Feykir


Feykir - 09.10.2019, Page 5

Feykir - 09.10.2019, Page 5
ÍÞRÓTTAFRÉTTIR F Dominos-deildin :: Tindastóll 77 - Keflavík 86 Keflvíkingar reyndust sterkari í Síkinu Tindastóll og Keflavík mættust í 1. umferð Dominos-deildarinnar í Síkinu á fimmtudaginn sl. Óhætt er að fullyrða að talsverð eftirvænting hafi verið hjá stuðningsmönnum Tindastóls að sjá mikið breytt lið sitt mæta til leiks en því miður var fátt sem gladdi augað að þessu sinni. Keflvíkingar voru sterkari í fyrri hálfleik og frábær byrjun gestanna í síðari hálfleik reyndist of stór biti fyrir lið Tindastóls sem gerði þó sitt besta til að halda spennu í leiknum. Sigur Keflvíkinga var þó sanngjarn en lokatölur voru 77-86 Leikmenn Tindastóls léku glimrandi vel fyrstu mínútur leiksins og Austantjaldstríóið okkar raðaði niður körfum. Stólarnir komust í 8-0 og hefðu hæglega getað aukið muninn en það kom snemma í ljós að hittni leikmanna utan 3ja stiga línunnar var ekki upp á marga fiska. Áður en fyrsti leikhluti var úti höfðu Keflvíkingar komist yfir en jafnt var að loknum fyrsta leikhluta, 19- 19. Stólarnir gerðu ágætlega í að loka á Hörð Axel en því miður gekk ansi brösuglega að verjast Khalil Ahmad og Dominykas Milka sem virtist hreinlega skora þegar honum sýndist. Keflvíkingar komust í 25-32 um miðjan annan leikhluta og þá loks gerði Gerel Simmons sína fyrstu körfu í leiknum en fram að því höfðu einungis Bilic, Brodnik og Perkovic skorað fyrir lið Tindastóls. Simmons sýndi mjög smarta takta af og til, gríðarlega snöggur og með frábærar hreyfingar, og hann sá til þess að staða Stólanna væri ekki óþarflega döpur í hálfleik en kappinn setti niður frábæran þrist í þann mund sem leiktíminn rann út og fékk víti í kaupbæti. Staðan 41-44 í hálfleik. Það hvorki gekk né rak hjá heimamönnum í byrjun þriðja leikhluta. Hvað eftir annað unnu gestirnir boltann og skoruðu í andlitið á ráðvilltum Stólum. Á fyrstu fjórum mínútunum gerðu gestirnir 15 stig en Stólarnir tvö og staðan 43-61. Baldur setti þá gömlu refina Helga Rafn og Axel inn á og þeir náðu að hrista aðeins upp í leiknum. Helgi gerði sér lítið fyrir og gerði fyrstu „íslensku“ körfu Tindastóls í leiknum þegar tæpar 26 mínútur voru liðnar af leiknum og það kann að sjálfsögðu ekki góðri lukku að stýra. Ellefu stigum munaði á liðunum fyrir lokafjórðunginn, staðan 57-68, og í lokafjórðungnum reyndu heimamenn ítrekað að ná upp stemningu og keyra sig inn í leikinn. Áhorfendur voru ánægðir þegar góðar körfur frá Brodnik, Axel og Helga minnkuðu muninn og þristur frá Perkovic breytti stöðunni í 69-73. Dúkkaði þá ekki Magnús Már, einu sinni sem oftar, í horninu og setti niður þrist og Milka og Ahmad bættu um betur, aftur kominn ellefu stiga munur og var þá mesti móðurinn af heimamönnum. Simmons gerði sitt besta til að halda Stólunum inni í leiknum en það dugði ekki til og lokatölur 77-86. Það er að sjálfsögðu fullsnemmt að dæma lið Tindastóls út frá einum leik þó ljóst sé að leikur liðsins á fimmtudaginn hafi valdið vonbrigðum. Það er líka risaskellur fyrir Stólana að vera án Péturs Birgissonar sem hefur glímt við meiðsli frá því í fyrsta æfingaleik haustsins og ekkert verið með síðan og það er óvíst hvenær hann snýr aftur á parkettið. Gerel Simmons var bestur í liði Tindastóls, gerði 26 stig og sýndi oft glæsilega takta. Sinica Bilic var öflugur framan af leik og gerði í fyrri hálfleik 14 af 15 stigum sínum í leiknum. Perkovic gerði 14 stig en var mistækur líkt og Brodnik sem gerði 11 stig í leiknum. Helgi Rafn skilaði átta stigum og dró stríðsvagninn þegar Stólarnir reyndu að berja sig inn í leikinn. Axel setti niður þrist en aðrir komust ekki á blað. Lið Tindastóls hefur sennilega aldrei haft á jafn hávöxnu liði að skipa en engu að síður var það Viðar sem tók flest fráköst Tindastólsmanna eða sjö stykki. Nýtingin í þriggja stiga skotum var vandræðaleg, 7 niður í 31 tilraun, en nýting gestanna var svo sem ekki mikið skárri, 10 í 32. Á morgun, fimmtudaginn 10. október, leika Tindastólsmenn við Njarðvík í Ljónagryfjunni og hefst leikurinn kl. 20:15. Áfram Tindastóll! /ÓAB 1. deild kvenna :: Tindastóll 69 – Fjölnir 63 Mikil barátta frá fyrstu sekúndu leiksins Meistaraflokkur kvenna Tindastóls tók á móti Fjölni í fyrsta leik sínum í fyrstu umferð 1. deildarinnar í körfunni á laugardaginn og var ekki annað að sjá, frá fyrstu sekúndum leiksins, en að þær ætluðu sér sigur. Baráttan og leikgleðin skein í gegn hjá stelpunum sem gladdi stuðningsmannahjörtu okkar allra sem horfðum á leikinn eftir svekkelsið hjá Meistaraflokki karla á fimmtudaginn. Það var mikill hiti á fyrstu mínútum leiksins hjá báðum liðum. Þegar tvær og hálf mínúta voru liðnar, eftir frábæra byrjun hjá Tess, var staðan jöfn 4:4. Tindastóll gaf þá aðeins meira í og spilaði frábæran bolta og nýtti færin sín vel því flestir boltar rötuðu ofan í körfuna. Fjölnisstelpur áttu góðar sóknir en því miður fyrir þær var ekki sama sagan með þeirra hitni og staðan því 22:12 eftir fyrsta leikhluta. Tess átti 10 stig af þeim 22, Marín 8 stig, Telma 2 og Inga Sólveig 2 stig. Á fyrstu mínútu annars leikhluta náðu bæði lið að skora körfu, staðan 24:14. Þá kom um þriggja mínútna kafli í leiknum sem mikið gerðist en ekkert skorað hjá hvorugu liðinu. Þá reyndu Stólastelpur nokkrar þrggja stiga körfur en því miður rataði boltinn ekki ofan í hringinn góða. En þá tók Tess þetta í sínar hendur og kom Stólunum í 35:18 og ekki meira né minna en 17 stiga munur á liðunum. Þá lifnaði aðeins yfir Fjölnisstelpum, sem voru greinilega ekki á því að gefast upp, og náðu að minnka aðeins muninn og staðan í hálfleik 39-24. Tess skoraði 11 stig af 17, Hrefna 4 stig og Marín 2 stig. Á fyrstu mín. þriðja leikhluta kom Marín sér í villuvandræði, komin með fjórar villur, og tekin út af enda mikið eftir af leiknum. Þetta nýttu Fjölnisstelpur vel, settu niður bæði vítaskotin ásamt því að setja niður eina þriggja stiga körfu. Þetta skorgengi Fjölnisstelpna sættu Stólastelpur sig ekki við og setti Valdís niður eina þriggja stiga körfu. Þá kom þriggja stiga skota kafli hjá Stólunum sem því miður skilaði engu í hringinn fyrr en brotið var á Karenu Lind í þriggja stiga skoti sem náði að setja niður eitt víti af þrem. Þá komu tvær þriggja stiga körfur í röð frá Stólastelpum ásamt því að brotið var á Tess sem setti bæði vítaskotin niður, staðan 53-34 og þær aftur komnar með flotta forystu, 16 stig, á Fjölnisstelpur og þrjár mín. eftir af þriðja leikhluta. Gestirnir náðu enn og aftur að rífa sig upp og skoruðu næstu 6 stig. Þegar 20 sek. voru eftir settu heimastúlkur niður eina tveggja stiga körfu sem Fjölnir svaraði með körfu og staðan í lok þriðja leikhluta 55-44. Fjölnisstelpur náðu því, í þriðja leikhluta, að saxa aðeins á Stóla og skoruðu 20 stig á móti 16. Valdís var með 6 stig, Karen 4, Tess 4 og Rekel 2. Þá var komið að síðasta leikhlutanum og gerði Inga Sólveig sér lítið fyrir og skoraði næstu fimm stig fyrir Stólastelpur ásamt því að Tess setti niður tvö víti. Þegar tvær min. voru búnar af þessum leikhluta náðu Fjölnisstúlkur loksins að setja niður fyrstu körfuna og við það slokknaði aðeins á Stólunum. Gestirnir náðu þá að minnka bilið niður í 62-53, 9 stiga munur, og fimm mínútur eftir af leiknum. Telma náði þá að setja niður tveggja stiga körfu sem Fjölnisstúlkur svöruðu með þriggja stiga körfu. Mikil harka var á síðustu mínútum leiksins þar sem bæði lið fengu á sig villur og staðan orðin 65-59 þegar aðeins ein mínúta var eftir af leiknum. Þá var brotið á Tess sem hélt 100% nýtingunni á vítalínunni sem er frábært. Fjölnisstúlkur svöruðu með tveggja stiga körfu en síðasta stig leiksins skoraði Hera Sigrún úr vítaskoti og lokatölu leiksins 69-63. Í þessum leikhluta voru Fjölnisstúlkur betri og skoruðu 19 stig á móti 13 stigum. Inga Sólveig skoraði 5 stig, Tess 4 stig, Telma 2 stig og Hera 2 stig. Tess átti alveg magnaðan leik og skoraði 29 stig, átti 16 fráköst og 4 stoðsendingar. Marín var með 10 stig, Inga Sólveig 7 stig, Hrefna 6 stig, Valdís 6 stig, Telma 4 stig, Karen 4 stig og Rakel 2 stig. Stelpurnar í Tindastól stóðu sig ótrúlega vel og gaman að sjá þær spila undir leiðsögn Árna Eggerts. Gott flæði var í leiknum hjá Stólum og nýtti Árni bekkinn vel, sem skoraði 18 stig af 68. Næsti leikur verður 12. október við Keflavík b í Keflavík en næsti heimaleikur verður 19. okt. við Njarðvík kl 16:00. /SG Stólastúlkur að fagna sigrinum. MYND: SG SIMMONS TEKUR SKOT. MYND: HJALTI ÁRNA 38/2019 5

x

Feykir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.