Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Blaðsíða 16
6 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 30. MAÍ 2008
Jóladagskvöld 1966. Ungur piltur,
nýorðinn 18 ára, baksast niður Ægisgarð,
þar sem Dettifoss liggur, á móti austan
hvassviðri og snjókomu. Skipið á að fara
klukkan 21:00 um kvöldið. Hann fór með
pjönkur sínar um borð á Þorláksmessu en
nú var komið að brottför. Honum hafði
tekist, er skipið kom úr síðustu ferð, að
sannfæra Ragnar Ágústsson 1. stýrimann
um það að Guðjón, ráðningarstjóri hjá
Eimskip, hefði sent hann um borð þar sem
það vantaði viðvaning í einn túr. Hann fór
aftur í, hafði fengið klefa bakborðsmegin
aftur við stýrisvél þar sem hann átti eftir að
vera næstu þrjú árin, klæddi sig í
ullarnærföt og sokka, buxur, peysu og
stígvél. Nýja vinnuvettlinga hafði hann
keypt fyrir jólin, VÍR stóð á handarbakinu,
einnig var hann með ullarvettlinga sem
móðir hans hafði prjónað handa honum.
Hann fór fram í hásetamessa, þar voru fyrir
þeir sem unnu á dekkinu, Sigbjörn
Þórðarson, eða Simbi bátur, Ingvi Zóf
timburmaður, Jónas Guðmundsson,
kallaður Jolli og eða síðasti Flateyingurinn
en hann var frá Flatey á Skjálfanda,
Ármann Guðjóns, kallaður Mannsi,
Sæbjörn Valdimars, Pétur Ottesen og Siggi
Sveins. Það var hrollur í mönnum, eftir að
ganga frá öllu, „dönnids“ keðjur og vírar um
öll þilför, eftir að fella bómurnar og skálka
lúkur. Þá þurfti að athuga með sjóbúnað í
lestum, frystilestarnar voru hálffullar af
rússafiski og refafóðri en eftir var að lesta frysta
síld á Austfjörðum. Í endalestunum var ýmis
varningur, saltfiskur í botnlestunum,
niðursuðuvara og mjöl á millidekki og
höfuðdekki.
Helvítis rok!
Utan á Dettifossi liggur flutningaskipið Baccarat
og fór það klukkan 20:00. „Jæja, drengir, við
skulum fara að ganga frá,“ sagði Simbi, það mátti
enginn segja jæja nema hann. Úti var helvítis
rok en pilturinn var hvergi smeykur, hafði farið
sem vélamessi fyrr á árinu og taldi sig færan í
flestan sjó. Menn skiptu með sér verkum fram
á og aftur á. Hann fylgdi í humátt á eftir Jolla,
fannst hann vera maður sem hægt væri að
treysta. Þeir fóru að tína saman „dönnidsinn“
og leggja saman í stroffur út við lunningu og
bundu hann þar þannig að hann færi ekki út
um allt þó eitthvað gæfi á. Ingvi Zóf gekk
frá preseningunum á lúkunum, setti járnin
í og fleygaði og síðan voru bómurnar felldar
og gengið frá gertum. „Takið á móti Magna,“
heyrðist kallað ofan af brúarvæng, þar stóð
Eyjólfur skipstjóri og gaf þessa skipun. Jolli
tók piltinn með til að láta Magna fá vír út um
stefnisklussið svo hann gæti dregið skipið frá
bryggjunni.
„Allir í endana“
„Taka landganginn,“ kallaði Ragnar. Var nú
hlaupið aftur á til að aðstoða. Var öryggisnetið
tekið og seftarabönd dregin úr sefturum og
þeir teknir líka. Var landgangurinn nú hífður
um borð og gengið frá honum en hann féll að
lunningunni við miðskipið og var festur þar.
„Allir í endana, það veitir ekkert af í þessu veðri,“
sagði Ragnar. „Þú verður fram á bakkanum í
endunum,“ sagði Ragnar við piltinn, „hjálpar
Jolla með springinn.“ En á bakkanum voru, auk
Jolla og piltsins, þeir Ingvi Zóf á ankerisspilinu
og Pétur. Aftur á voru svo Ármann, Sæbjörn og
Siggi. Simbi bátur fór upp í brú að stýrinu því
að bátsmaðurinn stýrði alltaf í stjórntökum.
„Sleppa öllu að aftan,“ heyrðist kallað í gegnum
veðrið því að ekki voru talstöðvar til að bera
skilaboð, einungis hálfónýtir símar. „Sleppa
öllu að framan nema spring,“ var kallað og voru
þá framendarnir losaðir og hífðir um borð.
„Passaðu þig, Jolli, það á að keyra í springinn,“
sagði Ragnar. Það heyrðist þegar vélinni var
skotið í gang og skipið seig í springinn. Vírinn
titraði eins og fiðlustrengur en hélt enda öflugur
sabbi á endanum. Skipið seig frá að aftan en
það gekk samt erfiðlega þar sem vindurinn
hélt því að bryggjunni. Það fannst að vélarafl
var aukið og skipið hreyfðist meira. „Sleppa
springnum,“ heyrðist kallað og Jolli losaði upp
á, á pollanum. Hafnarvörður í landi sleppti og
lét sabbann vaða í sjóinn. „Helvítis asninn,“
heyrðist í Jolla. „Settu vírinn fyrir ferliðuna og
svo á spilkoppinn,“ kallaði Jolli. Pilturinn var
ekki klár á hvað hann meinti en fékk aðstoð og
Ingvi Zóf var tilbúinn að setja spilið í gang. Vel
gekk að ná vírnum og sabbanum inn. Skipinu
var gefin ferð aftur á til að ná því frá bryggjunni
og nötraði það stafna í milli. Seig það frá og
tók Magni á um leið og sneri skipinu þannig að
það stefndi á hafnarkjaftinn. Var nú sett á ferð
áfram og sleppti Magni fljótlega dráttarvírnum
og var hann dreginn inn. Gekk vel að komast út
úr höfninni og lagðist lóðsbáturinn að síðunni
þar sem lóðsleiðarinn hékk og var lóðsinum
síðan sleppt fljótlega og sett á fulla ferð til
Stöðvarfjarðar.
Lens var út flóann og fyrir Garðskaga en er
komið var fyrir Reykjanes var leiðinda slampandi
á móti en þó gekk ferðin vel. Var nú raðað á
vaktir og var pilturinn settur á fjögur átta
vaktina með Jolla en það var fyrsta
stýrimanns vaktin. Var hann settur í það að
kenna piltinum að stýra skipinu þó svo að
það væri sjálfstýring. „Því að það er
nauðsynlegt að kunna að stýra,“ sagði Jolli,
„það er alveg klárt,“ sagði hann með sínum
sérstaka seim á „alveg klárt“. Gekk
kennslan vel og náði pilturinn fljótt góðum
tökum á að stýra skipinu enda lét skipið
mjög vel að stjórn og þó svo að rattinu væri
snúið hart í annað hvort borðið þá snerist
það sjálft á miðskips þegar því var sleppt.
Kúrsinn settur á Pólland
Komið var til Stöðvarfjarðar aðfaranótt
27. desember og lagst við anker þar sem
mikil hreyfing var og ekki vogandi að fara
að bryggju. Var beðið fram á morgun en
þá ákveðið að sigla til Fáskrúðsfjarðar og
var komið þangað seinni part sama dags
og lestuð þar frosin síld. Daginn eftir var
farið aftur til Stöðvarfjarðar og gekk þá
allt vel. Þaðan var farið til Eskifjarðar og
síðan Norðfjarðar og skipið fyllt þar. Frá
Norðfirði var farið undir miðnætti 30.
desember eftir að búið var að „klarera“
skipið og haldið áleiðis til Gdynia í Pólandi.
Gekk nú allt sinn vanagang um borð í
skipinu en undirbúningur
áramótaveislunnar var í höndum liðsins í
rekstrarsjóninni en þar stjórnaði Sæli
kokkur öllu en hann leysti Tona Líndal bryta
af þennan túr. Halli kokkur útbjó veislumat
ásamt Haffa, sem var annar kokkur, og Dóra
hrút en það viðurnefni hafði hann fengið vegna
frekar stórs nefs sem prýddi andlit hans, hann
var búrmaður og var smörrebröð hans spesíal.
Var að sjálfsögðu veislumatur alla daga,
svínakjöt, hangikjöt og fleira góðmeti. Hafði
pilturinn aldrei séð annað eins. Etið var á fimm
stöðum í skipinu, skipstjórinn og yfirvélstjóri
borðuðu í matsal farþega sem var fremst í
miðbyggingunni, aðrir yfirmenn höfðu sinn
messa stjórnborðsmegin og þar fyrir aftan var
hásetamessinn. Bakborðsmegin voru svo tveir
litlir messar, annar fyrir rekstrarsjónina og hinn
fyrir tvo dagmenn í vél.
„Ka erda mar“
Pilturinn hafði árið áður verið vélamessi og
þjónaði þessum tveimur dagmönnum til borðs.
Það voru öðlingarnir Óli Ólsen, sem seinna
varð handknattleiksdómari, og Þorvarður
Björnsson, kallaður Varði, og sem seinna sást á
fótboltavöllum sem dómari. Þá þurfti pilturinn
að vaska upp eftir þessa heiðursmenn, þrífa klefa
allra vélstjóranna og dagmannanna og búa um
rúm þeirra. Einnig þurfti hann að bursta skó
vélstjóranna. Allt voru þetta hinir ágætustu
menn. Gestur Óskar var yfirmeistari, kallaður
Gestur í vél, Sveinn Hálfdanar en hann átti
fjöldann allan af skóm og þurfti pilturinn að fara
með skóna út á þrjú lúku til að bursta þá . „Viðra
þá,“ sagði Sveinn. Sverrir var þriðji vélstjóri,
alltaf brosandi, og Einar Einars fjórði vélstjóri.
„Ka ereda mar, allir eins, allt eins,“ sagði hann
alltaf ef honum mislíkaði eitthvað. Þá voru
snillingar aðstoðarvélstjórar, Ingjaldur Narfi,
kallaður Gjaldi, Hlöðver Einars, er fórst með
Suðurlandinu seinna, Svavar Sigurðs og Siggi
Jóhanns.
Á þriðja degi var siglt fyrir Skagen og suður
Kattegat, hinkrað aðeins fyrir utan
Kaupmannahöfn hjá Middelgrundsfort, teknar
farmskrár og pöntunarlistar áhafnarinnar og
brytans sendar í land, síðan siglt með lóðs
gegnum Eyrarsund og haldið inn í Austursjóinn.
Að lokum var komið að strönd Póllands og lagst
fyrir ankeri þann 4. janúar klukkan 6 um
morguninn. Daginn eftir var skipið tekið inn og
lagst við English Kai. Fram undan var 10 til 12
daga stopp og menn tilbúnir til að taka
hraustlega á því. Vinna við losun á skipinu gekk
skrykkjótt, þótti drengnum vinnubrögðin
frumstæð í meira lagi, síldaröskjunum raðað á
handtrillur sem svo voru hífðar upp á bryggju,
því næst ýtt inn í lyftu í hrörlegri frystigeymslu
og þar upp á 3. eða 4. hæð. Tók það eina 7 daga
að losa síldina.
Jólatúr með Dettifossi 1966
Þorbjörn Sigurðsson stýrimaður.
Gjaldi reynir að fóta sig
á þilfarsfarmi.
Dettifoss í Kotka Finnlandi.
Lúðvík Karl Friðriksson stýrimaður tók myndirnar með
þessari grein og eru þær birtar með góðfúslegu leyfi hans.