Morgunblaðið - 17.06.2020, Page 38
VESTMANNAEYJAR38
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 17. JÚNÍ 2020
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Eins og víða annars staðar á landinu
var veturinn erfiður í Vestmanna-
eyjum. Þar þurfti að grípa til sér-
staklega strangra smitvarnaaðgerða
eftir að hópsmit blossaði upp í þessu
smáa samfélagi. „Á tímabili var eins
og allt hefði stoppað og þegar gengið
var um bæinn á
kvöldin hefði mátt
halda að Eurovisi-
on væri í gangi því
enginn var á
ferli,“ segir Íris
Róbertsdóttir.
„Eyjamenn tók-
ust á við þetta
verkefni af ótrú-
legri elju og dugn-
aði, og gekk í raun
ótrúlega vel. Það sást vel í vetur að
við erum alls ekki óvön því að endrum
og sinnum hendi náttúran í okkur
krefjandi verkefnum sem verður þá
einfaldlega að takast á við.“
Íris er bæjarstjóri Vestmannaeyja-
bæjar og mæddi mikið á henni og
starfsfólki bæjarins í kórónuveiru-
faraldrinum. Ljóst er að veiran hefur
haft bæði kostnað og tekjutap í för
með sér fyrir bæjarfélagið og nefnir
Íris að ákveðið hafi verið að koma til
móts við bæjarbúa með því að rukka
aðeins fyrir veitta þjónustu en ýmis
starfsemi bæjarins breyttist mikið í
faraldrinum og var t.d. aðeins í boði
leikskólavistun annan hvern dag,
stofnanir lokaðar almenningi og íbú-
um sinnt gegnum fjarfundabúnað.
„Það er lán í óláni að faraldurinn
skyldi berast hingað á þeim tíma árs
sem er rólegastur í ferðaþjónustunni
og áhrifin því vægari en ella fyrir
þann tiltekna hluta atvinnulífsins, þó
skaðinn sé samt mjög mikil. Sjáv-
arútvegsfyrirtækjunum tókst líka að
haga málum þannig að ekki þurfti að
gera hlé á veiðum eða vinnslu. Loka
þurfti leikskóla, grunnskóla og
íþróttahúsum eftir að fjöldi starfs-
manna var sendur í sóttkví, en í
einkageiranum þurfti aðeins eitt stórt
fyrirtæki að skerða starfsemi sína
verulega um skeið.“
Margt um að vera í sumar
Er óhætt að segja að Vest-
mannaeyingar hafi glaðst yfir komu
sumarsins og er lífið í Eyjum smám
saman að komast aftur í eðlilegt horf.
„Búið er að slaka á takmörkunum og
er t.d. tveggja metra reglan núna val-
kvæð. Samfélagið er tekið að glæðast
innan þeirra takmarkana sem fylgja
þarf og hefur verið líflegt í bænum
það sem af er sumri,“ segir Íris en
fyrsta stóra íþróttamót sumarsins
var haldið á dögunum þegar ÍBV hélt
TM-mótið þar sem fræknar ungar
stúlkur í 5. flokki sýndu góða takta á
vellinum. Fleiri stórviðburðir og há-
tíðir eru í kortunum og er fótboltamót
drengja, Orkumótið, á dagskrá í lok
þessa mánaðar. Bjórsnillingarnir á
Brother‘s Brewery hafa líka boðað til
bjórhátíðar 20. júní og goslokahátíðin
verður á sínum stað. Hátíðahöld á
sjómannadaginn voru ekki felld niður
heldur reynt að fagna innan þeirra
marka sem reglurnar leyfa: „Við höf-
um ekki blásið hátíðirnar af heldur
breytum frekar áherslum ef þess
þarf. Þannig er fyrirhugað að gos-
lokahátíðin leggi að þessu sinni meira
upp úr barnadagskránni og menning-
arviðburðum á meðan hefðbundnir
næturviðburðir í Skvísusundi og
Skipasundi falla niður enda kalla
samkomutakmarkanir á að mann-
fögnuðum ljúki ekki seinna en kl. 11 á
kvöldin. Við finnum öll fyrir því að
þetta verður ekki venjulegt sumar, en
ætlum samt að gera okkur glaðan
dag að því marki sem það er hægt.“
Að því sögðu er ekki enn ljóst hvort
Þjóðhátíð í Eyjum verður á sínum
stað eða hvernig skipuleggjendur
gætu aðlagað viðburðinn að smit-
varnakröfum. „Ég reikna með að að-
standendur hátíðarinnar komist að
niðurstöðu á næstu tveimur vikum en
ólíklegt er að Þjóðhátíð verði með
hefðbundnu sniði enda viðburðurinn
alla jafna sóttur af um 15-17.000
manns og dagskrá í gangi til kl. 4 að
nóttu. Miðað við þær takmarkanir
sem núna eru í gildi væri ekki hægt
að halda þannig viðburð. Hins vegar
er hefðin sterk og jafnvel ef ekki
verður hægt að fylla Herjólfsdal af
gestum þá verður örugglega haldin
hátíð með einhverju sniði enda
skemmtun sem er veigamikill hluti af
menningararfi okkar með sögu sem
nær allt aftur til ársins 1874.“
Tvær aukastundir
í sólarhringnum
Gaman er að segja frá því að íbúum
Vestmannaeyja fjölgar hægt en
örugglega og segir Íris sérstaklega
ánægjulegt hvað ungir Vestmanna-
eyingar hafa verið duglegir að snúa
aftur heim eftir að hafa sótt sér
menntun og starfsreynslu annars
staðar. „Hér nýtur fólk ákveðinna
lífsgæða sem ekki má ganga að vísum
á höfuðborgarsvæðinu. Vegalengdir
eru styttri, auðvelt að koma börnum
að hjá dagmæðrum og leikskóla og
fasteignaverð mun hagstæðara en í
höfuðborginni. Daglegt líf kallar ekki
á mikinn akstur eða skutl og þeir sem
flytjast hingað hafa oft á orði að tvær
aukaklukkustundir bætist við daginn
af þeim sökum.“
Íris á von á því að kórónuveiru-
faraldurinn verði til þess að fleiri
skoði vandlega þann möguleika að
flytja í smærra samfélag eins og
Vestmannaeyjar og vinna fjarvinnu
fyrir vinnuveitendur á höfuðborg-
arsvæðinu. „Ég held að faraldurinn
hafi flýtt þróuninni í fjarvinnu um
a.m.k. sex ár og bara á bæjarskrif-
stofunum hafa vinnubrögð tekið tölu-
verðum breytingum af þeim sökum.
Raunveruleikinn er sá að margir eiga
þess núna kost að þurfa ekki að búa í
næsta nágrenni við vinnuveitanda
sinn enda ekki sama þörf á að vera á
staðnum daglega og þá getur verið
freistandi kostur að setjast að í
skemmtilegu og lifandi bæjarfélagi
eins og Vestmannaeyjum.“
Bíða eftir sjúkraþyrlu
Að því sögðu þá eru nokkur mál
óleyst sem bæta myndu líf fólksins á
svæðinu. Íris segir samgöngur á milli
lands og Eyja loksins komnar í ágætt
horf með nýrri ferju en í vetur var í
fyrsta skiptið sem Landeyjahöfn
hélst opin og nægilega djúp allan vet-
urinn. Hún segir hagsmunagæslu á
sviði samgangna og heilbrigðismála
alltaf í forgrunni og er næsta stóra
verkefni að þrýsta áfram á að heil-
brigðisþjónustan á svæðinu verði
bætt. Bendir Íris á að óheppilegt sé
að ekki skuli vera skurðstofuvakt í
Eyjum en ein lausn sem lögð hefur
verið til er að fjárfest verði í sjúkra-
þyrlu sem staðsett verði á Suður-
landi. „Við höfum óskað eftir að hún
verði staðsett hér í Eyjum, a.m.k. yfir
vetrartímann, en við ákvarðanatöku á
þessu sviði þarf m.a. að hafa í huga að
á sumrin fjölgar mjög fólki á Suður-
landinu. Sumar helgar er íbúafjöldi
Vestmannaeyja fjórfaldur á við það
sem hann er alla jafna, og á vissum
tímum árs má reikna með að um og
yfir 15.000 manns búi í sumarhúsum
á Suðurlandi. Er þá eftir að telja með
þann mikla fjölda ferðamanna sem
streymir þar í gegn í venjulegu ár-
ferði. Verður heilbrigðisþjónusta á
svæðinu að taka mið af þörfum þessa
mikla mannfjölda.“
„Endrum og sinnum hendir nátt-
úran í okkur krefjandi verkefnum“
Vestmannaeyingar eru komnir í sumarskap eftir krefjandi vetur og undirbúa fjölda hátíða
Ljósmynd/Óskar Friðriksson
Upplifun „Við höfum ekki blásið hátíðirnar af heldur breytum frekar
áherslum ef þess þarf,“ segir Íris. Enn ríkir óvissa um Þjóðhátíð.
Ljósmynd/Óskar Friðriksson
Snjall Mjaldrarnir una sér vel í Eyjum og flytja senn í rúmgóða sjókví þar sem gestir munu geta heimsótt þá.
Íris Róbertsdóttir
Páll Scheving og fjölskylda eru lýsandi dæmi
um þann drifkraft og athafnasemi sem ein-
kennir Vestmannaeyinga. Páll er verksmiðju-
stjóri hjá Ísfélaginu en rekur að auki með
konu sinni og mágkonu veitingastaðinn Tang-
ann og tunnuhótelið Friðarból í Herjólfsdal.
Páll játar að það mæði einkum á konu hans
og mágkonu að halda utan um rekstur ferða-
þjónustufyrirtækjanna enda nóg að gera hjá
honum í Ísfélaginu. „Þær eru lykilmanneskj-
urnar og skipta á milli sín daglegu utanum-
haldi á veitingastaðnum og í gistingunni en
ég látinn hlaupa undir bagga þegar frí er hjá
Ísfélaginu.“
Kannski hafa lesendur hnotið um það hér
að ofan að Páll skuli reka „tunnuhótel“. Frið-
arból býður nefnilega ekki upp á neina venju-
lega gistingu heldur er um að ræða svokallað
„glamping“-tjaldstæði þar
sem gestir geta ýmist
tjaldað eða gist í tunnu-
laga skálum þar sem að-
búnaðurinn er öllu betri en
í dæmigerðu tjaldi. „Orðið
„glamping“ er bræðingur
af ensku orðunum „glam-
orous“ og „camping“ og
vísar til þess að um er að
ræða útilegugistingu þar
sem fólk fær upplifunina af því að verja nótt-
inni á tjaldsvæði en með töluvert meiri lúxus.
Við hófum þennn rekstur fyrir fimm árum og
komum upp nokkrum skálum sem rúma tvö
þægileg rúm og litla stofu. Skálarnir eru upp-
hitaðir en til að komast í sturtu eða nota sal-
erni þarf að rölta yfir í þjónustuhús.“
Tanginn býður líka upp á óvenjulega upp-
lifun en Páll lýsir staðnum þannig að þar sé
áherslan lögð á heiðarlega matseld og sann-
gjarnt verð. „Sérstaðan felst þó ekki síst í því
að veitingastaðurinn er í húsi sem skagar út í
höfnina og flæðir undir bygginguna. Þykir
mörgum notalegt að snæða með þetta góða
útsýni yfir hafnarsvæðið og enn betra ef
hægt er að sitja úti á verönd í blíðskapar-
veðri.“
Rekstur Tangans gengur vel en Páll bendir
á að markmiðið með starfseminni sé ekki síst
að þjónusta vel þá sem heimsækja Vest-
mannaeyjar. Þar hefur orðið mikill vöxtur í
framboði á alls kyns þjónustu og spannar
veitingaframboðið mjög breitt litróf: „Ég tók
mig eitt sinn til og taldi hátt í 20 staði þar
sem fer fram veitingasala af einhverju tagi.
Tel ég þá með bakaríin og söluturnana, en við
eigum líka veitingastaði af fínustu gerð og
allt þar á milli,“ segir hann. „Nú er bara von-
andi að komum ferðamanna muni fjölga með
bættum ferjusiglingum milli lands og Eyja
svo að gróskan verði enn meiri. Hér er svo
margt um að vera og margt að sjá, hægt að
komast í návígi við sjóinn og dýralífið og leit-
un að betri stað til að finna lunda.“ ai@mbl.is
Hafa mikla breidd í þjónustu við gesti
Hjá Friðarbóli í Herjólfsdal má gista í tunnulaga
skálum sem bjóða upp á lúxus-tjaldstæðisupplifun
Gæði Útsýnið úr matsalnum er ekki amalegt.
Páll Scheving
MVið elskum Ísland »46