Tölvumál - 01.01.2018, Blaðsíða 9

Tölvumál - 01.01.2018, Blaðsíða 9
9 Fyrir fyrirtæki snýst þetta allt um að auka tekjur, lækka kostnað, fækka mistökum, auka þjónustu en ekki endilega bæta, það þarf hver að eiga við sig í hvoru er meiri ávinningur. Hjá neytandanum snýst þetta um að fá hraðari þjónustu, vera óháður föstum opnunartíma og geta afgreitt sig á sínum tíma. Þá eru það einnig væntingar neytenda að fá lægra vöruverð en það er ekki sjálfgefið. Sjálfvirkni og sjálfsafgreiðsla munu eyða margskonar afgreiðslustörfum á næstu árum. Talið er að t.d. gjaldkerar banka hverfi, eins búðarkassastörf verslana, sölufólk í ferðaþjónustu og svo mætti lengi telja. Það eru nefnilega handan við hornið magnaðar breytingar. Í dag notum við fullt af sjálfsafgreiðslulausnum. Hver hefur ekki notað hraðbanka, eða verslað á netinu? Sagt er að hraðbankar séu eitt af fyrstu IoT tækjunum. Hraðbankar eru í stöðugri þróun, einu sinni var bara hægt að taka út pening í hraðbanka, nú er hægt að leggja inn, millifæra, greiða reikning o.fl. Hraðbankar koma í stað gjaldkera. Þegar við kaupum ferðalag á Internetinu erum við að gera störf sölumanns ferðaskrifstofunnar óþörf. Amazon gerir tilraunir með ómannaða verslun. Öll fyrirtæki eru að gera tilraunir með sjálfsafgreiðslu af einhverju tagi. Svartsýnisraddir hafa talað um að tæknin eigi eftir að gera manninn óþarfan og við eigum bara eftir að sitja með tærnar upp í loft og þiggja borgaralaun. En ég hef sjálfur engar áhyggjur af því. Tæknin skapar líka störf. Sagan segir að tæknin skapi betri og áhugaverðari störf og betur borguð. Við vitum jafnvel ekki hvað komandi kynslóðir mun fást við, því mörg af störfum framtíðar eru ekki enn til. Mannkynið er að eldast, eldra fólk þarf umönnun og þar verða störf væntanlega áfram en breytt. Það verður enn þörf fyrir kennara en breyttar forsendur verða í störfum. Það er nefnilega alveg magnað að á síðustu 50-60 árum hefur mannkynið tvöfaldast á jörðinni, eitthvað hefur það skapað atvinnu. Mannkynninu mun halda áfram að fjölga sem skapar enn fleiri störf, bæði breytt og ný. Maðurinn verður því alls ekki óþarfur í framtíðinni, við verðum bara að passa upp á að skapa okkur okkar eigin tækifæri. Þá verður næg vinna fyrir alla. Ferðalag framtíðarinnar verður vonandi eitthvað á þessa leið: „Beam me up Scottie“! EKKI LÁTA PLATA ÞIG Í VIÐSKIPTUM Á NETINU Netverslun er ein af þeim framförum sem fylgt hefur upplýsingatækni- þróuninni síðastliðin ár og sú þróun er og mun verða örari á næstu misserum. Þróunin er að breyta kauphegðun neytenda og stór hluti nútíma heimila nýtir sér viðskipti á netinu vikulega eða oftar. Þá er gott að skoða hina hliðina á teningnum sem snýr að áhættuþættinum. Í auknum mæli berast fréttir af viðskiptaháttum á netinu þar sem viðskiptavinir eru plataðir, t.d. með því að versla vöru eða þjónustu sem ekki er svo afhent eða innt af hendi. Algengar skýringar eru að um tafir sé að ræða þangað til að á endanum neytandinn tekur eftir að vefverslunin hefur verið lögð niður og hann stendur uppi með sárt ennið. HÚSRÁÐIN Til eru nokkur húsráð sem hægt er að hafa í huga í netviðskiptum eins og að kaupa ekki vöru eða þjónustu ef verðið er lygilega lágt eða ef lofað er að viðskiptin geri þig ríkan. Jafnframt eru til hjálparsíður eins og https:// www.scamadviser.com/ sem gefa netverslunum einkunn varðandi heiðarleika í viðskiptum. Það eina sem þarf að gera er að afrita vefsíðuna sem neytandinn er í vafa um og líma í leitarformið á „scam adviser“. Niðurstöðurnar eru myndrænar og sýna nokkuð ýtarlega hvað það er við vefsíðuna sem möguleg áhætta stafi af. Mikilvægt er þó að hafa í huga að skori netverslunin ekki alveg 100% í trausti þá er ekki þar með sagt að hún sé slæm en gott er að miða við að forðast síður sem skora 50% eða lægra. ÞEKKTAR NETVERSLANIR SEM SKORA LÁGT Þekktar netverslanir eins og https://www.aliexpress.com, https://www. ebay.com/ og https://www.amazon.com skora til að mynda ekki 100% þó svo að við vitum að þessir vefir eru nokkuð öruggir. Þegar undirritaður skoðaði t.d. https://www.aliexpress.com þá fékk vefurinn 84% traust með athugasemd um að mögulega séu ekki allir söluaðilar innan síðunnar nægilega traustir en meldingin var: „Beware - some fake sellers“. Á Scam adviser má einnig finna flokk sem kallast „risk sites“ og þar er að finna lista yfir nýjustu síðurnar sem ekki er ráðlagt að versla við. Netverslun sem ber að varast er t.d. https://shopsmartlystore.com/ og þar má m.a. finna vörur með lygilega lágum verðum og útlit netverslunarinnar lítur nokkuð vel út með einfalt og þægilegt viðmót. Eina markmið slíkrar netverslunar er að komast yfir kreditkortanúmer hjá grunlausum viðskiptavinum. TRYGGINGAR Sumar netverslanir hafa mjög áberandi öryggisvottanir á síðunum hjá sér sem geta verið heimatilbúnar, blekkja neytandann og því ber að varast að treysta slíkum merkingum nema um þekktar vottanir sé um að ræða. Flestir Íslendingar þekkja Ali Express sem er ein stærsta netverslun í heimi og það sem gerir Ali svona stóra er að þar inni er gríðarlega mikið magn mismunandi söluaðila sem eru að selja úr vöruhúsum Ali Express út um allan heim. Þar sem eigendur Ali eru meðvitaðir um áhættur sem fylgja mismunandi söluaðilum þá bjóða þeir upp á kaupvernd vara „Buyer Protection“ til þessa að stemma stigu við kaupáhættu neytenda. Þessi vernd tryggir það að kaupandi sem ekki fær senda vöru eftir skilgreindan tíma er tryggður fyrir því og kaupin verða þá endurgreidd. Ebay er líka með samskonar kerfi og þar á bæ er það kallað „money back guarantee“. Lykilatriðið er því að vera meðvituð um þær hættur sem leynast í viðskiptum á netinu, versla hjá þekktum aðilum sem leggja metnað sinn í að stuðla að öryggi viðskipta og nýta þau tól og tæki sem sem í boði eru til að meta áhættuna. Ólafur Kristjánsson hjá Netkynningu

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.