Feykir


Feykir - 26.06.2019, Blaðsíða 8

Feykir - 26.06.2019, Blaðsíða 8
 Heilir og sælir lesendur góðir. Það er Magnús J. Jóhannsson sem er höfundur að fyrstu hringhendunni að þessu sinni. Mun hún ort til einhvers sem hann átti í skáldadeilum við. Verum sáttir, ljúfu ljóðin leiki dátt um hyggjurann. Verri þáttinn, illa óðinn aftur láttu í handraðann. Ekki mun Magnús hafa verið par hrifinn af þeim sem völdu sér veginn hægra megin í pólitíkinni eftir næstu vísu hans að dæma. Ef þeir dingla dollaraseðli dregst að íhaldshyskið leitt. Þetta er þess innsta eðli engin rök fá slíku breytt. Um samferðamann á lífsins leið yrkir Magnús: Góðmennskunnar gullnu strönd gekkstu líkt og fleiri. Réttir ávallt hjálparhönd hinum kraftameiri. Ekki er skrýtið á þessu góða vori sem við höfum nú lifað að fallegar vísur verði til. Ingólfur Ómar á þessar: Glitrar árdags geislaflóð glæður himins bála. Þessa skæru skýjaslóð skaparinn var að mála. Vorið andar blíðum blæ blómin skreyta runna. Geislum vefur grund og sæ glóbjört himinsunna. Nokkuð keður við annan tón í næstu vísu Ingólfs sem ort er um gróðafíkn þekktra aðila. Gróðafíkn er grimm og köld, glapsýn marga lokkar. Ólmir girnast auð og völd auðvaldsdrullusokkar. Ekki lagast lýsingin á hryllingnum í þessari limru Ingólfs: Það vekur oft vansa og hrylling viðurstyggð, reiði og trylling. Því auðvaldið græðir en almúginn blæðir. Hér er gegndarlaus græðgi og spilling. Var að sýsla í dóti mínu og leita kannski að fallegum vor- eða sumarvísum. Sú kunna kona, Halla Eyjólfsdóttir á Laugabóli, mun vera höfundur að þessum: Alltaf lifnar andi minn, enda fjölga sporin, þegar græni gróðurinn gægist upp á vorin. Hátt á lofti svífur sól sér á jörðu niður, lítur yfir Laugaból, litlu blómin styður. Vísnaþáttur 738 Jón Guðmundsson í Garði átti orð til að lýsa hrifningu sinni á vorkomunni. Syngja lindir sólarljóð, sveitin hrindir dvala. Eygló kyndir árdagsglóð yfir tindum dala. Sólin völlinn vermir hlý, vaknar flest úr dái. Lífsþrá, von og löngun ný lifna á hverju strái. Jóhann Ólafsson, áður bóndi í Miðhúsum í Óslandshlíð, á þessar: Glóa hlíðar, glampar sær, gleðst nú lýður dreyminn. Blómafríða grundin grær, guð er að smíða heiminn. Fríkkar landið, léttist mál, leysist vanda þáttur. Víkur grand, en vermir sál vorsins andardráttur. Takið eftir, lesendur góðir, hve vel gerðar hringhendur eru þar á ferð. Veit ekki hvenær þær eru ortar en það mun hafa verið vorið 1977 sem ég lærði þær. Ekki skemmir þessa syrpu þessi fallega hugsun í fjórum línum Ólínu Jónasdóttur frá Fremri-Kotum í Blönduhlíð. Það á í sjóði þarflegt flest, þess eru djúpir brunnar, hefir líka bjargað best börnum náttúrunnar. Kannski er Skagfirðingurinn Pétur Stefánsson að birta sannan kafla úr ævisögu sinni er hann yrkir svo: Oft hef ég mér í drykkju drekkt dapur í hugraun sárri. Að dreypa á öli er unaðslegt en ást á konu er skárri. Ennþá vill hún á mig hlýða. Aldrei brúkar röfl og pex. Eftir því sem árin líða ást til konu minnar vex. Alltaf gleður okkur, landsins börn, tryggð dýranna. Björn Gottskálksson orti þessa: Manna þó ég missi sýn miðjan fram á daginn, hundurinn kemur helst til mín, honum er tryggðin lagin. Allt í einu virðist þessi þáttur að verða tilbúinn til ferða. Hressum okkur í lokin með svo vondum skilaboðum til okkar karla. Höfundur er Guðmundur Arnfinnsson. Svo mælti hún Oddfríður Alda sem orðin var konan hans Valda: Ég þarf ekki á yður, Ólafur smiður né öðrum, sem stendur, að halda. Veriði þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) frida@feykir.is Bæjarhátíðin Hofsós heim Verður feikna fjör í fjörunni Hofsósingar og nærsveitungar halda bæjarhátíð sína um næstu helgi undir yfirskriftinni Hofsós heim. Hátíðin er arftaki Jónsmessuhátíðar á Hofsósi sem haldin var árlega um margra ára skeið, síðast árið 2017. Feykir hafði samband við Völu Kristínu Ófeigsdóttur, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, og fékk hana til að segja örlítið frá hátíðinni, skipulaginu og því sem í vændum er. Hverjir standa að bæjarhátíðinni Hofsós heim? Íbúasamtökin Byggjum upp Hofsós og nágrenni tóku það að sér að sjá um hátíðina þegar fyrrum Jónsmessunefnd lét af störfum. Við í stjórn samtakanna höfum svo haldið íbúafundi og boðið þeim sem vilja að starfa með í svokallaðri undirbúningsnefnd. Þar eru allir velkomnir til starfa og nú eru átta manns í nefndinni, allt konur í þetta skiptið. Einhverjir hafa skoðanir og áhuga á dagskrárgerð hátíðarinnar, skipulagi og framkvæmd og ég hvet þessa aðila eindregið til að koma til starfa og hafa þannig áhrif á hinar ýmsu ákvarðanir. Margir einstaklingar hafa frumkvæði að viðburðum þessa helgi og er það mjög dýrmætt. Til dæmis hefur Finnur Sigurbjörnsson verið með ljósmyndasýningu á bæjarhátíð hér í fjöldamörg ár og eru gríðarleg verðmæti falin í þeirri vinnu. Eins hafa félögin í þorpinu verið hluti af bæjarhátíðinni, eldri borgarar sjá um kjötsúpu, leikfélagið skemmtir á kvöldvöku, handverksfélagið Fléttan býður í prjónakaffi, Neisti sér um skotboltamót og Lionsmenn bjóða til grillveislu. Hvað er helst til skemmtunar? Stærsti viðburðurinn hjá okkur í ár er Stjórnarballið. Það verður gaman að sjá alvöru stórhljómsveit á sviðinu í Höfðaborg og ríkir víða eftirvænting. Annars finnst mér erfitt að gera upp á milli viðburða. Ég persónulega er spenntust fyrir því að dansa við Steina Stebbu á dansleik með Landabandinu, en það er ávísun á mikið fjör og strengi daginn eftir. Ég veit jafnframt að Geirmundur, varðeldur og sykurpúðar eru frábær blanda og það verður feikna fjör í fjörunni. Hvað getur almenningur gert til að hátíðin takist sem best? Það eru margir þættir sem skipta máli þegar svona hátíð fer fram. Mikilvægt er að fólk taki með sér góða skapið og láti ekki smávægilega hnökra fara í taugarnar á sér. Nauðsynlegt er að ganga vel um og að næturgestum á tjaldstæði sé sýnd tillitssemi er kemur að hávaða. Eins er mjög þarft að koma því áleiðis til gesta að þeir aki ekki á bílum sínum niður í Stað á laugardeginum nema af ýtrustu nauðsyn en þar er lítið um bílastæði og í brekkunni getur auðveldlega myndast tappi. Hvar er þægilegast að nálgast dagskrána? Við reynum að vera virk á Facebook en þar er einnig dagskráin birt í heild sinni. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með þar (https://www.facebook.com/ hofsosheim) /FE Söngvakeppni barnanna verður meðal dagskrárliða á Hofsós heim í ár eins og í fyrra þegar þessi mynd var tekin. MYND: FE 8 25/2019

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.