Sjómannadagsblaðið

Árgangur

Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Blaðsíða 17

Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Blaðsíða 17
730. MAÍ 2008 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ „Fáðu þér mellu drengur“ Skemmtistaðirnir í Gdynia voru sóttir stíft hvert einasta kvöld og fannst drengnum undravert hvað stúlkurnar á þessum stöðum voru yfir sig hrifnar af strákunum á skipinu. Sátu þær í kjöltu þeirra og hvísluðu einhverju óskiljanlegu í eyrun á þeim og struku ólíklegustu staði. Spurði hann strákana hverju þetta sætti og fékk þá svarið „þetta eru mellur, drengur, fáðu þér mellu svo þú verðir sannur sjómaður” og á eftir fylgdi hrossahlátur og einhverjir létu sig hverfa með stúlku upp á arminn. Einn daginn varð Sæbjörn fyrir því óhappi að brjóta á sér stórutá á hægra fæti er verið var að færa til skerstokka í tvö lestinni. Var hann drifinn til læknis og gert að sárum hans. Morgun einn voru þeir Pétur og Siggi Sveins ekki komnir til vinnu á réttum tíma en undir hádegi birtust þeir og hafði Siggi þá orðið fyrir bíl og hruflaðist og marðist á hægra fæti. En Pobedan, sem lenti á honum, var dæmd ónýt. Þann 13. janúar var svo fært að Polska Kai og losuð þar vörubretti og lestaður laukur o.fl. Þegar verið var að færa skipið til var notast við anker og þegar verið var að hífa ankerið upp slitnaði keðjan í klussinu og ankerið hvarf í höfnina. Náðist það upp með aðstoð kafara og var híft inn á dekk og keðjunni lásað saman aftur. Þann 14. janúar var svo lestun lokið í Gdynia og haldið til Ventspils í Lettlandi en þangað var sólarhrings sigling. Var komið þangað um hádegi daginn eftir og lagst við anker. Mæddi nú á Jóni Halldórs loftskeytamanni að ná sambandi við land og fá fréttir um það hvenær við kæmumst inn. „Njét vagon, meybí tú morró,“ var svarið sem kom frá þeim í landi. Á sjötta degi kom svo óhrjálegur bátur siglandi og með honum hafnsögumaður. Var nú siglt inn fljótið Venta og lagst að bryggju og skipið vel bundið. Þá var komið með annað skip, Ville de Qubec, og það sett utan á. Var settur upp landgangur og tók hermaður sér stöðu við hann og við stefni og skut stóðu hermenn en um borð komu nokkrir valdsmannslegir náungar. „Immigreysjon,“ sögðu þeir og heimtuðu passana okkar og skráðu allar upplýsingar skilmerkilega í einhverjar skræður. Að þessu loknu mátti fara að afferma skipið en þá vantaði vagnana fyrir freðfiskinn. Fóru menn nú að gera sig klára til að fara í land og kíkja á lífið. Var Sæbjörn í broddi fylkingar en hann var mikill stuðbolti. Strax og komið var út fyrir girðinguna, sem umlukti hafnarsvæðið, biðu „bísar“ sem voru tilbúnir að kaupa af mönnum nánast hvað sem var. Í mesta uppáhaldi var amerískt Wrigley‘s tyggjó, gallabuxur, nælonskyrtur og annar vestrænn varningur sem sást ekki í Sovét. Skiptu menn þessu fyrir rúblur og kópeka og drifu sig á danshúsin. Var oftast passað upp á að vera kominn um borð fyrir miðnætti, annars var landgönguleyfið fokið þann túrinn. Hún sýndi barminn Einn morguninn er pilturinn ræstur klukkan sjö til að opna lestarnar því það eru komnir vagnar og átti að fara að afferma. Þegar pilturinn er að draga á sig spjarirnar verður honum litið út um kýraugað og sér að það stendur járnbrautarlest við hliðina á skipinu og virðist fremsti vagninn vera íbúðarvagn. Þar sem hann er að horfa á þetta sér hann hreyfingu fyrir innan einn gluggann og áttar hann sig á því að þar er ung kona í sturtu. Var hún sýnileg vel niður fyrir brjóst og brá piltinum allverulega og hrökklaðist frá kýrauganu. Gat hann samt ekki setið á sér og gáði hvort konan hefði dregið fyrir en, nei, þarna var hún og sýndi piltinum barminn og fékk hann andþyngsli þegar hann sá vatnið perla á fallegum brjóstum hennar. En hann varð að drífa sig á fætur,en erfitt reyndist fyrir átján ára piltinn að draga á sig brækurnar þann morguninn, einhver fyrirstaða og erfitt að hneppa klaufinni. Þetta endurtók sig næstu þrjá morgna en þá var búið að fylla alla lestarvagnana og gyðjan hvarf á braut. Morgun einn var strekkings vindur og þegar verið var að opna lestarnar kom einhver náungi hlaupandi og argaði „njet, njet“. Skildist ekki hvað maðurinn var að fara og var hinkrað eftir honum. „Seven ballon davarits, njet raboten,“ sagði hann. „Það er of hvasst fyrir þá,“ sagði Tobbi annar stýrimaður, „kranarnir taka á sig of mikinn vind,“ en þetta voru svaka kranar sem gengu eftir teinum á bryggjunni og risu himinhátt upp í loftið. Þannig að ekkert var unnið við losun þann daginn. Með snák í vasanum Var samt nóg að gera og var pilturinn sendur upp á bryggju til að stinga í og menja þar sem þess þurfti með á síðunni. Var vel fylgst með honum af vörðunum. Er hann nálgaðist vörðinn við stefnið heyrir hann vörðinn hvísla: „Tsjúvíng gömm.“ Var pilturinn með einn pakka í vasanum og rétti honum þegar hinir verðirnir sáu ekki til. Seinna um daginn komu konur í strigapilsum og með kústa sem var hrísvöndur bundinn á prik og fóru að sópa lestarteinana sem lágu eftir bryggjunni og voru felldir ofan í steypuna. Fylgdist pilturinn með þessu og tók eftir því að ein konan settist á hækjur sér og virtist vera að skafa eða kroppa eitthvað upp úr teinunum. Stóð hún síðan upp og hélt áfram. En eftir sat smá pollur og rauk úr honum. Fór nú að líða að lokum losunar og voru menn þá tilbúnir að koma seint um borð og offra þannig landgönguleyfinu. Eina nóttina var heljar gauragangur frami á gangi, er Sæbjörn þá að koma um borð, vel þéttur og með snák upp á vasann sem hann annaðhvort fann eða einhver gaf honum. Ekki fékk hann að eiga hann og lét hann snákinn þá vaða í fljótið og synti hann í burtu. Var losun nú lokið og lestar þrifnar og skipið síðan flutt að Export bryggju en þar átti eftir að lesta rúgmjöl, steypustyrktarjárn, vodka, Moskwitch og Volga bíla í kössum og ýmsan annan varning í skiptum fyrir freðfiskinn og síldina en þannig var þetta, Ísland var í vöruskiptum við Sovétríkin. Silgt í „konvoj“ Þann 26. janúar var allt tilbúið til brottfarar og beðið eftir leitargenginu. Voru það nokkrir hermenn sem komu um borð og leituðu af sér allan grun um að það væri enginn að reyna að flýja land með því að taka sér far með skipinu. Var farið í alla klefa og leitað í hverjum krók og kima en að sjálfsögðu var ekkert að finna. Var nú haldið til Kotka í Finnlandi og tók sú sigling þrjá daga og þurftum við að sigla í „konvoj“ á eftir ísbrjóti þar sem lagnaðarís, 30 til 40 sm þykkur, var yfir öllu, frá Gotlandi og norður úr, inn Helsingjabotn og Kirjálabotn. Í Kotka var lestaður sykur, timbur ýmiss konar, símastaurar, rafmagnsstaurar og einnig pappír af ýmsu tagi, svo sem dagblaðapappír í rúllum og fleira sem var unnið úr timbri. Þarna var skítakuldi og fór frostið niður fyrir þrjátíu gráður. „Satana bergele, júmmaláta,“ heyrðist í Finnunum á morgnana þegar þeir komu til vinnu. Þeim fannst þetta frekar kalt. Skemmtanalífinu voru gerð góð skil en Finnar eru eins og Íslendingar, hetjudrykkjumenn, en hafa líka tilhneigingu til að slást ef eitthvað er verið að daðra við þeirra kvenfólk. Hér fengu menn afhentan gjaldeyri, ákveðið hlutfall af launum hvers og eins. Vel gekk að lesta skipið og var farið í það að ganga frá öllum farminum en á þilfarinu voru timbur- og staurastæður. Þurfti að súrra allt niður með keðjum og strekkja vel svo að draslið færi nú ekki af stað ef brældi. Mackintosh, lakkrís og fleira Að kvöldi 2. febrúar var endum sleppt í Kotka. Var sami barningurinn í gegnum fetþykkan ís og þurfti oft að stoppa því að krapi safnaðist í kælivatnssíurnar og settist þá ísinn að skipinu. Kom þá ísbrjótur og djöflaðist fyrir framan skipið til að losa um það. Gekk þetta svona þar til við losnuðum út úr ísnum og var þá sett á fulla ferð til Gautaborgar en að vísu þurfti að koma við í olíuhöfninni í Kaupmannahöfn og „bunkera“ og taka „províant“. Þann 5. febrúar var komið til Kaupmannahafnar og var viðdvöl þar um fimm tímar. Menn gerðu pöntunarlista sem hafði verið sendur í land þegar við sigldum fram hjá Kaupmannahöfn á leiðinni inn í Austursjóinn. Var það sælgæti ýmiss konar, Mackintosh, lakkrískonfekt o.fl. og einnig voru menn að kaupa framandi matvöru sem ekki sást í búðum heima. Þá komu sölumenn með ýmsan varning, fatnað, leikföng og annað í þeim dúr. Í Kaupmannahöfn var skipshandlari, Oscar Rolf Efterf. hét fyrirtækið, og okkar tengiliður var Palle Grönvold, kvæntur íslenskri konu. Beið allt góssið eftir okkur þegar við komum í olíuhöfnina en ekki komumst við í land, stoppið var ekki nógu langt til þess. Daginn eftir var komið til Gautaborgar og voru lestaðir þar bílar og fleira. Var skipið orðið svo pakkað af varningi að setja þurfti þrjá bíla upp á bátaþilfar og bílar voru á öllum lúkum. Veisla hjá Sæla Var farið frá Gautaborg að kvöldi 6. febrúar og haldið til Reykjavíkur. Gekk siglingin heim áfallalaust fyrir sig og var komið til Reykjavíkur að morgni 11. febrúar. Var lagst við ankeri og komu tollverðir um borð og beið þeirra veisla að hætti Sæla bryta og hans starfsfólks. Að veislu lokinni var skoðað í klefum áhafnar, áfengi, bjór og tóbak stimplað og leitað að ólöglegum varningi sem að sjálfsögðu var enginn. Var svo haldið að bryggju tveim tímum seinna og lagst að Miðbakka klukkan 09:25. Í áhöfn á ms. Dettifossi í þessari ferð voru, samkvæmt áhafnarlista, eftirtalin: Skipstjóri Eyjólfur Sigurður Þorvaldsson, 1. stýrimaður Ragnar Jón Ágústsson, 2. stýrimaður Þorbjörn Sigurðsson, 3. stýrimaður Þórður Bergmann Þórðarson, loftskeytamaður Jón Halldórsson, 1. vélstjóri Gestur Óskar Friðbertsson, 2. vélstjóri Sverrir Ingólfsson, 3. vélstjóri Einar Jósef Einarsson, 4. vélstjóri Sigurður Jensson. Aðstoðarvélstjórar voru Ingjaldur Narfi Pétursson, Sigurður Jóhannsson, Hlöðver Einarsson og Svavar Sigurðsson. Rafvirki var Sigurþór Hjartarson, dagmaður í vél Jón Konráðsson, þjónn vélamanna Bergsveinn Halldórsson, bryti Ársæll Þorsteinsson, 1. matsveinn Haraldur S. Helgason, 2. matsveinn Geir Hafsteinn Sigurgeirsson, búrmaður Halldór Guðjónsson. Þernur voru Stefanía Jakobsdóttir og Hrefna Einarsdóttir, þjónn yfirmanna Ólafur Ingi Ingimundarson, bátsmaður Sigbjörn Þórðarson, timburmaður Yngvi Zophoníasson. Hásetar voru Jónas Guðmundsson, Ármann Guðjónsson, Pétur Ottesen, og Sæbjörn Valdimarsson, viðvaningar voru Sigurður Sveinsson og Gunnar Sigurjón Steingrímsson og þilfarsdrengur var Halldór Valdimarsson. Af þessu sómafólki eru 18 enn á lífi og er Mannsi þeirra elstur, fæddur í september 1910. Lauk þar með þessari fyrstu ferð drengsins sem dekkmanns en hann átti eftir að sigla hjá Eimskipafélagi Íslands í 15 ár sem háseti og síðar stýrimaður. G.S.S. Simbi „bátur“ í þrifastuði. Vaskir menn á þilfari. Þilfarsfarmur sjóbúinn.

x

Sjómannadagsblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannadagsblaðið
https://timarit.is/publication/557

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.