Feykir


Feykir - 09.10.2019, Blaðsíða 12

Feykir - 09.10.2019, Blaðsíða 12
sagði, „við verðum bara að fara að gera eitthvað.“ Fólkið sem býr hérna er auðvitað búið að reyna þetta mjög lengi og hefur ekki náð eyrum stjórnvalda og er svolítið að gefast upp, það er bara þannig. En mér fannst það kannski vera skylda mín, af því að nú kom ég ný og fresk inn, að ég tæki aðeins við keflinu og reyndi að djöflast aðeins. Ekki það að ég hef alveg fengið fólk með mér og það hefur gengið mjög vel og ég held að yfir höfuð sé fólk voðalega þakklátt fyrir að ég sé að atast í þessu en svo eru örugglega einhverjir sem eru orðnir þreyttir á mér en mér er svo sem alveg sama um það,“ segir Guðrún og hlær dátt. „En ég hugsa að þetta liggi svolítið í því að mér finnist þetta óréttlátt og þegar ég er lögð af stað í eitthvað svona þá á ég rosalega erfitt með að bakka og það er hlaupin einhver kergja í mig, já kergja og einhver þrjóska, og ég yrði mjög hissa ef ég hætti áður en þetta malbik kæmi. En þetta tekur ótrúlega langan tíma og þó að við komumst inn á einhverja samgönguáætlun þá þýðir það ekki neitt í rauninni eins og staðan er í dag þó að við berjumst nú fyrir því að koma nafninu þar að. Þannig að líklega endar það þannig að það verða allir orðnir brjálaðir á mér þegar upp er staðið,“ bætir Guðrún glettnislega við. Íbúarnir einhuga um vegamálin Guðrún segir mikla samheldni ríkja í samfélaginu á Vatnsnesi og íbúar beggja vegna nessins vera einhuga í baráttunni. „Við fórum auðvitað að nota þetta myllumerki, #vegur 711, en ég sé svolítið eftir því svona eftir á vegna þess að þetta er ekki bara vegur 711. En við ákváðum bara að halda þessu við því þetta var svolítið farið að festast, en við erum bara einn félagsskapur í rauninni og erum öll að berjast fyrir því sama. Og þetta liggur auðvitað í því að við neyðumst til að nota veginn á hverjum degi, við höfum ekkert val, útlendingurinn velur að fara hérna um einn hring og ég vorkenni honum ekki neitt. En við vorum t.d. að upplifa það nú nýlega þegar vegurinn var mjög slæmur að einn strákurinn hjá okkur kom hérna heim og kvartaði um í maga, sagðist vera óglatt og var ómögulegur eftir að hann kom heim og þá hugsaði maður hvað það væri ömurlegt að vera að leggja þetta á þessi kríli, þó að það sé bara stutt hingað, það er mun lengra fyrir þau sem búa hér út frá.“ Guðrún segir að auðvitað sé vegurinn misslæmur og ekki séu allir kaflar jafnslæmir. Í þurrviðrunum í sumar hafi hann verið þolanlegur en eftir að fór að rigna með haustinu hafi ástandið orðið illþolanlegt. „Vegagerðin er öll af vilja gerð að halda veginum við, eins og núna, hann var auðvitað gjörsamlega ófær fyrir bara nokkrum dögum og eftir að hætti að rigna eru þeir búnir að hefla hann þaðan sem malbikið endar og langleiðina hingað en ekki alla leið, og þar eru kaflar sem eru mjög slæmir. Það er eins hinu megin á nesinu og svo auðvitað líka í Miðfirðinum, vegurinn þar var orðinn mjög slæmur líka og auðvitað þarf að koma honum í lag, ég skil það vel. Málið er að þetta er svona fjórum fimm sinnum á ári sem vegurinn verður ófær, það kemur einhver svona rigningarkafli og vegurinn verður bara gjörsamlega ófær. Ef við gætum sleppt því að keyra hann á þeim tíma og verið bara heima hjá okkur og fengið vörur sjóleiðina, þá væri þetta ekkert vandamál, í alvörunni. En ég verð bara að fara, eins og núna, við þurftum að endurnýja bílinn, hinn var ónýtur, og við keyptum okkur þarna fínan Skoda og maður er bara grenjandi hérna á leiðinni af því að vera einfaldlega að skemma hann, maður finnur það bara. Ég var farin að leggja korteri fyrr af stað í vinnuna til þess að geta keyrt mjög rólega en það hafði ekkert að segja, hann var á felgunni fyrir utan ráðhúsið í síðustu viku. Þetta er þreytandi en við vonum auðvitað að eitthvað verði gert í þessu núna. Allavega hafa vegagerðarmenn sagt að þeir ætli að leggja malbik til mín svo að ég þegi, en ég held það hafi nú bara verið grín,“ segir Guðrún og glottir við. „En eftir fundinn með ráðherra í fyrra þá tóku þeir svolítið við sér, þeir fóru t.d. að ryðja niður einbreiðum brúm og taka upp einbreið ristahlið hér á leiðinni og setja tvöföld ræsi og ég var mjög glöð að þeir skyldu gera það. Þeir gaukuðu því nú eitthvað að mér líka að þessi ræsi væru nú höfð svona breið til þess að malbikið mitt kæmist fyrir á þeim, þannig að ég hugsaði: „Jæja, þeir eru eitthvað að undirbúa. Þeir vilja sennilega endilega fara að þagga niður í mér," sem er bara mjög gott,“ segir Guðrún sposk. Guðrún segir að talsverð nýliðun sé á Vatnsnesinu og jarðir hafi ekki verið að fara í eyði enda sé gott að búa þar. Hún segir þau hjónin nýlega hafa tekið saman ábúendafjölda í sveitinni og íbúar á Vatnsnesi og við Vesturhóp sem hafi fasta búsetu þar séu rúmlega áttatíu talsins. Guðrún segist þó óttast að þessi jákvæða þróun haldi ekki áfram ef vegurinn batnar ekki. „Mér finnst mjög gott að búa hérna. Ég er alin upp í sveit en bjó svo á Hvammstanga og einn vetur í Reykjavík en það var alltaf draumurinn minn að komast aftur í sveit. Ég fann líka mjög mikinn mun eftir að ég flutti hingað hvað vinnan fylgdi mér minna heim. Ég bjó rétt hjá skólanum og sá hann alltaf út um gluggann en það breyttist mikið við að keyra í burt frá vinnustaðnum og komast heim til sín út í sveit. Auðvitað fylgir margt manni heim en það munar rosalega að horfa ekki á vinnustaðinn heiman frá, það ætti enginn að gera. Mér finnst frábært, þegar ég er búin að vinna, að geta farið út í fjárhús eða út og hitt hestana mína. Þetta á virkilega vel við mig. Við hjónin erum með kindur og ég er með hesta. Pabbi á marga hesta, er með hestaferðir, en ég tók nú bara gömlu klárana mína og einhverja svona „ellilífeyrisþega“ hingað. Svo hef ég aðeins verið að rækta nú síðustu ár þannig að ég er komin með eitthvað af trippum en ég er nú alltaf að lofa því að vera ekki að fjölga þessu neitt alltof mikið svo ég ætla að reyna að halda því.“ Þannig að þú gætir vel hugsað þér að verða gömul hér? „Já, ég gæti sko vel hugsað mér það. Draumurinn er auðvitað sá að þegar ég er orðin gömul þá byggi ég mér sumarbústað í Víðidal og við verðum þá í Víðidal á sumrin og hér á veturna. Ég búin að viðra þessa hugmynd, ég er búin að planta henni og ætla að hlúa að henni og sjá hvað verður.“ Sauðadalsá. MYND:FE Íbúar á Vatnsnesi settu nú í haust upp skilti á fjölförnustu stöðunum á nesinu þar sem heimamenn óska eftir aðstoð ferðamanna við að ýta á stjórnvöld að laga veginn. Einnig eru ferðamenn hvattir til að taka myndir af þekktum ferðamannaperlum og merkja á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #vegur711 og skrifa texta við myndina sem segir frá baráttu íbúa og ástandi vegarins. MYND: FE Vegurinn er illa farinn eftir rigningar fyrri part septembermánaðar. MYND: FE 12 38/2019

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.