Tölvumál - 01.01.2018, Blaðsíða 29

Tölvumál - 01.01.2018, Blaðsíða 29
29 Eins og margir vita þá á Skýrslutæknifélagið, ský, 50 ára afmæli í ár. Á 50 árum hefur margt breyst í tengslum við útgáfu á Tölvumálum, tímariti félagsins, sem hefur verið gefið út frá árinu 1976. Í upphafi var tímaritið kallað félagsbréf og var um ein síða með áherslu á fundarboð og tilkynningum til félagsmanna. Útlit og innihald hefur þróast í takt við tímann og er blaðið í dag tæpar 50 síður, prentað í lit í um 1000 eintökum og dreift til félagsmanna. Einnig eru birtir vikulegir pistlar á www.sky.is á vegum ritnefndar Tölvumála. Grétar Snær Hjartarson, fyrrverandi starfs- mannastjóri hjá Skýrr, er einn af frumkvöðlunum sem komu að útgáfu blaðsins á upphafsdögum þess og því langaði okkur að heyra frá honum, bæði um fyrstu árin en einnig framtíðina. HVER VAR KVEIKJAN AÐ ÚTGÁFU BLAÐSINS? Kveikjan að útgáfu blaðsins var hjá Óttari Kjartanssyni, sem þá var deildarstjóri vinnsludeildar hjá Skýrr. Skrifstofan hans var innst á norðurganginum á neðri hæð (nú neðsta hæð) en næst henni var skrifstofan mín. Óttar var ritari stjórnar Skýrslutæknifélagsins. Einhverju sinni átti ég erindi við Óttar og í framhaldi af því tókum við tal saman, enda fundur í skýrslutæknifélaginu framundan. Fundarboðið var á einni A5 síðu og aðeins getið fundarefnis og framsögumanns. Óttari fannst þetta ekki gefa nógu góða raun enda fundarsókn ekki mikil. Hann vildi reyna að auka fundarsóknina með einhverju átaki og helst með því að gefa út einskonar fréttabréf með nánari lýsingu fundarefnis og skrifum um málefni félagsins, tölvuvinnslu og fleira. „Áttu við að ritað verði eitthvað um tölvumál í þessu blaði“ – „Tölvumál“ – sagði Óttar „þarna nefndirðu það, Tölvumál skal blaðið heita“ – og þar með var teningunum kastað. Fyrsta aðkoma mín að blaðinu, sem var bara A4 blað prentað báðum megin, var að teikna blaðhausinn, sem mig minnir að hafi verið í ljósbláum lit. Síðar var breytt um svip og ég teiknaði næsta blaðhaus. Þá var blaðið komið í A5 brot, prentað á hvítan pappír en kápan í gulleitum lit og sennilega 150 gramma pappír ef ég man rétt. Í fyrstu ritnefnd vorum við Óttar og Oddur Benediktsson, þá starfsmaður reiknistofu Háskóla Íslands. Forstöðumaður reiknistofunnar og síðar forstjóri Skýrr var einmitt Jón Þór Þórhallsson, frummælandinn á fundnum sem verið var að kynna í þessu fyrsta eintaki Tölvumála. HVERJAR VORU ÁHERSLUNNAR Í UPPHAFI? Þegar fyrsta eintakið af Tölvumálum fór af stað var svo sem ekki vitað hverjar viðtökurnar mundu verða og því að nokkru rennt blint í sjóinn. En blaðið fékk fljótlega góð viðbrögð félagsmanna svo vonir glæddust þá strax um að þarna væri kominn vísir að þarfri útgáfu blaðs um málefni líðandi stundar og nánustu framtíðar. TÖLVUMÁL ÞÁ OG NÚ Viðtal við Grétar Snæ Hjartason Viðtalið tók Ásrún Matthíasdóttir Áherslurnar í upphafi voru fyrst og fremst kynning á því sem hæst bar í tölvutækninni, nýjungar, framfarir og nýjar uppgötvanir. Umræður um framgang tölvuvinnslu á Íslandi. Frásagnir og skrif um tæknileg mál varðandi tölvuvinnslu og hugleiðingar um framtíð tölvuvinnslu á Íslandi og almennt í heiminum. Efnistök, fyrir hverja var blaðið hugsað og hvernig gekk að fá efni í blaðið? Blaðið var vettvangur allra þeirra sem unnu að tölvumálum, tæknimenn og almennir starfsmenn fyrirtækja í tölvuvinnslu. Blaðið var síður en svo gefið út vegna einhverrar skipunar „að ofan“ en yfirmenn gátu, eins og almennir starfsmenn, haft sín áhrif og komið með tillögur að efnistökum. Það var samt stjórn Skýrslutæknifélagsins og ritnefnd blaðsins sem sáu fyrst og fremst um útgáfu blaðsins og öflun efnis. Blaðið varð fljótlega vinsæll vettvangur umræðna og skoðana skipta, aðsendar greinar fóru að berast blaðinu jafnframt tillögum félagsmanna um ákveðið efni í blaðið og tillögur að fundarefni á fundum Skýrslutæknifélagsins. Það gekk vel að afla efnis í blaðið og ágætlega gekk að fá greinar í það þó í fyrstu hafi ritnefndin þurft að leita meira til manna um greinaskrif. Vissulega kom eitt og annað frá ritnefndinni en hún þurfti ekki mikið að aðhafast í þeim efnum HVERNIG STEMMINGIN VAR Á ÞESSUM TÍMA? Stemmingin var góð á þessum tíma enda tölvuvinnsla frekar ung þá og yfir henni var viss sjarmi og nánast dulúð. Þrátt fyrir þessa ungu grein leið langur tími þar til kennsla í tölvunarfærði var tekin upp í Háskóla Íslanda. Einhver námskeið voru samt í gangi um forritun og mig minnir að bæði Reynir Hugason og Oddur Benediktsson hafi gefið út kennslubækur, en nokkuð takmarkaðar miðað við síðari tíma. ÓRAÐI YKKUR FYRIR AÐ BLAÐIÐ SEM KOM FYRST ÚT 1976 VÆRI ENN AÐ KOMA ÚT Í MUN STÆRRA UPPLAGI OG BLAÐSÍÐUM NÚNA 2018? Okkur, sem fórum af stað þennan einblöðung í nóvember 1976, óraði ekki fyrir því að blaðið mundi stækka svo mikið sem raunin var á. Við gerðum okkur samt vonir um að það gæti orðið svo sem fjórar A4 síður og átt síst von á að blaðið næði þeirri útbeiðslu sem orðin er. Núna er því sýn mín á framtíð Tölvumála jákvæð og er ég handviss um að blaðið er komið til að vera um ókomin ár. Það er mér því ánægjuefni að blaðið sem ég átti þátt í að gefa út 1976 skuli enn lifa. Það er hinsvegar Óttar Kjartansson sem á allan heiðurinn af því að blaðið var gefið út, hans var hugmyndin. Hann vildi með því reyna að efla starf Skýrslutæknifélagsins og skapa umræðuvettvang um tölvumálefni og kynningu á tækninýjungum.

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.