Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.11.2020, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8.11. 2020
KNATTSPYRNA
Óhætt er að fullyrða aðáhangendur Liverpool hafiekki hrokkið af hjörunum
þegar Portúgalinn Diogo Jota gekk
til liðs við Rauða herinn í haust. Að
vísu hafði kappinn gert gott mótt
með Wolverhampton Wanderers í
úrvalsdeildinni tvö undanfarin ár en
Púlarar voru þá uppteknir við allt
annað en að dansa við úlfa. Ugglaust
hafa því margir frekar talið að hér
væri á ferðinni fígúra úr Stjörnu-
stríði en hárbeittur sóknarmaður
með skotskóna stífreimaða á sig.
Þess utan varpaði það skugga á Jota
að mun frægari leikmaður, Spán-
verjinn Thiago Alcântara, kom
drekkhlaðinn af verðlaunum og virð-
ingu um sama leyti frá sjálfum Evr-
ópumeisturum Bayern München. Sá
lék áður með Barcelona.
Lítið hefur farið fyrir Thiago
þessar fyrstu vikur en þess ber þó að
geta að hann veiraði sig upp og varð
fyrir vikið að draga sig í hlé um
stund. Jota beið á hinn bóginn ekki
boðanna; hlóð í strax í fyrsta deild-
arleik gegn Arsenal og tvö mörk
komu í næstu fjórum leikjum, þar á
meðal sigurmarkið gegn Sheffield
United á Anfield. Þá hefur Portúgal-
inn hreinlega gengið af göflunum í
Meistaradeild Evrópu, gert fjögur
mörk í þremur fyrstu leikjum riðla-
keppninnar, eitt gegn nöfnum sínum
Mið-Jótum og þrjú gegn ítalska lið-
inu Atalanta í vikunni. Við rannsókn-
arvinnu vegna þessara skrifa komst
ég að raun um að orðið „Jótar“ er
hugsanlega skylt orðinu „ýtar“ sem
þýðir menn. Þannig að, gott fólk, við
erum að tala um Jakob mennska.
Takk fyrir, túkall! Ekki fylgir sög-
unni hvort hann sé skyldur Skúla
mennska. Enda aukaatriði.
Óðalsbóndinn Jörundur á Klöpp,
svo við höldum okkur við þann góða
sið að íslenska nöfn kempnanna, að
hætti Kristins R. og Skessuhorns,
var með böggum hildar fyrir leikinn
á Ítalíu enda búinn að reikna það út
með harðsnúnu aðstoðarliði sínu að
leik heimamanna svipaði til þess sem
Leeds United hefur boðið upp á í úr-
valsdeildinni á þessu hausti. Mun
freista þess í vetur að nefna Leeds
og úrvalsdeildina sem oftast í sömu
andrá, fyrir nokkra góða vini. Þeir
eiga það skilið. En alltént, þetta
þýddi, að dómi Jörundar, að fjand-
inn yrði mjög sennilega laus og
ómögulegt að segja til um hvernig
leikurinn kæmi til með að fara.
Þegar á hólminn var komið reynd-
ist Jota nú ekki mennskari en það að
hann slökkti bara í Ítölunum eins og
hverju öðru reykelsi strax í fyrri
hálfleik. Hleypti svo stórstjörnum
liðsins, Mohamed Salah og Sadio
Mané, að í byrjun seinni hálfleiks,
svona rétt til að sýna að þeir hafi enn
hlutverki að gegna, áður en hann
innsiglaði þrennuna á 54. mínútu.
Að því búnu þakkaði hann fyrir
sig og vék fyrir Roberto Firmino,
sem hefur án efa verið búinn að
kaldsvitna allt kvöldið á bekknum
enda staða Brassans í byrjunarliðinu
í ofboðslegu uppnámi eins og hrók-
urinn á Ceres 7 um árið. Ég meina,
Firmino er bara með eitt mark á
þessari leiktíð, Jota sjö. Gleymum
því þó ekki að sá brasilíski leggur
sitthvað fleira af mörkum en mörk.
Stjóri liðsins var líka fljótur að slá á
þessar vangaveltur í viðtölum eftir
Atalanta-leikinn; Firmino yrði í lið-
inu í stórleiknum gegn Manchester
City í úrvalsdeildinni um helgina.
„Án Bobby Firmino værum við ekki
einu sinni í Meistaradeildinni,“ sagði
Klopp. Eins og það hafi staðið tæpt á
liðinni leiktíð!
Höfuðverkjarframmistaða
Frammistaða Jota í vikunni var
dæmigerð „höfuðverkjarframmi-
staða“; það er þegar leikmaður sem
ekki hefur átt fast sæti í liði tætir
allt í einu og tryllir og veldur því að
stjórinn þarf að brjóta heilann í of-
boði um næsta liðsval. Þetta var bor-
ið undir Klopp sem vísaði því alfarið
til föðurhúsanna að hann fengi höf-
uðverk út af góðri frammistöðu
sinna manna. Vopnin sem Jota hefði
á hendi, eða öllu heldur fæti, hefðu
einfaldlega hentað betur vegna þess
hvernig Atalanta leikur og verst.
„Leikmaður fer á kostum og við
byrjum strax að tala um annan leik-
mann sem manni finnst hafa spilað
500 leiki í röð. Er heimurinn á von-
arvöl?“ spurði Klopp hjörðina fyrir
framan sig.
Hann áréttaði að brýnt væri fyrir
Liverpool að búa að fleiri en ellefu
leikmönnum og jós Jota að því búnu
lofi; hann hefði nýtt styrk sinn til
fulls og leikið eins og engill.
Hvort það dugir honum til að fá
sæti í byrjunarliðinu um helgina, við
hlið Firminos, kemur í ljós.
Og ekki mun veita af mörkunum í
vetur. Eins og allir vita er horn-
steinninn í vörn Liverpool, Virgil
Van Dijk, frá æfingum og keppni um
langt skeið og andstæðingar Rauða
hersins líklegri til að koma höggi á
hann fyrir vikið. Við erum að tala um
fimmtán mörk fengin á sig í fyrstu
sjö leikjunum. Það er ekkert smá-
ræði. Mesta demban kom reyndar
gegn Aston Villa og þá var Virgillinn
enn með hýrri há. Aðeins West
Bromwich Albion hefur fengið á sig
fleiri mörk, sextán. Á móti kemur að
Liverpool hefur skorað næstflest
mörk í deildinni, sautján, einu minna
en Tottenham Hotspur. Bíddu nú
hægur lagsi, er José Morinho ekki
ennþá þar? Heldur betur. Öðruvísi
mér áður brá.
Í fótspor Ronaldos
Diogo José Teixeira da Silva fæddist
í Porto 4. desember 1996 og verður
því 24 ára í næsta mánuði. Hann hóf
feril sinn hjá Paços Ferreira í
heimalandinu 2015 og gerði fjórtán
mörk í 41 deildarleik fyrir liðið áður
en hann gekk í raðir stórliðsins Atlé-
tico Madrid á Spáni vorið 2016. Það-
an var hann lánaður, án þess að
leika, til Porto, þar sem hann skor-
aði átta mörk í 27 leikjum veturinn
2016-17.
Næsta tímabil var hann lánaður
til Úlfanna og gerði sautján mörk
fyrir þá þegar þeir tryggðu sér sæti í
úrvalsdeildinni um vorið. Um miðjan
þann vetur keypti enska liðið hann
af Atlético.
Jota átti ekki í vandræðum með að
taka skrefið upp í úrvalsdeildina,
frekar en liðið, og gerði sextán mörk
í 67 deildarleikjum fyrir liðið frá
2018 til 2020. Í janúar 2019 varð
hann aðeins annar Portúgalinn til að
skora þrennu í úrvalsdeildinni, gegn
Leicester City. Hinn heitir að sjálf-
sögðu Cristiano Ronaldo.
Þeir leika einmitt saman með
landsliðinu nú en Jota þreytti frum-
raun sína í fyrra og hefur gert þrjú
mörk í sjö leikjum. Kom inn á fyrir
Ronaldo í fyrsta leiknum. Sá mikli
kappi er ekki líklegur til að rifa segl-
in alveg strax, þótt hann sé orðinn 35
ára, en menn eins og Jota, Bernardo
Silva, Bruno Fernandes, André
Silva og João Félix hafa þegar sýnt
að liðinu er aldeilis óhætt þegar það
á endanum gerist.
Vér kynnum: Jakob mennski!
Portúgalski sókn-
armaðurinn Diogo Jota
hefur komið eins og
stormsveipur inn í
meistaralið Liverpool á
Englandi og raðað inn
mörkum, bæði heima
og í Evrópu. Hver er
þessi tápmikli piltur?
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
AFP
Jota skaut Atalanta á kaf í
vikunni. Hér skorar hann eitt
af þremur mörkum sínum.