera það
út. Einnig er vandasamt að lesa í öll
þau tákn sem borin eru á borð, því
hvað á unga konan við þegar hún
segist loks vita sannleikann? Og af
hverju þarf hún að finna sjóstakk
fósturföður síns sem gerður er úr
selsham? Var hann upphaflega
hennar?
Sjónræn umgjörð uppfærslunnar
er um margt býsna falleg, en Egill
Ingibergsson hannaði bæði þénuga
leikmynd og fallega lýsingu. Fjöldi
litríkra sólhlífa á háum stöngum
minnti helst á marglyttur sem flutu
hátt yfir höfði ungu konunnar líkt og
væri hún allan tímann á hafsbotni.
Sandurinn á sviðinu geymdi ýmsar
brúður sem Greta notaði til að miðla
sögunni. Tónlist og hljóðmynd
Júlíusar Aðalsteins Róbertssonar
var oft áhrifarík en á öðrum stund-
um of hátt stillt, sem gerði það að
verkum að hluti textans fór fyrir of-
an garð og neðan, sem hjálpaði ekki
brotakenndum efniviðnum. Þá hjálp-
aði það heldur ekki við textaflutning-
inn hversu oft Greta beindi orðum
sínum uppsviðs eða til hliðar og rauf
þannig tengslin við salinn. Sæhjarta
er á köflum áhugaverð sýning, en
hefði vafalítið grætt á mun mark-
vissari dramatúrgíu.
„Mér er um og ó“
Sæhjarta „Sjónræn um-
gjörð uppfærslunnar er um
margt býsna falleg,“ segir í
rýni um Sæhjarta sem
Handbendi brúðuleikhús
sýndi í Tjarnarbíói.
MENNING 43
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 21. MARS 2020
ICQC 2020-2022
Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambio.is
SÝND MEÐ ÍSLENSKU OG ENSKU TALI
Julia Louis-Dreyfus Will Ferrell
ADifferent Kind of Disaster Movie.
m.a.
ÓSKARSVERÐLAUN3 BESTA KVIKMYNDATAKAN
ÓSKARSTILNEFNINGAR2 BESTA ERLENDA MYNDINBESTA LE IKARI : ANTONIO BANDERASSÝND MEÐ ÍSLENSKU OG ENSKU TALI
★★★★
San Francisco Chronicle
★★★★
Indiewire
★★★★
Hollywood reporter