Tölvumál - 01.01.2018, Blaðsíða 5

Tölvumál - 01.01.2018, Blaðsíða 5
5 Það þarf að lýsa hverjir notendurnir eru, það má t.d. gera með persónum (personas) eða samhygðarkorti (empathy map). Síðan er gott að lýsa hvað notendurnir eru að gera með notendaferlum (journey map) eða atburðarás (scenarios). Að lokum getur verið gagnlegt að lýsa hvar notendurnir eru og hvernig umhverfi þeirra er, t.d. með vistkerfiskortum (ecosystem map). Þessar aðferðir má nota til að skilja hvað notendur eru í raun og veru að glíma við og skilgreina vandamálið þannig að það sé hægt að leysa það. Áhrifaríkasta leiðin er að setja vandamálið upp sem skuldbindingu fyrir teymið þar sem því er lýst hvernig vandinn kemur fram, fyrir hvernig og hvaða árangri þarf að ná. Hvernig gætum við <stutt við þessa notendur> þegar þeir <glíma við þetta> þannig að <þeir nái árangri>? BÚA TIL LAUSNIR SEM ERU MIKILS VIRÐI FYRIR NOTENDUR Okkur hættir til að hlaupa af stað þegar við sjáum vandamál sem þarf að leysa og byrja að vinna í fyrstu lausn sem okkur dettur í hug. Þetta er iðulega lausn sem hentar okkur vel, eitthvað sem byggir á því sem við höfum gert áður. Vandamálið er að þegar maður á hamar, þá hættir manni til að líta á allt sem nagla. Líka skrúfur. Hönnun hvetur okkur hins vegar til að draga djúpt andann og leyfa okkur að hugsa um hvaða lausnir eru mögulegar. Þegar við leyfum teymum að hugsa um lausnir óháð þeim ramma sem þau starfa innan dagsdaglega þá koma oft fram nýjar nálganir sem eru meira viðeigandi. Er t.d. alls kosta víst að nýtt smáforrit sé lausnin? Mætti kannski leysa þetta vandamál með markaðssókn? Með aðferðum eins og að boða til lausnastúdíós (design studio) eða notendahönnunarstofu (participatory design workshop) má á einum degi kanna mögulegar lausnir og finna þá sem er mest viðeigandi, en ekki bara þægilegust. Mörgum finnst að með öllu ofangreindu sé verið að bæta við flækjustigi í hugbúnaðargerðina, það er sérstaklega hér sem mér finnst mikilvægt að benda á að ef við notum þessar aðferðir þá erum við að koma í veg fyrir gríðarlega sóun þar sem við komum í veg fyrir að hlaupið sé til og útfærðar lausnir sem eru lítils virði fyrir notendur. VERA ALLTAF TILBÚIN TIL AÐ SKILJA BETUR Ítrunin er mikilvægasti parturinn af þessu öllu, í gegnum báða tíglana og inn í hugbúnaðarþróunina. Við erum alltaf að sækja upplýsingar og skilja betur. Í fyrsta tíglinum mótum við tækifærið, í þeim síðar mótum við lausnina. Í gegnum hugbúnaðarþróunina heldur þetta áfram. Við berum lausnina eins hratt og eins oft og við getum undir notendur með því að útbúa frumgerðir (prototypes) og nytsemisprófanir (usability test). Stundum lærum við að lausnin er óviðeigandi, eða að við misskildum vandamálið og við þurfum að fara aftur að teikniborðinu, en oftast er innsýnin ómetanleg fyrir áframhaldandi þróun lausnarinnar. Þó ekki væri nema bara sem hvatning fyrir alla hluteigandi. Þessi vinna heldur áfram eftir útgáfu lausnarinnar, því við höfum alltaf tækifæri til að gera betur í næstu útgáfu. Mynd 1. Hönnunarferill hönnunarhugsunar (design thinking).

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.