Morgunblaðið - 17.06.2020, Page 36
FORSETAKOSNINGAR 202036
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 17. JÚNÍ 2020
VIÐTAL
Aron Þórður Albertsson
aronthordur@mbl.is
„Ég hef aldrei sett mig í neinar stellingar og
tel að mér hafi tekist að gegna þessu embætti
á mínum eigin forsendum þannig að fólki líki.
Það hefur kannski komið sjálfum mér á óvart
hversu mikið ég hef notið þess að hitta fólk um
land allt,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, for-
seti Íslands, sem senn lýkur fyrsta kjörtíma-
bili sínu í embætti. Nú eru liðin hartnær fjög-
ur ár frá því að Guðni bar sigur úr býtum í
forsetakosningunum árið 2016.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim
tíma og hefur Guðna á undanförnum árum
tekist að setja mark sitt á embættið með
nokkuð afgerandi hætti.
Segja má að forsetanum hafi á tímabilinu
tekist að færa embættið nær almenningi, en
Guðni hefur að flestra mati verið alþýðlegur
og auðmjúkur. Hann gefur nú kost á sér til
áframhaldandi setu á Bessastöðum í kosning-
unum 27. júní. Auk Guðna er í framboði Guð-
mundur Franklín Jónsson, hótelstjóri og fyrr-
verandi verðbréfasali,en Guðni hefur notið
umtalsvert meira fylgis í skoðanakönnunum.
Átti von á mótframboði
Spurður hvort umrætt mótframboð hafi
komið honum á óvart kveður Guðni nei við. Sé
þróun síðustu ára skoðuð hafi mátt gera ráð
fyrir að annar aðili myndi bera víurnar í emb-
ættið. „Ég fann fljótt og hef fundið alla mína
forsetatíð fyrir miklum stuðningi. En á hinn
bóginn er ljóst að sú helgi sem hvíldi yfir emb-
ættinu á síðustu öld er breytt. Þá jaðraði við
móðgun að bjóða sig fram gegn sitjandi for-
seta og voru þeir sem slíkt íhuguðu jafnvel
kallaðir kynlegir kvistir. Nú er öldin hins veg-
ar önnur. Ólafur Ragnar fékk tvívegis mót-
framboð. Út frá þróun síðustu ár kom mér
ekki á óvart að aðrir hefðu áhuga á að bjóða
sig fram og að einhverjum tækist að safna til-
skildum fjölda meðmælenda,“ segir Guðni.
Til að reynast kjörgengur til embættis for-
seta Íslands þurfa viðkomandi einstaklingar
að hafa meðmæli minnst 1.500 kosningabærra
manna. Hefur sú tala haldist óbreytt frá stofn-
un lýðveldisins árið 1944. „Nú situr stjórnar-
skrárnefnd að störfum og íhugar breytingar á
stjórnarskrá sem meðal annars lúta að stöðu
forseta Íslands. „Vissulega hafa heyrst þær
raddir að okkur hafi fjölgað í samfélaginu og
eðlilegt væri að hækka fjölda meðmælenda
sömuleiðis. Ég skil þau rök að það sem þótti
skynsamleg tala þegar við vorum 120 þúsund
þyki ekki endilega eins skynsamleg núna þeg-
ar við erum yfir 350 þúsund,“ segir Guðni.
Góð samskipti við fyrri forseta
Ýmislegt hefur drifið á daga Guðna undan-
farin fjögur ár. Þau Eliza Reid kona hans hafa
tekið á móti fjölda erlendra þjóðhöfðingja og
haldið í opinberar heimsóknir erlendis, ís-
lenskir íþrótta- og listamenn hafa náð eftir-
tektarverðum árangri og Íslendingar halda
áfram að vekja athygli á alþjóðavettvangi. Þá
hefur Guðni aukinheldur komið að stjórnar-
myndunarviðræðum í tvígang. Segir hann að
vandasamt geti reynst að eiga aðild að slíkum
viðræðum. „Ég er ánægður með að við skyld-
um komast klakklaust í gegnum viðræðurnar.
Forseti hefur ákveðnu hlutverki að gegna,
hann veitir umboð og fylgist með gangi mála.
Hann ákveður hvenær á að grípa inn í at-
burðarásina og stýrir viðræðunum þannig að
þær leiði til niðurstöðu. Ég einsetti mér að
enginn stjórnmálaleiðtogi þyrfti að fá það á
tilfinninguna að ég drægi taum eins á kostnað
annars. Að mínu mati verður það að vera leið-
arljós forseta hverju sinni,“ segir Guðni, sem
kveðst ekki hafa leitað til fyrri forseta meðan
á framangreindum viðræðum stóð. „Ég gerði
það ekki en ég efast ekki um að þau hefðu
veitt mér góð ráð. Ég tel að í þessu sem öðru
gagnist mönnum að spyrja ráða ef svo ber
undir en um leið finnur maður á þessum stað
að ábyrgðin er alltaf bara á eins manns herð-
um. Á öðrum vettvangi hef ég hins vegar átt í
góðum samskiptum við bæði Vigdísi Finn-
bogadóttur og Ólaf Ragnar Grímsson,“ segir
Guðni.
Verður ekki í fararbroddi útrásar
Fyrr á þessu ári barst faraldur kórónuveiru
hingað til lands. Í kjölfar áhrifa og útbreiðslu
hennar stefnir Ísland nú í djúpa efnahags-
lægð, en ráðgera má að halli ríkissjóðs sökum
þessa hlaupi á hundruðum milljarða króna.
Hefur ferðaþjónusta hér á landi nær lagst af
og ljóst er að fram undan er samdráttur í
efnahagslífinu. Í forsetatíð Ólafs Ragnars
Grímssonar bar talsvert á því að embætti for-
seta beitti sér í þágu íslenskra fyrirtækja á er-
lendri grundu. Liðkaði slíkt fyrir viðskiptum
viðkomandi fyrirtækja og studdi þannig
óbeint við sköpun umtalsverðra gjaldeyris-
tekna. Minna hefur borið á slíku í forsetatíð
Guðna. Aðspurður segir Guðni að embætti
forseta Íslands snúist ekki fyrst og fremst um
að vera í fararbroddi útrásar íslenskra fyrir-
tækja.
„Ég fann það mjög í forsetakjörinu árið
2016 að það var ekki endilega ákall um annan
Ólaf Ragnar ef svo má segja. Rétt eins og þeg-
ar hann náði kjöri var ekki beint ákall um að
ný Vigdís settist á Bessastaði. Í því ljósi getur
vel verið að fólk telji að ég sé ekki af sama
meiði og Ólafur Ragnar. Vissulega hefur alltaf
legið fyrir að ég sá ekki fyrir mér að einn
meginstarfi forseta væri að vera í fararbroddi
einhvers konar útrásar en að sjálfsögðu er það
í verkahring forseta að stuðla að farsæld ís-
lenskra fyrirtækja erlendis eftir því sem tök
eru á. Þannig hefur forseti hag Íslands í fyrir-
rúmi og greiðir götu Íslendinga í útlöndum.“
- En með hvaða hætti getur forseti skapað
verðmæti fyrir Ísland horft til næstu fjögurra
ára?
„Ég held að forseta sé ekki ætlað að skapa
bein verðmæti fyrir landið í krónum talið.
Hlutverkið var ekki mótað þannig og ég tel
ekki að Íslendingar sjái embættið þannig fyrir
sér. Forseti á hins vegar að geta lagt góðum
málum lið. Þannig hef ég til dæmis bent á
mikilvægi lýðheilsu og forvarna í samfélaginu
og þegar vel er að gáð getur aukin áhersla á
þá málaflokka sparað samfélaginu stórfé, fyrir
utan aukin lífsgæði fyrir fólkið í landinu.“
Aðlaga verði stjórnarskrá
Á síðustu fjórum árum hefur Guðni ekki
nýtt sér málskotsrétt forseta samkvæmt 26.
grein stjórnarskrár. Í tuttugu ára forsetatíð
Ólafs Ragnars beitti hann því synjunarvaldi
þrisvar. Að sögn Guðna væri til bóta að bæta
við ákvæði í stjórnarskrá er myndi kveða á um
að tiltekinn fjöldi kjósenda gæti krafist þjóð-
aratkvæðagreiðslu. „Ég vil ekki nefna fyrir
fram undir hvaða kringumstæðum ég myndi
vísa máli í þjóðaratkvæðagreiðslu. Öll mál lúta
eigin lögmálum og það skiptir máli hvernig
þau þróast í samfélaginu, innan þings og utan.
Ég tek hins vegar undir þær skoðanir sem
heyrst hafa að setja megi í stjórnarskrá
ákvæði sem kveður á um að ákveðinn fjöldi
geti krafist þjóðaratkvæðis,“ segir Guðni.
Sá ekki fyrir sér að verða forseti
Að því er fram kemur í skoðanakönnunum
nýtur Guðni yfirburðastuðnings fyrir kosning-
arnar 27. júní. Hefur hann jafnframt notið
stuðnings drjúgs meirihluta þjóðarinnar síð-
ustu fjögur ár. Segir Guðni að hann hafi frá
fyrsta degi fundið fyrir miklum meðbyr. Þá
hafi hann reynt að gegna embættinu á eigin
forsendum. „Ég hef reynt að hafa að einkunn-
arorðum það sem segir í laginu: „Vertu þú
sjálfur, gerðu það sem þú vilt. Faðmaðu heim-
inn, elskaðu.“ Það hefur gengið vel. Vissulega
hafa sumir dagar verið erfiðir og mér hefur
orðið á en þá skiptir mestu að viðurkenna eig-
in mistök og gera betur. Að gegna embætti
forseta er einstakur heiður hvern einasta
dag,“ segir Guðni.
- Sástu fyrir þér að einn daginn myndir þú
gegna embætti forseta Íslands?
„Nei, það sá ég ekki fyrir mér en maður veit
aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.“
- Hversu lengi gætirðu hugsað þér að gegna
embættinu?
„Ég hef sagt og bergmála þar sjónarmið
sumra forvera minna að ég telji 2-3 kjör-
tímabil æskilega setu á Bessastöðum. Ég tel
það við hæfi frá mínum bæjardyrum séð en
tala auðvitað ekki fyrir munn annarra. Að
setja takmörk á embættistíð forseta eins og
þekkist víða úti í heimi gæti vel komið til álita
við endurskoðun stjórnarskrár.“
- Sérðu fyrir þér að snúa aftur til fyrri
starfa þegar forsetatíð þinni lýkur?
„Að rannsaka liðna tíð, skrifa hnausþykkar
bækur og kenna sögu var líf mitt og yndi. Mér
finnst brýnt að við Íslendingar kunnum skil á
sögu okkar og reynum ekki að skapa glans-
mynd af liðinni tíð. Það er nánast skrifað í
starfslýsingu forseta að stuðla að einingu
frekar en sundrung, að horfa bjartsýnn fram á
veg. Á hinn bóginn eiga þeir sem sinna rann-
sóknum á sögu og samtíma fyrst og fremst að
horfa gagnrýnum augum á viðfangsefni sitt en
ekki hugsa um það hvað komi þjóðarhag eða
valdhöfum best hverju sinni. Og þegar þessum
kafla í lífi mínu lýkur hlakka ég til að hverfa
aftur í heim fræðanna, í þann heim sem ég
kom úr.“
Situr lengst í átta ár til viðbótar
Gegnir embættinu á eigin forsendum Ekki hlutverk forseta að vera í fararbroddi útrásar
Morgunblaðið/Eggert
Forseti Guðna hefur á undanförnum árum tekist að setja mark sitt á embættið með nokkuð afgerandi hætti. Samkvæmt skoðanakönnunum nýtur hann stuðnings meirihluta þjóðarinnar.