Morgunblaðið - 12.10.2020, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 12.10.2020, Blaðsíða 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 12. OKTÓBER 2020 En hvað er borg? Er Akureyri, stærsta þéttbýli á Íslandi utan Reykjavíkur, þó með innan við 20.000 íbúa, borg? Er Þórshöfn í Færeyjum, sem er álíka stór og Akureyri, borg? Þórshöfn er jafn- framt höfuðborg Færeyja. Skiptir það máli? Er íbúa- fjöldinn það sem skilgreinir borgir eða er það eitt- hvað annað? Á Ís- landi hefur verið samkomulag um það að aðeins eitt sveitarfélag, Reykjavík, gæti kallast borg, a.m.k. opinberlega. Í bæjar- stjórn Kópavogs kom fram tillaga ár- ið 2011 um að bærinn, sem telur í dag næstum 40.000 manns, breytti skil- greiningu sinni úr bæ í borg, en sú til- laga féll á jöfnum atkvæðum. Það má halda því fram að eðlilegri spurning hefði kannski verið hvort borg- arheitið ætti ekki fremur við um allt höfuðborgarsvæðið en einstaka sveitarfélög innan þess. Og þá hvort ekki væri fremur komið að því að Akureyrarsvæðið yrði skilgreint sem borg þrátt fyrir að sveitarfélagið sé fámennara en Kópavogur. Sú um- ræða er reyndar þegar hafin. Áðurnefndur Benjamin Barber vildi skilgreina borgir út frá því hvað þær væru ekki. Þannig eru borgir andstæðan við úthverfi, dreifbýli, óbyggðir; staði sem eru heimsóttir en enginn býr á. Þeir standa fyrir – stundum viljandi – fjarveru mannlegs samfélags, eða eins og Barber orðar það, hugmyndina um Eden áður en karlinn og konan voru sköpuð. Sam- félögin á landsbyggðinni eru fámenn, dreifbýl og dreifð, en líka það sem hann kallar „þykk“, að því leyti að þau eru náin og grunduð – það sem Ferdinand Tönnies kallar á þýsku „Gemeinschaft“. Borgarsamfélög eru á hinn bóginn „þunn“, en þéttbýl og umlykjandi – „Gesellschaft“ í orða- forða Tönnies. Þar sem landsbyggð- arbæir eru oft á tíðum einangraðir og íbúarnir halda sig gjarnan sem mest í híbýlum sínum þá eru borgir nátt- úrulega tengdar innbyrðis – hreyf- anleikinn einkennir þær. Þar sem landsbyggðin byggir á landbúnaði, sjálfsþurft og nýtingu þess sem jörð- in gefur, þá eru borgir háðar tengslum hver við aðra, verslun og viðskiptum og því að vörur flæði óhindrað inn í borgina alls staðar frá. Borgin þarf á fæðuframleiðslu lands- byggðarinnar að halda en lands- byggðin þarf ekki á borginni að halda nema sem markaði fyrir fram- leiðsluvörur sínar. Á hinn bóginn eru borgir vinnu- staðir og viðskiptamiðstöðvar og það setur þær í miðju hins kapítalíska efnahagskerfis – upplýsinga- og þjón- ustuhagkerfisins – á þann hátt að það kemur algerlega í veg fyrir að þær þrífist sem staðir sjálfsþurftar. Með upplýsingatæknibyltingunni hefur fólki gefist kostur á að vinna verkefni sem ná út fyrir borgirnar og margir töldu að tæknin myndi verða til þess að minnka mikilvægi þess að fólk safnaðist saman á ákveðnum stöðum til að sinna ákveðnum verkefnum, þar sem í raun væri hægt að vinna þau hvar sem væri. En hið þveröfuga hef- ur reyndar gerst. Það eru engin merki um að upplýsingatæknin hafi dregið nokkuð úr aðdráttarafli borga sem byggja á menningu, sköp- unargáfu, samskiptum og borg- aralegu samfélagi. Þvert á móti. Borgirnar vaxa sem aldrei fyrr og fólk í svipuðum geirum hópast á sömu staðina í borgunum. Allir ofangreindir þættir einkenna höfuðborgarsvæðið á Íslandi og það er vel umræðunnar virði að velta fyrir sér að hve miklu leyti megi segja þetta um önnur þéttbýlissvæði lands- ins og þá sérstaklega Akureyrar- svæðið, en það uppfyllir að flestu leyti öll skilyrði sem þarf fyrir því að telj- ast borg í hefðbundnum almennum skilningi. Vissulega mjög lítil borg, en borg engu að síður. Mjög skýrt samband er á milli efnahagslegrar stöðu ríkja og hversu hátt hlutfall íbúanna býr í borgum. Þannig eru hátekjulönd mun líklegri til að hafa hátt hlutfall borgarbúa og lágtekjulönd gjarnan með hátt hlut- fall fólks í sveitum. Hagfræðingar velta fyrir sér ástæðunni fyrir sam- bandinu þarna á milli og hvort þétt- býlisvæðing leiði til efnahagsvaxtar eða öfugt. Sjálfsagt er svarið, eins og með svo margt, þarna mitt á milli. Velgengni fyrirtækja í þéttbýli laðar til sín fólk, sem svo skapar meiri um- svif sem leiða til vaxtar o.s.frv. Al- þjóðabankinn hefur reiknað út að það borgar sig að staðsetja fyrirtæki í þéttbýli. Þannig reiknaði bankinn út að við það að færa verksmiðju úr byggð með 1.000 vinnufúsum aðilum í byggð með 10.000 vinnumenn jókst framleiðslan um 15%. Að hluta til skýrist þetta af stærðarhagkvæmni á þann hátt að þar sem margir eru saman komnir í sama geira fylgjast menn með og læra af öðrum, geta út- vistað verkefnum og nýtt sér þjón- ustu sérhæfðra aðila og þannig má áfram telja. Einnig dregur úr flutn- ingskostnaði og kostnaði við ýmsa þjónustu sem stærðarhagkvæmnin minnkar kostnað við. En úr því að það er svona hag- kvæmt að hafa fólk í borgum, væri þá ekki best að allir jarðarbúar byggju bara í einni borg? Svarið við því er „ekki endilega“ því að borgarlífið á sér ákveðin mörk, þó þau mörk séu stöðugt að þenjast út eins og sést í vexti „ofurborganna“ svokölluðu. En þetta er hins vegar engu að síður spurning um hvenær kostnaðurinn í tíma og peningum við að komast í vinnuna er orðinn of mikill til að það hætti að borga sig að búa í borginni og hvenær húsnæðisverðið, sem menn þurfa að greiða til að vera í þol- anlegri fjarlægð frá svæðum efna- hagslegra umsvifa, er orðið of hátt. Það er engu að síður ljóst að borgir eru möndull efnahagslegra umsvifa og það er í þeim sem mesta verð- mætasköpunin verður. Ef horft er til þess hvernig þetta er á Íslandi þá á þetta vitaskuld við þar eins og alls staðar annars staðar og ef horft er framhjá áhrifum fjármagnsfrekrar stóriðju á útreikninga á landsfram- leiðslu á mann þá er hún mest á höf- uðborgarsvæðinu. Samsetning fram- leiðslunnar á höfuðborgarsvæðinu er líka allt önnur en á landsbyggðinni. Þannig eru þjónustugreinar 4⁄5 fram- leiðslunnar þar en utan höfuðborg- arinnar eru þær bara rétt yfir helm- ingur. Undantekningar frá þessu eru Suðurnes, þar sem þjónusta kringum alþjóðaflugvöllinn er áberandi, og Akureyrarsvæðið en þar eru atvinnu- hættir svipaðir og á höfuðborgar- svæðinu enda er Akureyri „hitt borgarsvæðið“ á Íslandi, eins og áður er rakið. Engu að síður eru flestar at- vinnugreinar öflugastar á höfuð- borgarsvæðinu nema landbúnaður sem kannski þarf ekki að koma á óvart. Þó að sjávarútvegur sé burðar- ásinn í atvinnulífi víða um land eru samt sem áður um 60% af umsvifum þeirrar atvinnugreinar á höfuðborg- arsvæðinu. Hversu vel borgir liggja við alþjóð- legum samgöngum er eitt af því sem hefur hvað mest áhrif á vöxt þeirra og viðgang. Á tíunda áratug síðustu ald- ar settu hagfræðingarnir Jeffrey Sachs og Andrew Warner fram kenn- ingu sína, studda gögnum og aðfalls- greiningum um það að ríki, sem væru landlukt – og reyndar í hitabeltinu – upplifðu hægari hagvöxt en þau ríki þar sem samgöngur á sjó væru greið- ar. Þetta er sannfærandi hugmynd. Flestallir meiriháttar þungaflutn- ingar – og þar af leiðandi þau við- skipti sem mestu máli skipta – fara fram á sjó og því flestar borgir sem ná að vaxa og dafna annaðhvort hafn- arborgir eða njóta greiðs aðgangs að alþjóðlegum flutningaleiðum á hafi. Andstætt því sem hægt væri að ímynda sér þá er hafið ekki þrösk- uldur í samgöngumálum heldur í raun eitt besta samgöngusvæði sem hægt er að hugsa sér og siglingar ódýrasti flutningakosturinn. Mun kostnaðarsamara er að flytja stóra og þunga hluti á landi eða í flugi en á sjó þó að reikna þurfi aðra þætti, eins og afhendingarhraða og geymslugjöld á flugvöllum og hafnarsvæðum, inn í dæmið. Það er hins vegar ljóst að hafnarborgir hafa löngum haft for- skot á landluktar borgir þegar kemur að vexti og viðgangi að þessu leyti þótt vissulega séu til stórar borgir inni í miðju meginlanda. Sannarlega eru dæmi um landluktar borgir, sem hafa náð mikilli stærð, en þær hafa í það minnsta eina aukahindrun að yfirvinna miðað við hafnarborgirnar. Þær búa þá gjarnan að einhverjum öðrum góðum samgöngumátum, t.d. ám sem má sigla stórum skipum á eða góðum járnbrautarsamgöngum. Eins og í svo mörgum öðrum lönd- um einkenndist 20. öldin á Íslandi af þéttbýlisvæðingu og kannski má segja að á fáum stöðum hafi um- skiptin orðið jafn hröð og jafn drama- tísk. Við lok 19. aldar, eða 1890, bjuggu 85% landsmanna í dreifbýli en í þéttbýli því sem átti eftir að breyt- ast í borg, Reykjavík, bjuggu ein- ungis 3.900 sálir. Hundrað árum síðar bjuggu 92% Íslendinga í þéttbýli en það er eitt hæsta hlutfall þéttbýlisbúa í nokkru landi í heiminum. Þar af bjuggu um 70% íbúanna á höfuðborg- arsvæðinu eða innan við 100 kíló- metra frá miðbæ Reykjavíkur. Um 90% íbúafjölgunar landsins fyrsta áratug 21. aldarinnar átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Ísland er hins vegar landfræðilega stórt land og þéttleiki byggðar er af þeim sökum óvíða minni, eða um 3,1 íbúi á ferkíló- metra. Þar er Ísland í félagsskap ríkja eins og Ástralíu og Kanada sem einnig búa við risavaxin torbyggileg landflæmi. Hinn víðfeðmi Noregur er með 14 íbúa á hvern ferkílómetra, eða næstum fimm sinnum fleiri en Ísland, og Bretland, sem er næsta ríki til suðurs, er með 269 íbúa á hvern fer- kílómetra lands, eða næstum hundrað sinnum fleiri en Ísland. Ef eingöngu er horft á það landsvæði sem tilheyrir hinum sjö sveitarfélögum höfuðborg- arsvæðisins er myndin nokkuð önnur, en þá er íbúafjöldinn um 200 manns á hvern ferkílómetra. Það er vissulega ekki þétt á alþjóðlegan mælikvarða borgarsvæða (íbúar á ferkílómetra í London eru tæplega 1.600) en þokka- lega þétt engu að síður. Ef landmesta og fámennasta sveitarfélaginu, Kjósarhreppi, með rúmlega 200 íbúa, er sleppt þá er um 321 íbúi á hvern ferkílómetra. Árið 2020 voru 72 sveitarfélög á Íslandi með á milli 43 og 131.000 íbúa en 54% sveitarfélag- anna eru með færri en 1.000 íbúa. Slík sveitarfélög myndu teljast dvergvaxin í nágrannalöndunum og í sumum þeirra væru þau einfaldlega ekki leyfð, enda lagði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fram vet- urinn 2019-2020 þingsályktunar- tillögu um stefnumótandi áætlun rík- isins um málefni sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyr- ir árin 2019-2023 þar sem stefnt er að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfé- laga verði 250 frá almennum sveit- arstjórnarkosningum árið 2022 en 1.000 frá almennum sveitarstjórn- arkosningum árið 2026. Borgríkið – Reykjavík sem framtíð þjóðar Bókarkafli | Í bókinni Borgríkið fjallar Magnús Skjöld um höfuðborgarsvæðið frá ýmsum hliðum og veltir því fyrir sér hverskonar borg Reykjavík sé og hver framtíð hennar gæti orðið. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Borgríki Árið 1908 voru íbúar Reykjavíkur ekki nema 11.000 en það ár var ráðinn fyrsti borgarstjórinn. Góð þjónusta í tæpa öld 10%afslátturfyrir 67 ára og eldri

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.