Morgunblaðið - 15.05.2020, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 15.05.2020, Blaðsíða 15
Aðeins 99 farþegar fóru um Keflavíkur- flugvöll frá skírdegi (9. apríl) og fram á annan dag páska (13. apríl) árið 2020. Á árinu 2019 fóru 84.000 far- þegar um völlinn þessa sömu daga. Þessar tölur segja í raun allt sem segja þarf um hvernig far- þegaflugi til og frá Íslandi hefur verið háttað. Hér hefur landamærum aldrei verið lokað fyrir ríkisborgurum Schengen-ríkja og Bretlands. Ís- land er hins vegar lokað fyrir borg- urum annarra landa. Frá og með 19. mars urðu Íslendingar að fara í tveggja vikna sóttkví við komu til landsins og aðrir frá 24. apríl. Ríkisstjórnin ákvað 12. maí að eigi síðar en 15. júní 2020 geti þeir sem koma til landsins farið í CO- VID-19-próf á Keflavíkurflugvelli. Einnig verða nýleg vottorð um sýnatöku erlendis tekin til greina meti sóttvarnalæknir þau áreið- anleg. Þriðji kosturinn er að fara í tveggja vikna sóttkví. Margar ríkisstjórnir á Schengen- svæðinu miða einnig við 15. júní þegar rætt er um ferðafrelsi. Af hálfu ESB hafa verið kynntar regl- ur sem mælt er með að gildi á ferð- um í flugvélum, lestum og lang- ferðabílum. Kaup á miðum og innritun sé á netinu. Hvarvetna sé sótthreinsivökvi og ekki sé borinn fram matur eða drykkur um borð. Hæfilegt bil sé milli farþega sem beri grímur. Þá sé litið til heilbrigð- isþjónustu og sjúkrarýmis á ferða- mannastöðum. Starfs- fólk hótela og veitingastaða sé þjálf- að til að fara að settum reglum og átta sig á einkennum COVID-19. Í skýrslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar ut- anríkisráðherra sem hann flutti alþingi 7. maí 2020 segir að ut- anríkisþjónustan hafi vegna faraldursins unnið að því sem einn maður „að aðstoða hátt í 12 þúsund Íslendinga sem staddir voru erlendis þegar farald- urinn braust út“. Í ráðuneytinu lágu fyrir áætlanir um viðbrögð í neyð- artilvikum sem höfðu verið unnar í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Nú reynir á rétt vinnubrögð á leiðinni úr sóttvarna- höftunum. Schengen-áritanir Á árinu 2004 gerðu íslensk og kínversk stjórnvöld samkomulag sín á milli um vegabréfsáritanir vegna ferðamannahópa. Það var þó ekki fyrr en árið 2007 sem íslenska sendiráðið í Peking hóf útgáfu Schengen-áritana og sendi dóms- málaráðuneytið sérstakan fulltrúa til að fylgja verkefninu úr hlaði. Út- gáfa Schengen-áritana hófst í sendi- ráði Íslands í Moskvu árið 2013. Níu ríki taka að sér að afgreiða umsóknir um Schengen-vegabréfs- áritanir til Íslands á svæðum þar sem Ísland er ekki með sendi- skrifstofu. Ríkisborgarar meira en hundrað ríkja þurfa að sækja um Schengen-vegabréfsáritun til þess að komast til Íslands. Sérstakt samkomulag er við Dani um útgáfu þessara áritana og dönsk sendiráð afgreiddu 36.700 umsóknir um Schengen-áritanir til Íslands í fyrra eða 87% allra umsókna sem afgreiddar voru af svonefndum fyr- irsvarsríkjum. Álagið á Dani hefur stundum verið svo mikið að þeir hafa orðið að setja þak á afgreiðslur áritana til Íslands. Þegar Íslendingar gerðust aðilar að Schengen-samstarfinu árið 2001 voru ferðamenn árlega á bilinu 2- 300 þúsund. Árið 2018 voru ferða- menn hingað til lands 2,3 milljónir. Nú stefnir utanríkisráðuneytið að því að sendiráðin í Bandaríkjunum, Bretlandi og Indlandi hefji útgáfu Schengen-áritana bæði innan dyra hjá sér í höfuðborgum landanna og einnig í útstöðvum víða um þessi lönd. Á þann veg er búið í haginn fyrir nýja sókn ferðaþjónustunnar. Fyrir utan að opna leiðir fyrir viðskipti með samningum eru starfsmenn utanríkisþjónustunnar nú í beinum samskiptum við þús- undir manna um heim allan, Íslend- inga og ferðamenn til landsins. Heimsfaraldurinn sannar rækilega nauðsyn þess að fulltrúar íslenska ríkisins leggi rækt við víðtækt al- þjóðlegt tengslanet. Það gerist ekki án öflugrar utanríkisþjónustu. Netöryggi Í skýrslu utanríkisráðherra var nú í annað sinn sérstakur kafli um netöryggi undir fyrirsögninni varn- ar- og öryggismál. Kaflinn end- urspeglar að þar er um að ræða sameiginlegt verkefni þeirra sem fara með gæslu borgaralegs öryggis og hernaðarlegs. Þjóðaröryggisráð setti af stað verkefni til varnar gegn „upplýs- ingaóreiðu“. Þar er fjallað um einn lið fjölþátta ógna (e. hybrid threats). Dreifing á alls kyns sam- særiskenningum og lygum hefur magnast vegna COVID-19- faraldursins. Hér er danskt dæmi um boðskap á Facebook vegna faraldursins. Það er tekið af síðunni jfk21 – skamm- stöfunin er fyrir Jorden Frihed Kundskab: „Allt þetta kórónu-plandemi er algjört hneyksli. Sjúkrahús í Bandaríkjunum fá 13.000 dollara ef þau segja kórónu banamein og ef þau nota önd- unarvélar fá þau 39.000 dollara. Á Ítalíu má í raun aðeins rekja 12% dauðsfalla til kórónu. Ef þú vilt stöðva Big Pharma- spillinguna og nauðungarbólusetn- ingu dönsku þjóðarinnar samhliða því sem þeir nota tækifærið í skjóli kórónu til að setja upp 5G-möstur á skóla og íþróttahús og víðar er AÐ- EINS um að ræða Jorden Frihed Kundskap.“ Orðið „plandemi“ er notað af andstæðingum bólusetninga. Þeir óttast auðvitað mest að samsæris- smiðum kórónuveirunnar takist að finna bóluefni gegn henni. Í skýrslu utanríkisráðherra er minnt á að vegna faraldursins hafi hvers kyns fjarvinna aukist í krafti tæknilausna og öflugra fjar- skiptakerfa. „Nýrri tækni fylgja nýjar ógnir og nauðsynlegt er fyrir samfélög að tryggja öryggi með því að efla viðnámsþol við áföllum og verja mikilvæga innviði fyrir árás- um,“ segir þar. Minnt er á umræður um öryggi 5G-fjarskiptakerfisins og sagt að ís- lensk stjórnvöld hafi meðal annars skoðað málið „út frá skuldbind- ingum sem Ísland hefur gengist undir, til dæmis á vettvangi NATO sem hefur sett 5G-fjarskiptakerfin á lista yfir mikilvæga innviði banda- lagsríkja“. Varnir heima fyrir eru í höndum einstakra NATO-ríkja en bandalag- ið annast sjálft varnir eigin kerfa. Þarna geta hlutir skarast og séu kerfi ríkis talin skapa hættu fyrir kerfi NATO myndast vandi sem skaðar þjóðaröryggi sé ekki farið að réttum kröfum. Þetta kemur óhjá- kvæmilega til álita við innleiðingu 5G-kerfa hér á landi. Umræður innan aðildarríkja NATO og annars staðar hníga til þeirrar áttar að áhætta sé tekin með því að eiga viðskipti við kín- verska Huawei-fyrirtækið. Örygg- ismat vegna 5G frá Huawei verður að standast NATO-kröfur þótt höf- undar samsæriskenninga líti til annarra þátta. Ný viðfangsefni Viðfangsefnin tvö sem hér eru nefnd vegna skýrslu utanríkis- ráðherra árið 2020, Schengen- áritanirnar og netöryggið, eru til marks um ný viðmið sem líta ber til við mat á hlutverki utanríkisþjón- ustunnar. Borgaraþjónusta verður auk þess sífellt viðameiri og mik- ilvægari þáttur í starfi hennar. Í aðdraganda þess að Ísland „opnast“ að nýju 15. júní 2020 reyn- ir á skoðana- og upplýsingaskipti við fjölmörg ríki á leið frá heims- faraldrinum. Þar er farið um ókannað svæði. Enginn veit á þessu stigi hve leiðin er löng og enginn fer hana einn. Eftir Björn Bjarnason »Nú reynir á rétt vinnubrögð á leiðinni úr sóttvarnahöftunum. Björn Bjarnason Höfundur er fv. ráðherra. Ferðin frá heimsfaraldri er hafin 15 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 15. MAÍ 2020 Gönguferð Gærdagurinn í borginni var blautur og regnhlíf þarfaþing. Hins vegar er spáð sól í dag og þá ættu sólgleraugu að koma að góðum notum. Eggert Nú þegar þú ert á förum frá Bónus Guð- mundur Marteinsson eftir áratuga farsælt starf fyrir fólkið í landinu, þá hugsa margir hlýtt til þín. En einu verð ég að trúa þér fyrir áður en þú ferð. Þriggja til fjögurra ára gamlir nýsjálenskir lamba- hryggir eru farnir að jarma í frystikistum Bónusverslananna. Þeir eru orðnir gamlir og ókræsi- legir, þurrir og seigir undir tönn, og eru þarna fyrir slysni eða bjánaskap. Eins og þú manst gerðu þeir heildsaladrengirnir Ólafur Steph- ensen og Andrés Magnússon að- súg að íslenskum sauðfjárbændum í fyrrasumar. Höfðu sennilega fengið loforð hjá Kristjáni Þór Júlíussyni, sem rekur landbún- aðarráðuneytið í skúffunni í at- vinnuvegaráðuneytinu, um að skrökva upp skortstöðu og fella niður tollana af kjöti fluttu yfir hálfan hnöttinn. Eins og þú manst stöðvaði hún Lilja Dögg Alfreðs- dóttir menntamálaráðherra málið og krafðist ríkisstjórnarfundar samdægurs, hinn 26. júlí í fyrra- sumar. Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, varð við beiðninni og handjárnaði landbúnaðarráðherr- ann og eyðilagði áformin um nið- urfellingu tollanna. Þá báðu þeir heildsaladrengirnir þig um þennan vinargreiða, að hýsa lambahryggina í Bónus, og þar eru þeir enn og farnir að jarma af elli. Liggja við hliðina á íslenskum ekki ársgömlum hryggj- um, og valið er auðvelt hjá við- skiptavinum þínum, því erlendu hryggirnir eru að verða frostbarðir. Og að auki kærði enginn neytandi eða kaup- maður sig um þessa hryggi. Þeir vilja bara íslenska lambið. Ekki lengur mannamatur Það er mikilvægt þegar miklu verki er skilað í annars hönd að hreinsa vel út og viðra eldhúsið. Þessir hryggir minna orðið á gamla hrútaketið sem eitt sinn var sturt- að á ruslahaugana sem hrafnamat og RÚV á alltaf myndir frá at- burðinum eða tiltektinni. Nú þeg- ar þú fjarlægir þessa gömlu nýsjá- lensku lambahryggi væri ágætt að hafa smáathöfn og að neytendur fái upplýsingar um að þeim verður ekki smyglað í sósur eða mötu- neyti sem „íslensku lambi“, heldur fargað. Auðvitað býðurðu Krist- jáni Þór ráðherra og Kristjáni hinum og neytendaráðherranum, henni Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð, að vera viðstödd, því Kristján hinn leiðir hana með vinstri hendinni, enda er hann ráðuneytisstjóri þeirra beggja ráðherranna. Svo koma þeir að athöfninni hlaupadrengir alþjóðakapítalism- ans, þeir Ólafur Stephensen og Andrés Magnússon, og gott væri að bjóða hagfræðingi villukenning- anna, honum Þórólfi Matthíassyni, í þessa jarðarför. Þetta fólk myndi skipa grátkórinn við útförina. En þær stöllur sem stóðu vörð um ís- lenska hagsmuni og með lamba- kjötinu okkar og sauðfjárbændum ættu að vera viðstaddar, þær Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Katrín Jak- obsdóttir. Þær gætu glaðst yfir að krummi fer ekki svangur að sofa í klettagjá það kvöldið. Og að sjálf- sögðu RÚV til að filma og endur- nýja myndasafnið, því hrútakjötið er gömul úrelt frétt. Ég vil svo sem neytandi þakka þér, Guðmundur í Bónus, hversu vel þú stóðst þig fyrir neytendur og bændur og íslenska framleið- endur. Að lokum óska ég þér alls góðs á nýjum vettvangi. Eftir Guðna Ágústsson » Þessir hryggir minna orðið á gamla hrúta- ketið sem eitt sinn var sturtað á ruslahaugana sem hrafnamat og RÚV á alltaf myndir frá atburð- inum eða tiltektinni. Guðni Ágústsson Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra. Guðmundur í Bónus! Nýsjá- lensku lambahryggirnir jarma Ljósmynd/Guðni Ágústsson Hryggur Nýsjálenska kjötið er farið að reskjast í frystiborðum verslana.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.