Morgunblaðið - 07.04.2020, Blaðsíða 19
ræða sjúkdóm sinn, sýna tilfinn-
ingar, tala um þær áskoranir og
þá erfiðleika sem hann gekk í
gegnum og þetta gerði hann bæði
með húmor en líka með æðruleysi
og einlægni.
Við minnumst þín með þínum
orðum, sem þú sagðir á fyrirlestri
fyrir ári síðan „ég fór út og setti
mér það markmið að brosa til
allra. Það hefur áhrif á fólk og
gefur þér líka til baka“. Svo í kjöl-
farið settir þú eitt af þínum uppá-
haldslögum á … I will survive og
fékkst okkur öll til þess að standa
upp að dansa við lagið.
Kæri vinur, við eigum eftir að
sakna þín og þú lifir í huga og
hjörtum okkar. Þú varst einstak-
lega góður og fallegur drengur.
Fjölskyldu Heimis sendum við
okkar dýpstu samúðarkveðjur,
megi allir Guðs englar vaka yfir
ykkur og vernda. Minningin um
góðan dreng lifir.
Anna og Jón (Nonni).
Elsku Heimir í okkar huga, frá
A-Ö. Ljúf er þín minning.
A-Arnarfjörður, Á-áreiðanleg-
ur , B-bróðir, C-Carnegie , D-
Dýrafjörður, E-eiginmaður F-
fjörkálfur, G-gleðigjafi, H-hlátur,
I-Idol , Í-íþróttir, J-jákæðni, K-
kúreki, L-ljúfmenni, M-mágur,
N-nemandi, O-orka, Ó-ófeiminn,
P-pabbi, R-ræðumennska, S-son-
ur, T-töffari, U-umhyggja, Ú-út-
varp/sjónvarp, V-vinur, Y-yndi,
Þ-þögull (ekki), Æ-æskufélagi, Ö-
öðlingur.
Loks er dagsins önn á enda,
úti birtan dvín.
Byrgðu fyrir blökkum skugga,
björtu augun þín.
Ég skal þerra tár þíns trega,
tendra falinn eld,
svo við getum saman vinur
syrgt og glaðst í kveld.
Lífið hefur hendur kaldar,
hjartaljúfur minn.
Allir bera sorg í sefa,
sárin blæða inn.
Tárin falla heit í hljóði,
heimur ei þau sér.
Sofna, vinur, svefnljóð
meðan syng ég yfir þér.
Þreyttir hvílast, þögla nóttin,
þaggar dagsins kvein.
Felur brátt í faðmi sínum,
fagureygðan svein.
Eins og hljóður engill friðar,
yfir jörðu fer.
Sof þú væran vinur,
ég skal vaka yfir þér.
(Kristján frá Djúpalæk)
Ásta Hólmfríður og
Arnar Helgi.
Flautað hefur verið til leiks-
loka hjá Valsmanninum og vini
okkar Heimi Jónassyni. Þrátt
fyrir skammvinn veikindi fékk
hann langþráða hvíld. Blessuð sé
minning hans. Heimir var Vals-
maður í húð og hár og varði
stórum hluta æskuáranna á Hlíð-
arenda. Hann var hluti af hinum
litríka og sterka ’66-árgangi
ásamt Jóni Gretari, Anthony
Karli, Berki Edvardssyni, Berg-
sveini Sampsted, Snævari
Hreins, Baldri Braga, Stefáni
Hilmars og Svala Björgvins, svo
fáeinir séu nefndir.
Þessir guttar urðu Íslands-
meistarar í 5. flokki í fótbolta árið
1978, undir stjórn Inga Björns
Albertssonar, hetjunnar úr
meistaraflokki. Heimir vann sér
það til frægðar að skora úrslita-
markið á móti Keflavík, með
tánni af 40 metra færi, en leik-
urinn fór fram í Vestmannaeyjum
í 18 vindstigum. Heimir lék á
kantinum og þótti lipur og lunk-
inn og sérstaklega sterkur fé-
lagslega. Þeim styrkleika hélt
hann til æviloka enda hvers
manns hugljúfi og mikill húmor-
isti. Tveimur árum síðar varð
Heimir aftur Íslandsmeistari
með Val, þá í 4. flokki undir stjórn
Jóhanns Larsen, eftir stórsigur
gegn Þór Akureyri á Kópavogs-
velli. Sama ár varð liðið haust-
meistari.
Vinskapur Valsmanna í ’66-ár-
ganginum hefur verið öflugur frá
æskuárunum og þegar Börkur og
Jón Gretar tóku við stjórnar-
taumunum í knattspyrnudeild
Vals var Heimir þeim innan
handar í markaðsmálum og fleiru
enda starfið margt. Og seinna var
hann í stjórn handknattleiks-
deildar.
Heimir var líka vaskur körfu-
boltamaður en fyrst og síðast
góður liðsmaður og félagi í Val og
með yngri landsliðum Íslands.
Hann gerði allar æfingar
skemmtilegri og hafði það að leið-
arljósi að gleðja, kæta og hvetja
aðra. Heimir hefði getað orðið af-
bragðs körfuboltamaður ef hann
hefði gefið sér betri tíma en hug-
ur hans var víða og hæfileikar á
mörgum sviðum. Bræður hans
voru líka á Hlíðarenda öllum
stundum; Matti í körfubolta og
Júlli í handbolta.
Heimir kom víða við á sínum
starfsferli og hafði svo sterka út-
geislun að allir virtust þekkja
kappann. Og þeir sem þekktu
hann ekki vissu af honum. Hann
varð snemma leiðtogi og auðséð
að hann átti eftir að láta víða að
sér kveða. Ummæli allra sem um-
gengust hann eru á einn veg: ein-
stakur drengur, með félagshæfni
ofar öðrum og kímnigáfu sem bar
af.
Heimir var tíður gestur á Hlíð-
arenda hin síðari ár, kannski
vegna þess að æskustöðvarnar
skipta miklu máli þegar sólin
hnígur til viðar. Hann lét engan
bilbug á sér finna þótt hann færi
hægt yfir og brosið og kærleik-
urinn var hans leiðarljós.
Sjálfur kynntist ég Heimi í
Verslunarskóla Íslands þar sem
við vorum bekkjarfélagar eitt ár-
ið og útskrifuðumst saman sem
stúdentar. Heimir var alla tíð já-
kvæður og skemmtilegur félagi
sem gaf mikið af sér. Það er mikil
eftirsjá að Heimi og hans verður
sárt saknað.
Fyrir hönd Knattspyrnufélag-
ins Vals votta ég Berglindi og
börnum þeirra, vinum og fjöl-
skyldu samúð okkar allra.
Árni Pétur Jónsson,
formaður Vals.
Elsku besti vinur minn Heimir
Jónasson er hvíldinni feginn eftir
erfiða baráttu við andstyggilegan
sjúkdóm. Þótt aðdragandinn hafi
verið nokkur er sársaukinn og
söknuðurinn ekki minni fyrir það.
Heimir var sannur vinur – óborg-
anlegur húmoristi og gleðigjafi.
Hann hafði jákvæð áhrif á okkur
öll og heimurinn er fátækari án
hans.
Við Heimir vorum bekkjar-
bræður í Versló og vinir alla tíð
síðan. Félagslífið átti hug okkar
allan og saman brölluðum við ým-
islegt hvort sem var á skemmti-
kvöldum eða nemendamótum.
Gleðin, ástríðan og jákvæðnin var
smitandi. Hann gat séð hið skop-
lega í öllum hlutum og var ein-
stakur í gríninu. Ræðan sem
hann flutti í brúðkaupi okkar
hjóna verður lengi í minnum höfð
enda kútveltust veislugestir af
hlátri. En Heimir var ekki bara
gleðigjafi heldur einnig svo ein-
lægur og hjartahlýr – hann var
traustur vinur.
Skarðið sem höggvið er í vina-
hópinn er stórt. Leiðir okkar
skildi á tímabili, margir fluttu út
til náms og þar á meðal Heimir.
Hann unni Þýskalandi og á heið-
urinn af því að fá mig til að meta
þýskan hveitibjór og jafnvel
Weißwurst. Eftir heimkomu tók
við daglegt streð eins og hjá okk-
ur öllum. Heimir eignaðist ynd-
islega eiginkonu í Berglindi og
einstök börn, Áshildi, Silju og
Markús, sem kveðja nú föður sinn
allt of snemma.
Við lifum á skrýtnum tímum
þar sem við getum ekki hist og
faðmað hvert annað – við erum
félagslega einangruð þegar við
þurfum á nánd og hlýju að halda.
Við syrgjum vin okkar og ástvin
og þökkum fyrir samfylgdina –
það verður dýrmætt að hitta vini
og ástvini í minningarathöfn sem
haldin verður síðar.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Elsku Berglind og börn,
Munda, bræður og fjölskyldur –
innilegar samúðarkveðjur. Fjöl-
skyldan var ríkidæmi Heimis og
blessun. Mikið eigum við eftir að
sakna hans, megi minning hans
vera okkar blessun. Guð veri með
ykkur.
Andri Þór Guðmundsson.
Hann fyllti salinn sólarljósi.
Þessi orð koma upp í hugann við
fráfall vinar míns. Þau eru laus-
lega þýdd úr ljóði eftir þýskan
tónlistarmann sem við héldum
báðir mikið upp á, línur ortar í
miklum söknuði. Ég kynntist
Heimi sem bróður eins minna
bestu vina en síðar á lífsleiðinni
vorum við samtíða í Wiesbaden
og kynntumst enn nánar. Þar var
skemmtilegur kjarni Íslendinga
sem hafði töluverð samskipti og
Heimir var hluti af þeim hópi.
Stofnuðum við hið hæverska
íþrótta- og lífsstílsfélag Skvas-
sklúbb Alheims (sem sumir
nefndu AlHeimis), sem lagði jafn-
mikið upp úr keppni í íþróttinni
sjálfri og félagslegu hliðinni sem
jafnan fylgdi eftir æfingar og
þeirra á milli. Heimir var einn
stofnenda, en var vikið úr klúbbn-
um á fyrsta fundi fyrir þær sakir
að sýna forseta félagsins meinta
lítilsvirðingu. Úr þessu varð
hringrás gríns sem entist í ald-
arfjórðung, í henni vann hann sig
upp til að fá inngöngu aftur,
stofnað var til inntökuathafnar,
sem jafnan fór þannig að Heimir
„ristaði“ einhvern félagsmanna á
þann hátt að umsvifalaust var
hætt við og það í miklum hlátri og
yfirvinnu tárakirtla. Þessi húmor
var dæmigerður fyrir Heimi. Þótt
hann væri hornsteinn félagsins
var hann af þessum „sökum“
aldrei formlegur meðlimur, þótt
allir tengdir honum væru það,
jafnvel allir hundarnir í lífi hans.
Stundum fannst okkur félögun-
um hann fullóskipulagður, lofa
sér of víða og detta út úr fyrir-
huguðum fundum okkar vinanna
með litlum fyrirvara. Allt spratt
þetta af sömu rótum; Heimir átti
marga að, vildi allt fyrir alla gera,
stundum meira en tími eða kraft-
ar leyfðu.
Ég átti þess líka kost að vinna
með honum sem fagmanni. Þar
nutu eiginleikar hans sín vel,
skörp sýn á hvað þyrfti að gera og
hvernig væri best að ná markmið-
unum. Þar kom vel í ljós hversu
næmur hann var á fólk og um-
hverfi, ávann sér traust allra sem
að verkefninu komu og litið var á
hann sem einn af okkur frá fyrstu
kynnum.
Það er einfaldlega sumum bet-
ur gefið en öðrum að hrífa fólk
með sér með tilvistinni einni sam-
an – fylla salinn sólarljósi með
komu sinni. Heimir hafði þessa
eiginleika, ekki aðeins við fyrstu
kynni heldur hvenær sem þú hitt-
ir hann. Fasið var glaðlegt, hlýjan
geislaði, einlægnin hreif mann
jafnan. Hann hafði skemmtilega
sýn á tilveruna, annálaður húm-
oristi með hæfileika til að tjá sig
með leikrænum tilburðum og eft-
irhermum ef svo bar undir.
Heimir og hans nánustu hafa
tekist á við allt sem þessum sjúk-
dómi hefur fylgt af einstakri sam-
heldni og æðruleysi, hann óspar á
grínið á eigin kostnað allan tím-
ann.
Heimir fékk endanlega lausn
frá sinni löngu baráttu og kvaddi
jarðvistina á fallegum afmælis-
degi móður sinnar. Ég hafði þá
alloft kvatt hann, að því er ég hélt
hinstu kveðju, þegar ég yfirgaf
landið einu sinni sem oftar, en
viljinn var mikill, jafnan markmið
að ná og það læddist að manni
grunur um að þessi dagur væri
eitt þeirra.
Við Fjóla vottum Berglindi,
Markúsi, Áshildi, Silju, Mundu og
fjölskyldu Heimis okkar dýpstu
samúð. Við munum sakna hans
oft og innilega en minnast hans í
gleði og jákvæðni. Blessuð sé
minning þessa góða drengs og
trausta vinar.
Jakob Sigurðsson.
Fimm ár eru liðin frá því að við
hittum Heimi fyrst. Hann gekk
rösklega inn í skólastofuna, reffi-
legur í rauðum Converse-skóm,
með trefil um hálsinn og sixpens-
ara á berum skallanum. Það gust-
aði af honum. Hann var öryggið
uppmálað og ætlaði sér augljós-
lega að skalla þetta MBA-nám –
sem hann gerði.
Við þrjú vorum lánsöm að velj-
ast í fyrsta lotuhópinn með
Heimi. Hann gaf hópnum nafnið
„Team Awesome“ sem var lýs-
andi nafn fyrir samstarfið sem við
áttum framundan. Við sátum á
fremsta bekk, héldumst í hendur
í gegnum fyrstu lotu MBA-náms-
ins og áttum æðislegar stundir
saman við úrlausn krefjandi
verkefna. Minningarnar af sam-
starfi hópsins eru allar ánægju-
legar og er það ekki síst Heimi að
þakka. Áreynslulaust og án alls
yfirgangs tryggði hann sam-
heldni hópsins og gjöfult sam-
starf. Hann hafði einstaklega
þægilega nærveru, var hnyttinn,
óspar á hrós, einlægur, hug-
myndaríkur og sérstaklega lipur í
samskiptum. Hann tók sjálfan sig
ekki of hátíðlega, var víðáttu
hress, kraftmikill og skemmtileg-
ur. Dýrmætasta afurð samstarfs-
ins var vináttan sem myndaðist
meðal okkar allra. Við eignuð-
umst öll góðan vin í Heimi. Vin
sem var örlátur, ráðagóður, sann-
ur, hreinskilinn og til staðar þeg-
ar á þurfti að halda.
Heimir var límið í MBA-hópn-
um, bæði meðan á náminu stóð og
eftir að því lauk. Hann lagði mikið
upp úr því að halda sambandi eft-
ir útskrift og boðaði okkur reglu-
lega í kaffihitting, skemmtiskokk
eða hádegismat. Í einum slíkum
hittingi tjáði Heimir okkur að
hann væri í rannsóknum því hann
væri ólíkur sjálfum sér. Við trúð-
um því að það væri eitthvað sem
hann myndi vinna bug á, enda
hafði hann alltaf verið svo orku-
mikill og sprækur. Skömmu síðar
færði hann okkur þær fréttir að
hann hafði greinst með ólækn-
andi sjúkdóm sem myndi hafa
veruleg áhrif á líf hans. Hann var
þó staðráðinn í að nýta tímann vel
og var aðdáunarvert að fylgjast
með því hvað hann tók veikindum
sínum af miklu æðruleysi. Það er
ekki öllum gefið að horfa björtum
augum fram á erfiða tíma, en
Heimir virtist ekki eiga í erfið-
leikum með það. Hann tókst á við
þau verkefni sem lífið færði hon-
um og viðhorf hans til lífsins er
öðrum til eftirbreytni.
Árið 2018 tóku MBA-vinir
Heimis þátt í Reykjavíkurmara-
þoninu ásamt stórum hópi ann-
arra sem hann þekktu. Dagurinn
var fallegur og var dásamlegt að
hlaupa fyrir Heimi og fjölskyldu
hans. Á hliðarlínunni stóð Heimir
og hvatti okkur áfram ásamt
Berglindi sinni. Þau hjónin buðu
til fagnaðar að loknu hlaupi á
pallinum hjá Iðnó. Ógleymanleg
stund þar sem fjöldi vina samein-
aðist um að leggja sitt af mörkum
í baráttunni við sjúkdóminn.
Við erum óendanlega þakklát
fyrir þann tíma sem við fengum
með Heimi. Með söknuði kveðj-
um við kæran vin. Takk fyrir
samveruna, skilninginn, gleðina,
góð ráð og alla umhyggjuna. Hvíl
í friði, elsku vinur. Við sjáum þig
síðar í rauðu Converse-skónum,
fáum okkur ljúfan kaffibolla og
eigum gott spjall.
Fjölskyldu Heimis færum við
okkar innilegustu samúðarkveðj-
ur.
Þínir MBA-vinir í Team Awe-
some,
Þórunn Inga Ingjaldsdóttir,
Benný Ósk Harðardóttir,
Sigurbjörn Ingimundarson.
MINNINGAR 19
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. APRÍL 2020
✝ SigurðurIngvarsson, fv.
forstjóri Barðans
Skútuvogi, fæddist
í Reykjavík 16.
desember 1942.
Hann lést á Vífils-
stöðum 25. mars
2020. Foreldrar
hans voru Ingvar
Agnarsson, f. 8.
júní 1914, d. 23.
mars 1996, og Að-
alheiður Tómasdóttir f. 10.
nóvember 1912, d. 20. apríl
2008. Sigurður var einkabarn.
Hinn 12. september 1970
kvæntist Sigurður Jónínu
Ágústu Jónsdóttur, f. 21. októ-
ber 1948. Foreldrar hennar
voru Jón Þórir Jónsson, f. 5.
nóvember 1910, d. 19. mars
1970, og Vigdís Helga Jóns-
dóttir, f. 22. júní 1917, d. 25.
nóvember 1973. Þau eignuðust
fjóra drengi sem eru: 1) Ingv-
ar, f. 1970, kona hans er Bjarn-
ey Grendal Jóhannesdóttir, þau
eiga einn son, Sigurð, en Ingv-
ar á dótturina Evu Írenu frá
fyrra sambandi. 2) Jón Helgi, f.
1972, kona hans er Sara Lind
Ólafsdóttir, þau eru barnlaus
en Jón á tvö börn frá fyrra
sambandi, Elísabetu og Guð-
mund Arnar. 3) Tómas, f. 1976,
kona hans er Arnfríður Kr.
Arnórsdóttir, börn þeirra eru
Kristín Helga og
Heimir Örn en
Tómas á tvær dæt-
ur frá fyrra sam-
bandi, Aðalheiði og
Söndru Dögg. Arn-
fríður á frá fyrra
sambandi soninn
Arnór Inga Júl-
íusson. 4) Agnar, f.
1986, kona hans er
Eva Rós Sigurðar-
dóttir, þau eiga
börnin Írisi Birtu og Hrafnar
Loga.
Sigurður ólst upp í Kópa-
vogi. Hann lærði útvarps-
virkjun og vann við það í nokk-
ur ár. Hann fór síðar að starfa
með föður sínum hjá Gúmmí-
vinnustofunni og Barðanum en
fyrirtækinu var síðar skipt upp
og kom rekstur Barðans í hlut
þeirra feðga. Sigurður tók al-
farið við rekstrinum af föður
sínum er hann lést 1996 en
seldi svo fyrirtækið 2007 og
sneri sér þá að ýmsum öðrum
rekstri. Þau hjónin hófu búskap
á Hábraut 4 í Kópavogi en
fluttu síðar í norðurbæ Hafnar-
fjarðar þar sem þau bjuggu
alla sína tíð, lengst af á Þrúð-
vangi.
Útför Sigurðar fer fram í
dag, 7. apríl 2020, og verður í
kyrrþey í samræmi við reglur
um samkomubann.
Elsku pabbi, tengdapabbi og
afi var borinn til hinstu hvílu í
dag. Þótt söknuðurinn sé mikill,
jafnvel stundum yfirþyrmandi,
þá er tilhugsunin um það að
hann sé kominn á betri stað, laus
við þrautir og mein, yfirsterkari.
Við eigum svo ótrúlega margar
og góðar minningar sem ylja um
hjartarætur og hugga í sorginni.
Alltaf tók hann á móti manni
með orðunum „sæll vinur“ eða
„sæl vina“ hvort sem maður tal-
aði við hann í síma eða kom í
heimsókn. Hlýlegt viðmót og ein-
læg gleði yfir félagsskap við
mann var smitandi. Hann vildi
ræða um dekk, viðskipti, pólitík,
sögur og bækur og gat gripið
niður hvar sem var og rætt af
áhuga og innlifun. Síðustu ár
reyndust honum erfið vegna
veikinda og átti hann þá oft erfitt
með að tala um margt annað en
það sem hrjáði hann enda orðinn
þreyttur og úrkula vonar um að
ná bata. Samt sem áður á góðum
dögum reyndi hann að vera glað-
ur og kátur og sýna því sem
maður var að gera áhuga, fá
Sigga til að segja sér eitthvað
skemmtilegt eða sýna sér hvað
hann væri að byggja í Mindcraft.
Hann var stoltur af litla nafna
sínum eins og öllum barnabörn-
um sínum og barnabarnabörn-
um. Hann sat oft í stólnum og
raulaði með íslenskum útilegu-
lögum og hefur sjálfsagt verið að
láta hugann reika til þess tíma er
hann var í fullu fjöri með gít-
arinn í Þjórsárdal að spila og
tralla og halda uppi stuðinu eins
og hans var von og vísa. Á kvöld-
in sátu þau oftar en ekki,
mamma inni í eldhúsi eitthvað að
bardúsa og pabbi frammi í stofu,
og flautuðu saman sama lag-
stúfinn Í bljúgri bæn. Notaleg
samvera án orða sem sagði samt
svo margt enda eru orð orðin
óþörf eftir meira en 50 ára sam-
veru en þau hefðu átt 50 ára hjú-
skaparafmæli í haust.
Já, í dag var borið til grafar
einstakt ljúfmenni með ótal
marga góða kosti sem vert er að
tileinka sér. Það væri ekki leið-
um að líkjast að líkjast honum
pabba. Fróðleiksfúsari mann var
vart hægt að finna þótt hann hafi
kannski ekki eytt löngum stund-
um við lestur bóka. Hann kaus
heldur að tala við fólk og fræðast
í gegnum reynslu þess og þekk-
ingu, sama á hvaða sviði sú þekk-
ing var. Hann var mikil félags-
vera og átti erfitt með að vera
einn enda fór heimsóknabannið á
spítalanum illa í hann. Þegar
maður ræddi við hann og reyndi
að útskýra þetta óskiljanlega og
fordæmalausa ástand heyrðist
oft hjá honum: „En getur ekki
hann Siggi minn komið, það get-
ur ekki verið að börnin megi ekki
koma í heimsókn.“ Einhvern
varð hann að hafa til að tala við.
Já, það væri hægt að skrifa
heila bók um hann pabba en það
er víst ekki pláss fyrir það hér.
Við munum ávallt minnast hans
með söknuði, væntumþykju,
virðingu og þakklæti.
Elsku pabbi, þú varst mér
ekki bara góður faðir, heldur
einnig minn besti vinur og sálu-
félagi og ég gat alltaf leitað til
þín ef mig vantaði ráð. Við áttum
svo margt sameiginlegt og á milli
okkar ríkti djúpur skilningur. Ég
veit þú ert aftur orðinn glaður og
kominn á góðan stað. Við
sjáumst svo aftur þegar þar að
kemur. Við söknum þín og mun-
um ávallt geyma þig í hjörtum
okkar, góða ferð.
Ingvar, Bjarney og Sigurður.
Sigurður
Ingvarsson
Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla
útgáfudaga.
Skil | Þeir sem vilja senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega
beðnir að nota innsendikerfi blaðsins. Smellt á Morgunblaðslógóið í
hægra horninu efst og viðeigandi liður, „Senda inn minningargrein,“
valinn úr felliglugganum. Einnig er hægt að slá inn slóðina
www.mbl.is/sendagrein
Skilafrestur | Ef óskað er eftir birtingu á útfarardegi verður greinin
að hafa borist eigi síðar en á hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á
föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi).
Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein ber-
ist áður en skilafrestur rennur út.
Minningargreinar